26.02.1988
Sameinað þing: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5030 í B-deild Alþingistíðinda. (3419)

294. mál, utanríkismál

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Hér er til umræðu skýrsla utanrrh. þó svo að umræður fari gjarnan um víðan völl á sviði utanríkismála eins og venja er þegar þessi skýrsla er til umræðu.

Ég byrja á því að fagna þessari skýrslu. Ég tel að hún staðfesti margyfirlýsta stefnu Íslands á mikilvægustu sviðum utanríkismála, ekki síst í öryggis- og varnarmálum auk þess sem góð grein er gerð fyrir utanríkisviðskiptamálum landsins og nýjum viðhorfum gagnvart Evrópubandalaginu. Skýrslan er að þessu leyti afar hefðbundin.

Ég legg áherslu á það að fyrir smáþjóð er fátt mikilvægara á sviði utanríkismála en festa í samskiptum við önnur lönd og ákveðinn stöðugleiki í stefnu. Allar breytingar verða að vera vel grundaðar og byggðar á yfirvegaðri greiningu á aðstæðum.

Utanríkisstefna Íslands tekur í senn mið af landfræðilegum, sögulegum, efnahagslegum og pólitísk um forsendum. Hún grundvallast á fornri lýðræðishefð Íslendinga, varðveislu hagsmuna þeirra í samskiptum við aðrar þjóðir og viðleitni til þess að leggja lóð á vogarskálar frelsis, friðar og mannréttinda í heiminum.

Ég tel það afar mikilvægt nú að skýrsla utanrrh. skuli vera komin fram. Hún eyðir óvissu um afstöðu ráðherrans og ríkisstjórnarinnar til ýmissa mála og óvissa um afstöðu til utanríkismála er slæm, bæði innan lands og gagnvart erlendum ríkjum sem mörg hver fylgjast náið með því sem menn í ráðandi stöðum hér á landi láta frá sér fara um utanríkismái. Þannig segir utanrrh., en frásögn skýrslunnar er öll í 1. persónu, á bls. 17 í skýrslunni, í kaflanum um Atlantshafsbandalagið, fullum fetum, skýrt og skorinort, að bandalagið hafi tryggt aðildarríkjum sínum frið og öryggi í hartnær 40 ár. Og á bls. 42 í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Þátttaka okkar í varnarsamstarfi vestrænna þjóða innan Atlantshafsbandalagsins og varnarsamningurinn við Bandaríkin eru hornsteinar í öryggismálum okkar. Tilgangur þess samstarfs er og hefur ætíð verið að tryggja frið í okkar heimshluta.“

Hér kveður réttilega nokkuð við annan tón en í viðtali sem birtist við ráðherra í Helgarpóstinum þann 11. þ.m. þar sem hann segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Við getum ekki neitað þeirri staðreynd að það hefur verið friður í Evrópu í 40 ár og það kann að vera Atlantshafsbandalaginu að þakka.“ Tilvitnun lýkur ef þetta er þá rétt eftir haft í blaðinu.

Með sama hætti segir hvergi í skýrslunni þar sem fjallað er um ratsjárstöðvar Atlantshafsbandalagsins á Íslandi, t.d. á bls. 48, að þær megi vonandi síðar einnig nota fyrir Varsjárbandalagið eins og haft er eftir ráðherra í áðurnefndu viðtali í Helgarpóstinum. Ég tel að það sé afar mikilvægt að skýrsla ráðherra tekur af öll tvímæli í þessu efni, enda vonandi að öllu leyti traustari heimild en Helgarpósturinn.

Ég hef hugsað mér, herra forseti, að fjalla einkum um þrjú atriði er snerta skýrslu utanrrh. Í fyrsta lagi utanríkisviðskipti og alþjóðleg efnahagsmál, í öðru lagi afvopnunarmál og breyttar aðstæður í þeim efnum og loks nokkuð um Sameinuðu þjóðirnar og afstöðu Íslands til málefna á vettvangi þeirra.

