16.12.1987
Efri deild: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2296 í B-deild Alþingistíðinda. (1679)

198. mál, tollalög

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ætli ráðherra sé ekki einhvers staðar nálægur? Ég kem aðallega til með að ávarpa hann. Ég hygg að hann vilji heyra eitthvað af því a.m.k. sem mig langar að segja. Ég doka aðeins við. (Forseti: Ég hef gert ráðstafanir.)

Ég byrja þá mál mitt á því að fagna mjög frv. sem er til umræðu og færa hæstv. fjmrh. — hæstv. ráðherra, ég ætla að fara að færa þér miklar þakkir fyrir dugnaðinn við að drífa frv. áfram. Þannig er mál með vexti að mér þykir kannski vænna um þetta frv. en mörgum öðrum hv. þm. vegna þess að veturinn 1983–1984 vann ég geysimikið í þessu máli sem formaður hv. fjh.- og viðskn. á þeim tíma. Frv. sem nú er lagt fram er, held ég, í öllum meginatriðum eins og frv. sem vorið 1984 eða síðla vetrar var fullfrágengið til flutnings á Alþingi en illu heilli var það aldrei flutt. Þess vegna gleður það mig að sjálfsögðu mjög að þetta frv. sér nú dagsins ljós og þá leiðir það auðvitað af sjálfu að ég er andvígur tillögu minni hl. um að fresta afgreiðslu þess og vísa því til ríkisstjórnarinnar. Mér er alveg ljóst að annmarkar eru a þessu frv. Það verður alltaf um svo veigamikið mál sem þetta og þá þarf auðvitað að sníða af og verða þó aldrei allir af sniðnir vegna þess að eitt vandamál skapast stundum þegar annað er leyst í málum eins og þessu. Og málin eru líka gífurlega flókin einmitt vegna aðildar okkar að EFTA annars vegar og samningum okkar við Evrópubandalagið.

Úr því að ég nefni Evrópubandalagið er kannski rétt að víkja að því að það merka bandalag kom til umræðu við meðferð málsins fyrir nokkrum dögum þegar hæstv. fjmrh. gat þess að Evrópubandalagið væri nánast gjaldþrota. Ég hygg að það sé öðru nær en að það sé gjaldþrota. Að vísu getur stofnunin, Evrópubandalagið, sem ekki hefur neitt skattlagningarvald, eins og menn vita, ekki aflað sér beinna tekna, en varðandi það að þeir séu í fjárhagsvandræðum, m.a. vegna offramleiðslu landbúnaðarvara, þá er þetta bandalag einmitt að verða að veruleika, efnahagslegri heild 320 millj. manna, jafnmargra manna og samanlagðra Bandaríkja og Japans. Þetta bandalag á ekki eftir að líða undir lok. Það kann að fá sínar skattlagningarleiðir. Auðvitað deila ríkin um það þegar bandalagið er í burðarliðnum hve mikið hvert þeirra um sig skuli greiða. Sum geta lítið greitt, það fer eftir fjárhag þeirra, og þegar við deilum hér um ýmiss konar skækla og erum í skæklatogi ættum við að geta skilið það að þegar þessar þjóðir hittast til þess að skipta niður á sig útgjöldunum passar auðvitað hver sig.

Evrópubandalagið hefur líka borið á góma með öðrum hætti í opinberri umræðu. Það hefur nefnilega komið í ljós að til eru þeir menn sem halda því fram að við 1slendingar eigum að gerast aðilar að Evrópubandalaginu. Á fundi þm. og flokksráðsmanna og formanna félaga Sjálfstfl. á Selfossi fyrir skömmu var tekið af skarið að því er varðar afstöðu Sjálfstfl. að við ætluðum ekki að gerast aðilar að Evrópubandalaginu. Og í för utanrmn. og á fundum í Evrópubandalaginu, sem stóðu í eina viku frá morgni til kvölds, vorum við öll samstiga í því, fulltrúar allra flokka á Alþingi, að aðild okkar að Evrópubandalaginu kæmi ekki til greina. Og það vakti vissulega athygli að allir flokkar á Íslandi skyldu vera samstiga um það.

