16.02.1988
Neðri deild: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4651 í B-deild Alþingistíðinda. (3217)

271. mál, framhaldsskólar

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns byrja á því að fagna þessu frv. til laga um framhaldsskóla sem hér er flutt. Það er sjálfsagt öllum hér kunnugt, eins og hefur nú raunar komið fram fyrr í máli manna í dag, að þetta mál á sér nokkuð langa meðgöngu, búið að vera á dagskrá raunar allar götur síðan lög um skólakerfi voru samþykkt hér á hinu háa Alþingi og raunar grunnskólalögin í framhaldi eða um leið 1974.

Þá þegar, árið 1974, var byrjað að undirbúa þessa löggjöf og hún mun hafa verið undirbúin og unnin vísast í tíð velflestra menntmrh. sem síðan hafa setið hér á landi. Það hefur komið fram að sumir þeirra hafa lagt fram frv., aðrir ekki, sumir einungis til kynningar, en engu að síður hefur veruleg þróun orðið á þessu sviði um allt land sem hefur byggst á einni lagasetningu sem eru lög nr. 14 frá 1973. Ef ég man rétt þá er sú löggjöf sjö, átta greinar, eitthvað þar um bil, já, átta greinar. Og það er í rauninni 7. gr. þeirrar löggjafar sem öll þessi þróun, sem við höfum séð undanfarin 13–14 ár um allt land, hefur hvílt á. Það er 7. gr. laga nr. 14 frá 1973.

Það er þess vegna vissulega fagnaðarefni þegar hér er nú lagt fram frv. sem er flutt ekki af einstökum ráðherra heldur af ríkisstjórninni í heild, eða sem stjfrv., og þess vegna eru veruleg líkindi til þess að þetta mál nái nú fram að ganga.

Þetta er svo sem ekki fyrsta frv. um þetta efni á þessu þingi sem lagt er fram. Það hefur líka komið fram hér í umræðunum að alþýðubandalagsmenn lögðu fram frv. fyrr á þinginu og í umræðum um það 21. okt. boðaði hæstv. menntmrh. það frv. sem nú er hér að líta dagsins ljós.

Það hefur margt gerst á þeim tíma sem liðinn er frá því að grunnskólalögin voru lögfest. Margir skólar hafa verið byggðir, stofnsettir úti um land á grundvelli þeirra laga sem ég áðan nefndi. En það hefur líka orðið önnur þróun í rekstri þessara skóla sem aldrei hefur hlotið lögfestingu. Þar á ég sérstaklega við námsskipanina sjálfa, eins og það að reka skólana á grundvelli brautakjarna, valgreina, námsáfanga sem aftur eru grundvallaðir á einingakerfi og annað í þeim dúr. Og þó ekki væri nema af þessari ástæðu þá er það fagnaðarefni að fá nú frv. fram hér á hinu háa Alþingi sem líkur benda til að nái fram að ganga. Það er meira en tímabært.

Nú er það ekki að ástæðulausu sem þessi dráttur hefur orðið á lagasetningunni. Ég býst við að ástæðurnar séu aðallega tvær. Fyrri ástæðan er vafalaust ágreiningur um kostnaðarskipti, bæði um stofn- og rekstrarkostnað, sem lengi hefur verið um þessi efni, sérstaklega á milli sveitarstjórnarmanna og fulltrúa ríkisins. Og í annan stað býst ég við að drátturinn hafi orðið vegna þess að ákveðnar stofnanir á þessum vettvangi, menntaskólarnir, eru ríkisbyggðar stofnanir en á sama tíma hafa verið að rísa stofnanir sem aftur eru grundvallaðar á löggjöfinni, þessari stuttu löggjöf frá 1973, þar sem miðað er við stofnkostnaðarhlutfallið 60% hjá ríki og 40% hjá sveitarfélagi.

Nú er það svo að þessir ríkisbyggðu skólar eru núna í öllum kjördæmum nema á Vesturlandi og í Norðurlandi vestra, þ.e. Menntaskólinn á Ísafirði, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Menntaskólinn á Laugarvatni, og raunar Íþróttakennaraskólinn þar, og síðan hér í Reykjavík náttúrlega, gamli menntaskólinn og hinir líka ríkisbyggðir.

Það er togstreitan sem af þessum ástæðum hefur alltaf myndast þegar átt hefur að koma þessari löggjöf í gegnum þingið sem ég held að hafi verið undirrót þessa ágreinings og þess að frv. hafa aldrei orðið að lögum.