Á fyrstu árunum eftir síðari heimsstyrjöld myndaðist ákveðinn rammi um samskipti ríkja sem gagnlegt er að greina í sundur eftir sviðum og eðli viðfangsefna. Þannig voru hin pólitísku mál ætluð Sameinuðu þjóðunum til umfjöllunar, efnahagsmál Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þróunaraðstoð Alþjóðabankanum og um tíma voru uppi hugmyndir og raunar samningur sem aldrei kom til framkvæmda um sérstaka alþjóðlega viðskiptastofnun. GATT-samkomulagið kom síðar í hennar stað. Vestræn ríki bundust síðan samtökum innan NATO til að tryggja varnarhagsmuni sína.

Vitanlega hefur margt breyst frá þessum tíma. Sjálfstæðum ríkjum hefur fjölgað gífurlega, ný samtök verið mynduð á ýmsum svæðum í heiminum og á nýjum sviðum um ný viðfangsefni. En það er alveg ljóst að menn gerðu sér glögga grein fyrir því hvert mikilvægi alþjóðlegra viðskipta væri og sömuleiðis þess að efnahagsmál eins ríkis eru ekki alltaf einkamál þess eins. Á árunum milli stríða fékkst þannig mjög bitur reynsla af efnahagsstefnu ríkja sem ekkert tillit tóku til afleiðinga stefnu sinnar á nágranna- eða viðskiptalönd. Æ síðan hefur mikilvægi þessara mála í samskiptum ríkja farið vaxandi. Þá þróun þekkjum við Íslendingar mjög vel og höfum sem smáríki með einhæfa framleiðslu sennilega notið meira góðs af auknum heimsviðskiptum og verkaskiptingu milli ríkja en mörg önnur lönd.

Mikilvægi frjálsrar alþjóðlegrar verslunar er nú mun fleirum ljóst hér á landi en áður var. Aðildin að EFTA hefur t.d. ekki verið deiluefni í stjórnmálum árum saman, góðu heilli, og sá flokkur sem mest barðist gegn því máli á sínum tíma, Alþb., hefur löngu látið af þeirri trú. Rödd hv. þm. Svavars Gestssonar t.d. um þau efni í þessum umræðum er allt önnur og skynsamlegri en fyrir nokkrum árum síðan. Og reyndar má bæta því við að Alþb. virðist vera að láta af gamalli stefnu sinni í öryggis- og varnarmálum sömuleiðis eða a.m.k. eitthvað að beygja af hinni gömlu línu ef marka má ummæli sem höfð eru eftir formanni flokksins í tímariti nýlega.

En nú blasir við ný áskorun á sviði alþjóðlegra viðskipta og efnahagsmála sem við Íslendingar verðum að takast á við þegar og ef áform Evrópubandalagsins um einn markað verða að veruleika á árinu 1992. Ég skal ekki eyða mörgum orðum að þessu efni eða endurtaka það sem aðrir hafa sagt, eins og t.d. hv. þm. Kjartan Jóhannsson sem flutti hér afar efnismikla og málefnalega ræðu í gær um þessi mál. Ég lýsi hins vegar ánægju með flest af því sem fram kemur í skýrslu ráðherra um þetta efni og ég vil líka vekja athygli á þeirri framsýni hæstv. þáv. utanrrh., Matthíasar Á. Mathiesens, að beita sér á árinu 1986 fyrir sérstakri skrifstofu í Brussel til að fjalla um málefni Evrópubandalagsins og gæta hagsmuna Íslands hjá því.

Herra forseti. Menn hafa mjög gert að umtalsefni í þessum umræðum afvopnunarmálin og réttilega er ítarlega um þau fjallað í skýrslu ráðherra. Það er vissulega rétt sem menn hafa sagt að við lifum um þessar mundir nokkuð breytta tíma í þeim efnum frá því sem áður var, og því hljóta allir velviljaðir menn að fagna. Við getum auðvitað verið stolt af því, Íslendingar, að ákveðin þáttaskil í því efni urðu hér á leiðtogafundinum í Reykjavík og í framhaldi hans.

