21.10.1987
Neðri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

29. mál, framhaldsskólar

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Það er rösklega hálfur mannsaldur síðan viðamikið framhaldsskólafrumvarp var á ferðinni í sölum Alþingis og raunar víðar í þjóðfélaginu því að um nokkurra ára skeið ræddi fólk um þetta frv. rétt eins og það hefði orðið að lögum. Af einhverjum ástæðum varð svo ekki og af einhverjum ástæðum hefur orðið bið á því að heildarlöggjöf um framhaldsskóla væri sett.

Ég álít að ástæða þessa sé sú að þegar til kastanna kom voru menn ekki þeirrar skoðunar að samræma ætti skólana jafnmikið og frumvörpin gerðu ráð fyrir. Því er það að í þessu frv. er orð sem mér finnst vera mikið fagnaðarefni, minnug þessara gömlu frv., en það er orðið lágmarkssamræming. Þetta er aðdragandi að því sem mig langar til að undirstrika en það er að ég tel að of mikil samræming framhaldsskóla sé ekki af hinu góða. Hún dragi úr frelsi skólanna og fjölbreytilegum möguleikum manna bæði í þéttbýli og strjálbýli. Ég er þeirrar skoðunar að mismunandi gerðir framhaldsskóla geti mætavel þrifist hlið við hlið, enda henta ekki sömu gerðir öllum einstaklingum því að einstaklingarnir eru svo margrar gerðar. Þess vegna er ég líka þeirrar skoðunar að það sem framhaldsskólastig þessa lands skortir mest séu ekki lög — það liggur við að það sé hlutskipti mitt að hugsa sem svo á hverjum degi — heldur það sem er á bak við lögin, framkvæmd laganna, að hún sé þannig að við höfum fólk, fé og námsefni og námsgögn til þess að geta sinnt framhaldsfræðslunni eins og best verður á kosið.

Það er ekki lengra síðan en nú í morgun að ég las í blaði auglýsingu frá þeim framhaldsskóla sem hv. þm. Pétur Bjarnason fræðslustjóri nefndi. Þar var lýst eftir kennara nú þegar í einni af undirstöðukennslugreinum skólans. Það er þetta sem er kannski alvarlegasta vandamál framhaldsskólanna úti um landið, það er víða skortur á kennurum sem kunna vel þær greinar sem um er að ræða. Skólarnir fá oft ágæta kennara en þeim helst ekki á þeim nema skamman tíma. Við vitum að ýmsar ástæður liggja til þessa sem of flókið er að fara út í hér. Þetta er samt einn sá grundvallarvandi sem við er að etja.

Ég nefndi námsefni og námsgögn og þá er ég auðvitað um leið komin að fjármagninu og ákvörðun um það hvað þetta námsefni og hver þessi námsgögn eiga að vera. Þetta allt, kennararnir sjálfir, námsefnið og námsframboðið, ræður úrslitum um gæði og magn þeirrar þekkingar sem nemendur skólanna fá. Og það er það sem máli skiptir í starfi framhaldsskólanna sem annarra skóla á okkar landi.

Við viljum að út úr þessu kerfi komi fólk sem býr yfir góðri undirstöðuþekkingu í kjarnagreinum og sé hæft til að takast á við það sem við tekur eftir framhaldsskólanámið. Það leiðir mig til þess atriðis sem mig langaði sérstaklega að undirstrika í þessari umræðu, en það er nauðsyn þess að tengja betur skólastigin, að eitt skólastig hafi skilgreint vel fyrir næsta skólastigi á undan hvaða kröfur eru gerðar. Það er hægurinn hjá mætti segja að skapa þessa tengingu milli grunnskóla og framhaldsskóla þó að óneitanlega hafi stundum reynst brotalöm í þessu og þarf ekki annað en að vitna til ónógrar þekkingar í móðurmálinu á stundum. Við könnumst við það að hafa heyrt menntaskólakennara lýsa þessu ástandi eitthvað á þá leið að þeir væru ekki ráðnir til þess að kenna stafsetningu. Það er undirstöðuþekkingin úr grunnskólanum sem þarf að vera fyrir hendi. Framhaldsskólinn þarf að gera vel ljóst hvaða þekkingarkröfur hann gerir til þess að nemandanum nýtist það námsframboð sem í framhaldsskólanum er. Annað sem ég tel að ekki hafi verið nægilega sinnt hjá okkur af því það tekur alllangan tíma að koma því á er náið samstarf háskólastigsins og framhaldsskólastigsins, ekki einungis á þann veg sem gert er ráð fyrir í 39. gr. frv. þar sem rætt er um eftirlit með starfi framhaldsskólanna og talað er um eftirlitsnefnd þriggja manna með sérþekkingu á skólamálum, einn tilnefndur af Háskólanum, félagsvísindadeild, annar af Kennaraháskólanum og einn af menntmrn. Það er ekki þetta sem ég á við, heldur að það skapist miklu lífrænni tengsl milli einstakra háskólagreina og kennslugreinar í því fagi í framhaldsskóla. Við getum nefnt líffræði, við getum nefnt stærðfræði, við getum nefnt sögu o.s.frv. Það sé þannig algjörlega ljóst að framhaldsskóli sá sem útskrifar stúdenta skili fólki sem er mjög vel á sig komið til þess að takast á við háskólaverkefni. Á hinn bóginn þarf Háskólinn að sjá framhaldsskólanum fyrir kennurum. Auðvitað tekst þetta afar vel í mörgum tilvikum, en ég er ansi hrædd um að í sumum greinum sé nokkur misbrestur á þessu. Þegar undirbúningi stúdents er ábótavant er það oft og tíðum vegna kennaraskorts í greinunum. Umræðan um kennaraskortinn hefur á undanförnum árum fyrst og fremst snúist um það hvort menn hafi réttindi í uppeldis- og kennslufræði og þá í almennri uppeldis- og kennslufræði. Það hefur minna verið rætt um það að menn hefðu sérstaka þekkingu í kennslufræði hverrar sérgreinar fyrir sig. Það getur vel verið að það gefi tilefni til þess að hugleiða hvort ekki sé nauðsynlegt að endurskoða kröfurnar um uppeldis- og kennslufræði og flytja kennslufræðina meira inn í hverja sérgrein Háskólans fyrir sig til þess að betri árangur náist í ýmsum kjarnagreinum í framhaldsskólanum.