Það er illa farið ef einhver öfl á Íslandi ætla á þessu stigi að fara að berjast fyrir því leynt og ljóst að við gerumst aðilar að bandalaginu. Við náum engum heilbrigðum samningum við bandalagið ef við erum á leið inn í það. Þá segja þeir sem svo: Þið hlítið þá sömu reglum og aðrir. En við getum náð mjög hagstæðum samningum við bandalagið ef við höldum rétt á málum og skýrum frá því að við séum ekki á leiðinni inn í það. Það er ég sannfærður um eftir þessa viku þegar færi gafst á að ræða við helstu forustumenn bandalagsins og hlýða á mál þeirra að við getum jafnvel notið þar algjörrar sérstöðu því að þeir viðurkenna það að við séum Evrópuþjóð og þeir vilja ekki að við hrekjumst vestur á bóginn. Ég held að við séum í mjög góðri aðstöðu ef menn eru ekki gapandi um það að við ætlum að fara að gerast aðilar að bandalaginu.

Það er sagt að þær aðgerðir sem núna miða t.d. að virðisaukaskatti séu leið til þess að nálgast okkar helstu viðskiptavini. Að vísu er það nú ekki svo með alla okkar helstu viðskiptavini því að ég veit ekki til að virðisaukaskattur sé í Vesturheimi. Þar er söluskattur. Ég er ekki að fordæma virðisaukaskattinn, alls ekki. Og ég tel það auðvitað gott að við getum tekið upp ýmsar reglur Evrópubandalagsins og nálgast samningagerðir með þeim hætti. Ég er ekki að gagnrýna það. En ég vara við því að menn láti í veðri vaka að við séum á leið í bandalagið. Þetta var sem sagt sagt að gefnu tilefni frá 1. umr. þessa máls.

Ég hef reynt núna frá því að gögn byrjuðu að berast í hendur okkar þm. að gera mér grein fyrir því um hve miklar upphæðir væri að ræða í nýjum sköttum. Ég get tekið undir það að miðað við forsendur, sem einhverjar hljóta að vera, sem embættismenn fjmrn. hafa gefið, eru tölurnar sem okkur eru gefnar upp, 7 milljarðar 775 millj. eða hvað það nú er, eða milljarðinum meira með þeim skýringum sem allir vita hverjar eru, út af fyrir sig kannski réttar. Forsendurnar höfum við hins vegar ekki. Því er slegið föstu án þess að það sé rökstutt hve mikið tekjutapið sé af því að samþykkja frv. sem hér er til umræðu og því er slegið föstu hver tekjuaukinn sé af því að færa út söluskattsgrunninn. Hvorugt af þessu er rökstutt og ég hef gert fyrirvara, eins og hv. þm. kannski hafa tekið eftir, við bæði skattalagafrv. og vöruskattsfrv. og þarf að fá mun meiri upplýsingar áður en ég get gert upp hug minn hvernig með þau mál skuli fara því að ég er nokkuð sannfærður um það að tekjurnar sem tapast við samþykkt frv. sem nú er á dagskrá verða miklu minni en upp er gefið í áætlun fjmrn. (Gripið fram í.) Að tekjutapið verði minna, það ætti að skiljast, og ég býst við að það verði eitthvað. Ég hef ekki ómerkari mann en hæstv. fjmrh. fyrir mér í því að svo muni fara því að hann sagði úr þessum ræðustól, eins og menn minnast, að Glasgow-ferðir mundu nokkurn veginn leggjast niður. Því miður held ég að svo fari ekki. Hitt er alveg ljóst að einmitt þessar vörur, sem voru gífurlega hátt tollaðar, byrja að seljast eitthvað hér innan lands þegar þessi lækkun tollanna á sér stað. Ég er sem sagt sannfærður um að tekjutapið verði ekki jafnmikið og hér er áætlað. Á sama hátt er ég líka sannfærður um að tekjuaukinn af útfærslu söluskattsins þegar hann er lagður á nánast alla þjónustu og allar vörur verður miklu meiri en hér er áætlað.

