04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4234 í B-deild Alþingistíðinda. (2977)

Staðan í efnahags- og kjaramálum

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er athyglisvert þegar umræður eru hafnar hér á hinu háa Alþingi um stöðu í efnahags- og kjaramálum í tilefni af þeirri stöðu sem upp er komin í samningaviðræðum á almennum vinnumarkaði að ekki er af hálfu hæstv. málshefjanda minnst á það sem gerst hefur í kjaramálum að undanförnu. Það er ekki minnst á það einu orði að ráðstöfunartekjur hafa aukist að meðaltali um 18% á sl. ári á meðan þjóðartekjur aukast um 8%, að ráðstöfunartekjur aukast þannig meira en tvöfalt umfram aukningu þjóðartekna. Að öllu jöfnu þykir það góður árangur þegar kaupmáttur eykst nokkurn veginn í samræmi við aukningu þjóðartekna eða jafnvel lítið eitt meir. En hér hefur þetta átt sér stað, að kaupmáttur hefur aukist meira en tvöfalt umfram það sem þjóðartekjurnar hafa aukist annað árið í röð. Við höfum búið við tvö undanfarin ár mestu kaupmáttaraukningu sem við þekkjum (Gripið fram í.) og búum því við bestu lífskjör sem þessi þjóð þekkir.

Auðvitað er það svo að í þjóðfélagi frjálsra kjarasamninga og í frjálsu þjóðfélagi segja slík meðaltöl ekki allt um launaþróunina í landinu. Sumir hópar fá meira og aðrir minna. Þess vegna hafa menn upp á síðkastið rætt um að eðlilegt væri að kjarasamningar yrðu gerðir út frá því meginsjónarmiði að styrkja stöðu þeirra sem lakast eru settir. En almennt hefur því ekki verið andmælt að þegar við mætum nú nokkrum mótvindi eftir vaxtarskeið undangenginna tveggja ára og horfur eru á að þjóðartekjur minnki á næsta ári sé eðlilegt að kaupmáttur minnki að sama skapi að meðaltali. En það breytir auðvitað ekki því að eðlilegt er að menn freisti þess að takast á við það verkefni í kjarasamningum að bæta stöðu þeirra sem lakast eru settir. En menn mega ekki gleyma því að tvö undangengin ár eru einhver hagstæðustu ár sem launafólk hefur búið við að þessu leyti. Þau hafa skilað mestri kaupmáttaraukningu sem um getur.

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði hafa nú verið lausir frá því um áramót. Ég tek undir það með hv. 4. þm. Norðurl. e., málshefjanda í þessum umræðum, að það er áhyggjuefni þegar kjarasamningar dragast svo á langinn sem raun hefur orðið á. Það er skylda þeirra sem fara með samningamál, bæði fyrir hönd vinnuveitenda og launþega, að kappkosta að slík óvissa ríki ekki sem lausir kjarasamningar óneitanlega hafa í för með sér og að sitja þess vegna sem fastast við samningaborð og freista þess að ljúka samningum sem næst því sem þeir eldri renna út. Því miður hefur orðið misbrestur á þessu að þessu sinni og svo virðist sem nokkuð langur vegur hafi verið á milli sjónarmiða samningsaðila.

Fyrir skömmu voru gerðir kjarasamningar vestur á fjörðum. Þeir lutu fyrst og fremst að launum fiskvinnslufólks. Það hefur verið óumdeilt. Bæði hefur maður heyrt forustumenn atvinnurekenda og ekki síður forustumenn launafólks taka það fram að eðlilegt væri að rétta sérstaklega hlut fiskvinnslufólks og annarra launþegahópa sem eru í lægstu þrepum tekjustigans.

Ég hygg að þeir sem stóðu að samningunum vestur á fjörðum hafi haft það meginmarkmið í huga að gera kjarasamninga sem ekki þyrftu að valda miklum þrýstingi á gengi íslensku krónunnar, samninga sem gætu stuðlað að því að verðbólga lækkaði og samninga sem í raun yrðu til varnar þeim sem hafa lægri tekjur. Mitt mat á þessum samningum er að þeir séu gerðir fyrir þennan hóp og það séu ekki efnahagsleg rök til þess að þeir mælist upp allan launastigann, jafnt til þeirra sem hæst laun hafa og hinna sem lægst laun hafa. Ef við ætlum að ná þeim efnahagslegu markmiðum að koma hér á jafnvægi, koma í veg fyrir að verðbólga æði upp á við á nýjan leik eru ekki efnahagsleg rök til þess. En ég vona að við getum staðið við það og risið undir því að unnt sé að bæta á þann veg kjör þeirra sem lakast eru settir sem þar hefur verið samið um. En það gerist ekki ef hinir, sem hærri launin hafa, ætla að taka það sama til sín og það gerist ekki ef stjórnvöld ætla að stuðla að slíkri niðurstöðu. Þá fáum við verðbólgu með hefðbundinni kjaraskerðingu, kjaraskerðingu sem kemur verst við þá sem lakast eru settir. Þetta eru grundvallaratriði sem ég hygg að ekki séu mjög umdeild.

