16.12.1987
Efri deild: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2282 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

198. mál, tollalög

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 310 skilar minni hl. fjh.- og viðskn., sem eru ég og hv. þm. Júlíus Sólnes, nál. um þetta mál sem hér er á dagskrá og hv. 6. þm. Reykv. stendur að áliti minni hl. eftir þátttöku í nefndinni við meðferð málsins. Minni hl. segir í nál. sínu:

„Minni hl. leggur til að frv. þessu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að láta vinna frv. betur þannig að ný tollskrá geti tekið gildi frá og með 1. mars nk. Verði málið þá tekið fyrir til eðlilegrar meðferðar á þinginu eftir hátíðar. Stjórnarandstöðuflokkarnir lýsa sig reiðubúna til þátttöku í vinnu við málið í jólaleyfi þingmanna ef nauðsyn krefur og óskað verður eftir. Stjórnarandstöðuflokkarnir telja óhjákvæmilegt að gildistöku nýrrar tollskrár verði flýtt en meðferð málsins verður að vera vönduð.

Fari svo að meiri hl. felli þá tillögu sem birtist hér í nál. [um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar] áskilur minni hl. sér rétt til þess að flytja brtt. við einstakar greinar frv. þegar málið kemur til 3. umr." —

Reyndar geri ég ráð fyrir því að brtt. verði kynntar strax við 2. umr. málsins svo sem eðlilegt er og að þær verði þá jafnvel teknar til afgreiðslu eftir 2. umr. ef svo fer, sem hugsanlegt er, að meiri hl. felli tillögu minni hl. um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar.

„Það sýnir best hvað mál þetta er illa undirbúið að meiri hl. nefndarinnar telur sig strax á byrjunarstigi [eftir aðeins sex daga] nauðbeygðan til þess að flytja yfir 40 brtt. við frv. sem þó hefur ekki verið lengur en eina viku til meðferðar í þinginu. Minni hl. lagðist gegn því að málið yrði afgreitt úr nefndinni svo fljótt, eftir aðeins nokkurra sólarhringa vinnu.

Minni hl. telur að í þeim viðtölum, sem nefndin hefur átt við alls konar aðila, hafi komið fram margt athyglisvert sem kalli á nánari skoðun. Eitt hið athyglisverðasta var það að ríkisstjórnin hefur gert sig seka um stórfellda mismunun gagnvart aðilum utan þings sem þurfa að fjalla um mál eins og þetta. Gleggsta dæmið er það að Félag ísl. stórkaupmanna, Kaupmannasamtökin, Verslunarráð Íslands og Félag ísl. iðnrekenda virðast hafa haft málið til meðferðar í þrjár vikur áður en Alþingi fékk að fjalla um það. Hefur fjmrn. staðið í viðræðum við fulltrúa verslunarinnar og iðnrekenda um málið. Aðrir augljósir hagsmunaaðilar eins og Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Stéttarsamband bænda og Samband ísl. samvinnufélaga fengu ekki tækifæri til þess að fylgjast með gangi mála fyrr en stjórnarandstaðan krafðist þess að fulltrúar þessara aðila yrðu kallaðir fyrir fjh.- og viðskn. Ed.

Minni hl. telur að skoða beri þetta mál í tengslum við heildarálögur ríkisstjórnarinnar í skattamálum sem ákveðnar hafa verið á undanförnum mánuðum. Þessar álögur eru sem hér segir:

1. Við myndun ríkisstjórnarinnar 3700 millj. kr. á ári.

2. Við framlagningu fjárlagafrumvarps í október alls um 2000 millj. kr.

3. Við meðferð fjárlaga við 2. umr. þeirra 2050 millj. kr.

4. Auk þess gerir ríkisstjórnin ráð fyrir því að víðtækari söluskattsstofn skili 400 millj. kr. í heildartekjur og að veltubreytingar milli ára skili um 600 millj. kr. Samtals er hér um að ræða auknar tekjur sem nema 8750 millj. kr.

Það er svo ein afleiðingin af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að gífurleg verðþensla hefur átt sér stað þannig að fasteignamat hækkar um 50 milljarða króna umfram verðlagsforsendur sem þýðir auknar tekjur sveitarfélaga auk þess sem raungildi útsvara mun hækka á næsta ári.

Heildarskattgreiðslur verða því stærra hlutfall af vergri landsframleiðslu en áður hefur verið um að ræða á síðustu 20 árum eða svo. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin fékk frá Þjóðhagsstofnun í síðustu viku verða skatttekjur ríkisins á næsta ári um 24,7% af landsframleiðslu sem er hæsta hlutfall á tveimur áratugum.

Með tilliti til þess, sem á undan segir, gerir minni hl. tillögu um að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Stjórnarandstaðan treystir sér ekki til þess að bera neina ábyrgð á hroðvirknislegri meðferð þessa máls þar sem Alþingi er sýnd einstök óvirðing og telur eðlilegra að málið fái ítarlegri meðhöndlun og komi á ný fyrir Alþingi eftir hátíðar svo að það megi afgreiða þannig að ný tollskrá taki gildi fyrir 1. mars nk.“

Þetta var nál. minni hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar en undir það ritar auk mín hv. 7. þm. Reykn.

Ég mun nú víkja hér nokkrum orðum að máli þessu nánar og auðvitað því samhengi sem það er í, þ.e. heildarskattastefnu ríkisstjórnarinnar, en ég mun byrja á því að ræða um álit meiri hl. í fjh.- og viðskn. og þær brtt. sem meiri hl. gerir.

Í áliti meiri hl. kemur það fram að nefndin átti viðtöl við fjölmarga aðila og það er alveg rétt sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði hér í dag að hann var sem formaður nefndarinnar jafnan reiðubúinn til þess að kveðja aðila á vettvang þegar þess var óskað. Það sem vakti sérstaka athygli mína í sambandi við þetta mál var það að þingið fær málið ekki fyrr en sl. fimmtudag. En áður en það gerðist höfðu staðið yfir samningaviðræður milli fjmrn. og fulltrúa Verslunarráðs Íslands og Félags ísl. stórkaupmanna og Kaupmannasamtakanna og Félags ísl. iðnrekenda, samningaviðræður um þetta mál áður en það kom til Alþingis. Og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann telji þessi vinnubrögð eðlileg. Ég tel út af fyrir sig eðlilegt að það sé rætt við ýmsa aðila um mál af þessu tagi en þá eiga menn að sitja við sama borð. Þá átti auðvitað líka að ræða við aðra augljósa hagsmunaaðila þessa máls, aðila eins og til dæmis Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, aðila eins og Stéttarsamband bænda, aðila eins og Samband ísl. samvinnufélaga svo fjögur dæmi séu nefnd. Til að auðvelda framgang málsins á þinginu hefði ráðherrann auk þess auðvitað átt að kalla til samráðs og undirbúnings fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna.