Ég get ekki sannað þetta frekar en þeir sem koma með þessar tölur geta sannað sitt mál. Það er ekki á nokkurs manns færi. Ég skal alveg játa það að hér er um svo viðamikla breytingu að ræða að það er enginn maður sem getur reiknað það neitt nákvæmlega út. Og það er kannski alveg eins hægt að segja að ég hafi rangt fyrir mér eins og ég segi að þeir hafi rangt fyrir sér. En ég get fært nokkur rök að því að það þurfi ekki alla þessa nýju skatta, vörugjald og söluskatt til þess að ná jöfnuði á ríkissjóði og það er það sem hæstv. ríkisstjórn keppir að.

Í fyrsta lagi bendi ég á það að ætíð hefur, frá framlagningu fjárlagafrv., a.m.k. á seinni árum, og til samþykktar þess, verið um mjög mikla hækkun á áætluðum tekjum að ræða. Tölurnar síðustu þrjú árin eru þær að 1985 voru heildartekjur áætlaðar í fjárlagafrv. 21 milljarður 980 millj. en í fjárlögunum 25 milljarðar 335 millj. Í fjárlögunum 1986 voru í frv. 33 milljarðar 539 millj. en fjárlög voru afgreidd með tekjuáætlun 57 milljarðar 854 millj. Og í fjárlögunum 1987 var fjárlagafrv. upp á rúma 40 milljarða en fjárlögin rúma 43 milljarða. Hvers vegna var þessi breyting gerð frá október til desember? Menn voru þá að færa áætlun næsta árs til þess verðlags sem var um það leyti sem fjárlög voru samþykkt. Prósenturnar sem samsvara tölunum sem ég var að lesa voru hækkun árið 1985 um 15,3%, árið 1986 12,9% og árið 1987 7,6%, langminnst árið 1987. Af hverju er það minnst árið 1987? Það var vegna þess að þá hafði verðbólgu verið náð niður mjög verulega og menn gerðu sér vonir um að það mundi haldast. Það var auðvitað, eins og menn vita, fyrir forgöngu þáv. fjmrh. fyrst og fremst, hæstv. núv. forsrh., sem þetta tókst með tvennum samningum þar sem ríkið slakaði á klónni í stað þess að herða stöðugt á henni. Þá tókst að ráða við verðbólguna og henni hefði verið náð niður á sama stig og annars staðar er ef ekki hefðu orðið þau átök í íslenskum stjórnmálum sem raun bar vitni um og Sjálfstfl. missti þar með af þeirri stjórn efnahagsmálanna og sú ríkisstjórn sem þá hafði borið þennan árangur. Engu að síður voru fjárlögin hækkuð um 7,6% frá framlagningu og til samþykktar.

Ég hygg að enginn geti ímyndað sér að verðhækkanir á haustmánuðum nú frá október til desember séu minni og þess vegna ástæða til minni hækkunar á tekjuhlið fjárlaganna en var í fyrra, hvað þá um hin árin. En jafnvel þótt þetta væru bara 7,6% sem bæri að hækka fjárlögin um án allra skattalagabreytinga, án alls þess sem við erum að tala um, án þeirra 5 milljarða sem talað er um sem nettóskattaaukningu sem auðvitað á að færa réttilega upp eins og tölur segja, þ.e. 7,7% eða eitthvað og verður auðvitað gert í fjárlögunum. Ef þetta væri fært upp um 7,6%, þessir 59 milljarðar, um 60 milljarðar, gætu menn reiknað það og það yrðu um 4 milljarðar sem þar skila sér. Þetta er sem sagt í pípunum, a.m.k. þessir 4 milljarðar. Og það á að koma út úr þessu dæmi sem verið er að rétta okkur hér. Ég segi því og endurtek: Það er miklu meiri skattlagning á ferðinni en okkur er gefið upp með þessum tölum.