Ríkisstjórnin tók ekki beinan þátt í samningunum sem fóru fram vestur á fjörðum. Það fóru fram óformlegar viðræður við fulltrúa beggja aðila. Þeir komu undir lok síðasta árs að eigin frumkvæði á fund ríkisstjórnarinnar sameiginlega fulltrúar launafólks og atvinnurekenda til að ræða stöðu sjávarútvegsins, fiskvinnslunnar og afkomu launafólks í fiskvinnslu. Nú eftir áramótin áttu ráðherrar óformlegar viðræður við fulltrúa beggja samningsaðila og fylgdust mjög nákvæmlega með samningunum. En ríkisstjórnin tengdist ekki niðurstöðu þeirra með neinum formlegum hætti. Sama má segja um þær viðræður sem fram hafa farið síðustu daga á milli Verkamannasambandsins og vinnuveitenda. Ríkisstjórnin hefur ekki með formlegum hætti blandað sér í þær umræður, en ég hef átt óformlegar viðræður við forustumenn beggja samningsaðila, bæði launþega og vinnuveitenda, og ég veit að það hafa aðrir ráðherrar gert, svo sem hæstv. fjmrh. og hæstv. sjútvrh., þannig að ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti fylgst mjög gaumgæfilega með þessum viðræðum. En það er hlutverk, réttur og skylda og ábyrgð beggja samningsaðila að gera kjarasamninga og standa þannig að verki að sem stystur tími fari í þá óvissu sem jafnan er í þjóðfélaginu meðan kjarasamningaviðræður standa yfir og samningar eru lausir. Það er þess vegna áhyggjuefni að uppstytta skuli hafa komið í þessar viðræður.

Við verðum að ætlast til þess og kalla til þeirrar ábyrgðar, bæði af hálfu forustumanna atvinnurekenda og launafólks, að þeir komi að nýju að samningsborðinu og freisti þess að finna lausn á þeim vanda sem kjarasamningar eru hverju sinni og ekki síst við þær aðstæður sem við búum við í dag. Ábyrgð þeirra er auðvitað mikil í þessu efni. Það er óvissa í þjóðarbúskapnum, í þjóðlífinu öllu á meðan kjarasamningar eru lausir. Þeir ráða óneitanlega mjög miklu um framvindu efnahagsmála. Það eru ekki uppi áform um að taka þann rétt og þær skyldur af samningsaðilum. Ég vona að ekki megi skilja orð hv. 4. þm. Norðurl. e. á þann veg. Það skiptir þess vegna miklu máli að viðræður samningsaðila haldi áfram. Ég hef vegna þess að upp úr viðræðum slitnaði óskað eftir því að fulltrúar vinnuveitenda og launþega komi á minn fund á morgun og geri ríkisstjórninni grein fyrir stöðu samningaviðræðna og mati þeirra á því hverjar horfur eru á að samningar geti tekist á næstunni.

Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á hvort hyggilegra er fyrir aðila að semja til langs tíma eða skamms tíma. Það er efnislegt innihald samninga sem skiptir mestu máli fyrir launafólkið, atvinnufyrirtækin og þjóðarbúið í heild. Samningsaðilar verða að finna sjálfir þá leið sem skynsamlegust er í þessu efni. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir margsinnis fyrir sitt leyti að hún væri tilbúin til þess að taka þátt í slíkum viðræðum ef aðilar eru um það sammála, telja það líklegt til að greiða fyrir lausn mála. En forsendurnar eru auðvitað þær að samningsaðilarnir komi sér sjálfir að samningsborðinu.

