21.12.1987
Neðri deild: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3086 í B-deild Alþingistíðinda. (2177)

196. mál, söluskattur

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Það mál sem hér er á dagskrá og hefur verið rætt hér lengi dags er ekki eitt af þeim minnstu, eitt af þeim þýðingarminnstu, sem hér er um að fjalla þessa dagana.

Líklega hefur það aldrei gerst í sögu þingsins að aðrar eins annir hafi verið í desembermánuði um jafnviðamikil mál og nú eru. Árvisst er það að hér eru annir vegna afgreiðslu fjárlaga en nú er fjárlagaumræðan sjálf og fjárlagaafgreiðslan í rauninni lítið mál miðað við það annað sem er á dagskrá.

Þetta mál sem hér er á dagskrá í dag, söluskatturinn, er eitt af fjölmörgum öðrum frv. svipaðs eðlis þó að ekki fari á milli mála að þetta frv. er þýðingarmest af þeim öllum. Þegar litið er á tekjuáætlun fjárlagafrv. fer það ekkert á milli mála að söluskatturinn skiptir þar miklu máli.

Þegar hæstv. ríkisstjórn tók við völdum á sl. sumri var það hennar fyrsta verk að taka til hendi einmitt á þessu sviði með bráðabirgðalögum, bráðabirgðalögum sem ekki hafa hlotið staðfestingu enn en eru þó að hluta til nefnd í einni grein lagafrv. sem hér er sérstaklega til umræðu.

Það sem hæstv. ríkisstjórn gerði fyrst af öllu var að leggja 25% söluskatt á tölvur og farsíma. Það var fyrsta aðgerð hennar. Önnur aðgerð hæstv. ríkisstjórnar á þessu sviði var að leggja 10% söluskatt á unnin matvæli og ýmsa þjónustu og þá stefndi strax í þá átt sem við nú stöndum frammi fyrir. Þriðja aðgerð hæstv. ríkisstjórnar á sl. sumri var að leggja á nýjan bifreiðaskatt. Fjórða aðgerð hæstv. ríkisstjórnar á þessu sama sumri var að leggja á kjarnfóðurgjald. Fimmta aðgerðin var að leggja á gjöld fyrir ríkisábyrgðir. Sjötta aðgerðin var síðan að leggja skatt á erlendar lántökur.

Þessar aðgerðir, þessar sex aðgerðir, þýddu vitaskuld tekjuauka. Það lá fyrir strax við valdatöku hæstv. ríkisstjórnar að halli væri á fjárlögum. Svo hafði verið ráð fyrir gert við afgreiðslu fjárlaga á sl. ári. Tekjuaukinn við þessa skattlagningu í sumar átti hins vegar að verða ríflega milljarður nú á árinu 1987 og þessar breytingar sem þarna var fylgt úr hlaði áttu að þýða tekjuauka fyrir ríkissjóð upp á 3,7 milljarða 1988 samkvæmt því frv. til fjárlaga sem nú er í vinnslu.

Í fjárlagafrv. er hins vegar lögð á það mikil áhersla, mjög mikil áhersla, að boðuð er breikkun á söluskattsstofni. Breikkun á söluskattsstofni er hugtak sem þýðir það að söluskattur er lagður á miklu fleiri vörur en áður hefur verið og var ráð fyrir því gert að sá söluskattur yrði lægri en sá sem verið hefur í gildi hér undanfarið. Ég kem að því síðar í máli mínu. Þetta var sem sagt sjöunda atriðið í þeirri skattastefnu sem hæstv. ríkisstjórn rekur.

Áttunda atriðið var að leggja á 1% launaskatt til viðbótar þeim launaskatti sem fyrir er í lögunum. Þessi 1% launaskattur skyldi leggjast á þær greinar sem höfðu sloppið fram að þessu, þ.e. iðnað ýmiss konar og fiskvinnslu og jafnvel fiskrækt og annað fleira í þeim dúr. Aðeins landbúnaður skyldi sleppa. Þetta var samþykkt héðan frá hinu háa Alþingi fyrir fáum dögum. Þarna var um að ræða skatt sem lagður er sérstaklega á þær greinar sem nú eiga erfiðara en ráð var fyrir gert í haust, þ.e. útflutningsgreinarnar, um allan rekstur. Þetta er skattur sem sérstaklega bitnar á landsbyggðinni að auki og gengur þess vegna þvert á loforð í því efni sem áður höfðu verið gefin af hæstv. ríkisstjórn.