Þetta eru auðvitað vangaveltur. En mér ætti nú að leyfast að vera með vangaveltur því að í frétt frá fjmrn., síðasta plagginu sem við höfum í höndum, dags. í gær, 15. des. 1987, þar sem yfir þessar tölur og útreikninga er farið, er niðurlagið svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Niðurstaðan af þessum vangaveltum er sú að nýir skattar þessarar ríkisstjórnar nemi um það bil 5 milljörðum kr. miðað við álagningu á næsta ári. Þessir skattar fara til þess að eyða hallarekstri ríkissjóðs og þar með halda aftur af verðbólgu, viðskiptahalla og erlendum lántökum. Þetta er kjarni málsins.“

Þetta eru sem sagt niðurlagsorð fjmrn. í gær og þá ætti okkur hv. þm. að vera leyfilegt að vera líka með vangaveltur og biðja um skýringar á þeim tölum sem fram eru settar. Og ég efast ekkert um það að hæstv. fjmrh. er fús til þess, kannski ekki í kvöld, en þá væntanlega á morgun þegar hann hefur talað við sína aðstoðarmenn, að gefa okkur upplýsingar um það hvað fyrirhugað sé að hækka tekjuhlið fjárlaga, eins og alltaf hefur verið gert á undanförnum árum, um mörg prósent. Eru það 7% eða eru það kannski 15% eins og var árið 1985? Þá förum við að sjá tölur sem eru marktækar og þá förum við að geta rætt efnislega um málið. En það er ekki eingöngu þetta sem sér um það að það verður að fá frekari upplýsingar áður en við samþykkjum, að ég hygg, nokkurra milljarða tekjuauka umfram það sem okkur hefur þegar verið sagt með þessum tölum. Og þá er þess að gæta að í fjárlagafrv. er verg landsframleiðsla á næsta ári talin munu verða 240 milljarðar kr. Ég held að miðað við þær hækkanir sem orðið hafa á þessu hausti og horfur fram undan sé útilokað annað en þessi tala hljóti að breytast, og þá til hækkunar vegna meiri umsvifa, nema þá að hér verði hrein kreppa, að atvinnuvegirnir hrynji og kjör fólksins versni mjög geigvænlega. Og þó að þetta væri nú ekki hækkað nema, af því maður er nú farinn að tala í stórum tölum, um við skulum segja 10 milljarða, úr 240 í 250, þá ætti eftir þessum útreikningum sem menn eru með hér og er kannski ekkert vitlausari tala en hver önnur, þá ætti þar að vera um að ræða fjórðung þessa milljarðs sem færi í aukna skatta, kæmi í auknum tekjum til ríkisins sem hægt væri að nota til viðbótar við það sem nú hefur verið fram talið.

Ég held að við alþm. verðum að skoða þetta allt saman í rólegheitum, að svo miklu leyti sem rólegheit geta verið þegar tímahrak er, en ég held að allir hljóti að sjá að þessar tölur, sem okkur eru uppgefnar, standast ekki. Skattarnir eru meiri. Þess vegna geri ég þessa fyrirvara við hin málin tvö, og við erum nú raunar að ræða málin öll í heild sem er alveg eðlilegt. Það var svo við 1. umr. og það er alveg eðlilegt að gera það hér líka. Ég vil sjá útreikninga og grundvöll að þessum áætlunum sem ég tel vera stætt á. Ég sé ekki að það sé stætt á þessum ágiskunartölum ráðuneytisins. Þarna er sem sagt eitthvað „í pípunum“ eins og það var kallað hér um árið á svona heldur lélegri íslensku. Hvort það er einn milljarður, tveir, þrír eða fjórir eða kannski fimm, get ég ekki gert mér fulla grein fyrir. En þetta er mál sem ég er sannfærður um að hæstv. fjmrh. vill skoða. Og þegar það hefur verið skoðað þá geri ég mér vissulega vonir um það að hæstv. ráðherra, ef hann kemst að þeirri niðurstöðu að það sé eitthvað til í því sem ég er að segja, kannski ekki nein mikil viska, að þá sé hann manna fyrstur fús til þess — og þá mun ekki standa á Sjálfstfl. — fús til þess að lækka í einhverju þá skattheimtu sem felst í þeim tveim frv. sem verða rædd hér á eftir. Það held ég að yrði mjög happadrjúgt fyrir þetta stjórnarsamstarf ef menn kæmust að þeirri niðurstöðu að eitthvað af þessu væri hægt að gefa eftir. Og auðvitað mundi það hjálpa í kjarasamningum sem allir vita að eru fyrir dyrum og þarf að standa að með hógværð og skynsemi og tillitsemi til allra aðila.