Ég veit ekki til þess að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna hér á hv. Alþingi hafi misfarið með trúnað sem þeim hefur verið sýndur af ríkisstjórninni, þessari sem nú situr, og reyndar man ég ekki eftir því að stjórnarandstöðuflokkar hafi yfirleitt misfarið með þann trúnað sem þeim hefur verið sýndur. Ég held þess vegna að það séu engin dæmi þess nú eða á undanförnum árum að stjórnarandstaðan hafi hlaupið með upplýsingar sem óskað var eftir að yrði farið með trúnaðarmál.

Ég hef hins vegar tekið eftir því að í núverandi stjórnarsamstarfi virðist vera talsverð brotalöm á þessu og að menn hlaupi þar iðulega með upplýsingar í blöð og fjölmiðla meðan mál eru á undirbúningsstigi. Reyndar hefur hæstv. fjmrh. haft forustu um það að ræða hin viðkvæmustu mál úr stjórnarsamstarfinu í fjölmiðlum hvað eftir annað. Máltakið segir að vísu: Margur heldur mig sig. En þannig er það akkúrat ekki með stjórnarandstöðuna. Þó að hæstv. fjmrh. eigi sjálfur erfitt með að fara með trúnaðarmál, þá er stjórnarandstaðan örugglega tilbúin til þess að gæta trúnaðar þegar um slíkar upplýsingar er að ræða þar sem trúnaður á að gilda. Og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. þessara spurninga:

Var það yfirlýsing um vantraust á trúnaði stjórnarandstöðunnar í svona málum þegar hann ákvað að kalla fulltrúa hennar ekki fyrir á undirbúningsstigi málsins, sem hefði auðvitað auðveldað alla málsmeðferð hér? Hvernig stóð á því að hann kallaði ekki fulltrúa Alþýðusambands Íslands fyrir? Blaðra þeir meira en aðrir menn? Hvernig stóð á því að hann kallaði ekki fyrir og setti inn í þetta mál fulltrúa Bandalags starfsmanna ríkis .og bæja? Hvernig stóð á því að hann kallaði ekki fyrir og setti inn í málið fulltrúa Stéttarsambands bænda? Eru bændur með afbrigðum og til vandræða lausmálir á fjölmiðlaöld umfram aðra? Ber að líta svo á vinnubrögð hæstv. fjmrh. að hann telji bændur sérstakt vandamál í þessu efni? Eða telur hann t.d. Samband ísl. samvinnufélaga þannig skipað af mönnum að þeim sé ekki treystandi yfir læk með trúnaðarmál eins og tollana? Það er alveg óhjákvæmilegt að hæstv. fjmrh. skýri það af hverju vinnubrögð hans koma út eins og beint vantraust á fulltrúa þessara aðila.

Í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. eru taldir upp þeir menn sem kallaðir voru fyrir nefndina. Fyrir utan þá sem ég hef þegar nefnt voru kallaðir þar fyrir fulltrúar svokallaðrar hallanefndar. Og það var að ósk hv. 8. þm. Reykv. að það var gert. Í niðurstöðum fulltrúa hallanefndar komu fram býsna athyglisverðar upplýsingar um ríkisbúskapinn og þróun ríkisbúskaparins á undanförnum árum. Ég held reyndar að þær upplýsingar séu með þeim hætti að ástæða væri til þess að ræða þær sérstaklega og ítarlega hér í þessari virðulegu stofnun vegna þess að það er nauðsynlegt að allir þm., ég segi allir, séu nokkurn veginn samtaka um það hvernig á að meta það sem kalla má ríkisútgjöld og opinber útgjöld og þar með stöðu ríkissjóðs og opinberra aðila. En um það mál er verulegur ágreiningur eins og kom fram í ræðu hv. 8. þm. Reykv. við 1. umr. málsins fyrir skömmu, ræðu sem birt er í Morgunblaðinu í dag og þeir sem ekki voru viðstaddir geta vafalaust kynnt sér.