Þessar níu skattaráðstafanir allar áttu síðan að nema tekjuauka upp á 5,7 milljarða samkvæmt fjárlagafrv. 1988. Þegar hér er komið sögu er þó fjárlagafrv. enn með tekjuáætlun upp á 59,5 milljarða, þ.e. heildartekjur ríkissjóðs upp á 59,5 milljarða. Nú hefur það gerst sem öllum þingheimi og þjóðinni er í rauninni kunnugt eftir 2. umr. um frv. til fjárlaga að tekjuaukinn á milli umræðna hefur orðið 3 milljarðar röskir í viðbót og þar komum við einmitt að kjarna þess máls sem hér er á dagskrá, það er hækkun söluskattsins og breikkun skattstofnsins eins og hér er lagt til.

Það er langur tími síðan söluskattur var fyrst lagður á. Ég held að það hafi verið í upphafi viðreisnartímabilsins, í febrúarmánuði 1960. Það var lág prósenta í byrjun og fór hægt fyrstu árin. Þá var líka samsetning tekna ríkisins með allt öðrum hætti en er í dag. Þá voru tolla- og aðflutningsgjöld yfir 50% af tekjum ríkisins og þá var líka hlutfall tekjuskattanna hærra en nú er orðið. Nú hefur þetta gjörsamlega breyst og ekki síst með þeirri löggjöf sem verið er að vinna að hér þessa dagana þegar aðflutnings- og tollagjöldin verða komin niður úr þeim 11% sem þau eru í dag af tekjum ríkisins niður í líklega um 5%. Á móti er verið að vinna þennan tekjumissi ríkissjóðs upp, og hann er fenginn með þessum hætti á seinasta stigi viðskiptanna, sem næst heimilum og neytendum í landinu. Það er af hálfu þessara aðila talin heppilegasta leiðin, bæði til þess að ná skilvirkni í kerfinu og réttlæti. Ég mun líklega koma svolítið nánar að því atriði síðar í ræðu minni. En áður en ég geri það langar mig til að koma að þessu máli frá svolítið annarri hlið.

Þetta nýja hlutfall sem söluskatturinn er farinn að hafa í tekjuöflun ríkisins er þýðingarmikið atriði og það er fróðlegt að líta á þróun þess máls á undangengnum árum. Ég skal ekki fara lengra aftur en til ársins 1985. Þá er staðan þannig að 1985 eru hér vitaskuld afgreidd fjárlög eins og lög gera ráð fyrir og þá er ætlast til þess að tekjur ríkissjóðs af söluskatti verði 9 milljarðar 835 millj. kr. Þetta gekk vitaskuld eftir. Síðan líður árið 1985 og þegar það er til enda runnið eru tekjur ríkissjóðs ekki 9 milljarðar 835 millj. kr. heldur 10 milljarðar 724 millj. 565 þús. kr. Þetta skilaði sér sem sagt þann veg að þetta hækkaði í meðförunum til staðreyndarinnar, þegar skattheimtan var tekin af þjóðinni, um 9%.

Árið 1986 eru vitaskuld samþykkt fjárlög eins og lög gera ráð fyrir og þá er hækkunin ekkert lítil á milli ára. Þar sem áður höfðu verið lagðir á 9,8 milljarðar í söluskatt verða nú 14 milljarðar 335 millj. Hækkunin á milli ára á þessum tekjustofni var hvorki meiri né minni en 45,7%. En athugum nú hvernig þetta skilaði sér. Þetta er annálsvert ár, 1986. Það er annálsvert vegna þess að þetta er árið þegar hæstv. forsrh. fer suður til Ísrael til þess að greina frá því hvernig menn hér á landi ná þeim markmiðum að ná verðbólgustigi mjög niður á skömmum tíma. Þessa árs verður vafalaust lengi minnst í okkar sögu. Þá er innheimt af þessum 14 milljörðum og 335 millj. í söluskatt 14 milljarðar 443 millj. 756 þús. kr., þ.e. munurinn á þessu annálsverða ári í innheimtu var ákaflega lítill. Það hafði munað 9% árið áður en nú munar það 0,7%. Þetta er annálsvert ár fyrir margra hluta sakir, verðbólgan er á niðurleið, það er vinnufriður í landi, það er almennur skilningur meðal allra stjórnmálamanna, forustumanna í verkalýðshreyfingu, þjóðarinnar allrar, að það sé þjóðarnauðsyn að ná niður verðbólgu. Það sýnir sig m.a. á þessari staðreynd 1986.