Af því að hér var nefnd hallanefndin sem var til umræðu um daginn þá er rétt að staðfesta það að á fund hv. fjh.- og viðskn. á mánudagsmorgun kom Gunnar Hall, formaður nefndarinnar, og Magnús Pétursson, sem var forgöngumaður að því að þessi nefnd var sett á laggirnar, að sjálfsögðu undir forustu hæstv. þáv. fjmrh., fyrir rúmu ári síðan hygg ég að það hafi verið. Hann staðfesti að tölur þær, sem ég áður hef nefnt opinberlega um tekjuafgang ríkissjóðs, gífurlegan tekjuafgang ríkissjóðs frá 1980–1985, væru réttar. Tölurnar væru réttar, þ.e. að ef fimm sjóðir sem eru í eigu ríkisins eins, byggingarsjóðirnir, Lánasjóður ísl. námsmanna, Byggðasjóður og sveitarstjórnasjóður, ef þær tölur allar hefðu verið færðar til eigna, af því að þetta eru millifærslur úr einni skúffu í aðra hjá ríkissjóði, en ekki til útgjalda, þá hefði á árinu 1980 verið tekjuafgangur hjá ríkissjóði sem svaraði til 3,4% af vergri landsframleiðslu. Árið 1981 3,5% af vergri landsframleiðslu. Og þá geta menn reiknað. Þetta eru sem sagt 7–8 milljarðar miðað við núgildandi verðlag, tekjuafgangur ríkissjóðs, ekki tekjuhalli. Árið 1982 3,9%. Árið 1983 0,3%, það var þegar harðast var í ári. Árið 1984 3,4% og 1985 um 1%.

Ég skal ekki fullyrða neitt um það að rétt sé að færa þessar tölur allar til eigna. T.d. má kannski færa að því rök varðandi námslánasjóðinn, sem að vísu er fullverðtryggður og þess vegna ekki glatað fé, en vaxtalaus hygg ég vera, að það sé ekki eðlilegt að telja einhvern hluta af því til gjalda á því ári sem féð er reitt af hendi. Ég skal ekkert mat leggja á það. Byggingarsjóðirnir aftur á móti eða a.m.k. almenningssjóðurinn er eins og allir vita með fullri verðtryggingu og 3,5% vöxtum. 3,5% raunvextir af fasteignalánum eru háir vextir en ekki lágir. Fasteignalánavextir hafa í gegnum söguna verið eitthvað um það bil en það hefur lengst af verið einhver verðbólga. Í nágrannalöndunum munu þessir vextir nú vera 5–6% kannski og þykja háir, og verðbólga þetta 2–3% þannig að þetta er ekki glatað fé. Síður en svo. Þetta er geymdur eyrir hjá ríkissjóði og á ekki að færast til gjalda. Við skulum færa eitthvað af því til gjalda svo að rekstur sjóðsins eða rekstur þessa bákns, sem er náttúrlega til bölvunar allt saman og ætti allt að vera miklu einfaldara og meira og minna í höndum banka og sparisjóða eins og er annars staðar en ekki með þeim ósköpum að hér þurfi að rífast dögum og vikum og mánuðum saman á hverju ári til þess að breyta þessum óskapnaði til og frá. En það er nú önnur saga. Bara þessir sjóðir eru með framlög frá ríkinu eitthvað á fjórða milljarð. Jafnvel þó við tækjum bara helminginn sem gjöld og hinn helminginn sem eignafærslur, þá erum við líka komin með tvo milljarða í viðbót, tvo milljarða umfram hallalausan ríkissjóð, sléttan ríkissjóð. Þar ættum við a.m.k. inni þessa tvo milljarða til viðbótar því sem ég áður var að nefna. Ég fæ því ekki betur séð en jafnvel þó við slepptum þessu séum við með tekjuafgang miðað við þessar tölur, ekki bara með sléttan ríkissjóð. Og sá tekjuafgangur virðist mér vera og held mig við það þangað til ég fæ einhverjar haldbetri skýringar á hinu svokallaða tekjutapi vegna lækkunar tollanna og hve lítið á að nást inn þegar söluskatturinn er færður á bókstaflega allt eiginlega, nema jarðarfarir held ég o.þ.h. Það er nú kannski ýkt, en það var í öllu falli tekið fram í grg. að prestþjónusta og jarðarfarir væru skattfrjáls. (Gripið fram í.) Ég er nú að tala í alvöru og ætti kannski ekki að vera að reyna að segja fimmaurabrandara.