Nú er tekið á þann veg hér á þessum málum samkvæmt þessu frv., ef ég bind mig fyrst við fyrra atriðið, um kostnaðarskiptin, að í 3. gr. Ill. kafla segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Kostnaður við byggingarframkvæmdir og stofnbúnað framhaldsskóla skiptist þannig að ríkissjóður greiðir 60% en sveitarsjóður/sjóðir greiða 40% áætlaðs kostnaðar, samkvæmt viðmiðunarreglum (normkostnaðar). Heimilt er ráðuneytinu að semja um aðra kostnaðaraðild þegar um búnað verknámshúsnæðis er að ræða. Verði greiðslur eigi inntar af hendi samtímis reiknast verðbætur á ógreidd framlög í hlutfalli við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar.“

Ég vil fyrir minn hlut fagna þessum þætti í frv. Ég geri það af tveimur ástæðum. Þetta er reglan sem miðað hefur verið við nánast alls staðar í uppbyggingunni sem hefur orðið undanfarinn áratug. En í annan stað fagna ég þessu vegna þess að mér finnst í rauninni að hér sé verið af núv. ríkisstjórnar hálfu verið að gefa það fyllilega í skyn að ekki verði unnið að breytingu á stofnkostnaðarhlutfalli grunnskólabygginga. Því þar er ég ákveðið þeirrar skoðunar að það hlutfall sem nú er í gildi sé affarasælast miðað við þá skiptingu sem hér á landi er í hin mörgu sveitarfélög og ójöfnu að stærð og þeirra ófrávíkjanlega hlutverk að standa að grunnskólahaldi. Þess vegna held ég að þarna sé í rauninni loksins komin leið sem menn ættu að geta sameinast um, leið sem hefur því miður ekki verið fær að því er virðist hér á hinu háa Alþingi fyrr.

Hitt atriðið sem ég tel að sé til bóta er sú ákveðna afstaða sem kemur fram í 4. gr. um skólamannvirkin sem fyrir eru í landinu. Það er sem sagt ekki gert ráð fyrir að miða að neinu sérstöku uppgjöri skv. 4. gr. Það tel ég líka affarasælast, þar er um að ræða mjög misgamla sögu, sem sjálfsagt yrði erfitt að gera upp. Við getum bara rétt ímyndað okkur ef ætti að fara að gera upp sérstaklega skólabygginguna frá 1846 hér við Lækjargötuna eða eitthvað í þeim dúr. Það nær náttúrlega ekki nokkurri átt.

Í 4. gr. segir þetta:

„Skólamannvirki þau sem lög þessi taka til skulu vera eign ríkis og sveitarfélaga í sömu hlutföllum og stofnkostnaður er greiddur, eða hefur verið greiddur, sé um eldra húsnæði að ræða.“

Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé eðlilegasta lausnin á þessu máli og það sé í rauninni ómögulegt að láta það bíða öllu lengur að Alþingi setji löggjöf, bráðnauðsynlega löggjöf af því að menn hafa ekki getað komið sér saman um þessa þætti.

Kostir frv. að öðru leyti eru þeir frá mínum bæjardyrum séð að hér er um að ræða mjög rúma rammalöggjöf. Rúma rammalöggjöf sem er ákaflega nauðsynlegt að sé rúm. Ég tel eins og ég sagði áðan að þessi kostnaðarskipti séu eðlileg og ég bind við það verulegar vonir að menn ætli sér ekki að hrófla við kostnaðarskiptunum í sambandi við grunnskólahúsnæðið.

Þriðji stórávinningur sem ég tel vera með þessu frv. er það sem kemur fram í 32. gr. frv. um rekstur framhaldsskóla. Þar er gert ráð fyrir að ríkið greiði allan rekstrarkostnað og þar með talið viðhald mannvirkja. Þetta álít ég að sé ákaflega þýðingarmikið og muni eiga þátt í að fleyta þessu máli hér í gegnum þingið. Í þessari 32. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkissjóður greiðir rekstrarkostnað framhaldsskóla samkvæmt lögum þessum. Hver skóli er sjálfstæð rekstrareining og hefur sérgreinda fjárveitingu á fjárlögum.“

Síðan segir nokkru neðar í þessari sömu grein.

„Til rekstrarkostnaðar skóla telst:

1. Launakostnaður, en til hans teljast laun fyrir alla fasta starfsemi á vegum skólans, svo sem fyrir kennslu, stjórnun og prófdæmingu á lokaprófum, einnig fyrir störf á skrifstofu, í skólasafni, vegna ráðgjafar við nemendur og við umsjón eigna skólans, svo og annar launatengdur kostnaður í samræmi við kjarasamninga á hverjum tíma.“

Þarna er um að ræða mjög mikla framför fyrir þá sem reka þessa skóla eða stjórna þeim. Og síðan segir:

„2. Til annars rekstrarkostnaðar telst allur kostnaður sem leiðir af starfrækslu skólans og viðhaldi húsa og tækja, að frátalinni kostnaðarþátttöku nemenda, sbr. 33. gr."