Á fund nefndarinnar komu einnig fulltrúar frá Félagi bakarameistara sem töldu að innlendur iðnaður á þessu sviði mundi eiga í vök að verjast ef svo færi fram sem horfði með gjöld þessi öll, söluskatt og vörugjald. Þangað komu fulltrúar frá rafiðnaðinum í landinu, m.a. frá Sambandi ísl. rafveitna, sem gagnrýndu ýmis ákvæði frv. Á fund nefndarinnar kom fulltrúi frá Manneldisfélagi Íslands sem benti nefndinni á að í frv. væri hvergi tekið tillit til viðurkenndra manneldissjónarmiða sem eru út af fyrir sig ekki þannig, eins og einhver sagði hér á dögunum, að um þau efni væri víðtækur ágreiningur og þess vegna væri í raun og veru ekki hægt að taka neitt tillit til manneldissjónarmiða. Ég vil benda hæstv. fjmrh. á að lesa heilbrigðisáætlun hæstv. fyrrv. heilbrrh. þar sem lögð er áhersla á að tekið sé tillit til manneldissjónarmiða við efnahagsákvarðanir, m.a. varðandi gjöld á einstökum vörutegundum, t.d. matvörum. Og það var athyglisvert að fulltrúi Manneldisfélags Íslands, Jón Gíslason, fullyrti að þetta sjónarmið, manneldissjónarmiðið, skorti algjörlega í þessu frv. Svo kemur hér hæstv. fjmrh. á dögunum við 1. umr. og segir: Það á ekki að ákveða hvað fólk borðar. Það verður að vera frjálst að því. Fólk verður að vera frjálst að því hvað það lætur ofan í sig. Ja, þvílíkt sjónarmið frá jafnaðarmanni! Þetta er ekki Friedman sem talaði. Nei, nei. Og ekki heldur Hannes Hólmsteinn eða þeir frændur. Nei, nei. Formaður Alþfl. Það má sem sagt ekki taka tillit til viðurkenndra manneldissjónarmiða varðandi tollskrá og vörugjald vegna þess að það gæti truflað hið hlutlausa eðli vörunnar og menn færu kannski allt í einu að láta eitthvað ofan í sig eftir því hvað hlutirnir kostuðu. Þetta er alveg dæmalaust sjónarmið frá þessum hæstv. ráðherra, formanni jafnaðarmannaflokks. Hann brýtur reyndar þetta sjónarmið í þessu frv. sjálfur. Sem betur fer. Hann er með 50% tolla á tóbaki og talsverða tolla á áfengi og bætir svo enn við þegar þetta kemur í Ríkið. Sem betur fer. Samkvæmt hans eigin orðum ætti að vera sami tollur á þessu öllu saman, brennivíni, tóbaki og fiski, þannig að það væri alveg hlutlaust hvort menn settu ofan í sig soðningu eða brennivín, tóbak eða grænmeti. Það kemur í raun og veru út á eitt, kemur alveg gjörsamlega út á eitt. Þessi sjónarmið frjálshyggjunnar, sem standa alltaf af og til upp úr þessum leiðtoga Alþfl., eru svo rosaleg að menn eins og hv. 14. þm. Reykv., ég tek eftir því iðulega, þá setur dreyrrauða undir þessum ræðuhöldum formanns Alþfl. (Gripið fram í: Og kann hann ekki oft að skammast sín.) Og ég verð að segja það alveg eins og er að ég blygðast mín pínulítið fyrir hann líka vegna þess að staðreyndin er nú sú að maðurinn á að kunna eitt og annað fyrir sér í góðum fræðum frá fyrri árum þegar við vorum í sama flokki. En hæstv. ráðherra hefur að vísu mikla þörf fyrir það eins og kunnugt er að sanna það að hann hafi aldrei verið í Alþb. Og til þess að gera það sem allra trúverðugast, þá gengur hann eins langt og hann mögulega getur frá Alþb., sérstaklega í utanríkismálum, en núna er það Hannes Hólmsteinn alveg kominn. Þótt hann sé ekki kosinn beint á þing eru sjónarmiðin kosin í persónu hæstv. fjmrh. Þetta er dapurleg niðurstaða, það segi ég alveg eins og er, í jafnaðarmannaflokki, en það hefur margt skrýtið gerst í þeim flokki um dagana.

Á fund nefndarinnar kom Kristmann Magnússon vegna raftækjasala og setti fram mjög athyglisverð sjónarmið sem er tekið nokkurt tillit til í brtt. meiri hl. Það komu þarna fulltrúar frá Félagi garðyrkjubænda, þeir Kjartan Ólafsson og Hannes Kristmundsson, og sýndu nefndinni fram á það að ef frumvörpin ganga fram óbreytt, þessi þrjú, mun verð á innlendu grænmeti hækka verulega og verð á erlendu lækka og það er náttúrlega í samræmi við þessa stefnu, að þetta eigi allt að vera hlutlaust, það eigi ekki að vera að hindra hinn frjálsa innflutning, frelsið, ekki að hindra það, og menn eigi að geta borðað það sem ódýrt er frá útlöndum, ekki að vera að hugsa mikið um þessa innlendu framleiðslu, hún getur verið dýr. Samkvæmt þessari hugmyndafræði ætti náttúrlega að leggja niður landbúnaðinn á Íslandi því að hann er auðvitað frá efnahagssjónarmiði — ef skoðuð er landbúnaðarframleiðsla t.d. í Vestur-Evrópu sem er billeg er landbúnaðurinn á Íslandi náttúrlega hreint rugl frá sjónarmiði hæstv. fjmrh. og ætti þar af leiðandi að leggja hann niður, vandræðagrein samkvæmt þeim kenningum sem hann er með um þessi mál og þessum frumvörpum sem liggja fyrir og mættu hér fulltrúum frá Sambandi garðyrkjubænda sem lögðu mál sín skynsamlega og heiðarlega fyrir.

Á fund nefndarinnar kom líka Georg Ólafsson verðlagsstjóri. Hann var spurður að því hvað Verðlagsskrifstofan ætlaði að gera til þess að tryggja það að þessar verðlækkanir allar á mörg þúsund vörutegundum sem hér eru nefndar mundu skila sér til neytenda. Hann sagðist mundu gera sitt besta en hefur auðvitað engar tryggingar í þeim efnum. Ég hygg að þar sé kannski rétt að spyrja að leikslokum og ég bendi þinginu og fjölmiðlum og öðrum á að fylgjast með verðupptökunni í janúar, febrúar og mars og greina hinar stórkostlegu verðlækkanir sem jafnaðarmannaleiðtoginn er að koma í framkvæmd hér á landi. Ég hygg að niðurstaðan verði sú að lítið af þessum verðlækkunum skili sér, það er mín spá.

Á fund nefndarinnar komu líka fulltrúar frá Sambandi ísl. samvinnufélaga. Það var að minni beiðni — ekki kröfu, ég get tekið það orð aftur ef formaður nefndarinnar vill, það var að minni beiðni — og Samband ísl. samvinnufélaga lagði fram nokkrar breytingartillögur. Ég sé ekki að hve miklu leyti nefndin hefur tekið tillit til þeirra tillagna sem komu frá Sambandi ísl. samvinnufélaga. Ég hef ekki haft aðstæður til að bera það saman. Ég óska eftir því að formaður nefndarinnar sé nokkurn veginn í kallfæri, en ekki lokaður inni á leynifundum með íhaldinu hérna við hliðina eða öðrum, hæstv. forseti. (Forseti: Ég skal láta athuga hvað formanni nefndarinnar líður.)