Það er að vísu ekki svo, eins og stundum er gefið í skyn, að það megi draga þá ályktun af leiðtogafundinum í Reykjavík, af staðsetningu hans og þeirri ákvörðun stórveldanna að óska eftir fundarstað hér í Reykjavík, að með því væri verið að gefa til kynna einhvern tvískinnung eða einhverja óákveðni Íslendinga í alþjóðastjórnmálum. Það er síður en svo. Ég tel þvert á móti að alltaf hafi legið ljóst fyrir að Íslendingar hafa komið fram af fullri reisn gagnvart stórveldunum báðum og sú staðreynd gerði þeim báðum auðvelt að sætta sig við þennan fundarstað. Það var ekki vegna þess að við höfum þóst vera hlutlausir miðja vegu milli stórveldanna. Það hefur alltaf legið fyrir að við höfum skipað okkur á bekk með vestrænum lýðræðisþjóðum af fúsum og frjálsum vilja og í samræmi við siðferðisvitund þjóðarinnar og rótgróna lýðræðishefð.

Í sambandi við þann samning sem gerður hefur verið um fækkun meðaldrægra og skammdrægra kjarnavopna, sem vonandi verður staðfestur á þessu ári, hafa vaknað ýmsar spurningar sem menn velta fyrir sér um það hverjar afleiðingar samningsins geti orðið.

Getur það t.d. verið að samningur sem þessi um fækkun vopna á landi kalli fram fjölgun slíkra vopna í hafinu? Það er eðlilegt að við Íslendingar veltum þeirri spurningu fyrir okkur og höfum af því áhyggjur. Ég tel hins vegar að uppbygging herafla á hafinu þurfi ekki og eigi ekki að verða afleiðing þessa samkomulags. Það sé raunverulega marklaus samningur sem felst í samkomulagi um niðurskurð herafla á landi ef hann þýðir sjálfkrafa að menn byggja upp á nýjan leik úti í hafinu og tel að við verðum að leggja áherslu á þetta atriði.

Þær raddir hafa heyrst, sérstaklega á meginlandi Evrópu, að hið nýja samkomulag gæti stofnað öryggi lýðræðisþjóðanna í Vestur-Evrópu í hættu, þ.e. að brottflutningur hinna skamm- og meðaldrægu eldflauga gæti hugsanlega orðið freisting fyrir árásaraðila úr austri og þar með sett þjóðirnar í hættu. Ég tel að þessi greining sé mjög vafasöm og standist ekki gagnrýna athugun og þess vegna sé óþarfi fyrir okkur Íslendinga að taka undir hana. Ég tel að það sé rangt sem þessi greining raunverulega byggist á, að Bandaríkin eða forseti þeirra sé ólíklegri til þess að beita langdrægum eldflaugum til varnar Evrópu en þeim skammdrægu eða meðaldrægu sem komið hefur verið fyrir í álfunni. Ég tel að Atlantshafssamningurinn sé nægilega traustur til þess að tryggja öryggi þjóðanna í Evrópu þó svo að hinn nýgerði samningur komi til framkvæmda, enda hverfa samningsskuldbindingar Bandaríkjanna eða annarra aðildarríkja auðvitað ekki með því samkomulagi. Þessi ótti hlýtur því að vera ástæðulaus, en ég vildi nefna þetta atriði vegna þess að þetta er eitt af því sem kemur upp í umræðum um þessi mál.

Það er mikilvægt og hefur verið rætt í þessum umræðum að vegna þessara breytinga séu nýir tímar í alþjóðamálum og vissulega er það rétt svo langt sem það nær. Því hefur verið varpað fram hér sem spurningu hvort við Íslendingar ættum t.d. að sýna aukinn áhuga okkar í verki með því að tilnefna sérstakan sendiherra til þess að fjalla um þessi mál og mér finnst það vissulega koma til athugunar. Hins vegar verða menn að gæta þess í öllum umræðum um þessi mál eða spyrja sig þeirrar spurningar hvort einhver eðlisbreyting hafi orðið t.d. á utanríkisstefnu Sovétríkjanna eða þeim markmiðum sem sovétmenn hyggjast ná með henni.