Við höfum sérstakt embætti ríkissáttasemjara sem á að stuðla að því að sættir geti tekist með aðilum. Ríkisstjórnin ætlar ekki að taka það hlutverk að sér. Forsendan fyrir því að ríkisstjórn geti tengst niðurstöðu samninga er sú að aðilar komi sjálfir að samningaborðinu og finni flöt sín á milli til lausnar á þessum vanda. I annan stað er það algert skilyrði fyrir því af hálfu ríkisstjórnar að hún geti tekið þátt í lausn slíkra samninga að þeir séu þáttur í alhliða aðgerðum sem miða að því að draga úr verðbólgu, koma verðbólgunni verulega niður á þessu ári.

Við vitum að það er ákaflega lítill vandi fyrir atvinnurekendur og launamenn að semja um kauphækkanir í trausti þess að gengi krónunnar verði fellt og verðbólga æði af stað á nýjan leik. Það er einfaldasti hlutur í heimi og við höfum oft séð það gerast. Því miður hef ég sjálfur tekið þátt í gerð slíkra kjarasamninga og ég veit að margir hér inni hafa reynslu af því. En við höfum verið að vinna okkur út úr því fari, Íslendingar, og þessi ríkisstjórn ætlar ekki að taka þátt í því að við sökkvum á nýjan leik ofan í það far. Það sem þessi ríkisstjórn hefur ákveðið í efnahagsmálum miðar að því að ná niður verðbólgu og koma hér á jafnvægi í efnahagsmálum. Þetta er þess vegna forsenda fyrir þátttöku ríkisstjórnarinnar í hugsanlegum kjarasamningum.

Ég þykist vita það af yfirlýsingum forustumanna bæði launþega og vinnuveitenda að þeir eru í raun og veru tilbúnir að leita leiða að þessum markmiðum. Ég hef ekki orðið var við verulegan ágreining um þessi meginmarkmið. En við skulum gera okkur fulla grein fyrir því að það er vandi sem þessum mönnum er á höndum að finna eðlilega leið við þessar aðstæður til þess að verja stöðu þeirra sem lakast eru settir, gera kjarasamninga sem í heild leiða ekki til aukinnar verðbólgu, m.ö.o. að verja stöðu þeirra sem lakast eru settir en gera kjarasamninga í þágu hinna sem ekki mæla kaupmáttaraukningu. Þetta er ekki einfalt verk og báðum samningsaðilum mikill vandi á höndum. Kannski er það m.a. þess vegna sem það hefur dregist á langinn að viðræðurnar skiluðu einhverjum árangri þeirra í milli.

Meðan samningsaðilar sjálfir eru ekki komnir nær hvor öðrum en raun ber vitni er með öllu óraunhæft að vera með yfirlýsingar um það í hverju hugsanleg þátttaka ríkisvalds í lokaniðurstöðum samninga getur verið. Viljinn liggur hins vegar fyrir og forsendurnar liggja fyrir. Það vita samningsaðilar af óformlegum viðræðum. Ég vona að viðræðurnar á morgun geti leitt frekar í ljós hvaða horfur eru í þessu efni og hvaða líkur eru á að samningar geti tekist á næstunni.

Þessi ríkisstjórn gerði það að höfuðmarkmiði að ná niður verðbólgu og allar ákvarðanir hennar í efnahagsmálum hafa miðað að því markmiði. Það er útúrsnúningur í meira lagi, sem hv. málshefjandi hafði hér í frammi og maður hefur heyrt svo sem á talsmönnum stjórnarandstöðunnar stundum að undanförnu í málefnafátækt stjórnarandstöðunnar, að efnahagsstefna stjórnarinnar liggi ekki skýr fyrir. Þessi stjórn tók ákvarðanir þegar í upphafi, á fyrstu dögunum sem hún starfaði, á nýjan leik í byrjun októbermánaðar og grundvallaratriði liggja þess vegna afar skýr og ljós fyrir. Meginatriðin í þessari efnahagsstefnu eru stöðugleikastefna í gengismálum, aðgerðir til þess að koma á jafnvægi á fjármagnsmarkaði og aðgerðir til þess að ná jöfnuði í ríkisfjármálum strax á þessu ári. Þessu hefur verið fylgt eftir, ákvarðanir út frá þessum meginmarkmiðum hafa verið teknar og þær hafa náð fram að ganga og þær eru byrjaðar að skila árangri. Það er kannski þess vegna sem talsmenn stjórnarandstöðunnar tala með slíkum ólíkindum sem raun ber vitni að undanförnu.