Varðandi breytingartillögurnar sem komu frá Sambandi ísl. samvinnufélaga vil ég inna formann nefndarinnar eftir því að hve miklu leyti var tekið tillit til þeirra í brtt. meiri hl. nefndarinnar. Ég er ekki svo læs á þennan texta, t.d. á brtt. á bls. 3 eða brtt. á bls. 2, ég er ekki svo læs á þessi vísindi að ég skilji þau að öllu leyti, sem ég veit þó að formaður nefndarinnar gerir, og ég ætlað spyrja hann nánar út í það á eftir hvað þetta þýðir, t.d. hérna: Brtt. 2.e., „Belgaldin (Vigna spp., Phaseolus spp.)". Ég mun biðja hv. formann nefndarinnar um að skýra þetta nákvæmlega fyrir deildinni á eftir. (Gripið fram í.) Nei, ég fer í þetta aftur, hv. þm., þannig að ég skal tryggja þetta nákvæmlega og tyggja ef þörf krefur. (GA: Þetta er örugglega . . . Phaseolus.) Já, segir læknirinn. Ég held að það sé nú varasamt fyrir stjórnarliðið að trúa læknum úr stjórnarandstöðunni þannig að ég mundi ekki alveg treysta hv. 6. þm. Reykv. fyrir að vita þetta 100% og held að það sé óhjákvæmilegt að leita í stjórnarliðið með þessa speki eins og aðra. (Gripið fram í: Ætli þær séu grænar?) Liturinn kemur ekki fram, hv. þm., og væri kannski ástæða til að ræða það sérstaklega hér síðar, m.a, við framsóknarmenn ef þeir væru hér til andsvara, sem ég veit að hv. ritari treystir sér varla til vegna þess að hún er svo ung að hún man ekki eftir hvaða mál það var forðum sem snerti ákveðinn baunalit í vissum flokki fyrr á öldinni, sem við munum sem eldri erum.

Fulltrúar Stéttarsambands bænda komu og höfðu margt fram að færa, m.a. varðandi smásölupakkningar á fóðri, og spurðu hvenær menn færu að líta á fóður sem smásöluafurð. Þá var okkur sagt að miðað væri við 5 kg skammta en eitthvað var það nú óljóst hjá fjmrn. hvernig átti að túlka það hvað væri smásala og hvað ekki og það er rétt að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvað er smásala á fóðri? Ef menn kaupa einstaka poka af fóðri, er það smásala? Ef menn kaupa tvo 50 kg poka t.d., gæti það verið smásala? Ef menn kaupa saltstein, t.d. 10 þriggja kg steina, mundi það vera smásala eða væru það 5? Þetta væri fróðlegt að fá upplýst hjá hæstv. ráðherra.

Kristinn Ólafsson frá Tollgæslunni kom líka á fund nefndarinnar og greindi frá því að það yrði afar erfitt að framkvæma þessar viðamiklu breytingar á svo stuttum tíma. Það yrði afar erfitt. Og ég hygg að fleiri embættismenn séu býsna áhyggjufullir yfir því að það geti orðið erfitt að hrinda þessum viðamiklu breytingum í framkvæmd á mjög stuttum tíma.

Þá komu á fund nefndarinnar fulltrúar frá Félagi ísl. stórkaupmanna vegna útvarps- og rafmagnstækja sérstaklega og það er tekið nokkurt tillit til sjónarmiða þeirra í tillögum meiri hl.

Hallgrímur Tómas Reynisson kom vegna söluskatts á heilsuræktarstarfsemi, en það á auðvitað að leggja söluskatt á hana. Þessi maður frá heilsuræktarstarfseminni, eins og það er orðað hér í nál. meiri hl., benti á að með þessu móti mundu heilsuræktarstofur á vegum fyrirtækja leggjast niður. Það yrðu stofnuð gerviíþróttafélög í kringum heilsuræktarstarfsemi til þess að losna við að greiða skatta af þessari starfsemi, sem við komum aðeins nánar að þegar við ræðum frv. um söluskatt, en af því að hv. formaður nefndarinnar hefur tekið þetta mál hér inn í nál. um tolla, þ.e. viðtalið við fulltrúa heilsuræktarstarfseminnar, taldi ég rétt að nefna það líka.

Síðan komu á fundinn fulltrúar frá Félagi ráðgjafarverkfræðinga sem kvörtuðu undan þessum sérstaka skatti sem er lagður á þá. Ég get alveg játað það fyrir mig að ég hef ekki sérstaka samúð með þeim sjónarmiðum sem þar komu fram á meðan ekki komu fram ábendingar um það frá þeim aðilum hvernig á þá að skattleggja þá með öðrum hætti úr því að þessi leið ekki dugir.

Ég tek einnig undir það sem fram kom hjá, hv. formanni nefndarinnar, þakkir til Guðrúnar Ástu Sigurðardóttur sem starfaði mikið með nefndinni en hún er starfsmaður í fjmrn. og lagði sig fram um að gera hlutina sem skýrasta og gleggsta. Sömuleiðis er ástæða til að þakka þeim embættismönnum öðrum sem greiddu götu nefndarinnar við þessa vinnu á þeim fundum sem haldnir voru um málið.

Meiri hl. nefndarinnar gerir nokkrar brtt. og flokkar þær í raun og veru í fjóra flokka. Í fyrsta lagi er gengið enn lengra í þá átt að lækka eða fella alveg niður tolla af tilteknum vörum sem kalla mætti ferðamannavörur. Þetta eru vörur sem Íslendingar kaupa gjarnan á ferðalögum erlendis frekar en hér heima. Síðan eru þessar vörur taldar upp og greint frá því að jafnframt sé gert ráð fyrir því að falla frá álagningu vörugjalds á þessa flokka og ég tel að þetta sé skynsamleg niðurstaða hjá meiri hl. nefndarinnar.

Í nál. meiri hl. eru þessar setningar með leyfi forseta:

„Með þessari breytingu er stuðlað að því að verslunin færist í auknum mæli inn í landið. Þannig kæmu auknar söluskattstekjur á móti hugsanlegu tolltekjutapi ríkissjóðs.“

Ég held að þessar tvær setningar segi kannski meira en margt annað í þessum pappírum sem við erum hér með fyrir framan okkur. Ég er nokkuð sannfærður um að það mætti ganga mun lengra í þessu efni á öðrum sviðum að því er varðar tolla og vörugjald. Vörugjaldið á náttúrlega bara að hverfa. Það er tóm vitleysa. Það mætti ganga miklu lengra og samt sem áður má gera ráð fyrir því að ríkissjóður gæti komið nokkurn veginn sléttur út. Við fengum um það tölur frá ýmsum aðilum hvernig tolltekjur ríkissjóðs, t.d. af bílum og heimilistækjum, þær lækkuðu að vísu á milli áranna 1985 og 1986 en heildartekjur ríkissjóðs af þessum sömu vörum lækkuðu ekki, heldur stóðu í stað að raunvirði. Í þeim tölum sem við fengum frá viðmælendum okkar kom það fram að tekjur ríkissjóðs hefðu hækkað við tollalækkanir á bílum o.fl. um 19% á milli ára. Auðvitað er það engin hækkun, heldur er það nokkurn veginn sama raunvirði sem ríkið fékk út úr þessum tekjum. En allt um það, það sýnir að með sveigjanlegri stefnu í tolla- og vörugjaldsmálum má alveg eins gera ráð fyrir að ríkið þurfi ekki endilega að tapa tekjum eins og oft hefur verið talið og vissulega er engin ástæða til að draga fjöður yfir það að við höfum mörg verið býsna íhaldssöm við að hreyfa tolla á innfluttum vörum af ótta við að ríkið tapaði tekjum. Við höfum verið óþarflega íhaldssöm í þeim efnum. Reynslan sýnir það núna m.a. frá umliðnum árum.