En í mínum huga er þetta svona að það er um að ræða mun meiri tekjuauka en við höfum fengið upp gefið. Ég veit ekki hvernig þetta verður nákvæmlega til. En ég veit hitt, að góðir embættismenn reyna að hafa vaðið fyrir neðan sig og þeir eru að reikna það að ríkissjóður skuli nú örugglega geta mætt útgjöldum sínum. Ég hygg að þeir muni ekki áætla tekjurnar hærri en þeir þurfi og ég held að þeir muni um þetta mál a.m.k. vita það að þeir hafa vaðið fyrir neðan sig á báða bóga, bæði að því er útgjöldin og tekjurnar varðar. Að sjálfsögðu afhenda þeir, embættismennirnir, sínum yfirboðurum, fjmrh. í þessu tilfelli, þessar upplýsingar og þessa útreikninga. Þessir útreikningar eru síðan handlangaðir hingað til okkar án þess að vera rökstuddir. Getur Alþingi til langframa látið bjóða sér þetta? Það eiga að vera skil á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Og það er jú löggjafinn sem samþykkir fjárlögin.

Ég er ekki að segja að neinir menn séu að gera neitt sem þeir haldi að sé þjóðinni til ills. Þvert á móti. Allir þessir menn, bæði embættismennirnir og ráðherrarnir alveg eins og við alþm., eru auðvitað að vinna þjóðinni það besta sem hver okkar telur vera. Ég tel það af hinu illa ef tekið er meira fé frá borgurunum en brýnasta nauðsyn krefur. Ef eignarráð að peningum, fjármunum þjóðfélagsins, eru í sífellt auknum mæli færð frá borgurunum, frá atvinnuvegunum yfir til ríkisins. Það hefur gerst á Íslandi í mjög ríkum mæli, eins og tölurnar sem ég var að lesa hér upp áðan sýna og sanna, og líklega hvergi eins. Mér er ókunnugt um að það sé greiðsluafgangur á fjárlögum einhvers vestræns ríkis eða frjáls ríkis yfirleitt. Ég held að það tíðkist varla.

Í Japan, sem sækir hraðast fram, hefur það verið svo að um 6% af vergri landsframleiðslu — eins og það heitir nú af því að það þurfti að leiðrétta þarna nokkur prósent, fara úr þjóðarframleiðslu yfir í landsframleiðslu til að bjarga ákveðnum ráðherra sem átti að hafa visst hlutfall af erlendum skuldum miðað við framleiðslu, þá var sett ný spóla inn í tölvuna og kölluð landsframleiðsla í staðinn fyrir þjóðarframleiðsla áður — 6% í Japan eru hallinn á fjárlögunum. 6% af vergri þjóðarframleiðslu, ekki 6% af fjárlögunum, kannski 20% af fjárlögunum. Hvers vegna? Vegna þess að peningarnir eru skildir eftir hjá fólkinu sem fær skuldabréf, kaupir ríkisskuldabréf o.s.frv., notar þau í vissum mæli til að kaupa hlut í almenningshlutafélögum. Þar er að skapast ótrúlega sterkt samfélag, eins og menn vita, sem er með samkeppni við gróin iðnaðarríki með þeim hætti að þau standast þeim varla snúning. Einmitt vegna þess að fólkið er allt virkjað, það fær að halda peningunum sínum og það fær að taka þátt í atvinnulífinu. Þar eru almenningshlutafélög.

Hvernig varð þýska undrið til? Með sama hætti. Volkswagen-verksmiðjurnar, Stálhringurinn, allt gert að almenningshlutafélögum og ríkið rekið með halla. Fólkið látið fjármagna það.