Það voru teknar ákvarðanir í þessum efnum. Við væntum þess, þegar stjórnin tók við, vegna þess hverjar horfur voru þá um halla í viðskiptum við útlönd, að það væri verjandi að fara þá leið til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum að taka þau skref í áföngum á þremur árum og út frá því var unnið við upphaf fjárlagagerðar. Í septembermánuði lá hins vegar fyrir að horfur í þeim efnum voru miklu alvarlegri en áður var talið. Við töldum við þær aðstæður að það væri nauðsynlegt að fylgja af þeim sökum fram miklu fastari og ákveðnari aðhaldsaðgerðum en áður voru taldar nauðsynlegar. Þess vegna var fjárlagafrv. tekið upp á lokastigi í lok september og byrjun október og það var ákveðið að ná jöfnuði á þessu ári og fjárlög voru þannig afgreidd héðan frá hinu háa Alþingi. Það er býsna mikið verk og ekki einfalt, sem hv. þm. vita, að taka slíka ákvörðun og ná henni fram, jafnframt þeim miklu skipulagsbreytingum í skattamálum, umfangsmestu skipulagsbreytingum í skattamálum sem gerðar hafa verið, og ná þeim fram líka á skemmri tíma en svo umfangsmiklar ráðstafanir hafa áður náð fram að ganga á hinu háa Alþingi.

Það voru í byrjun októbermánaðar teknar ákvarðanir í peningamálum til að örva innlendan sparnað með ýmsu móti. Flestar þeirra ákvarðana eru þegar komnar til framkvæmda og þegar farnar að skila árangri. Aðrar eru á lokaundirbúningsstigi.

Vextir hækkuðu af þessum sökum, en það hefur haft þýðingu til að ná jöfnuði á fjármagnsmarkaðnum. Við skulum gera okkur grein fyrir því. Það verður ekki unnið hér gegn verðbólgu og ofþenslu nema það komi einhvers staðar við og ég veit að hv. talsmenn stjórnarandstöðunnar gera sér mætavel grein fyrir því.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði að tími væri kominn til að ríkisstjórnin hringdi í slökkviliðið því hún gæti ekki slökkt eldana sjálf. Ég skildi hv. þm. svo að hann væri að bjóða fram stefnu stjórnarandstöðunnar til lausnar á efnahagsvandanum. Hugum nú aðeins að því. Hver er sú stefna? Og hvert mundi það leiða ef farið hefði verið að ráðum stjórnarandstöðunnar í þessum málum?

Ríkisstjórnin stóð í stórræðum fyrir jól að koma fram umfangsmestu skipulagsbreytingum í tekjuöflunarmálum ríkisins sem gerðar hafa verið og náði þeim málum fram á skemmri tíma en áður hefur þekkst þrátt fyrir svolítið múður í stjórnarandstöðunni. Við fórum fram á að stjórnarandstaðan sýndi skilning á því að þessi mál þyrftu að ná fram að ganga fyrir jólaleyfi. Sá skilningur var ekki sýndur, en við áttum ítrekað fundi með talsmönnum stjórnarandstöðunnar um þau efni og á fundi 20. des. sagði stjórnarandstaðan: Hér eru okkar skilyrði fyrir því að þinghaldi ljúki fyrir jól. Skilyrðin voru þessi:

1. Að ríkissjóður verði rekinn með halla næstu þrjú ár þrátt fyrir þær upplýsingar sem fyrir lágu um vaxandi viðskiptahalla.

2. Að fallið verði frá allri viðbótartekjuöflun ríkissjóðs. Eðlileg afleiðing af fyrstu kröfu.

3. Að ríkisstjórnin lýsi því yfir að hún muni ekki grípa til efnahagsaðgerða í hugsanlegu jótaleyfi þm. Það var hv. 4. þm. Norðurl. e. sem bar málið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar. Ég þóttist svo sem skynja að það væri ekki mikil sannfæring í þessum málflutningi af hans hálfu. Ég þóttist svo sem skynja að hann sjálfur og hans flokkur hefðu orðið að sameinast um þau sjónarmið sem lýstu mestri óábyrgð og fyrirfinnast innan stjórnarandstöðunnar og hafði þess vegna svolitla samúð með hv. þm. og verð að taka það hér fram að það var mín tilfinning að sannfæring lægi ekki að baki. En þetta voru kröfurnar, þetta var stefnan sem lýst var. Hvernig væri ástatt í þjóðfélaginu í dag ef við hefðum orðið við þessum kröfum og tekið ákvarðanir í samræmi við þetta, ákveðið að reka ríkissjóð þrátt fyrir upplýsingar um vaxandi viðskiptahalla með margra milljarða halla á þessu ári? Við tókum slíkar ákvarðanir í tengslum við þjóðarsáttina 1986 af því að þá var jöfnuður í viðskiptum við útlönd. En það er fullkomlega ábyrgðarlaust að gera slíkt við þessar aðstæður. Þetta var það eina sem stjórnarandstaðan bar fram sem lausn af sinni hálfu, sem stefnu af sinni hálfu.