Mér er vel kunnugt um að margir sem starfa við háskóla hafa áhyggjur af þessu atriði og um þetta hefur oft verið rætt bæði meðal kennara þar og framhaldsskólakennara. Hitt er mér líka ljóst að þetta er afar viðkvæmt og var sérstaklega viðkvæmt kannski á meðan deilurnar risu sem hæst í sambandi við kjaramál kennara og tengsl þeirra við hin margnefndu réttindi. Við sjáum í blöðunum á hverjum einasta degi eitthvað um vanda vegna réttindaskorts en ég held að löggjöf um framhaldsskóla gefi tilefni til þess að hugleiða dálítið hvernig við stöndum í einstökum greinum sem kenndar eru í framhaldsskóla.

Þetta var um tengsl skólastiganna, annars vegar um tengsl grunnskólastigsins og framhaldsskólastigsins og hins vegar um tengsl framhaldsskólastigsins og háskólastigsins. Það hefur litla þýðingu að segja við sjálfan sig og vera fullur ánægju með það, við höfum framhaldsskóla í hverju byggðarlagi, ef hann fullnægir ekki hinum bestu kröfum sem gera verður til þekkingar þeirra sem þar stunda nám. Nemendunum er lítill greiði gerður með því að haga rekstri þeirra stofnana þannig að þeir séu þess ekki fullvissir að þar fái þeir hina bestu þekkingu á því skólastigi.

Eins og aðrir hv. þm. sem hafa tekið til máls lýsi ég ánægju minni með ákvæðið um fullorðinsfræðslu en geri þó nokkra athugasemd við einn þátt þess ákvæðis. Ég tel það mjög af hinu góða að festa fullorðinsfræðsluna í sessi. Það var gert með lítils háttar lagabreytingu núna fyrir fáum árum. Öldungadeildir höfðu starfað án formlegrar lagaheimildar þangað til. Ég tel skynsamlegt að festa þá starfsemi enn betur í sessi. Við höfum séð þess fjölmörg dæmi hve mikil áhrif öldungadeildirnar hafa á menningu og menntun þjóðarinnar. Ég get ekki látið hjá líða að minna sérstaklega á að þær hafa haft ótvíræða þýðingu fyrir konur í landinu. En margar konur hafa talið henta betur að stunda framhaldsnám síðar á ævinni en seint á tvítugsaldri. Fyrir þær hefur þetta verið ómetanlegt.

Sá þáttur þessarar greinar sem fjallar um fjarkennslu gefur tilefni til vissra ábendinga. Ég tel að ekki sé nóg að setja í lög að menntmrn. eigi að stjórna fjarkennslu. Vissulega er það af hinu góða að menntmrn. leggi sitt af mörkum til þess að styðja fjarkennslu en þar stendur bara svo á að við höfum afskaplega mikilvægt tæki í eigu ríkisins sem við eigum að nýta í þessu skyni og það er ríkissjónvarpið. Menntmrn. gæti þarna í samstarfi við ríkissjónvarpið lagt ómetanlega hluti af mörkum og hluti sem verða til mikils léttis t.d. fyrir þá sem stunda framhaldsnám úti um byggðir landsins. Þýðingu þessa tel ég að sé vert að undirstrika mjög rækilega og ég hlakka til þess þegar við sjáum það verða orðið almennt að sjónvarpið taki þátt í fjarkennslu þannig að fólk geti stundað fjarnám á heimilum sínum eða hvar sem er á landinu og það tengist svo með einhverjum hætti skólunum.

Að því er varðar stjórn framhaldsskólanna, þar sem segir í frv. að fræðsluráð skuli fara með stjórn framhaldsmenntunar í hverju fræðsluumdæmi, er ég ekki, með allri virðingu fyrir fræðsluráðunum, alveg sannfærð um að þetta sé það nauðsynlegasta. Í mörgum tilvikum getur slíkt fyrirkomulag komið sér mjög vel ef um er að ræða marga framhaldsskóla í umdæmi, en varðandi umdæmi þar sem kannski er einn framhaldsskóli, spyr ég: Er ekki eðlilegra að slík stjórn sé þá í höndum stjórnar þess skóla? Hví skyldi þá annað ráð, fræðsluráð í fjórðungnum eða umdæminu, stjórna framhaldsmenntuninni og svo ráðuneytið? Mér þykir sem við þurfum aðeins að vara okkur á of flóknu stjórnunarapparati í þessu kerfi. Ég styð þær hugmyndir að auka frelsi skólanna sjálfra, alla hvatningu til þess að þeir geti veitt sem besta og traustasta fræðslu en umfram allt ekki samræma allt of mikið.