17.02.1988
Neðri deild: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4703 í B-deild Alþingistíðinda. (3241)

263. mál, almannatryggingar

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka hæstv. ráðherra fyrir að fara þó nokkrum orðum um þetta mál. Og ekki síður kem ég nú hingað til þess að fagna því að frétta af að verið sé að skoða hitt málið sem ég minntist á og tengist þessu að nokkru. En um það verður fjallað á öðrum þingfundi.

Ég varð hins vegar fyrir svolitlum vonbrigðum með að hæstv. ráðherra skyldi ekki taka líflegar í það að þetta yrði afgreitt áður en heildarendurskoðun tryggingalaganna lýkur. Ég er ekki þeirrar skoðunar að þetta mál geti hreinlega beðið. Ég vísa því til hv. þm. sem hér eru inni, sem eru nú að vísu ekki margir, hvort þeim þætti líklegt að þm. sjálfir, t.d. utan af landi, mundu sætta sig við það að þurfa að bíða mánuðum og árum saman eftir einhverri heildarskoðun mála til þess að finna það út hvort bæri og hvernig að greiða þeim þann kostnað, útlagðan kostnað sem þeir hafa af tvöföldu heimilishaldi og ferðalögum fram og aftur vegna starfs sem þeir hafa þó komið sér í með allnokkrum fögnuði en ekki orðið fyrir því örlaganna vegna að þurfa að halda heimili á tveimur stöðum og ferðast fram og til baka og verða fyrir ýmiss konar áraun eins og ég lýsti í framsögu minni hér áðan.

Mér er þetta mjög mikið hjartans mál og kappsmál að þm. skoði þetta vandlega og kynni sér það. Ég mun að sjálfsögðu reyna að vinna að því að það verði afgreitt hér innan þings. En ég veit að hæstv. ráðherra skilur þetta mál ágætlega og treysti því vitanlega að það sé notað sem innlegg í þessa heildarendurskoðun sem hann hefur oft og einatt vísað í. Ég held ekki að þetta sé flóknara að afgreiða en margt annað ef vilji manna stendur til að leysa þetta mjög svo brýna vandamál.