Ef hún hefði fengið að ráða og það hámark ábyrgðarleysisins sem finnst innan stjórnarandstöðunnar hefði fengið að ráða og ég er ekki að væna hv. 4. þm. Norðurl. e. að vera í raun og veru talsmann fyrir, þá stefndi hér í ringulreiðarverðbólgu, óðaverðbólgu og kjaraskerðingu. Þetta eru þeir kostir sem fólkið í landinu hefur að velja um: þetta tilboð, sem lagt var fram af hálfu stjórnarandstöðunnar 20. des. sl., og þá stefnu sem fylgt hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar. (SJS: Ég var að biðja þig að útskýra eigin stefnu, ekki okkar.) Það getur vel verið að það taki á þegar verið er að koma niður verðbólgu og það finnist fyrir því. En sú stefna sem stjórnarandstaðan hefur boðað, það slökkvilið sem stjórnarandstaðan hefur verið að bjóða fram slekkur ekki elda. Það er olía á eld. (SJS: Viltu ekki reyna að svara fyrir stjórnina?) Það er olía á eld. Ég finn að hv. 4. þm. Norðurl. e. er illa sætt undir þessum upplýsingum. Stjórnarandstaðan gaf út fréttatilkynningu eftir þennan fund, en hafði ekki kjark til að taka fram í henni það sem hún sagði á fundinum sjálfum um að tillagan væri um þriggja ára hallarekstur og að falla frá viðbótarskattheimtu eða tekjuöflun ríkisins á þessu ári, hafði ekki kjark til þess að segja það í fréttatilkynningunni sem sagt var á fundinum. Á að treysta slíkum mönnum til þess að vera slökkvilið þegar við erum að kljást við alvarlega verðbólgu?

Hugum þá að stöðu og horfum í efnahagsmálum. Það er ljóst að eftir mikinn hagvöxt undanfarin ár eru líkur á því að á þessu ári verði stöðnun, ekki aukning þjóðartekna, jafnvel nokkur samdráttur. Þar á ofan bætist sá vandi sem leiðir af lækkun bandaríkjadals og hefur valdið rýrnun viðskiptakjara, dregið úr kaupmætti útflutningstekna. Vandinn sem við er að etja er auðvitað fólginn í því að innflutningur dregst ekki saman í hátt við minnkandi útflutningsframleiðslu og við þurfum að taka ákvarðanir um aðhald í samræmi við þetta. Hagur atvinnufyrirtækjanna er erfiður við þessar aðstæður.

Þjóðhagsstofnun hefur áætlað að miðað við rekstrarskilyrði í janúar sé botnfiskvinnslan rekin með halla á bilinu 3,7–5% eftir því við hvaða ávöxtunarkröfur stofnfjár er miðað. En hagur frystingar og söltunar er misjafn eins og oft vill verða í fiskvinnslu. Þess vegna er það mat stofnunarinnar að frystingin sé rekin með 7 til rúmlega 8% halla á meðan söltunin skili hagnaði sem svarar 1,5–2,6%. Þessar tölur eru auðvitað háðar miklu mati og geta m.a. breyst eftir því hvert fiskverðið er og við hvaða verði einstakir framleiðendur eru að kaupa sinn fisk og vafalaust eru einhverjir sem geta sýnt meiri hagnað en þetta, en aðrir sem geta sýnt tap.

Það hafa þegar verið teknar ákvarðanir í tengslum við viðræður sem ríkisstjórnin hefur átt við forustumenn fiskvinnslunnar sem miða að því að bæta rekstrarstöðu hennar. Þar er í fyrsta lagi um það að ræða að greiða út uppsafnaðan söluskatt sem ákveðið var að frysta á miðju si. ari þegar hagur sjávarútvegsins var betri og nauðsynlegt var að slá á þenslu með öllum tiltækum ráðum. Þá hafa verið teknar ákvarðanir um skuldbreytingar á opinberum gjöldum og til umræðu hafa verið frekari endurgreiðslur á uppsöfnuðum söluskatti en fjárlög gera ráð fyrir. Niðurstaða er ekki fengin af þeim umræðum, m.a. vegna þess að það er ekki vandalaust að mæta slíku tekjutapi fyrir ríkissjóð og það er ætlan ríkisstjórnarinnar að halda jöfnuði í ríkisfjármálum þó að leitað sé leiða til að slaka á í þessu efni vegna rekstrarvanda útflutningsframleiðslunnar. Það fer auðvitað eftir því hvernig slíkum ákvörðunum verður endanlega háttað og hversu víðtækar þær verða hvaða töluleg áhrif þær hafa á afkomu vinnslunnar.

