23.02.1988
Neðri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4792 í B-deild Alþingistíðinda. (3298)

293. mál, áfengislög

Forseti (Jón Kristjánsson):

Í þessu sambandi vil ég geta þess að eins og hefur komið fram ætlar þingið sér tímann frá tvö til sjö á þriðjudögum nema það standi svo á að lítið hafi verið fyrir á dagskrá, þá hefur verið hætt klukkan fimm. Við höfum ekki séð ástæðu til að halda fram umræðum í fimm klukkutíma ef litið hefur legið fyrir. En að sjálfsögðu er þessi tími ætlaður fyrir deildarfundi á þriðjudögum og ég bið hv. þingdeildarmenn að hafa það til athugunar og festa sér það í minni. Þó að það sé ástæðulaust að vera að lesa yfir þeim sem hér eru staddir eru greinilega margir sem hafa það ekki í heiðri. (ÓÞÞ: Hvað eru margir í húsinu?) Samkvæmt mínu bókhaldi eru 15 staddir í húsinu. Það er ekki óvanalegur fjöldi þegar þingfundir standa yfir síðari hluta dags. En að sjálfsögðu er það ekki nægjanlega góð viðvera á þingfundum.

Fleiri hafa ekki kvatt sér hljóðs um þingsköp og af framangreindum ástæðum, sem ég hef rakið, er umræðu frestað, en ég vil geta þess að það má búast við kvöldfundi um þetta mál ef raðast á mælendaskrá við 1. umr. í málinu. Á morgun verður séð hverju fram vindur.