22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

4. mál, frysting kjarnorkuvopna

Svavar Gestsson:

Hæstv. forseti. Fá mál hafa verið til ítarlegri umræðu á undanförnum mánuðum í fjölmiðlum en sala Útvegsbankans. Það er ekki kostur á því í þessari tegund utandagskrárumræðu að fara ítarlega yfir málið enda í rauninni engin ástæða til. Efnisatriði þess eru kunn. Það sem liggur hins vegar á í þessu efni er að fá að heyra hér úr þessum ræðustól á hinu virðulega Alþingi hvaða hugmyndir ríkisstjórnin er með í þessum efnum núna og hvernig hún hyggst höggva á hnútinn og leysa það klúður sem hún er sjálf búin að koma þessu máli í.

Ég hygg að þó að þjóðina greini á um margt sé mjög víðtæk samstaða um það meðal landsmanna að meðferðin á Útvegsbankamálinu hafi verið klúðursleg. Núv. ríkisstjórn tók að vísu ekki við góðum arfi frá fyrri ríkisstjórn í þessu efni. Þorsteinn Pálsson, hæstv. núv. forsrh., lýsti því yfir í árslok 1985 að ekki kæmi til greina að leggja krónu inn í Útvegsbankann. Það tafði lausn málsins í heilt ár og Útvegsbankinn tapaði hálfum milljarði króna í innlánum vegna stöðugrar óvissu um meðferð málsins í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar.

Seðlabankinn gerði þá þrjár tillögur um Útvegsbankamálið. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar valdi fjórðu og að mati Seðlabankans verstu leiðina, þá einu sem væri í rauninni örugglega ófær. Ákveðið var með samþykkt á Alþingi í andstöðu m.a. við okkur alþýðubandalagsmenn að gera Útvegsbankann að hlutafélagsbanka. Á þjóðhátíðardaginn birtist heilsíðuauglýsing í öllum blöðum landsins þar sem viðskrn. tilkynnti að hlutabréf ríkissjóðs í Útvegsbanka Íslands hf. væru til sölu fram til 15. nóvember nk.

Þegar þetta lá fyrir var ekki búist við því að margir aðilar hlypu til og gerðu tilboð í Útvegsbankann. Það gerðist þó síðar á sumrinu að Sambandið og fleiri fyrirtæki tengd Sambandinu gerðu tilboð í bankann, tilboð sem jafngilti kaupum að mati langflestra lögfræðinga í landinu. Þessu tilboði hafnaði hæstv. núv. viðskrh. eftir að Þorsteinn Pálsson hæstv. forsrh. hafði hótað stjórnarslitum ef Sambandið fengi öll hlutabréfin í bankanum eftir að hæstv. forsrh. hafði látið fara fram skoðanakönnun um málið í forustusveit Sjálfstfl. þar sem reyndar voru fjölmargir þeirra 33 aðila sem höfðu gert tilboð á móti Sambandinu í hlutabréf í bankanum.

Viðskrh. byrjar síðan viðræður við báða tilboðsaðila og hefur nú haldið þeim áfram lengi, lengi, lengi. Engin niðurstaða liggur fyrir. Ráðherrann hefur reynt tvær aðalleiðir í viðræðum við aðilana.

Í fyrsta lagi bauð hann þeim Búnaðarbankann sem skiptimynt án lagaheimildar en því var hafnað í Sjálfstfl. en samþykkt af Framsfl.

Í öðru lagi bauð hann tilboðsaðilunum helmingaskipti. Það kemur í ljós nú að þessir aðilar hafa ekki áhuga á þeirri lausn og þá kemur upp sú sérkennilega sögulega staða að Alþfl. vill leiða helmingaskiptaflokkana til valda en helmingaskiptaflokkarnir vilja ekki helmingaskipti. Niðurstaðan er:

1. Tilraunir ráðherrans hafa mistekist. Það hefur ekki verið unnt að selja Útvegsbankann þó hann sé í raun boðinn á gjafverði.

2. Ráðherrann hefur ekki notað það tækifæri sem bauðst sl. sumar til þess að knýja fram sameiningu fleiri banka, þar með ódýrara bankakerfi í landinu.

Af hverju þarf að fækka bönkunum? Í fyrsta lagi til þess að tryggja ódýrari bankarekstur á Íslandi. Útvegsbankamálið er í uppnámi vegna þess að:

1. fyrrv. ríkisstjórn valdi verstu leiðina í málinu,

2. viðskrh. hæstv. hefur tekið málið vettlingatökum og hrokkið fyrir hótunum hæstv. forsrh.

Þess vegna legg ég fyrir hæstv. viðskrh. þessar spurningar:

Í fyrsta lagi: Hvað hyggst hæstv. ráðherra nú gera í málinu? Hyggst hann halda áfram viðræðum lon og don og telur hann líkur á því að þessir aðilar fáist til alvöruviðræðna og niðurstöðu áfram? En ég hef fregnir af því að áhugi þessara aðila beggja fari nú mjög þverrandi og þeir muni eftir skamma stund lýsa því yfir að þeir vilji helst ekki koma nálægt þessu máli frekar.

Í öðru lagi spyr ég hæstv. ráðherra: Hvenær hyggst hann tryggja það að niðurstöður liggi fyrir í málinu?

Í þriðja lagi spyr ég: Mun hann birta Alþingi og þjóðinni niðurstöður matsnefndar þeirrar sem er að störfum um fjárhag, eignir og skuldir Útvegsbankans?

Það er nauðsynlegt að ráðherrann flytji svör sín og skýringar úr þessum ræðustóli nú í þingbyrjun því að auðvitað verður málið að koma aftur til meðferðar á Alþingi. Við munum fyrir okkar leyti í þingflokki Alþb. hugleiða að flytja um þetta mál nýtt þingmál því að okkar afstaða er og hefur verið sú, herra forseti: Sameiningarleiðin er eina færa leiðin í þessum bankamálum og sú leið er enn fær þó að ríkisstjórnin núverandi hafi gert sitt besta til að spilla fyrir henni.