15.12.1987
Efri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2200 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

195. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Þetta frv. er gamall kunningi og þarf ekki að hafa um það mörg orð. Eins og fram kemur í dagskrá hefur nefndin þríklofnað um málið. Hv. 7. þm. Reykn. leggur til að frv. verði fellt, en við aðrir nefndarmenn leggjum til að frv. verði samþykkt. Að vísu hefur hv. 7. þm. Reykv. flutt brtt. þar sem hann leggur til tvöföldun skattsins. Þó ég geri mér ljósa grein fyrir brýnni þörf þess að hægt sé að auka tekjur ríkissjóðs treysti ég mér ekki til þess að verða við því og legg til að frv. verði samþykkt óbreytt.