01.02.1988
Sameinað þing: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4096 í B-deild Alþingistíðinda. (2874)

199. mál, framtíðarhlutverk héraðsskólanna

Kristín Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Till. sem hér er á dagskrá er ákaflega þörf og góð og satt að segja mjög brýn. Tómlæti varðandi framtíð og afdrif héraðsskólanna er nokkurt áhyggjuefni því hér er um mjög mikil verðmæti að ræða sem þjóðin á og ber að varðveita og þá á ég ekki við í þröngum skilningi þess orðs og ekki aðeins hvað varðar þær byggingar sem snerta þetta skólahald beint heldur allt það sem í kringum þá er því í kringum þessa héraðsskóla er mikið líf, mikið mannlíf og þjónusta sem er í hættu. Það er atvinna og fjárfestingar og allt þetta er í hættu ef þetta skólahald leggst af eins og raunin hefur orðið sums staðar. Það er mjög brýnt að það verði með einhverjum hætti tekið á þessu og reynt að snúa við þeirri þróun sem nú er í gangi, þ.e. að finna skólunum nýtt hlutverk ef þeir ekki lengur nýtast eins og til var ætlast.

Ég þekki vel til á einum slíkum stað sem að vísu er einn af best settu stöðunum en engu að síður í verulegri hættu. Þar á ég við Laugaskóla í Reykjadal. Þar er skólasetur sem um langt árabil, reyndar nær 70 ár, hefur verið eitt helsta mennta- og menningarsetur í Suður-Þingeyjarsýslu og jafnvel þótt víðar væri leitað. Þar er mikil starfsemi í kringum þann stað sem hefur byggst upp um langt árabil, hægt og þó markvisst. Það er mjög mikil þjónusta í kringum þennan stað. Þar hefur byggst upp verslun og verkstæði, sparisjóður, póstþjónusta og íþróttasvæði. Fólk á þessu svæði er nú mjög kvíðið um framtíð staðarins og hvernig tekið verði á málum því það varðar þeirra líf og lífsafkomu hvernig tekið verður á því. Þarna hafa verið margir skólar, grunnskóli, héraðsskóli, sem nú er orðinn að hreinum framhaldsskóla með 9. bekk og áfram fyrstu bekki menntaskóla, og húsmæðraskóli, sem því miður er nú í algjöru tómarúmi eins og er, og þarna hefur um langt skeið verið mikil uppbygging sem eins og ég sagði áðan er í mikilli hættu og fólkið er kvíðið yfir því sem er að gerast og hvernig það muni þróast.

Við skulum ekki gleyma því að við erum ekki bara að tala um byggingar og fjárfestingar sem við viljum nýta. Við megum ekki gleyma mannlegum þætti þessa máls og að líf og afkoma fjölda fólks er undir því komið að það sé ekki horft sljóum augum á hnignun þessara fyrrum stórkostlegu mennta- og menningarsetra landsins.

Ég vil, virðulegi forseti, aðeins lýsa þeirri von minni að þessi þáltill. verði samþykkt og þessi nefnd skipuð og tekið á þessu máli eins og vert er.