Hagur útgerðar hefur verið miklu betri en vinnslunnar og er það enn og er talið að botnfiskveiðar standi nú í járnum miðað við skilyrði í janúar 1988. En auðvitað eru þessar tölur meðaltalstölur eins og aðrar og aðstæður einstakra skipa og mismunandi tegunda skipa, milli báta og togara, ólíkar að þessu leyti. En hluti af vanda fiskvinnslunnar stafar auðvitað af því að uppsveiflan í sjávarútveginum hefur að stærstum hluta orðið eftir í útgerðinni en ekki skilað sér með sama hætti til vinnslunnar og það kemur niður á fyrirtækjunum og launafólkinu í fiskvinnslunni. En uppsveiflan hefur orðið og orðið eftir í útgerðinni og auðvitað hljótum við að fagna því að rekstur hennar hefur gengið betur en oft endranær.

Það hafa verið blikur á lofti í verðlagsmálum. Markmiðið með heildarráðstöfunum ríkisstjórnarinnar er að draga úr verðhækkunum. Vísitalan hækkaði um rúmlega 3,7% í byrjun þessa mánaðar, að langstærstum hluta til vegna þeirra breytinga sem

gerðar voru á söluskattslögunum, fækkun undanþága í söluskatti og þeirri tekjuöflun sem nauðsynleg var til að treysta stöðu ríkissjóðs. Áhrifin af lækkun tolla og einföldun tolla- og vörugjaldskerfisins voru ekki við upptöku vísitölunnar komin fram. Það er nú reiknað með að vísitalan í byrjun þessa mánaðar hækki um 1–1,5%, þ.e. að frá 3,7% hækkun í byrjun janúar komi hækkun upp á 1–1,5% og þó eru ekki komin fram öll áhrifin af lækkun tolla við þá verðupptöku.

Það hefur líka komið fram að byggingarvísitalan í janúar lækkaði um 1/2% á milli mánaða í kjölfar þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin greip til. M.ö.o. sýna þessar tölur að það eru allar líkur á því og allir möguleikar á því að verðbólga geti gengið hér nokkuð örugglega niður á þessu ári ef við missum ekki út úr höndunum þann árangur sem þegar hefur náðst og slökum ekki á í þeirri aðhaldsstefnu sem mörkuð hefur verið. Það er grundvallaratriði. En þessar tölur sýna að árangurinn er að byrja að skila sér og það eru allar líkur á því að við náum þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. Ég hef ekki ástæðu til að ætla að þeir aðilar sem nú standa í kjarasamningum muni komast að niðurstöðum sem raski þessum markmiðum. Ég þykist vita að vilji þeirra stendur til þess að ná verðbólgu niður því það er höfuðatriði, meginatriði fyrir launafólkið og atvinnufyrirtækin í landinu.

Einn þáttur í aðgerðum ríkisstjórnarinnar voru aðgerðir í peningamálum sem miðuðu að því að örva innlendan sparnað. Það hefur farið fram veruleg umræða um vexti. Stefnan sem ríkisstjórnin hefur fylgt byggist á þeirri löggjöf sem samþykkt var á fyrra kjörtímabili og óumdeilt hefur skilað verulegum árangri í þá veru að halda uppi innlendum sparnaði. Ég get hins vegar tekið undir að vextir hér á landi eru of háir og við þolum það ekki til lengdar, hvorki atvinnufyrirtækin né heimilin, að vextir séu jafnháir og þeir eru. En þeir eru óneitanlega þáttur í því að tryggja hér jafnvægi á fjármagnsmarkaðnum og forsenda fyrir því að þeir lækki er að við náum tökum á verðbólgunni og eftir þeim grundvallaratriðum verður farið og hvergi hvikað né slegið af í þeim aðhaldskröfum og þeirri aðhaldsstefnu sem mörkuð hefur verið.