Í öðru lagi leggur meiri hl. nefndarinnar til að tollar verði felldir niður af nokkrum vörum sem flokkast undir öryggisbúnað ökutækja. Ég fagna þessari breytingu. Ég tel að hún sé skynsamleg og jákvæð og þakka einnig hv. þm. Salome Þorkelsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu máli en hún hefur mjög oft gert það, vakið athygli á umferðaröryggismálum hér á Alþingi, mjög myndarlega, og það er ástæða til að þakka það að undir þessi orð hennar er tekið með því að flytja hér nokkrar brtt.

Í þriðja lagi er tollur á innfluttum álpönnum hækkaður í 30% til að gefa innlendum framleiðendum færi á að laga sig að breyttum samkeppnisaðstæðum. Ég fyrir mitt leyti styð tillögu af þessu tagi. Ég tel að hún sé skynsamleg miðað við allar aðstæður.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að flýta gildistöku lokaáfanga tollasamnings við Portúgal og Spán og í fimmta lagi eru gerðar, eins og segir hér í ályktun, ýmsar minni háttar lagfæringar á einstökum atriðum.

Það er sem sagt niðurstaða meiri hl. nefndarinnar, eftir að hafa skoðað málið í aðeins fimm sólarhringa, að það verði að gera á því viðamiklar breytingar. Það eru hér frá meiri hl. nefndarinnar margir tugir brtt. og ég held að ekkert sýni það betur hvað málið er illa undirbúið en að meiri hlutinn, sem vill flýta málum í gegnum þingið, segir: Svo sem allt í lagi, skoðum þetta eftir jól — sumir, sérstaklega yfirráðherrann, Víglundur Þorsteinsson,en hann sagði á fundi nefndarinnar: Það er allt í lagi að kíkja á þessi mál eftir jólin. Þó að þið gerið einhverjar vitleysur núna skiptir það ekki nokkru máli. Fyrir alla muni flýtið þið ykkur að þessu því að hvað ætlið þið svo að gera eftir hátíðarnar? Þá vill hann að við notum tímann í það, hans hátign — sem er fjarverandi og það má víst ekki nefna fjarverandi menn hér samkvæmt yfirlýsingum einhverra siðapostula í Sþ. í gær— en allt um það, við eigum að nota tímann eftir áramótin til þess að leiðrétta vitleysurnar sem við gerum fyrir áramótin. Þetta eru ágætis þingsköp. (Gripið fram í: Hefurðu nokkuð betra við tímann að gera?) Það er nefnilega það, og ég er alveg viss um að hv. 4. þm. Vestf., forseti Sþ., telur þetta sýna mikla virðingu fyrir Alþingi og störfum þess.

En ég held að óhjákvæmilegt sé að fara nokkrum orðum um tollabrtt. meiri hl. og ég verð enn þá einu sinni að biðja um það að hv. 2. þm. Norðurl. e. verði kallaður í salinn. (Forseti: Forseti mun gera tilraun til að ná sambandi við formann nefndarinnar.) Hann gengur í salinn. Þá er fyrst að nefna það að hv. þm. gat um það nokkuð hróðugur að meiri hl. nefndarinnar hefði fundið upp nýtt orð. Það er orðið „smyglgjarn“ og að smyglgjarnar vörur ættu að vera með lágum eða engum tollum og engum vörugjöldum. Áður hafa menn verið að ræða um það að einkenna þessar vörur með orðunum smyglnæmur og smyglrænn. Varan er smyglræn, það er smyglrænt. Mönnum fannst það slæmt, einkum og sér í lagi hvorugkynið, það er smyglrænt, lýsingarorð í hvorugkyni. Þess vegna reyndu menn að leita að öðru, smyglgjarn, hún er smyglgjörn, það er smyglgjarnt.

Ég velti þessum möguleika fyrir mér í kvöldmatnum hvort hv. þm. mundi hafa hitt þarna alveg endanlega naglann á höfuðið, þetta væri hið rétta orð. Ég komst að þeirri niðurstöðu eftir nokkra umhugsun að það gengi ekki alveg. Fyrst og fremst vegna þess að varðandi hliðstæð orð í íslenskri tungu, hann nefndi orðið rokgjarn og svo má líka nefna orðið vergjarn, oftar notað vergjörn, er það mál þannig vaxið að ég hygg að það sé skynsamlegt að miða við að það sé frumlagið sem girnist andlagið og andlagið er smyglvaran en ekki öfugt. Það er ekki andlagið sem girnist frumlagið. Þess vegna held ég að ég verði að hryggja hv. þm. með því að þetta orð dugir mér ekki. Ég lagði það meira að segja á mig um leið og ég undirbjó nál. um frv. til l. um söluskatt að hringja í tvo málvísindamenn og bera þetta undir þá, þetta mál með orðið smyglgjarn, og þetta dugði þeim ekki, og óska eftir betra orði. Og ég veit að þó að við komumst að samkomulagi um fátt, ég og hv. þm., getum við örugglega fundið okkur góðar stundir til þess að leita að réttu orði í þessu samhengi.