Síðan, þegar þessi uppskera varð, eftir þjóðarsátt, eftir aðhald á mörgum sviðum, þó svo að ekki hafi verið hallalaus fjárlög á þessum tíma, gengur árið 1987 í garð og enn eru samþykkt fjárlög. Það er fróðlegt eftir þessa þróun 1986 að líta á tölurnar hvað söluskattinn varðar. Þá er samþykkt í fjárlögum ríkisins fyrir árið 1987 að söluskatturinn skuli verða 17 milljarðar 430 millj. kr. Hækkunin á milli ára frá því árið áður er 21,6%. Nú skyldum við ætla að svipuð þróun yrði, að svipað yrði innheimt af fólkinu og til var ætlast. Enn er vinnufriður í landi. Enn er mönnum ljóst hvert aðalatriði er í þessu efni að verðbólgustigið aukist ekki. Það var komið niður um 13–15% um þetta leyti og menn bjuggust við og markið var að komast kannski niður fyrir 10% verðbólgustig á þessu ári. 17 milljarðar og 430 millj. kr. skyldu innheimtast. Eftir upplýsingum sem okkur berast um þetta leyti, að vísu byggðum á upplýsingum frá því í septemberlok, er gert ráð fyrir því að innheimtir verði um 19 milljarðar 650 millj. kr., þ.e. 12,7% meira en ráð var fyrir gert í fyrra. Yfirleitt er reiknað með því í upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun að rösklega 10% muni í tekjuauka ríkisins frá því sem ráð var fyrir gert yfir sviðið allt þegar beinu skattarnir eru teknir með líka, innflutningsgjöld og allt heila klabbið. Slík skekkja mundi þýða fyrir næsta ár á sjöunda milljarð króna.

Ég geri ráð fyrir því að menn séu varla með það í huganum dags daglega hversu gífurlegar fjárhæðir er um að ræða og það er enginn vafi á því að það er fyrst og fremst í óbeinu sköttunum sem þetta misgengi verður.

Ég bið menn í framhaldi af þessu að athuga það að enn erum við auðvitað með fjárlagafrv. á milli handa og það frv. keyrir þó um þverbak að þessu leyti. Frv. í fyrra gerði ráð fyrir 17,4 milljörðum í innheimtu söluskatts sem verða 19,6. Þegar frv. er lagt fram núna í októberbyrjun var gert ráð fyrir 26,3 milljörðum kr. í innheimtu söluskatts. Eins og það stendur í dag frá fjvn., og kemur væntanlega til 3. umr. á morgun kl. 3 var ég að frétta rétt áðan, er þessi tala komin upp í 31 milljarð 860 millj. kr., þ.e. hækkun á þessum lið frá því að menn ræddu þessi atriði hér úr þessum ræðustól og annars staðar í þessum sal fyrir ári síðan er 82,78%, 82,78% hækkun. Síðan búast menn við því að hér sé unnið að fjárlagagerð sem annars vegar stuðli að lækkun verðbólgu, hins vegar að aðstæðum sem leggi grunn að kjarasamningum. Ég held að það ætti að vera augljóst hverjum einasta manni að þetta er ekki leiðin til þess að mynda þann grundvöll sem þar er nauðsynlegur, sérstaklega þegar menn athuga nánar hvaða atriði það eru einmitt hér í söluskattsstofninum sem eru ný og áhersla lögð á að ná til skattheimtu. Það er búið að ræða í allan dag um þetta atriði og það hefur ekki tekið hér til máls, að heita má, einn einasti maður sem mælir þessari leið bót.