Nú hefur utanrrh. vor stundum, í ánægju sinni með þá þróun sem orðið hefur, vitnað til erlendra manna um það sem er að gerast í Sovétríkjunum og jafnvel viljað bera það upp á aðra menn hér innan lands að þeir væru orðnir kaþólskari en páfinn í þessum efnum. Ég leyfi mér að vitna í það sem kemur fram í áðurnefndu viðtali í Helgarpóstinum þar sem kemur fram, með leyfi forseta: „Ég hef orðið var við að Margaret Thatcher hefur hrifist enn meir af honum [þ.e. Gorbatsjov]. Þegar ég sá hann í sjónvarpinu eftir að hann hafði komið við hjá henni á leið sinni á leiðtogafundinn og heyrði ummæli hennar varð mér að orði: Aumingja vinir mínir í Heimdalli.“

En til þess aðeins að athuga hvað það er sem frú Thatcher hefur sagt um þessi mál, án þess að ég sé að gera þau ummæli að mínum, er ég með í höndunum úrklippu úr Sunday Times frá því sl. sunnudag 21. febr. og þar kveður eiginlega nokkuð við annan tón en utanrrh. gefur þarna í skyn. Hér segir frú Thatcher, með leyfi forseta, í nokkuð óformlegri þýðingu:

"„Rússneski björninn var langtum auðveldari við að eiga þegar hann leit út eins og björn en núna“, sagði Thatcher á fundi með NATO-sendiherrum í Brussel nýlega. Og hún bætir við: „Þeim mun huggulegri sem Rússarnir verða, þeim mun hættulegri eru þeir.“ Og hún bætir því við: „Meginmarkmið sovéskrar utanríkisstefnu eru óbreytt, þ.e. að komast til ríkjandi áhrifa í Vestur-Evrópu.“"

Eins og ég sagði er ég ekki að gera þessi ummæli að mínum, en ég er að svara því sem hæstv. utanrrh. sagði um þetta í Helgarpóstinum og gaf í skyn, eins og ég sagði áðan, að aðrir menn væru orðnir kaþólskari en páfinn í öryggis- og varnarmálum. Reyndar sagði hann síðast í gær í seinni ræðu sinni og vitnaði þá í George Shultz að hann færi hjá sér, ef ég man rétt, við að heyra slík ummæli. Það væri ekki mikið sem hann hefði sagt miðað við þetta.

En í skýrslu ráðherra og ræðu hans í gær kom fram að hann legði mikla áherslu á starfsemi Sameinuðu þjóðanna. Slík afstaða er auðvitað í fullu samræmi við afstöðu fyrri ríkisstjórna. En ráðherra lét þess einmitt getið í svari við fsp. frá mér skömmu fyrir jólin að það væri „yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að starfa innan Sameinuðu þjóðanna af heilindum“. Sömuleiðis segir á bls. 13 í skýrslu ráðherra að það sé einn meginþátturinn í utanríkisstefnunni, þátttakan og starfið hjá Sameinuðu þjóðunum. Ekki skal ég draga það í efa og þykir það sjálfsagt að slíkt sé dregið fram, en hitt er vafasamara að mínum dómi að fella það undir virka þátttöku eða þátttöku af hellindum að leggja nafn Íslands við ýmiss konar sýndartillögur sem lagðar eru fram hjá samtökunum og kem ég nánar að því á eftir. En fyrst vildi ég, með leyfi forseta, gjarnan vitna til skýrslu utanrrh. 1983 sem Ólafur heitinn Jóhannesson flutti Alþingi. Þar segir svo:

„Sameinuðu þjóðirnar eru fyrst og fremst vettvangur þar sem skapa má betri skilning á eðli afvopnunarmála og vekja þjóðir heims til umhugsunar um nauðsyn afvopnunar. Þar er góður grundvöllur til að ræða meginviðfangsefni og forgangsröðun verkefna, en framkvæmdahliðin, samningsgerðir um eftirlit með vígbúnaði og um afvopnunarmál er mjög erfið í svo fjölmennum hópi. Þar hefur reynst betur að þeir aðilar, tveir eða fleiri, sem málin snúa mest að, semji sín í milli.“

Og enn með leyfi forseta: „Annað einkenni á umræðum og ályktanagerð um afvopnunarmál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er áróðurskeimurinn af verulegum hluta tillagna sem þar koma fram. Virðist allt of mörgum ríkjum vera meira í mun að auglýsa sig með umfangsmiklum tillögum sem ómögulegt er að hrinda í framkvæmd og hafa eftirlit með eða stefna að einhliða ávinningi heldur en leggja fram eða styðja heils hugar raunhæfar tillögur sem dregið gætu úr vígbúnaði og hættu á árekstrum. Vék framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna reyndar að þessari tilhneigingu í ársskýrslu sinni til allsherjarþingsins á sl. hausti. Bæði ég og forverar mínir í starfi utanrrh. höfum lagt áherslu á að meta slíkar tillögur af raunsæi í stað þess að veita gagnrýnislausan stuðning hverri þeirri ályktunartillögu sem fram er sett undir yfirskini áhuga á áætlunarmálum.“

