20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

31. mál, klak- og eldisstöð fyrir sjávarfiska

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að lengja þessa umræðu, en ég vil láta koma fram bæði áhuga minn og þakklæti til flm. Það hafa breyst tímar hér á landi á þeim fáu árum sem liðin eru síðan við Magnús H. Magnússon fluttum frv. um breytingar á lögum um rannsóknastofnanir atvinnuveganna til þess að reyna að fá fjármagn svo kanna mætti með ýmsum hætti hvort hér væri fýsilegt að hefja eldi á sjávarfiskum.

Það sem stendur upp úr í sambandi við sjávarfiskaeldi er fyrst og fremst kostnaðurinn við rannsóknir. Ég hygg að hér væri fýsilegast að efla og auka allar rannsóknir á því sviði, en allar vísindarannsóknir á sjávareldi hér á landi eru mjög takmarkaðar og þeim hefur sáralítið verið sinnt.

Nú er að hefjast lúðueldi við Eyjafjörð. Þar eru bjartsýnir menn að hefja eldi á sjávarfiskum og verður mjög spennandi að fylgjast með því hvernig til tekst þar. En það sem stendur þeim fyrir þrifum er fyrst og fremst skortur á vísindalegum rannsóknum, upplýsingum um eldið sjálft. Ég hygg að það sem væri viturlegast að gera á þessari stundu væri að efla samstarf við Norðmenn í sambandi við sjávarfiskaeldið því að hvergi í heiminum hygg ég að liggi fyrir meiri upplýsingar og meiri rannsóknir á eldi sjávarfiska, og það á bæði við um þorsk, lúðu og fleiri fisktegundir.

Það er mjög spennandi hugmynd og skemmtileg að hugsa sér að í náinni framtíð getum við með einhverju móti haft áhrif á stærð fiskstofnanna hér við land sem við byggjum alla okkar afkomu á. Það var einmitt á þeim grundvelli sem við Magnús H. Magnússon fluttum okkar till. En það verður að segjast eins og er að í umræðum á hinu háa Alþingi voru ekki allir þm. bjartsýnir á að þetta mundi takast. Við urðum þess áþreifanlega varir í viðræðum við vísindamenn, sem mesta þekkingu höfðu á þessu máli, að þeir voru ekki bjartsýnir á að þetta mundi takast og jafnvel höfðu sumir þeirra allt á hornum sér og voru jafnvel andsnúnir því að frv. á borð við það sem við fluttum yrði flutt.

En um þetta þarf ekki að hafa mörg orð. Þjóð sem byggir afkomu sína á sjávarfiskum hlýtur að þurfa að efla rannsóknir á því sviði. Allar tillögur sem stuðla að þeim rannsóknum og væntanlega þá einhverjum verkþáttum til að efla eldi sjávarfiska hér á landi eru af hinu góða og ég þakka flm. fyrir þessa till. og mun styðja hana hvar sem ég kem nálægt henni.