Í skýrslu Seðlabankans frá því í desember kemur fram að meðalvextir óverðtryggðra skuldabréfalána banka og sparisjóða voru um 4,7% á árinu 1987 borið saman við 4,3% árið 1986 og meðalvextir verðtryggðra skuldabréfa banka og sparisjóða voru 7,7% árið 1987 og 5,2% árið 1986. Vextir hafa verið háir hér eins og hjá öðrum iðnríkjum og í skýrslu Seðlabankans kemur fram að meðaltal raunvaxta hér á landi á árinu 1987 virðist vera mjög svipað og annars staðar í iðnvæddum ríkjum. Auðvitað hefur sú óvissa sem nú ríkir um lausn kjaramála áhrif í þessu efni í þá veru að halda uppi vöxtum. En þegar niðurstaða hefur fengist á þeim vettvangi og þeirri óvissu hefur verið eytt og ljóst liggur fyrir að ríkisstjórnin ætlar ekki að hvika frá sínum markmiðum mun verðbólga smám saman ganga niður og vextir lækka.

Hver hefur árangurinn verið? Menn segja gjarnan: Þessi vaxtastefna hefur ekki skilað neinum árangri til að ná jöfnuði á fjármagnsmarkaðnum. Því hefur verið haldið fram að útlán hafi aukist meira en innlán. Við skulum skoða þetta aðeins. Hvað hefði gerst með innlánin ef þessari vaxtastefnu hefði ekki verið fylgt fram? Hvernig hefði þá farið í þeim efnum?

Við verðum líka að hafa í huga að þó að útlánin hafi aukist á tímabili meir en innlánin varð innlánsaukningin umfram aukningu lánskjaravísitölu og það er alveg ótvíræður vottur um að þessi stefna í peningamálum hefur skilað árangri að því markmiði að ná hér jafnvægi og örva innlendan sparnað. Þannig jukust bundin innlán og almennt sparifé um 34% meðan lánskjaravísitalan hækkaði um 21% á tímabilinu frá því í nóvember 1986 fram til nóvember 1987. Það er um 10–11% raunaukning. Á síðustu vikum benda tölur um innlán og útlán banka til þess að nú hafi þróunin enn snúist við og innlánin vaxi nú hraðar en útlánin. Fyrstu þrjár vikur janúarmánaðar jukust þannig innlán banka um 2,9% meðan útlánin drógust saman um 1,6%. Við verðum auðvitað að spara ef við ætlum að vinna okkur út úr erfiðleikunum. Við verðum að halda uppi innlendum sparnaði ef við ætlum ekki að sökkva í erlent skuldafen á nýjan leik. Auðvitað hafa háir vextir einhver verðlagsáhrif. Það kom fram hér mjög skilmerkilega í ræðu hv. 1. þm. Vestf. í gær að vegna samkeppnisstöðu fyrirtækja fer því víðs fjarri að þessir háu vextir komi allir fram í verðlagi. En einhver áhrif hefur það. Því skulum við gera okkur fulla grein fyrir. Hitt er hins vegar mikilvægara að þetta jafnvægi raskist ekki því að við höfum of mörg dæmi um það. Falli sparnaðurinn innan lands sökkvum við í erlend skuldafen með eðlilegum verðbólguafleiðingum. Við ætlum okkur ekki að gera það og verðum þess vegna að ganga í gegnum þetta þangað til verðbólgan er komin niður. Nú sjáum við merki þess að hún er á niðurleið ef menn hvika ekki frá aðhaldsstefnunni. Þetta má segja að séu höfuðatriðin.

Það er jafnan rætt í þessu samhengi um gengisstefnuna. Ég tók það fram að stöðugleiki í gengismálum væri höfuðforsenda fyrir þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefði fylgt, forsenda fyrir árangri í baráttu við verðbólgu og í þeirri viðleitni að verja kaupmátt launa. Ég tek hins vegar heils hugar undir það með hv. 4. þm. Norðurl. e. að þessi mál verða menn að ræða af mikilli varfærni og allar ótímabærar yfirlýsingar þar um eru varhugaverðar.