Það sem ég tel þó þýðingarmest í þessari grein er málsgrein sem kemur aðeins neðar, en þar segir: „Fjárveitingum og greiðslum vegna 1. og 2. tölul. skal að fullu haldið aðgreindum.“ Þetta þýðir m.ö.o. að því fyrirkomulagi sem hefur þekkst um langan aldur, að sveitarfélögin í samrekstri að þessu leyti hafa þurft að þola það að taka á sig auknar byrðar vegna mismunandi gengis í rekstrinum, er í rauninni lokið, en það er hins vegar höfðað til þess í þessari grein þegar segir: „Eigi má skerða fjárveitingu til 2. tölul., þótt kostnaður vegna 1. tölul. fari fram yfir fjárveitingu, enda sé umfang starfseminnar í samræmi við samþykkta áætlun.“ Þarna er höfðað til þess að skólameistarar, skólanefnd og aðrir sem fjalla um rekstur þessara skóla njóti góðs árangurs í rekstrinum. Þetta tel ég vera mjög þýðingarmikið.

Ég vildi nefna aðeins frekar 34. gr. frv. Þar er fjallað um atriði sem nokkuð var gagnrýnt í máli eins hv. þm., 4. þm. Norðurl. v., hér fyrr á fundinum. Ég óttast ekki þessa grein eins mikið og kom fram í hans máli. Í henni segir m.a.:

„Við ákvörðun fjárveitinga til kennslu í framhaldsskólum skal miða við grunntöluna 1,7 til 2,0 kennslustundir á viku á hvern nemanda í fullu bóknámi eftir stærð og gerð skóla.“

Þetta er þannig í dag að yfirleitt er miðað við 1,8 í meðalskólum á landsbyggðinni, 1,8 kennslustund á hvern nemanda á viku, plús 0,9 fyrir þá nemendur sem eru meira en 20 stundir á viku í verklegu námi. Og sé skóli kominn í meðalstærð, ég kalla meðalstærð svona 300 nemendur, þá hefur þessi kvóti verið alveg viðunandi.

En í 34. gr. segir áfram, og það sannar fyrir mér að málið er ákaflega opið hér, með leyfi hæstv. forseta: „Þessu til viðbótar skal koma sá stundafjöldi sem nauðsynlegur er til að halda megi uppi kennslu í viðurkenndu verknámi og sérnámi er krefst skiptingar nemenda í smáa námshópa.“ Og síðan segir enn fremur, og það er ekki þýðingarlitið fyrir minni skólana á landsbyggðinni: „Þurfi að taka tillit til sérstakra aðstæðna skal veitt sérgreint framlag til að mæta þeirri þörf.“ Hérna er lagt til að beinlínis sé bundið í lög þetta atriði sem mér fannst hv, 4. þm. Norðurl. v. nokkuð óttast. „Þurfi að taka tillit til sérstakra aðstæðna skal veitt sérgreint framlag til að mæta þeirri þörf.“ Það er ekkert minna. Þetta tel ég vera stórkostlegt framfaraspor sem hafa mun mikla þýðingu ef samþykkt verður.

Fúslega skal ég viðurkenna það að ég hef ekki haft mikinn tíma til að ígrunda þessi efni enda sá ég frv. fyrst í gær. En það sem ég felli mig best við í þessu efni er í rauninni það aukna sjálfstæði skólanna sem frv. ber með sér. Ég óttast ekki þá miðstýringu sem hefur dálítið verið höfð á orði fyrr á þessum fundi. Ég óttast hana ekki. Þegar skólarnir fá þetta aukna sjálfstæði hver fyrir sig og fræðsluráðamilliliðurinn er úr sögunni þá finnst mér í sjálfu sér ekkert óeðlilegt þó að menntmrn. skipi formann viðkomandi skólanefndar þannig að tengslin á milli skólanefndar og ráðuneytis verði þar með fengin.

Áður en ég lýk máli mínu vildi ég þó nefna eina grein, 30. gr., sem mér finnst annálsverð og mjög til bóta. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á framhaldsskólastigi skal veita fötluðum nemendum kennslu og þjálfun við hæfi og sérstakan stuðning í námi. Í því skyni skal látin í té sérfræðileg aðstoð og nauðsynlegur aðbúnaður eftir því sem þörf krefur að mati menntmrn. Fatlaðir nemendur skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.“

Þetta eru ekkert lítil tíðindi ef lögfest verða. Mér finnst þetta vera þess eðlis að fullkomlega sé ástæða til að vekja athygli á þessari grein því það vitum við auðvitað að mikil þróun hefur orðið í þessu efni á undanförnum árum og núna sérstaklega þeim seinustu. En það er ekki lengra en tvö, þrjú ár síðan ég varð vitni að vandamáli varðandi flutningskostnað blinds nemanda í skóla á landsbyggðinni. Þetta var vandamál og þrætuepli á milli viðkomandi skóla, ríkis og sveitarfélaga. Með samþykkt lagagreinar eins og hér er um að ræða væru öll slík vandamál að því er mér sýnist úr sögunni. Það væri lagabundin skylda að fatlaðir nemendur fengju þá aðstoð sem þeir þyrftu á að halda.