Í þessu sambandi, herra forseti, er kannski þess virði að kíkja eilítið í frásögn sem birt var í Tímanum þann 19. febr., en þar er getið um rannsókn eða athugun sem maður nokkur hafði gert á því hvernig einstakar þjóðir greiddu atkvæði með ályktunartillögum hjá Sameinuðu þjóðunum. Þar er dregin sú ályktun að Íslendingar séu í hópi neikvæðustu þjóða þingsins og hafi verið um langa hríð þó heldur hafi dregið úr því upp á síðkastið. En það sem ég vildi segja í því sambandi og þá með tilvísun til tilvitnaðra orða Ólafs Jóhannessonar er að það sem skiptir máli er auðvitað ekki það hvað menn fylgja mörgum ályktunum heldur hvers efnis þær eru og hvers eðlis þau mál eru sem menn leggja nafn Íslands við. Það skiptir engu máli þó menn fylgi 100% þeim ályktunum sem fram koma á Sameinuðu þjóða þingum ef þær ályktanir eru tóm vitleysa og á ekki að þurfa að hafa um það fleiri orð.

Það hefur óneitanlega vakið nokkra athygli hve mikið utanrrh. hefur lagt upp úr svokölluðum breyttum áherslum sínum í atkvæðagreiðslum hjá Sameinuðu þjóðunum og á þetta er m.a. lögð áhersla á bls. 5 í skýrslu hans til þingsins. Þar er rakin ályktun Alþingis um afvopnunarmál frá 23. maí 1985 og síðan segir svo, með leyfi forseta:

„Þetta er athyglisverð ályktun og mikilvægur grundvöllur á að byggja í utanríkismálum. Ég hef lagt á það áherslu að sýna í verki þann vilja sem Alþingi hefur lýst. Það hefur verið gert hjá Sameinuðu þjóðunum með breyttri afstöðu í allmörgum málum og hvarvetna þar sem rödd Íslands heyrist.“

Ég verð að segja að dálítið er þetta málum blandinn rökstuðningur því þessari sömu ályktun fylgdu áður fram tveir utanríkisráðherrar í ríkisstjórn sem kennd er við núv. utanrrh. þannig að þessi ályktun sem slík getur ekki verið sérstakur grundvöllur breyttrar stefnu eða afstöðu. Í því efni hljóta að koma til aðrar ástæður. Í ræðu sinni í gær vék ráðherra að þeim forsendum sem stuðst var við þegar afstaða var tekin til tillagna á allsherjarþinginu, en um þessar forsendur er fjallað á bls. 13 í skýrslu hans. Hann bætti reyndar við í ræðunni, og það kemur ekki fram í skýrslunni, að fyrst og fremst hefðu hinar breyttu aðstæður í alþjóðamálum ráðið afstöðu hans. Það kemur hins vegar glöggt fram í skýrslu ráðherra að hinar breyttu aðstæður í alþjóðamálum, þ.e. þeir afvopnunarsamningar sem ég gerði að umtalsefni áðan eða þá þeir samningar sem langt eru komnir og það jákvæða andrúmsloft milli stórveldanna sem þeim fylgir, eru afleiðing af stefnufestu Vesturlanda. á bls. 7 segir svo, með leyfi forseta:

„Samkomulag stórveldanna er staðfesting á því hverju unnt er að ná með einbeitni og stefnufestu en ekki með einhliða afvopnun Vesturlanda. Niðurstöðurnar má rekja til tillagna Vesturlanda sem settar voru fram fyrir sex árum. Fyrir samstöðu Vesturlanda og eindrægni í vörnum Evrópu hefur þessi árangur náðst.“

Svo má auðvitað bæta því við, eins og hv. þm. Kjartan Jóhannsson gerði í gær og ráðherra tók undir í seinni ræðu sinni, að til viðbótar þessu kemur síðan það að hinir nýju leiðtogar í Sovétríkjunum eru farnir að hugsa meira um önnur mál, sín innanlandsvandamál, en áður var þannig að það hentar þeim að vissu leyti líka að koma til móts við Vesturlönd í samningum um þessi mál. En auðvitað er grundvallaratriðið að þeir hefðu eflaust ekki séð neina ástæðu til þess ef ekki hefði komið til þessi stefnufesta, einbeitni og samstaða Vesturlanda sem svo ágætlega er lýst á bls. 7 í skýrslu ráðherra.