Um þetta leyti í fyrra stóð hæstv. fjmrh. í þessum stól, væntanlega sem þáv. hv. þm. í stjórnarandstöðu, og hann lagði fram við 3. umr. fjárlaga ásamt flokksfélögum sínum ýmsar tillögur. Það er engin ástæða til þess að draga það undan að þessar tillögur sem hann lagði fram er hann að mjög verulegu leyti að framkvæma í dag. Þess vegna langar mig, hæstv. forseti, til þess að vitna til ummæla hæstv. núv. ráðherra um þessi efni á þessum vettvangi. Þm. Alþfl. lögðu þá fram tillögur við 3. umr. fjárlaga eins og ég sagði og hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir þeim markmiðum sem fylgdu tillögum þeirra. Með leyfi hæstv. forseta segir svo hér í þingtíðindum:

„Markmiðin sem við setjum okkur með þessum till. eru fyrst og fremst þau að draga úr háskalegum fyrirsjáanlegum verðbólguáhrifum [eðlilegt markmið!] af svo taumlausum hallarekstri í ríkisbúskapnum og tryggja þannig eftir því sem tök eru á að ríkisvaldið reyni að standa við sinn hlut að því er varðar nýgerða kjarasamninga.“ Þá voru kjarasamningar nýgerðir. Nú eru þeir ógerðir að öðru leyti en því að það er einn hópur í þessu landi sem er með kjarasamninga sem eiga að gilda út næsta ár. Það er e.t.v. í því skjóli sem er skákað í dag. Líklega eru um 25% af þeim fjárlögum sem hér verða væntanlega afgreidd launagjöld og þess vegna skipta þau auðvitað máli.

Síðan segir hér áfram með leyfi hæstv. forseta: „Þetta reynum við að gera með því:

1. að afla ríkissjóði nýrra tekna.“ Það er út af fyrir sig eðlilegt markmið og það hafa þeir hv. alþm. Alþfl. sannarlega ekki svikist um að reyna að koma í framkvæmd.

„2. Að takmarka skattaívilnanir fyrirtækja nú í miðju góðærinu,

3. að dreifa skattbyrðinni með réttlátari hætti eftir greiðslugetu.“ Þetta markmið er ákaflega þýðingarmikið og það er í rauninni lærdómsríkt að hafa það í huga núna þegar verið er að fjalla hér um söluskatt á mestu lífsnauðsynjum hvers manns. — Að dreifa skattbyrðinni með réttlátari hætti eftir greiðslugetu. Það fer auðvitað ekkert á milli mála hvar skattbyrðin af matarskattinum lendir þyngst. Það þarf ekkert að útlista það fyrir mönnum. Það er hverjum manni ljóst að skattbyrðin kemur þeim mun þyngra niður sem tekjurnar eru minni, sem framfærslan er þyngri, sem fjölskyldurnar eru stærri. Þetta er augljóst mál. En þetta var markmið þeirra alþýðuflokksmanna í fyrra, að dreifa skattbyrðinni með réttlátari hætti eftir greiðslugetu. En í gærkvöldi rann það upp fyrir mönnum að það gæti nú komið til greina að láta réttlætið koma svolítið betur út yfir fisk en ekki brauð. Auðvitað ekki brauð. Hugsanlega þó.

„4. að draga úr millifærslum til atvinnuvega af skattpeningum,

5. að hefjast handa um þá óumflýjanlegu kerfisbreytingu [ekki í sköttum] í ríkisrekstri sem felst í því að leggja niður nokkrar óþarfar ríkisstofnanir“ — það virðist hafa gleymst, þetta atriði frá því í fyrra eða er þá kannski eftir — „og ætla öðrum að afla meiri sértekna með sölu sérfræðiþekkingar og þjónustu. Miðað er við að sú breyting komi til framkvæmda um mitt næsta ár.“

Ég vil þó ekki draga undan að mér er kunnugt um eina ætlun í þessu efni sem er í sambandi við bifreiðaskoðun sem ég held að sé af hinu góða. En mig langar aðeins, hæstv. forseti, til að vitna svolítið frekar í orð hæstv. fjmrh. frá því fyrir ári. Hann segir hér nokkru síðar í ræðu sinni, þessari sömu ræðu í 3. umr. fjárlaga fyrir árið 1987:

