08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4358 í B-deild Alþingistíðinda. (3012)

52. mál, mótmæli gegn stækkun kjarnorkuendurvinnslustöðvar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Vegna orða hv. 3. þm. Norðurl. e. vil ég minna þingheim á að fyrir Alþingi liggur frv. um aðgerðir til að draga úr, eftir því sem kostur er, hættunni á því að óhöpp verði vegna umferðar kjarnorkuknúinna farartækja eða vegna flutninga kjarnorkukleyfra efna um íslenska lögsögu. Þetta er 65. mál, frv. sem liggur fyrir Nd. og fór til allshn. deildarinnar 10. nóv. ef ég man rétt. Ég vildi að það kæmi fram að þinginu er í sjálfu sér ekkert að vanbúnaði hvað þetta varðar. Málið liggur þegar fyrir og ef áhugi er á því þá tel ég nauðsynlegt að menn láti ekki við það eitt sitja að mótmæla, svo sjálfsagt sem það er, þessari uppbyggingu í Skotlandi heldur líti sér nær og reyni að gera það sem í okkar valdi stendur til að draga úr þeirri vá sem vissulega stafar af þessum sökum. Sú hætta verður mönnum æ betur ljós með hverju árinu sem líður. Ég held að það sé þess vegna fyllilega tímabært og meira en svo að ég geti tekið undir það með hv. 3.þm. Norðurl. e. að við förum að sinna þessum málum betur en gert hefur verið.

Ég lít á samþykkt þeirrar tillögu sem hér er flutt af hv. utanrmn. sem gleðilega vísbendingu um það að við séum að vakna til meiri meðvitundar um það hversu alvarlegir hlutir eru hér á ferðinni og þess vegna vonast ég til að menn skoði af sama velvilja það frv. sem ég hef nú minnt hér á, 65. mál þingsins.