Í ljósi þeirrar ályktunar, sem ég var að enda við að lesa og er að mínum dómi alveg hárrétt og mjög traust ályktun og greining á eðli þessara mála, væri eðlilegt að ætla að afstaða Íslands til tillagna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna væri í samræmi við þessa greiningu og afstaðan leitaðist við að styðja þá stefnu sem kallað hefur fram þetta breytta ástand í heimsmálunum. Mér sýnist því miður að svo hafi ekki alltaf verið og hin breytta afstaða hafi stundum verið í mótsögn við áður yfirlýsta stefnu Íslands, m.a. eins og henni er lýst í þeirri skýrslu utanrrh. sem við erum hér að ræða.

En auðvitað er það einnig svo, að hinar svokölluðu breyttu aðstæður í alþjóðamálum og þessir nýju tímar og fersku vindar eru ekki fyrirbæri sem eingöngu snýr að okkur Íslendingum. Okkar bandalagsríki og okkar vina- og nágrannaþjóðir á Norðurlöndunum verða að sjálfsögðu einnig vör við þessa þróun þannig að hún ætti ekki að kalla fram afstöðubreytingu hjá Íslendingum einum. Það hljóta allir að sjá að er rökleysa. Hún hlýtur að kalla fram svipuð áhrif hjá þeim og okkur. En samt kemur í ljós þegar málið er kannað að við höfum í stöku tilfellum skorið okkur úr að því er virðist algerlega að ástæðulausu. Ég hef vakið máls á þessum málum áður á Alþingi með fsp. um afstöðu Íslands til tillögu frá Úkraínu og Tékkóslóvakíu sem ráðherrann gerir að umtalsefni bæði í skýrslu sinni og í ræðu sinni í gær. Skal ég nú gera nánar grein fyrir mínum viðhorfum í þessu efni, ekki síst í ljósi þess að ráðherra óskaði eftir því í seinni ræðu sinni í gær að menn kæmu með rökstuðning fyrir því að það hefði verið rangt að breyta afstöðu Íslands til allra þessara tillagna. Að vísu hefði kannski verið eðlilegra að sjá í skýrslu ráðherrans einhverjar röksemdir fyrir ákvörðunum hans um breytta afstöðu. Ég hygg að það hafi alla jafnan verið talið eðlilegra að menn gæfu skýrar ástæður fyrir því þegar þeir eru að breyta eldri ákvörðunum, en svo er hvergi gert nema með almennum orðum.

Mig langar þá að víkja að þessum tillögum hverri fyrir sig. Ég hef gluggað í þá ágætu skýrslu, sem hér var lögð fram í gær, um þátttöku Íslands á síðasta allsherjarþingi og mig langar að víkja fyrst að tillögu Úkraínu og Tékkóslóvakíu sem margumrædd er. Reyndar er, að því er virðist, villa í skýrslu ráðherra, sú hin sama villa og ég gerði mig sekan um samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu hér á sínum tíma, að þessi ályktun er talin gömul og endurflutt. En hið rétta mun vera, eins og kom hér fram í ræðu ráðherrans í gær og eins og kemur fram í skýrslunni um þingið, að hún er ný þannig að það eru þá níu tillögur sem breytt hefur verið um afstöðu til en ekki tíu eins og segir í skýrslunni um utanríkismálin.

Ég hef sagt og segi það enn að það sé mótsögn fólgin í því að samþykkja tillögu sem hvetur alla til að auðvelda framkvæmd ályktana á sviði afvopnunar og þar á meðal þeirra ályktana sem við höfum ýmist verið á móti eða setið hjá við afgreiðslu á. Það vill nú svo vel til að í þessari bók eru einmitt tvær slíkar ályktanir sem ég vil vekja athygli þm. á.