„Í nál. okkar sem lagt var fram við 2. umr. fjárlaga segir svo um þetta efni, með leyfi forseta: „Síþensla ríkisútgjaldanna styðst ekki við neina markvissa heildaráætlun heldur er hún afleiðing undanlátssemi ríkisstjórna við sérhagsmuni og handahófskenndra skottulækninga sem gripið er til út frá skammtímasjónarmiðum án þess að skeyta um afleiðingarnar til lengri tíma litið. Fyrsta verkefnið er því að skilgreina hlutverk ríkisins upp á nýtt. Sérstaða Alþfl. meðal íslenskra stjórnmálaflokka er sú að hann er ekki þjónn neinna sérhagsmuna. Flokkurinn hefur lýst sig andstæðing ríkisforsjár og miðstýringar. Samkvæmt hugmyndum jafnaðarmanna er hlutverk ríkisvaldsins takmarkað en þýðingarmikið. Í efnahags- og fjármálum eiga afskipti ríkisvaldsins af efnahagslífi að lúta að almennum skilyrðum til atvinnurekstrar, að því að bæta umhverfi fyrirtækja en ekki að hafa áhrif á sjálfan rekstur þeirra. Ríkisvaldið á að forðast beina íhlutun í atvinnulífinu, nema í algjörum undantekningartilvikum. Það á að draga úr pólitískri stýringu fjármagns gegnum banka- og sjóðakerfi.“ — Þetta eru fögur markmið. — „Dýrkeypt reynsla af fjárfestingarmistökum liðinna ára hefur fært okkur heim sanninn um þetta. Í stað þess að eyða kröftum sínum í ótal afskipti, sem hafa skammvinn áhrif og oft beinlínis skaðleg, á ríkisvaldið að einbeita sér að fáum afmörkuðum sviðum sem það á hins vegar að sinna vei. T.d. á ríkisvaldið að tryggja þjóðinni gott skólakerfi og góða heilbrigðisþjónustu. Það á að beita fjárlögum ríkisins sem hagstjórnartæki til að draga úr sveiflum og treysta jafnvægi. Það á að beita þeim hagstjórnartækjum öðrum sem ríkisvaldið hefur yfir að ráða til þess að hafa áhrif á eigna- og tekjuskiptinguna í jafnaðarátt.“ Takið eftir því til þess að hafa áhrif á tekju- og eignaskiptinguna í jafnaðarátt. „Þetta á að gera í gegnum einfalt og skilvirkt skattakerfi, almannatryggingar, lífeyristryggingar og húsnæðislánakerfi.“

Ætli menn hafi komist nær þessu markmiði með nýrri samþykkt hins háa Alþingis í húsnæðismálum? Við skulum aðeins líta á þann þátt.

Það fyrsta sem heyrðist frá því ágæta kerfi eftir að sú löggjöf var samþykkt var þetta: Hluti þeirra 6000 aðila sem hafa beðið síðan í mars vegna þess að stjórnvöld stöðvuðu afgreiðslu fær kannski svör eftir einn til tvo mánuði um það að þeir fái e.t.v. úrlausn eftir eitt til tvö ár. Ætli þetta sé að leysa húsnæðisvanda þjóðarinnar á viðunandi hátt? Berja hins vegar höfðinu við steininn og eru ekki til viðtals um það að ræða lausn sem t.d. hefur falist í þeim frv. sem Borgarafl. hefur lagt fram, bæði í Nd. og Ed., þar sem gert er ráð fyrir að ganga þannig til verks í þessum málum að menn reyni að leysa þau til frambúðar en ekki á þann hátt að þvæla um hluti fram og aftur sem engu máli skipta.

