01.02.1988
Sameinað þing: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4097 í B-deild Alþingistíðinda. (2876)

199. mál, framtíðarhlutverk héraðsskólanna

Alexander Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég hefði haft áhuga á að ræða þetta mál talsvert mikið, en af öðrum ástæðum var ég forfallaður þegar umræða hófst um þetta mál.

Ég álít að þetta sé ágæt till. og nauðsynleg í stöðu þessara mála í dag þegar rætt er um framtíðarhlutverk héraðsskólanna. Það hefur of lítið verið fjallað um þessi mál því að við erum hér að fjalla um stofnanir sem hafa haft að mínu mati heillavænlegri áhrif á íslenskt þjóðfélag á undanförnum áratugum en jafnvel nokkuð annað sem upp hefur komið í sambandi við þau mál sem snerta menntun og menningu þessa þjóðfélags. Héraðsskólarnir voru á sínum tíma bylting hér á landi og þeir hafa til síðari ára staðið undir því hlutverki sem þeir hugsuðir sem komu þessum skólum af stað á sínum tíma gerðu sér vonir um og kannski rúmlega það. Áhrif þessara skóla eru þess vegna enn gífurlega sterk meðal þjóðarinnar og það er þess vegna engin ástæða til að láta afskiptalaust hvernig framtíð þessara mála verður að því er varðar héraðsskólana.

Að sjálfsögðu hefur verið talsvert um þetta fjallað í menntmrn. í tíð margra hæstv. menntmrh. og ég skal ekki rifja það upp, en niðurstaðan er samt sú í alvöru að afsetja þessa skóla, miðað við þá sjálfkrafa þróun sem hefur orðið á vissum stigum í menntakerfinu á undanförnum árum. Þar á ég við fjölbrautaskólana sem ég er ekkert að lasta, en eigi að síður hefur gleymst og aldrei verið á því tekið að marka framtíðarstefnu í framhaldsskólamálum hér á landi þar sem þessu skólastigi hefði verið sýnd sú virðing sem því ber miðað við sögu þessa máls. Ég skal ekki fara meira út í það, en það sýnir sig núna að þegar á að fara að fella þessa skóla formlega út úr kerfinu gefast menntamálaráðherrarnir upp, eðlilega, vegna þess að þeir reka sig á að rætur þessara stofnana standa miklu dýpra og sterkara í íslensku þjóðlífi en menn hafa gert ráð fyrir. Þar af leiðandi hefur það komið m.a.s. nú upp í sambandi við meðferð fjárlaga fyrir þetta ár að það hefur verið hætt við þau áform sem ákveðin höfðu verið.

Ég tek þess vegna undir þáltill. og tel hana mjög tímabæra og hafði raunar gert ráð fyrir því, miðað við þau sinnaskipti sem urðu í viðkomandi ráðuneyti, að það færi fram ítarleg úttekt og umræða um hvernig þessir skólar eiga að þjóna framtíðinni.

Við þm. Vesturlands höfum miklar áhyggjur af okkar héraðsskóla, þ.e. Reykholti, sem er ekki aðeins héraðsskóli í augum þjóðarinnar heldur hin merkasta menningarstofnun sem er hér á landi, forsagan er slík, ef það á að horfa á að svona stofnanir grotni niður og verði að engu fyrir sinnuleysi ráðamanna þjóðarinnar. Það gengur ekki. Við stöndum núna frammi fyrir því að við erum með gífurlega uppbyggingu í Reykholti. Á fjárlögum þessa árs eru 15,2 millj. til að halda áfram uppbyggingu á mötuneyti og annarri aðstöðu sem skólann hefur skort og þar af leiðandi er ekkert smámál um að ræða og taka á því í alvöru hvað á að gera við slíkar stofnanir, hvaða hlutverki þær eiga að gegna í íslensku þjóðfélagi því það er af nógu að taka. Það þarf bara að ganga rösklega í að ræða og athuga þessa möguleika og átta sig á því að það er engin ástæða til þess að öll framhaldskennsla á Íslandi fari fram við Faxaflóa eða í Reykjavík eða á Reykjavíkursvæðinu. Það er af nógu að taka úti um land þar sem aðstaðan er fyrir hendi. Við megum ekki láta það henda á hv. Alþingi að þessum málum sé ekki sinnt, það sé bara hugsað að þetta gerist einhvern veginn. Þess vegna tek ég undir það hlutverk, sem þessari till. er ætlað, að það verði gerð raunhæf úttekt á þessu og sérfróðir menn fjalli um og við fáum að sjá slíkar hugmyndir og til framhaldsumræðu um þetta þarfa mál.