21.10.1987
Neðri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

40. mál, Útflutningsráð Íslands

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 38 frá 5. maí 1986, um Útflutningsráð Íslands, sem er á þskj. 40. Breytingar þær sem í frv. felast og lagt er til að gerðar verði á lögunum um Útflutningsráð Íslands eru liður í nauðsynlegum breytingum á löggjöf í samræmi við samkomulag milli stjórnarflokkanna þriggja um nýja verkaskiptingu milli viðskrn. og utanrrn. Eftir breytinguna mun Útflutningsráð Íslands heyra stjórnarfarslega undir utanrrn. í stað viðskrn., enda er ætlunin að útflutningsörvandi starfsemi af opinberri hálfu verði framvegis á vegum utanrrn. Vonir eru við það bundnar að á þennan hátt megi virkja vel starfskrafta utanríkisþjónustunnar í þágu útflutningsiðnaðar og annarrar útflutningsstarfsemi.

Efni frv. er fjórþætt. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að eftir samþykkt frv. taki utanrrh. eða stjórn Útflutningsráðs ákvörðun um hversu oft almennir fundir ráðsins verði haldnir og utanrrh. eða sá sem hann tilnefnir boði til þessara funda og stýri þeim.

Í öðru lagi skipi utanrrh. stjórn ráðsins samkvæmt tilnefningu þeirra sem sæti eiga í því. Viðskrh. mun þó eftir sem áður tilnefna fulltrúa í stjórn ráðsins.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að Útflutningsráði Íslands sé heimilt að ráða viðskiptafulltrúa til starfa í sendiráðum að höfðu samráði við utanrrn. eitt í stað utanrrn. og viðskrn. áður.

Loks miða breytingarnar í fjórða lagi að því að utanrrh. geti samkvæmt tillögum stjórnar ráðsins sett nánari ákvæði um skipulag og starfsemi þess í reglugerð í stað þess að þessi reglugerðarsetningarheimild er nú í höndum viðskrh.

Allar þessar fjórar breytingar eru fyrst og fremst, og reyndar eingöngu, formlegs eðlis og breyta litlu eða engu um starfsemi Útflutningsráðs. Starfsemi þess er og á að vera fyrst og fremst á vegum útflytjenda sjálfra, enda eru sex af átta ráðsmönnum tilnefndir eða kosnir af þeim. Útflytjendur greiða einnig mestan hluta af kostnaði við Útflutningsráðið, en það er auðvitað skylda stjórnvalda að greiða fyrir að árangur af starfsemi ráðsins verði sem mestur og bestur. Ráðið hefur nú starfað í rúmt ár og virðist hafa farið vel af stað. Þess er vænst að Útflutningsráð geti orðið til þess að efla útflutning og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi í landinu.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.