Raungengi krónunnar hefur hækkað. En menn eru almennt orðnir sammála um að það þjóni ekki tilgangi að fella gengi krónunnar upp á gamla mátann einfaldlega í samræmi við kostnaðarhækkanir innan lands, draga þannig úr öllu aðhaldi og kalla yfir okkur nýjar kostnaðarhækkanir, skilja atvinnuvegina eftir í sömu sporum og uppskera aðeins verðbólgu. Stærstur hluti af kostnaði útflutningsframleiðslunnar, fiskvinnslunnar, ekki síst frystingarinnar, er svo nátengdur þáttum sem ráðast af gengi. Fiskverðið, sem er yfir helmingur af kostnaðinum, ætli það mundi ekki breytast ef gengi yrði breytt svo einhverju muni? Þar með hækkaði helmingurinn af kostnaðinum um leið. Fjármagnskostnaðurinn, eins og hér hefur komið fram, er sjálfsagt kominn yfir 20%, allur tengdur gengi. Launin eru að breytast. Umtalsverð gengisfelling mundi þess vegna ekki skila sjávarútveginum neinu. Hann stæði í sömu sporum eftir sem áður. Það eina sem við hefðum fengið upp úr krafsinu væri aukin verðbólga. Þess vegna verða menn að fara gætilega í þessu efni. Þess vegna er það hyggileg stefna sem hér hefur verið fylgt og þessi ríkisstjórn hefur ekki látið hrekja sig frá þó að uppi hafi verið ýmsar raddir og háværar kröfur þar að lútandi vegna þess að það er forsenda fyrir því að við náum okkar markmiðum.

Þessi þrjú grundvallaratriði standa þess vegna óhögguð: sem mestur stöðugleiki í gengismálum, jafnvægisstefna í peningamálum sem heldur uppi innlendum sparnaði og jöfnuður í rekstri ríkissjóðs. Og það er alveg sama hvað menn hamast og heimta tilslakanir á þessum grundvallaratriðum efnahagsstefnunnar. Þær verða ekki gerðar vegna þess að við ætlum okkur að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið.

Það er vandasamt að gera kjarasamninga við þessar aðstæður, en ég hef trú á að sá skilningur sé fyrir hendi af hálfu þeirra sem mesta ábyrgð bera í þeim efnum að menn leiði þau mál til lykta á grundvelli þessara markmiða. Þar á bak við eru sameiginlegir hagsmunir, ekki síst lágtekjufólksins í þessu þjóðfélagi. Mesta ógæfan sem fyrir kæmi vegna lágtekjufólksins væri sú að verðbólgan færi upp á við á nýjan leik. Það kann að vera erfitt og reyna á að fylgja fram aðhaldsstefnu og menn kunna þegar heitast brennur eldurinn að vilja gefa eftir, en við verðum að ná þessum markmiðum og fylgja þess vegna fram þeirri grundvallarstefnu sem hefur verið mörkuð og ná þeim markmiðum. Það hefur mikið verið gert á skömmum tíma. Verðbólgan fór upp á síðasta ári of mikið og við höfum ekki séð verðbólgutölur eins og við sáum í byrjun janúar sambærilegar síðan í janúar 1985 og það er sannarlega áhyggjuefni. (ÓÞÞ: Í janúar á þessu ári.) Í janúar á þessu ári voru verðbólgutölurnar sambærilegar við það sem var í janúar 1985 og slíkar tölur höfum við ekki séð síðan. Þetta veldur okkur áhyggjum. Þetta hlýtur að hvetja okkur til þess að standa fast og einarðlega á þeirri aðhaldsstefnu sem mörkuð hefur verið, sett hefur verið í framkvæmd og fylgt verður. Og við sjáum merki þess að þessi stefna er að skila árangri ef menn gefa ekki eftir.

Ég ítreka það að ég vænti þess að sú óvissa sem nú er fyrir hendi í kjaramálum vari ekki lengi. Ég mun eiga viðræður á morgun við fulltrúa aðila til þess að meta frá þeirra hendi hverjar horfur eru í þessum efnum. Við munum halda áfram því starfi sem hefur verið á döfinni undanfarnar vikur. Þegar hafa verið teknar ákvarðanir í ýmsum efnum varðandi rekstrarskilyrði fiskvinnslunnar, sem ég hef þegar greint hér frá. Þar eru ýmis atriði enn óleyst og ég vænti að við munum komast að niðurstöðu þar um í svipaðan mund og við finnum sameiginlega, Íslendingar, lausn á þeim vanda sem er að gera upp kjarasamninga, ákvarða tekjuskiptingu við þessar vandasömu aðstæður, að þjóðartekjur eru heldur að minnka. Kaupmáttur hefur vaxið. Við þurfum að verja stöðu þeirra sem lakast eru settir án þess að það æði upp allan launastigann og leiði til nýrrar verðbólgu. Ég trúi því að um þessi meginmarkmið sé býsna mikill samhugur meðal íslensku þjóðarinnar.