21.10.1987
Neðri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

40. mál, Útflutningsráð Íslands

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir á þskj. 43 hefur orðið mér eftir nokkra athugun efni til athugasemda um þingsköp. Í lögum um þingsköp segir í 18. gr., með leyfi forseta:

„Lagafrumvörp skulu vera samin með lagasniði og skal prenta þau og útbýta þeim meðal þingmanna á fundi. Hverju frumvarpi skal fylgja stutt greinargerð fyrir tilgangi þess yfirleitt og skýring á höfuðákvæðum.“

Grg. þessa frv. er þrjár og hálf lina þar sem sú ein ástæða er nefnd fyrir frv. að Sláturfélagi Arnfirðinga skuli veitt sláturleyfi. Af hverju það er þjóðarnauðsyn er ósagt látið. Í sjálfum lagatextanum er svo fyrir lagt að „hæfur maður“ skuli annast heilbrigðisskoðun og, með leyfi forseta: ". ef dýralæknir fæst ekki til starfsins“. Ekkert er tekið fram hvernig sú hæfni skuli metin eða hvort ákvæði laga nr. 30/1966 gildi yfirleitt um það sláturleyfi sem hér er um að ræða, og ekki er frv. t.d. orðað svo að þrátt fyrir ákvæði laga nr. 30/1966 megi veita Sláturfélagi Arnfirðinga sláturleyfi o.s.frv.

Lagasetning sem þessi á sér tæplega líka og er vægast sagt hæpið fordæmi. Er auðvelt að sjá fyrir einstakar lagasetningar í framtíðinni sem henta kunna ákveðnum aðilum í þjóðfélaginu ef gildandi lög þjóna ekki sérhagsmunum þeirra. Ég bið hv. þingheim einnig að hafa í huga hvaða staða hér er sköpuð ráðherrum þjóðarinnar í nútíð og framtíð varðandi framkvæmd laga ef sett eru sérlög í þágu einstakra byggðarlaga þvert ofan í heildarlög landsmanna hvenær sem hv. þm. telja sér það henta. Hið háa Alþingi er til þess kjörið að setja allri þjóðinni lög, ekki ákveðnum hópum sem það hentar hverju sinni.

Herra forseti. Mér er fullkunnugt um þau vandræði sem þeir Arnfirðingar, sem mér sýnist nú fylla hér palla, standa frammi fyrir, en ég tel að á þessu umrædda frv. á þskj. 43 séu bæði forms- og efnisgallar sem ekki séu samboðnir hinu háa Alþingi. Ég vil því fara þess á leit við virðulegan forseta að frv. verði tekið út af dagskrá að sinni og kannað hvort það samrýmist lögum um þingsköp og hefðum hins háa Alþingis um lagasetningu.

Æskilegt væri að á meðan á þeirri athugun stendur væri reynt að leysa þann ágreining sem nú er uppi vestur á fjörðum á annan hátt en með lagasetningu því að mér eru þau vandamál, eins og ég hef áður getið, fullljós og þau þola vitaskuld enga bið. En lagasetning sem þessi til að leysa ágreining milli ráðherra og embættismanna um eitt ákveðið mál nær ekki nokkurri átt, virðulegi forseti, og ég mælist til að þetta mál verði athugað innan klukkustundar eða svo.