Varðandi brtt. nefndarinnar óska ég eftir því að hv. þm. skýri þær aðeins nánar, þ.e. brtt. meiri hl. nefndarinnar. Ég hygg að það megi með nokkuð auðveldum hætti skýra brtt. sem eru á fyrstu síðu tillagnanna en á síðu 2 eru nokkrar tillögur sem þarfnast nánari skýringar og ég fer fram á þær. Það er tillaga 1.g. á bls. 2, við 8. gr. Það er tillaga 1.h. á bls. 2. Það er tillaga 1.i. á bls. 2 og það er einnig tillaga 1.j. á bls. 2. Síðan er nauðsynlegt að fá um það upplýsingar hvaða atriði það eru sem verið er að bæta við í tillögu 2.a., b., c., d., e. og f., og g. og h.. og áfram eftir stafrófinu upp í ö. og svo er byrjað aftur á aa. Það er nauðsynlegt að fá um þetta nánari skýringar hjá hv. þm. og að hann geri nefndinni sundurliðaða grein fyrir þessum tillögum. Það er auðvitað ekki nokkur leið að vera að flytja svona tillögur og taka afstöðu til þeirra öðruvísi en að menn hafi um þetta nákvæmar upplýsingar og ég veit að ekki einasta mér heldur einnig stjórnarliðum væri þökk í því að fá fullnaðarskýringar á þessum tillögum sem hér liggja frammi umfram það sem um er að ræða í hinu almenna nál. sem hv. þm. gaf út og er út af fyrir sig greinargott svo langt sem það nær.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. las eina umsögn af öllum þeim pappírshaug sem okkur barst, eina umsögn. Og það var sú eina, einasta eina, sem lýsti svo að segja fortakslausum stuðningi við málið í fyrri hluta textans. Hann leitar með logandi ljósum í þessum 30 síðum eða 100 eða hvað það nú er sem okkur berast frá alls konar aðilum og hann finnur eina síðu sem hann auðvitað les. (HBl: Litlu verður Vöggur feginn.) Litlu verður Vöggur feginn, en menn eiga samt aldrei að halla réttu máli eins og hv. þm. veit. Og það er til hending um hálfsannleikann sem ég veit að ég þarf ekki að fara með fyrir þingheim og ekki hv. 2. þm. Norðurl. e.

Í þessu plaggi hins vegar, frá Landssambandi iðnaðarmanna, sem hv. þm. las upp úr, koma fram margvíslegar athugasemdir við frv. um tolla, en hann las þær ekki upp. Og ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að bæta úr og lesa nokkur atriði úr þessari umsögn Landssambands iðnaðarmanna. Fyrst segir hér:

„Sama stefnumörkun og nú hefur verið gerð varðandi niðurfellingu á tollum af aðföngum fyrirtækja hefur ekki verið gerð varðandi söluskatt. Lögð er til þess vegna breyting á frv. um söluskatt.“

Í öðru lagi segir: „Söluskattshækkunin er of mikil“, og það er rakið nokkuð hvaða rök Landssamband iðnaðarmanna, sem eru samtök atvinnurekenda í löggiltum iðngreinum, segist hafa fyrir því að þessi söluskattshækkun sé of mikil og kem ég að því síðar þegar söluskatturinn verður til umræðu sem verður væntanlega einhvern tíma á þessu þingi.

En í þriðja lagi segir Landssamband iðnaðarmanna, með leyfi hæstv. forseta:

„Mjög viðamiklar og flóknar breytingar hafa verið gerðar á lögunum á svo skömmum tíma að hætt er við að einhvers staðar komi fram misræmi í þeim sem ekki var til ætlast.“ Hérna er m.ö.o. verið að gagnrýna hroðvirknina sem þeir bekkjarbræður, hæstv. fjmrh. og formaður fjh.- og viðskn., eru að gera sig seka um.

Síðan segir: „Þar við bætist að þar sem við undirbúning frumvarpanna var ekki leitað til samtaka sem mesta þekkingu hafa á tilteknum þáttum atvinnulífsins er meiri hætta á að einhverjir gallar eigi eftir að koma í ljós á þessari yfirgripsmiklu lagasetningu.“

M.ö.o., þó að Víglundur Þorsteinsson hafi verið viðstaddur samningafundi stjórnarflokkanna um þessi mál og hafi leitt þá og verið þar eins konar yfirsáttasemjari samkvæmt fréttum Morgunblaðsins er það ekki nóg að mati Landssambands iðnaðarmanna. Það eru fleiri sem þarna þurfa nærri að koma.

Síðan segir hér í þessu áliti Landssambands iðnaðarmanna að það bendi á að leiðrétta þurfi samkeppnisóhagræði sem vörugjaldsfrv. hefur í för með sér fyrir bakaríin ef það yrði samþykkt óbreytt og síðan er bent á ákvæði sem snerta mikilvæg aðföng til málm- og skipasmíðaiðnaðar.

Hér er m.ö.o. eitt og annað gagnrýnt í frv. Hv. 2. þm. Norðurl. e. sá ekki ástæðu til að fara yfir það, heldur las hólið, fann nokkrar línur í þessum pappírshaug öllum og las þær samviskusamlega og ég þakka honum út af fyrir sig fyrir lesturinn en hann hefði þá átt að lesa meira til að gefa sannferðuga mynd af umsögnunum því að þessi partur var svo sem ekki nema eins og 3% af öllu sem við fengum. (HBl: Ég gat um hitt.) Afar lauslega og það ber að gagnrýna formanninn harðlega fyrir að geta ekki nánar um þau efni. (HBl: Já, ég skal taka það til greina.) Mér þykir vænt um það.

Varðandi þessi mál að öðru leyti ætla ég síðan að víkja að nokkrum almennum atriðum og þá fyrst því sem lýtur að heildarskattastefnu ríkisstjórnarinnar. Fjmrn. birtir í blöðum í dag greinargerð til að reyna að þvo af sér skattahækkunarstimpilinn. Hún er birt í Morgunblaðinu náttúrlega og Alþýðublaðinu og kannski víðar og þar er því alveg slegið föstu að ríkisstjórnin núverandi sé alls ekki methafi í skattlagningu. En þannig vill til að ég óskaði eftir því við Þjóðhagsstofnun þegar þessi mál voru til meðferðar í hv. fjh.- og viðskn. að fá um það upplýsingar hver hún telur að skattabyrðin verði. Og niðurstaðan varð sú að skatttekjur á árinu 1988 sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verði 24,7% og ég sá um það, eigin hendi, að koma þessu plaggi í hendurnar á öllum fjárhags- og viðskiptanefndarmönnum. Ég er alveg sannfærður um að það er afar erfiður hlutur fyrir a.m.k. einhverja þm. Sjálfstfl. að horfast í augu við þann veruleika að Sjálfstfl. er að slá Íslandsmet í skattlagningu. Ég er sannfærður um að margir þeirra muna eftir því að Sjálfstfl. lofaði að draga úr ríkisútgjöldum og ríkistekjum til að auka möguleika hins frjálsa atvinnulífs á því að hafa svigrúm til þróunar og framfara. (Gripið fram í.) Þetta kann ég.