Síðan segir áfram í þessari ágætu ræðu hæstv. fjmrh. frá í fyrra: „Í staðinn á ríkisvaldið að láta af handahófskenndum og einatt skaðlegum afskiptum af fyrirtækjarekstri, millifærslum og möndli í þágu sérhagsmuna.“

Ég skal segja ykkur eitt lítið dæmi: Í gær er stjórnarandstaðan sett nánast upp við vegg í fjölmiðlum og víðar út af tímaskorti hér fyrir jól. Þá kemur það upp úr dúrnum að hæstv. forsrh. leggur til, að vísu samkvæmt brtt. sem borgaraflokksþingmenn í Ed. höfðu lagt fram, að endurgreiða eða taka af söluskatt á fiskmeti. Það var þrautavaratillaga þeirra hv. þm. Júlíusar Sólnes og Guðmundar Ágústssonar. Jú, þá kom það fram í sjónvarpsfréttum í gær að þetta væri tilboð til stjórnarandstöðu, tilboð til verkalýðshreyfingar til þess að leggja grunn að samningum. Menn tóku þessu út af fyrir sig vel og þóttu þetta heldur góð tíðindi þó að sumir vildu að vísu brauð til viðbótar. En ég frétti það áðan að á fundi fjvn., sem hófst fyrir fjórum mínútum og ég er boðaður á, sé eitt af fjórum málum sem afgreiða á þar að leggja fyrir þingið til afgreiðslu á morgun að þessi tillaga hæstv. forsrh. verði samþykkt. Þetta kosti að vísu um 160 millj. kr. Gott og vel. Í staðinn á að leggja nokkurn veginn sams konar skatt á ákveðinn rekstur í landinu, þ.e. verslun með ilmvötn og snyrtivörur, sem sérstaklega mun verða til hjálpar Fríhöfninni í Keflavík. Þetta verður sjálfsagt allt saman staðreynd á morgun. En við skulum líta aftur á ræðu hæstv. fjmrh. frá því í fyrra. Þetta er sjálfsagt eftir þeirri forskrift sem þá var gefin:

„Í staðinn á ríkisvaldið að láta af handahófskenndum og einatt skaðlegum afskiptum af fyrirtækjarekstri, millifærslum og möndli í þágu sérhagsmuna.“

Ég veit ekki hvað er möndl í þágu sérhagsmuna ef ekki það sem hér er verið að fjalla um á þessum mínútum úti í Þórshamri. Hins vegar er það ekki möndl um sérhagsmuni að líta á það af hálfu Alþingis að fólkið í landinu, sérstaklega það fólk sem myndar undirstöðu þjóðfélags okkar, þeir sem framleiða þau verðmæti sem allt annað byggist á, á það skilið að til hagsmuna þess sé litið um skattheimtu eins og hér er uppi höfð með því frv. sem sérstaklega er til umræðu.

Mig langar, áður en ég held lengra í máli mínu, til þess að grípa svolítið aftur niður í ræðu hæstv. fjmrh. frá því í fyrra. Þar segir hann: „Í ljósi þessarar stefnu mun ríkisstjórn, sem Alþfl. á aðild að, beita sér fyrir heildarendurskoðun á ríkisbúskapnum. Í fjmrn. í höndum Alþfl. yrði unnið að þessu verkefni samkvæmt fjögurra ára áætlun.“

Þetta er alveg rétt og það er alls ekki nokkur ástæða til að draga fjöður yfir það að hæstv. fjmrh. gengur á þann veg til verks að hann ætlar sér að vinna þetta verk á fjórum árum.

Við skulum líta á forskriftina frá því í fyrra áður en við höldum lengra:

„Sem dæmi um slík viðfangsefni má nefna:

1. Skattakerfið og skipulag þess. Mótun nýrrar heildarstefnu í skattamálum.“ Og það er einmitt það sem við erum að byrja að fjalla hér um í dag.

„2. Húsnæðiskerfið og fjármögnun þess.“ Við höfum séð fyrsta skrefið hjá Alþfl. í þeim efnum og áhrif þess.

„3. Landbúnaðarstefnan frá sjónarmiði heildarhagsmuna og ríkisfjármála.

4. Atvinnufyrirtæki með þátttöku ríkisins.

5. Þjónustufyrirtæki ríkisins fyrir atvinnuvegina.

6. Heilbrigðisþjónusta, skipulag hennar og fjármögnun.“ Síðan er ýmislegt fleira í þeim dúr talið áfram upp.

En mig langar til þess að fjalla aftur um það mál sérstaklega sem hér er á dagskrá, skattakerfið, söluskattinn og áhrif hans.