Það er í fyrsta lagi ályktun 42.26.b, stöðvun allra kjarnavopnatilrauna, þar sem öll Norðurlönd, þar á meðal Ísland, sátu hjá. Samt er með samþykkt tillögu Úkraínu og Tékkóslóvakíu lagt til að þessi tillaga verði framkvæmd, að menn geri allt sem í þeirra valdi stendur til að auðvelda framkvæmd þessarar ályktunar.

Síðan er annars staðar í þessu plaggi önnur ályktun þar sem við gerðum nú meira en að sitja hjá, vorum beinlínis á móti. Þetta er tillaga 42.39.c, samningur um bann við beitingu kjarnavopna. Á móti voru öll NATO-ríkin nema Grikkland og ýmis önnur lönd. Þessa tillögu sá utanrrh. ekki ástæðu til að samþykkja þó hann á hinn bóginn hafi séð ástæðu til að samþykkja tillögu sem gerði ráð fyrir að þessi tillaga yrði framkvæmd. Þetta er það sem ég hef verið að kalla mótsögn og geri enn. Skýringarnar sem gefnar eru um þetta eru á bls. 14 í skýrslu ráðherrans. Þar segir, með leyfi forseta: „Stuðningur okkar við þessa tillögu er byggður á fyrrgreindri ályktun Alþingis um afvopnunarmál.“

En ég sé ekki neitt í þeirri ályktun sem hvetur til þess að við förum að samþykkja tillögu eins og þessa sem er í mótsögn við það sem við höfum áður gert, þannig að ég held að það væri satt að segja langeðlilegast og hreinlegast að viðurkenna að þarna hafi orðið ákveðin mistök í stað þess að reyna að halda enn á ný uppi einhverjum málatilbúnaði til varnar fyrir þessa afstöðu.

Ég kem þá að annarri tillögu, herra forseti. Það er tillaga Indlands og Rúmeníu, 42.39.b, um frystingu kjarnavopna. Norðurlöndin greiddu atkvæði með ályktuninni, þar á meðal Íslendingar, en á fyrra þingi sat Ísland hjá á þeirri forsendu að frysting án samninga eða nægilegs eftirlits tefji nauðsynlegar afvopnunarviðræður. Nú má auðvitað segja um þessa tillögu, þó svo að í henni sé góður vilji í þessum málum, að hún er orðin úrelt einmitt í ljósi hinna breyttu aðstæðna í alþjóðamálum. Vilja menn kannski frekar frysta þau kjarnorkuvopn sem verið er að tala um í stað þess að taka þau niður? Eða hvað eru menn að tala um með því að samþykkja ályktanir um að frysta hluti sem er orðið samkomulag um að útrýma?

Sama er að segja um næstu tillögu sem ég vil gera hér að umtalsefni. Það er hin margfræga tillaga Svíþjóðar og Mexíkó sem er svipaðs efnis, þ.e. hún fjallar um frystingu kjarnavopna, og hefur verið margrædd bæði hér í þingsölum og á þingum allsherjarþingsins fyrir vestan. Þessi tillaga er að mínum dómi úrelt í ljósi hinna margumræddu breyttu aðstæðna. Ég vil í þessu sambandi vitna til hæstv. fyrrv. utanrrh. Ólafs heitins Jóhannessonar frá árinu 1983, en þar segir hann í skýrslu sinni til Alþingis á bls. 9:

„Um frystingartillöguna er hægt að hafa fá orð og vísa að mestu til kaflans um samskipti austurs og vesturs og þess sem segir hér síðar um INF-viðræðurnar í Genf. Ég vil aðeins undirstrika að við höfum tekið þátt í tvíþættri ákvörðun NATO-ríkjanna að bregðast við þeirri nýju ógnun við öryggi Vestur-Evrópu sem SS-20 eldflaugar Sovétríkjanna eru á þann hátt að ákveða að koma fyrir vopnum til varnar en jafnframt að Bandaríkjamenn byðu Sovétmönnum til viðræðna um takmörkun á meðaldrægum kjarnaflaugum í Evrópu. Viðræður Bandaríkjamanna og Sovétmanna eru hafnar og eru í fullum gangi. Að greiða þá atkvæði með frystingartillögu hefði verið túlkað á þá lund að verið væri að koma í bakið á bandamönnum okkar. Hjásetan bar hins vegar viðhorfi okkar til þessara mála vitni. Við erum andvígir framleiðslu og notkun kjarnavopna“ o.s.frv.