Nú er Sjálfstfl. búinn að kasta öllum þessum yfirlýsingum frá sér, gjörsamlega. Og hann setur hér Íslandsmet í skattlagningu undir forustu Alþfl. Það athyglisverða hins vegar er með Alþfl. að hann þolir nokkuð illa að honum sé brugðið um það að hann eigi þetta Íslandsmet og það er alltaf verið að framleiða einhverjar greinargerðir uppi í fjmrn. um það að það sé nú misskilningur og það sé rangt. Þar sitja menn á fullu kaupi við að framleiða svona áróðurstilkynningar fyrir Alþfl. og Sjálfstfl. Ég veit að framsókn bregður ekki. Hún hefur séð hann svartan í þessu eins og mörgu öðru.

Nema hvað, það er ákveðið í Alþfl. og Sjálfstfl. að þessi skattahækkunarniðurstaða frá Þjóðhagsstofnun, 24,7%, sé of há. Hún rímar ekki alveg við kosningastefnuskrá Sjálfstfl. Og hún er eitthvað aðeins óþægileg fyrir Alþfl. Þess vegna er farið að framleiða þennan pappír uppi í fjmrn. og það er sent út sem fréttatilkynning með opinberum stimpli. Og það er auðvitað alveg rosalegt að upplifa það að áróðursformúlurnar úr Jóni Baldvini Hannibalssyni, hæstv. núv. fjmrh., fari út úr Stjórnarráðinu með opinberum stimplum í bak og fyrir.

Staðreyndin er auðvitað sú að þær tölur um skattahækkanir og skattbyrði sem hann sendi frá sér staðfestu í fyrsta lagi allar tölurnar sem fram hafa komið frá minni hl. hér í þinginu. En hlutfallstalan um skatta af vergri landsframleiðslu var aðeins lægri hjá honum þegar hann var búinn að láta þennan skara nýrra embættismanna sem hann hefur hrannað í kringum sig uppi í fjmrn. fara yfir málin en Þjóðhagsstofnun hafði látið frá sér fara.

Nú er það reyndar svo að tölur af þessu tagi segja ekki ýkja mikið vegna þess að menn vita satt að segja svo að segja ekkert um það hverju þeir eru að spá. Það er best að segja það alveg eins og það er að það er ekki mikil speki á bak við þá spádóma frekar en oft áður þegar menn eru að reyna að rýna inn í framtíð íslenskra efnahagsmála. Ég hygg þó að það sé erfiðara núna að sjá inn í þessa hluti en lengi hefur verið áður.

Hæstv. fjmrh. segir: Við erum hérna með traustan ríkissjóð. Ríkissjóður stendur fyrir sínu, og ég segi við hann: Það er gott, því að það eru ekki margir vinir ríkissjóðs. En ég get verið það. Það skiptir miklu máli að ríkissjóður sé traustur. En hvernig skyldu horfurnar vera í sambandi við efnahagsmálin að öðru leyti? Jú, þessi trausti ríkissjóður er byggður, ekki á sandi, hann er byggður á himnu, á skurn, næfurþunnri, vegna þess að allt annað í efnahagsmálum er svo mikilli óvissu undirorpið. Og nú ætla ég aðeins að fara yfir það hvernig það mál lítur út.

Það lítur í fyrsta lagi þannig út í sambandi við gengi krónunnar, fastgengisstefnuna sem er talað um í Jónsbók hinni síðari, fastgengisstefnuna miklu, að staðan er þannig að núna segir sjálfur Seðlabankinn: 11% gengislækkun. Það er einnig þannig samkvæmt upplýsingum sem liggja fyrir að vextir eru hærri en þeir hafa nokkru sinni verið áður. Atvinnuvegirnir þola ekki þessa vexti. Og þegar einn þm. Alþfl. leyfir sér að taka undir með Alþb. í sambandi við vaxtaokrið er auðvitað viðskrh. kallaður í útvarpið og hvað sagði hann? Hann var spurður: Ætlar þú að taka á þessum vaxtamálum? Og hann sagði: Það er of snemmt að afskrifa markaðslögmálin. Það er ekki tímabært. Vextirnir eru ekki nema tvisvar sinnum hærri en þeir eru í útlöndum. Það er of snemmt að afskrifa þau. Það er of snemmt að afskrifa markaðslögmálin, sagði sá maður sem heitir Jón Sigurðsson, hæstv. viðskrh.

Og með kaupið, kjaraforsendur hæstv. fjmrh. Hvernig standast þær? Jú, það er byggt á þeirri forsendu að kaupið lækki verulega á næsta ári. Þó er það ljóst, 100% ljóst, að verkalýðshreyfingin í landinu mun ekki þola það að kaupmáttur launa verði skorinn niður. Hún mun ekki þola það að kaupmáttur launa verði skorinn niður. Og til þess að halda sama kaupmætti launa og er í dag í lok ársins 1988 verða laun á næsta ári að hækka um 30%, 9% nú og 7% á þriggja mánaða fresti. Skyldu menn í ljósi þessara talna vera farnir að átta sig á því að núv. ríkisstjórn er komin inn í efnahagslegan vítahring sem er að sínu leyti nákvæmlega jafnerfiður ef ekki erfiðari en sá sem við vorum í þegar víxlgengi launa og verðlags var sem allra hraðast? Ætli það sé ekki eins gott fyrir menn að gera sér grein fyrir því að menn hafa komist inn í þennan vítahring eftir þensluna að undanförnu vegna þess að allar þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til hafa verið veikar og þær hafa verið takmarkaðar. Menn hafa einblínt á ríkissjóð. Menn horfa ekki á atvinnuvegina. Menn horfa ekki á stöðu þjóðarbúsins. Menn horfa ekki á heimilin. Menn horfa ekki á vextina. Menn einblína á stöðu ríkissjóðs. Það er út af fyrir sig gott að ríkissjóður sé rekinn með traustum hætti. En ríkissjóður sem er rekinn með traustum hætti miðað við þær almennu efnahagsaðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu, það er ríkissjóður sem stenst ekki lengi, því að ríkissjóður lifir á því að efnahagslífið að öðru leyti sé í standi. Þetta þyrftu menn auðvitað að læra að skilja.