Fyrir nokkrum vikum lagði ég áherslu á ákveðna hugmynd í stuttri þingræðu og hæstv. fjmrh. svaraði mér fáeinum orðum um þá hugmynd sem ég bar þar fram að ég þyrfti að athuga hana betur og ég þyrfti að leita mér frekari upplýsinga. Það er sjálfsagt alveg rétt hjá þeim vísa manni að þess þarf ég með. Sú hugsun sem þar lá að baki hefur hins vegar ekki látið mig í friði enn þann dag í dag og ástæðan er sú að grunnurinn að þeirri skattastefnu sem hæstv. fjmrh. leggur fram með því að leggja slíkt ofurkapp á hækkun söluskattsins sem hann gerir er að minni hyggju rangur og ástæðan er þessi:

Íslenskt þjóðfélag, íslenskt efnahagslíf er með allt öðrum hætti en í þeim löndum sem hæstv. fjmrh. og ýmsir aðrir vilja leggja að líku. Þar á ég við löndin í Evrópubandalaginu. Eitt megineinkenni flestra þessara landa, við skulum t.d. taka Danmörku eða Þýskaland, er það að um 80% af neysluvörum manna þar í landi er heimafenginn baggi, er unnið að verulegu leyti í landinu þar sem skattlagningin fer fram. Þetta er einkenni sem telja má nánast gegnumgangandi um flest lönd Evrópubandalagsins. Um 20% af því sem menn neyta á heimilum er innflutt. Hvernig eru aðstæðurnar hér að þessu leyti? Þveröfugar. Vafalítið eru um 80% af því sem flest venjuleg íslensk heimili neyta og nota dagsdaglega innflutt vara. Um 20% er sjálfsagt heimafenginn baggi. Það er þessi meginmunur á þjóðfélagsgerð okkar sem gerir það að verkum að það er röng stefna, það er í grundvallaratriðum röng stefna að ætla að beita hér sams konar kerfi út frá sömu sjónarmiðum og lögð er nú höfuðáhersla á til þess að nálgast aðstæður í Evrópubandalagslöndunum. Það er þess vegna sem við þm. Borgarafl. viljum fá það miklu betur grundað og skoðað að söluskattur á fyrsta stig viðskipta yrði meiri þáttur í þessum efnum en hér er lagt til.

Í þessum umræðum er stundum rætt um réttlæti og ranglæti og það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt þegar um svo viðkvæmt atriði er að ræða sem skattlagningu á mat. Ég kom í verslun hér í borginni í morgun á milli kl. 9 og 10 fyrir fund í sameinuðu þingi, og af tilviljun kom ég þar sem ung stúlka var að kaupa sér úlpu. Ég veit að vísu ekki hvort það var fyrir hana sjálfa eða einhvern annan. En svo vildi til að stúlkan hafði ekki nóg fyrir þessari úlpu, hún stóð þarna við búðarborðið með peninga í höndum og varð síðan að hverfa frá. Ég sá hvað hún var með. Ég sá hvað úlpan kostaði. Og mér datt í hug þessi munur sem þar var á milli, það var nokkurn veginn ríkishlutinn í viðskiptunum. Þetta er kannski lítið dæmi og þetta var fatnaður sem þarna var um að ræða. En þegar það fer að snerta hvert heimili í landinu. Hugsið þið ykkur, fjórðungur af andvirði matarins sem grundvöllur undir skattheimtu, aðalatriðið í skattheimtu til ríkisins sem hagar svo sínum útgjöldum á þann veg að stærstu málaflokkarnir, heilbrigðisgeirinn, menntakerfið, tryggingarnar og allt það — í fjvn. Alþingis er nánast ekki minnst á hin raunverulegu framkvæmdaratriði á þessum vettvangi. Það er nánast ekki minnst á þau. Fjvn. notar tíma sinn vikum og mánuðum saman til að taka á móti sveitarstjórnarmönnum af öllum landshlutum, sem koma algjöra erindisleysu til fjárveitingarvaldsins af því að það stendur ekki til, það stendur ekki á einn eða neinn hátt til að aka málum á þann veg að við þeim óskum verði orðið sem þar voru fram bornar.