Eftir þennan fljótlega yfirlestur minn finnst mér sú tenging sem hér kemur fram á milli atvinnulífsins og framhaldsskólanna vera til bóta. Ég er ekki tilbúinn að svara því fyrir minn hlut hvort hér sé nógu vel að staðið. Það kom fram í máli hv. 12. þm. Reykv. hér rétt áðan að það væri ekki óeðlilegt að athuga þá hluti nánar. Það út af fyrir sig get ég alveg fallist á. En samt sent áður tel ég hér ýmislegt verulega til bóta.

Ég er sæmilega ánægður með kaflann um fullorðinsfræðslu fyrir minn hlut. Hér er að vísu eingöngu um heimildalöggjöf að ræða en mér sýnist þó að ef aðilar, sem næst þessum skólum eru, æskja þess að slíkri fræðslu eða kennslu væri haldið uppi þá væri skólunum í rauninni skylt að framkvæma hana. En það kann að vera að það þyrfti að kveða greinilegar á í því efni en hér er gert.

Það eru aðeins tvö atriði sem ég hnýt um við þennan yfirlestur, og ég vil vekja athygli á, sem ég er ekki ánægður með. Annað er í 11. gr. frv. Það hefur raunar verið minnst á þessi atriði hér held ég, en ég vildi láta mína skoðun koma fram. 11. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Um almenna kennarafundi og verksvið þeirra skal ákvarðað í reglum sem skólanefnd setur.“

Og í lokum 13. gr. segir:

"Menntmrn. setur skólameisturum erindisbréf. Reglur um störf annars starfsfólks setur skólanefnd.“

Nú er það svo að skólameistari og kennarar eru ríkisstarfsmenn. Og enda þótt skólanefndir þessara skóla fái verulega aukið valdsvið miðað við skólanefndir almennt, þá sýnist mér ekki rökrétt að ætlast til þess að aðili, sem ekki ræður viðkomandi menn til starfa og ber á þeim ábyrgð að því leyti, setji þeim starfsreglurnar. Fyrir minn hlut finnst mér að sömu aðilar eigi að setja starfsreglur eða erindisbréf skólameisturum, aðstoðarskólameisturum og kennurum. Hins vegar finnst mér eðlilegt að skólanefndir setji öðrum starfsmönnum skólanna erindisbréf, en þeir eru margir í rauninni og þeim fer sjálfsagt fjölgandi. Þarna finnst mér vera á skilsmunur.

Hitt atriðið sem ég hnýt um er í 33. gr. frv. Það er verið að tala um heimavistir og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem talið er nauðsynlegt að reka heimavist vegna framhaldsskóla greiðir ríkissjóður kostnað við umsjón og almennan rekstur. Nemendur bera sjálfir hluta sérgreinds kostnaðar í heimavistum, rekstri mötuneyta, skipulögðum skólaakstri og efniskaupum vegna verklegrar kennslu o.fl. samkvæmt ákvörðun skólanefndar, sbr. 8. gr." o.s.frv.

Í athugasemd með þessari grein segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Greinin fjallar einkum um rekstur heimavista, og er við það miðað að allar meginreglur þar um verði óbreyttar.“ Svo er fjallað nokkuð jákvætt um þessa hluti, en síðan segir:

„Hvað varðar mötuneyti framhaldsskóla, þá hafa nemendur sjálfir greitt launa- og hráefniskostnað en rekstraraðilar skóla lagt til aðstöðu og orku.“

Þarna finnst mér of langt gengið að ætlast til þess að nemendur framhaldsskólanna greiði launakostnað í mötuneytum. Ég get fallist á að það sé eðlilegt að þeir greiði hráefniskostnað við matinn, en ég tel að þeir eigi að sitja við sama borð og er víða í ríkismötuneytum að launakostnaður er greiddur af ríkissjóði og þess vegna styð ég þá hugmynd sem kemur fram í frv. sem hér var minnst á fyrr á fundinum um þetta efni.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar. Ég vil endurtaka það sem ég sagði fyrr: Ég lýsi fylgi við meginatriði og meginstefnu þessa frv. Ég vænti þess fastlega að það takist svo til að frv. verði eftir eðlilega meðferð og eðlilega skoðun í nefndum beggja þingdeilda afgreitt sem lög frá hinu háa Alþingi fyrir þinglok í vor. Til þess er vissulega tími til kominn.