En ég er ekki að segja að við þurfum endilega að reka ríkið með halla á næsta ári. Ég held að það þurfi aldeilis ekki. Ég held að það sé með bullandi, bullandi tekjuafgang miðað við þær tölur sem ég hef séð. Ég held að það sé bara nokkurn veginn almenn skynsemi af því hún var nefnd í fyrri umræðu og hana virtist skorta hjá einhverjum öðrum og kannski mér. En ég held að allir hér inni skilji þetta, að almenn skynsemi segi okkur að það er langt frá því að ríkið sé rekið með halla eða einhver hætta sé á því miðað við forsendur frv. Hitt er svo allt annað mál að sé skattheimtan keyrð svo hart að fólkið verði að brjóta hana af sér með stórkostlegum kauphækkunum, tilheyrandi gengisfellingu, þá auðvitað standast engar forsendur af neinu tagi. Þá siglum við þráðbeint inn í það sama og gerðist hér 1982–1983. Þá tökum við eina kollsteypuna í viðbót. Og það er uggvænlegt að horfa fram á það ef það skyldi nú eiga eftir að henda okkur. Við mundum standa það af okkur að reisa við að nýju. Þjóðin ferst ekkert fyrir það þó við tökum eina kollsteypuna í viðbót. En við eigum ekki að gera okkur leik að því. Það get ég ekki fengið inn í minn þykka haus.

Þetta voru nú spurningarnar sem mig langaði til að varpa hér fram, og hugleiðingar sem ég veit — og er ég þá ekki með neinn leikaraskap — ég veit að hæstv. fjmrh. vill hugleiða. Ég hef rætt við hann undanfarna daga og undanfarnar vikur um það að mér litist ekki á að keyra þetta svona fast. Hann hefur fengið þessar tölur í hendur og þær hafa ekki verið mikið gagnrýndar, ekki af mér né heldur neinum hér í hv. deild eða á þinginu. Það hefur verið lítið svigrúm til að gera það. En það er mín skylda og okkar allra að benda á annmarkana á þessum útreikningum ef við teljum að þeir séu fyrir hendi. Því vænti ég þess að það geti orðið gott samkomulag um það að ljúka í kvöld við afgreiðslu þessa máls sem við nú erum að ræða og við 2. umr. á hinum tveim málunum — og það mun ég ræða við ráðherrann á eftir — en geyma lokaafgreiðslu þar til tekist hefur að greiða eitthvað úr þessum spurningum sem hér hafa verið fram lagðar. Ég hef í morgun fengið mjög góða hjálp, bæði hjá efnahagsráðunaut ríkisstjórnarinnar og forstjóra Þjóðhagsstofnunar, sem er víst bara settur, sá fyrrverandi er víst enn þá ráðinn þó hann sé í öðrum störfum um sinn. En engu að síður leyfði hann mér reyndar að hafa það eftir, þegar ég fór að spyrja út í þetta með landsframleiðsluna sem í sept.-okt. í haust var áætluð 240 milljarðar, að hann eða hans stofnun mundi líklega ekki geta með mjög skömmum fyrirvara svarað til um það hvort sú tala ætti að breytast. Líklega yrði ekki unnt fyrir hann eða hans stofnun að svara þeirri spurningu fyrr en í byrjun janúar. Það væru svo margir liðir sem inn í það kæmu. Svo ég get ekkert fullyrt um það að sú tala ætti að hækka en ég gaf mér það að hún kynni að hækka úr 240 milljörðum í 250, og þar væri þá svigrúm fyrir 21/2 milljarð sem er sú upphæð sem ég einhvern veginn hef á tilfinningunni að skattheimtan sé um of, ef bara á að keppa að greiðsluhallalausum fjárlögum en ekki með miklum afgangi.

Í þessum umgangi ætla ég ekki að hafa þetta mál mitt lengra og vænti þess að hæstv. ráðherra og hv. þm. allir vilji hugleiða það sem hér er á ferðinni. Það er hægt að hugleiða það alla vega hvort þetta sé ekki skoðunarvert eða eins og það var orðað í fréttinni frá ráðuneytinu í gær sem ég gat um áðan, að velta um það vöngum. Niðurstaðan af þessum vangaveltum. Og mér finnst að fleiri eigi að velta vöngum yfir þessu en bara ráðuneytismenn. Það eigi þm. að gera jafnvel þó það kosti einhverjar næturvökur. Þeir eiga að velta vöngum yfir því hvað er á ferðinni, hvort við séum að samþykkja hallalaus fjárlög eða fjárlög með gífurlegum tekjuafgangi miðað við þær forsendur sem við höfum í höndum.