Það er stundum talað um réttlæti og það er stundum talað um ranglæti og það er stundum talað um heiðarleika. Það er ekki langt síðan hæstv. ríkisstjórn lagði fram á þskj. í sameinuðu þingi 22. mál, þjóðhagsáætlun fyrir árið 1988. Þar er náttúrlega víða komið við eins og gefur að skilja. Og við skulum ætla að þetta mál sem hér er til umræðu, söluskattur á matvæli og söluskattur almennt, væri í grundvallaratriðum á sama hátt og lagt er til í þeirri þjóðhagsáætlun. Við skulum grípa þar niður. Ég sé að klukkan er að verða sjö og það er ekki orðið margt hér í salnum. Ég geri ráð fyrir því að fundi verði frestað um klukkan sjö. Er það ekki rétt, hæstv. forseti. (Forseti: Það er rétt, jú.) Já. Þess vegna langar mig áður en ég held lengra í máli mínu að grípa niður í þjóðhagsáætlunina. Þar segir í kaflanum um ríkisfjármál:

„Meginmarkmið stefnunnar í ríkisfjármálum er að koma á jafnvægi í ríkisbúskapnum, stokka upp tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og endurmeta útgjaldaþörf ríkisins og herða skattaeftirlit.

Jafnvægi í ríkisbúskapnum er mikilvægur þáttur í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Í starfsáætlun sinni markaði ríkisstjórnin þá stefnu að eyða hallanum á ríkissjóði á þremur árum.“ — Á þremur árum. Það var starfsáætlunin. Við vitum hvert markmiðið er í dag. — „Fyrsta skrefið í þessa átt var tekið á miðju sumri. Þegar ríkisstjórnin var mynduð voru gerðar ýmsar ráðstafanir til að afla ríkissjóði viðbótartekna á árinu. Annað skref í þessa átt eru aðgerðir þær í ríkisfjármálum sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa til nú í byrjun október. Loks verður skrefið stigið til fulls með fjárlagafrv. fyrir árið 1988 sem gerir ráð fyrir að ríkissjóður verði hallalaus á næsta ári.

Endurskoðun á tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs er annað veigamikið atriði í þessari stefnumörkun. Tilgangurinn er að gera skattkerfið einfaldara, skilvirkara og um leið réttlátara. Helstu þættir þessarar endurskoðunar eru:" — og nú bið ég menn að athuga.

„Veruleg fækkun söluskattsundanþága.“ Látum vera að þetta frv. hæstv. fjmrh. leiði til þess. En síðan segir í þessari áætlun sem hér er lögð fram fyrir þingið fyrir fáum vikum. „Jafnframt verði skatthlutfallið lækkað og miðað við eina álagningarprósentu.“

Fyrir örfáum vikum leggur hæstv. ríkisstjórn þetta plagg fram þar sem ætlast er til að skatthlutfallið verði lækkað. Það er búið að halda þessu fram allan tímann. Þetta hefur verð rauður þráður í þessari pólitík: Að lækka skatthlutfallið. Og það er gengið svo langt að ríkisstjórnin leggur það fram sem plagg í þessu máli í sameinuðu þingi að skatthlutfallið sé lækkað. (Forseti: Þar sem klukkan er nú orðin sjö vil ég inna hv. ræðumann eftir því hvort hann muni ljúka ræðu sinni eða hvort hann muni kjósa að halda áfram eftir kvöldmatarhlé.)

Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að segja mörg fleiri orð til þess að koma þeim aðalatriðum til skila sem ég hef reynt að leggja hér áherslu á. En þau eru í örfáum orðum að sá flokkur sem ég er fulltrúi fyrir, Borgarafl., er andstæður þessu frv. í allri grein. Fulltrúar hans í Ed. hafa lagt fram brtt. sem þar fengust ekki samþykktar. En það er okkur ánægja að kjarninn í úrslitatillögu okkar hefur náð á þann veg fram að ríkisstjórnin sjálf bauð það í gær sem sáttaatriði, leggur það fram í fjvn. í dag, það verður vafalaust afgreitt hér á morgun. Það er okkur umbun en við erum fráleitt ánægðir með þá niðurstöðu sem hér er um að ræða vegna þess að grundvallaratriðin í þessari stefnu, hæstv. fjmrh., eru röng. — [Fundarhlé.]