Svo er athyglisvert, herra forseti, að fá frá Seðlabankanum blessuðum á þessum drottins degi spá um breytingar á framfærsluvísitölu 1988. (Gripið fram í.) Íslenska krónan er stórkostlega að styrkjast, samkvæmt upplýsingum Seðlabankans, gagnvart hinum erlendu gjaldmiðlum. Og það er auðvitað kominn tími til að hæstv. fjmrh. sendi greinargerðir sínar ekki bara íslenskum blöðum, heldur líka efnahagssérfræðingum Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þannig að þeir geti lært eitthvað af þessum reginsnillingum sem stjórna efnahagsmálunum á Íslandi. Ég hef að vísu ekki frétt af því að það hafi orðið uppþot í Kauphöllinni í New York eða Tókýó yfir þessari yfirlýsingu Seðlabankans sem birtist í gær og í dag þar sem sagt er frá því að verðbólgan fari niður í svo sem ekki neitt á síðari hluta ársins 1988 og auk þess muni krónan styrkjast alveg dag frá degi. Það líður ekki svo mánuður að krónan styrkist ekki, eftir því sem Seðlabankinn segir. Þvílík gæfa.

Að vísu, og það nefnir Seðlabankinn ekki, eru allir atvinnuvegirnir á hausnum. Það er hins vegar minna mál því að eins og menn vita og Jóhannes Nordal hefur lýst yfir fyrir þjóðinni verða peningarnir til í Seðlabankanum, verða þar til í Seðlabankanum sjálfum í einhverjum hlutlausum sjálfsgetnaði eins og ég hef kallað það stundum. Það er minna mál þó að atvinnuvegirnir séu á hausnum og heimilin líka. Gengið heldur áfram að blómstra og krónan og endar með því með sömu reikniformúlum og eru nú í Seðlabankanum og fjmrn. að krónan verður sennilega orðin sterkasti gjaldmiðill heims með þessu áframhaldi. Ja, þvílík vísindi, þvílík vísindi.

Nei, auðvitað stendur ekki steinn yfir steini í þessari efnahagsstefnu, ekki steinn yfir steini. Og auðvitað stendur ekki steinn yfir steini í þessari efnahagsstefnu vegna þess að það er fyrst og fremst hugsað um að leggja skatta á fyrir ríkissjóð og það eru skattar sem eru lagðir á almenning. Þeir eru ekki lagðir á fyrirtækin sem hirtu gróðann mikla í góðærinu. Þeir eru lagðir á hinn almenna launamann og söluskatturinn á mat er auðvitað þyngri fyrir láglaunafólk en aðra. Þannig fara skattarnir í tíð Alþfl. hlutfallslega hækkandi eftir því sem launin lækka. Áður var það þannig að alþýðuflokksmenn og jafnaðarmenn um heim allan sögðu: Skattar eiga að fara hlutfallslega hækkandi eftir því sem launin hækka. Þeir sem eru með miklu launin, 200 þús. eða hvað það nú er, eiga að borga mikið af kaupinu sínu, kannski 50%, kannski 70, sögðu menn hér áður. Nú er Alþfl. búinn að finna upp alveg nýja stefnu. Skattahlutfallið hækkar eftir því sem launin lækka og lækka eftir því sem launin hækka. Þessi undarlega hlutfallaregla Alþfl., að leggja þeim mun meira á menn sem þeir hafa minni tekjur og þeim mun minna á menn sem hafa meiri tekjur, svo mikið er víst að hún er ekki í samræmi við þá jafnaðárstefnu sem menn lærðu hér einhvern tíma fyrr á öldinni.

Í þeim gögnum sem liggja fyrir um þróun efnahagsmála eru fjölmargar afar fróðlegar upplýsingar sem ástæða er til að tína fram og verður gert hér í umræðum í þinginu í dag og næstu daga. En það er alveg augljóst mál að allar forsendur fyrir þessum ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar, fyrir þessum miklu kerfisbreytingum, eru ákaflega veikar. Ekkert liggur fyrir um það að þessir þættir muni skila sér til þjóðarinnar. Það er gott út af fyrir sig að reyna að endurskoða tollskrá, það er gott og skynsamlegt að einfalda hana, en til þess að Alþingi geti borið virðingu fyrir sjálfu sér og þjóðin fyrir Alþingi verður þingið auðvitað að fá tíma til að fjalla um þessi mál. Það hefur þingið ekki fengið og þess vegna gera stjórnarandstöðuflokkarnir stjórnarliðum það tilboð í nál. sem ég las hér í upphafi að það verði farið í það núna í jólaleyfi þm. að skoða þessar tillögur miklu betur, miðað við að ný tollskrá geti tekið gildi 1. mars 1988. Og af hverju má það ekki gerast? Hvað er á móti því að þessi nýja tollskrá taki gildi 1. mars 1988? Hvað er á móti því að þessi kerfisbreyting taki gildi 1. mars 1988, bæði með tolla og vörugjald og jafnvel fleira? Auðvitað er ekkert á móti því. Það er ekkert á móti því nema þessi almenni reglustikumetnaður sem menn fyllast stundum þegar þeir sitja á ráðherrastólum. Ég held þess vegna, herra forseti, að skynsamlegast væri, miðað við allar aðstæður, fyrir meiri hl. að brjóta nú odd af oflæti sínu, gera það sem væri einsdæmi og nýlunda f þingsögunni, væri róttækt, sýndi víðsýni stjórnarmeirihlutans, og fallast á tillögur minni hl. um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. Við gætum lofað á móti í minni hl. að vera ekkert að nudda meiri hl. upp úr því langtímum saman þó að hann féllist á þessa tillögu. Við mundum tæplega halda ræðu á næstu vikum og mánuðum öðruvísi en að geta þess hvað meiri hl. er gáfaður, víðsýnn, opinn, lýðræðislegur og vakandi. Þannig gæti þessi meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed. brotið í bíað í sögunni og orðið fyrsti meiri hl. í þessari virðulegu deild og báðum deildunum samanlagt sem tæki tillit til skynsamlegra ábendinga. Þá gætum við hjálpast að með málið bak jólum og skilað því til þjóðarinnar með nýrri tollskrá frá og með 1. mars nk.