10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

Frumvarp um Húsnæðisstofnun ríkisins

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Áður en frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins er tekið á dagskrá finnst mér eðlilegt að fá upplýst af hálfu hæstv. forseta og forustu hér í þinginu hvort það sé hugmyndin að taka þetta mál á dagskrá í kvöld til þess aðeins að ræða hluta af málinu en ekki að taka það fyrir í heild. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að það liggi fyrir áður en þetta mál er tekið hérna á dagskrá með hvaða hætti menn ætla að ganga þar til verka. Ég sé ekki að það geti gengið upp á neinn hátt ef svo er að hér eigi að mæla aðeins fyrir áliti meiri hl. félmn. í sambandi við þetta mál og brtt. og skil ekki hvaða tilgangi slíkt ætti að þjóna ef það er hugmyndin, en vonandi er að svo sé ekki.