20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

10. mál, umhverfisfræðsla

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Það er ánægjulegur vottur þess að við séum e.t.v. að vakna enn frekar til vitundar um umhverfismál að hér eru nú í þingbyrjun allnokkur mál á dagskrá sem snerta umhverfisvernd.

Nánast daglega erum við minnt á ruddalega umgengni mannsins um móður jörð, gróflega misnotkun hans á auðlindum og tillitsleysi við komandi kynslóðir. Hérlendis eru um þessar mundir miklar umræður um gróðureyðingu, skemmdir vegna fjórhjóla og mengun af einnota umbúðum svo aðeins sé nefnt það sem hæst ber í umhverfismalum þessa dagana. Af erlendum viðburðum má nefna baráttu danskra sjómanna og Grænfriðunga við eiturskipin svokölluðu, mál sem gæti snert okkur með beinni hætti fyrr en okkur varir. Þannig erum við stöðugt áminnt og sem betur fer er vaxandi umræða um þessi mál og vaxandi skilningur á að svona geti þetta ekki gengið lengur ef maðurinn á ekki að tortíma umhverfi sínu og þar með sjálfum sér.

Verði ekki snarlega snúið við af þeirri braut erum við að bregðast afkomendum okkar með því að skila þeim í hendur verra umhverfi en okkur var trúað fyrir og við getum ekki afsakað okkur með því að við höfum ekki vitað betur. Staðreyndirnar blasa við allt í kringum okkur, margháttaðar rannsóknir og mælingar upplýsa okkur um jarðvegs- og gróðureyðingu, ofnýtingu auðlinda og mengun í lofti, vatni og sjó, sem stefnir öllu lifi í voða, jafnvel þótt unnt yrði að koma í veg fyrir mestu ógn lífs á jörðu, kjarnorkustyrjöld.

Einstaklingar, samtök, ríkisstjórnir og alþjóðastofnanir, svo sem Sameinuðu þjóðirnar, hafa safnað upplýsingum og sett fram stefnumörkun um hvað gera má til úrbóta svo að maðurinn gangi ekki stöðugt á umhverfi sitt og tortími með því sjálfum sér að lokum. Mönnum er löngu orðið ljóst að ekki er nóg að taka frá og friða skika hér og þar þótt það sé líka nauðsynlegt. Við verðum að horfa á jörðina sem heild og skilja þær takmarkanir sem náttúran setur okkur um leið og við notum og njótum þeirra auðlinda sem hún gefur.

Það eina sem getur forðað manninum frá því að þurrausa auðlindir jarðar og eyðileggja það umhverfi sem hann lifir á er stóraukin þekking og skilningur á náttúrunni.

Sá er tilgangur þeirrar tillögu sem ég mæli hér fyrir og er á þskj. 10, till. til þál. um umhverfisfræðslu, sem er stutt og laggóð og hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að efla og samræma fræðslu um umhverfismál í grunnskólum og framhaldsskólum landsins og á meðal almennings.“

Nú sakna ég hæstv. menntmrh. til að taka þátt í umræðu um þessa till. sem ég tel skipta mjög miklu máli.

Með mér flytja till. hinar fimm þingkonur Kvennalista, þ.e. Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir.

Umhverfisfræðsla er að okkar dómi brýnasta viðfangsefnið í umhverfismálum nú og sá grunnur sem allt byggist á. Þess vegna er þessi till. okkar borin fram. Þrátt fyrir ákvæði um umhverfisfræðslu í grunnskólalögum og í lögum um náttúruvernd er mála sannast að slík fræðsla er ákaflega tilviljanakennd og af skornum skammti og má ýmsu um kenna. Fyrst og fremst er þó sökin stjórnvalda. Það er nefnilega ekki nóg að setja ákvæði í lög; það verður einnig að skapa skilyrði til að framkvæma þau.

Það er til lítils að leggja Náttúruverndarráði þá kvöð á herðar að það " ... hafi forgöngu um fræðslu fyrir almenning um náttúru landsins og leitist við að efla áhuga á náttúruvernd, m.a. með útgáfustarfsemi, kynningu í skólum og fjölmiðlunartækjum“, eins og segir orðrétt í lögum um náttúruvernd frá 1971, ef því er ekki gert kleift að ráða starfsfólk til þess að sinna þessari lagaskyldu. Þrátt fyrir manneklu og lítil auraráð hefur þó Náttúruverndarráð sinnt umhverfisfræðslu eftir föngum. Einnig ber að geta um gagnmerka starfsemi Landverndar og fleiri samtök áhugamanna hafa lagt sitt af mörkum.

Í grunnskólalögum er ákvæði sem lýtur að umhverfisfræðslu. Því þarf að fylgja eftir með útgáfu námsefnis og þjálfun kennara, annars kemur það fyrir lítið. Vissulega hafa margir færir og áhugasamir kennarar unnið frábært starf á þessum vettvangi og ekki er alltaf nauðsyn flókinna kennslutækja. En eigi að vera unnt að ná markmiðum umhverfisfræðslu er nauðsynlegt að skipuleggja hana og samræma og tryggja að allir fái notið hennar.

Samkvæmt upplýsingum Þorvaldar Arnar Árnasonar, námsstjóra í náttúrufræðum, er umhverfisfræðslu sinnt í heldur vaxandi mæli í grunnskólum, en mjög undir einstökum skólum og kennurum komið hvernig til tekst. Allir kennaranemar fá nú orðið stutt námskeið í umhverfisfræðslu og auk þess geta þeir valið stutt námskeið í náttúruvernd. Því miður hefur verið lítil eftirspurn eftir námskeiðum í umhverfisfræðslu fyrir starfandi kennara. Í framhaldsskólum er lítið um markvissa umhverfisfræðslu nema að því marki sem vistfræði er innifalin í líffræði. Það er því ljóst að grunninn þarf að styrkja og byggja myndarlega ofan á.

Markmið umhverfisfræðslu eiga að vera að auka fólki skilning á náttúrunni, eðli hennar, takmörkunum og gæðum og samhengi þeirrar lífkeðju þar sem maðurinn er aðeins einn hlekkurinn. Maðurinn getur aldrei sigrað náttúruna og brotið undir vald sitt. Hann er hluti af náttúrunni og verður að viðurkenna það og vinna með henni í takt við þau lögmál og þau takmörk sem hún býður honum. Aukinn skilningur og um leið virðing fyrir náttúrunni og áhugi á verndun hennar er ekki aðeins nauðsynlegur vegna hefðbundinnar nýtingar auðlinda til lands og sjávar, heldur einnig til þess fallinn að auka ánægju fólks af útivist og bæta umgengni þess.

Um markmið umhverfisfræðslu vísast að öðru leyti til þess sem um það segir í grg. með till. okkar a þskj. 10.

Herra forseti. Um allan heim er nú smám saman að glæðast skilningur og meðvitund manna um nauðsyn þess að ganga um náttúruna með virðingu og nærgætni, bæta fyrir náttúruspjöll og sjá til þess að afkomendur okkar fái notið a.m.k. sömu náttúrugæða og núlifandi kynslóðir. Sú hugarfarsbreyting gengur þó allt of, allt of hægt. Mannkynið gæti fallið á tíma.

Íslendingar gætu orðið fyrirmynd annarra í þessum efnum ef vilji væri fyrir hendi. Til þess þarf markvissa, öfluga umhverfisfræðslu í skólum og á meðal almennings. Aukinn skilningur er lykilorðið.

Sá er tilgangurinn með flutningi þessarar tillögu.

Herra forseti. Að lokinni umræðu um þetta mál legg ég til að henni verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.