Það var sagt hér í gær, hæstv. ráðherra sagði það, þegar vitnað var til ummæla Ólafs heitins Jóhannessonar, að það væru breyttir tímar. Vissulega er það rétt. Það eru breyttir tímar. En hvað er það sem hefur breyst varðandi þessa ályktun? Það er einmitt það að sú stefna sem Ólafur heitinn Jóhannesson lýsir þarna hefur sigrað. Stefna Atlantshafsbandalagsins, sem mjög er tekið undir í skýrslu utanrrh. og sagt fullum fetum að sé meginástæðan fyrir þessum breyttu viðhorfum og breyttu tímum í alþjóðamálum, hefur sigrað, sbr. bæði það sem ég hef áður lesið um það efni á bls. 7 í skýrslu ráðherra, en kannski ekki síður það sem fram kemur á bls. 8 og 9 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Samkomulag Bandaríkjanna og Sovétríkjanna frá 8. des. sl. er mikilvægt m.a. af eftirgreindum ástæðum:" Síðan koma þarna nokkrar ástæður og í fimmta lagi segir þar: „Náðist samkomulagið vegna þess að Atlantshafsbandalagsríkin héldu fast við þá stefnu, sem mörkuð var fyrir um átta árum, að endurnýja skammdrægar og meðaldrægar flaugar á landi í Evrópu, en semja um leið við Sovétríkin um eyðingu þessara vopna (Dual Track Decision).“

Þannig er nú það. Ég held að það sé stundum gott að menn gái aðeins að samræmi í hlutum. Og ég endurtek: Þessi stefna, sem hér er lýst, hefur orsakað þessa breyttu tíma og það er hún sem hefur m.a. gert að verkum að tillaga Svíþjóðar og Mexíkó er úrelt orðin. Stuðningur við hana er því órökréttur og ástæðulaus og kannski enn meira út í bláinn að láta sér detta í hug að taka það mál hér upp til atkvæða á Alþingi Íslendinga úr því sem komið er.

Ég vildi þá, herra forseti, í fjórða lagi koma að einni tillögu enn sem breytt var um afstöðu til. Það er tillaga 42.42.a, um að ekki megi beita kjarnavopnum til að koma í veg fyrir kjarnorkustyrjöld. Flutningsmenn eru Þýska alþýðulýðveldið, Kúba, Rúmenía og Ungverjaland. Hér voru t.d. Danir og Norðmenn á móti og Íslendingar voru eina þjóðin í NATO ásamt Grikkjum sem sat hjá. Afstaðan í þessu máli er þar af leiðandi ekki í samræmi við þær forsendur sem gefnar eru í skýrslu ráðherra á bls. 14 þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Breytt afstaða til annarra tillagna [þ.e. annarra en hinnar margumræddu Úkraínutillögu] réðst af samráði því sem Norðurlöndin hafa á allsherjarþinginu.“

Það er alls ekki svo ef marka má upplýsingar um atkvæðagreiðsluna þarna. Þarna voru Danmörk og Noregur á móti þó svo að Svíar og Finnar hafi greitt atkvæði með, en Íslendingar og Grikkir sátu hjá einir NATO-ríkja. En á síðasta þingi greiddi Ísland atkvæði á móti þessu máli. Ástæður fyrir því að svo var gert var sú að þá þótti þessi tillaga óþörf þar sem stofnskrá Sameinuðu þjóðanna bannar beitingu árásarvopna. Ef menn muna það ekki stendur í 51. gr. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna að þjóðir hafi eingöngu heimild til að grípa til vopna í varnarskyni.

Hér segir enn fremur: „Einnig var bent á að NATO-ríkin hafi margsinnis gefið þá yfirlýsingu að þeirra vopnum yrði ekki beitt nema sem svari við árás.“

Hér tel ég enn á ný að sé ákveðin mótsögn í afstöðu, mótsögn í því sem fram kemur í skýrslu ráðherra og svo í afstöðu þarna á þinginu. Það má svo kannski bæta því við innan sviga að við erum þarna í félagsskap á hjásetubekknum í þessu máli m.a. með Paraguay og Samóa, en ef ég man rétt fær leiðtogi Paraguay það óþvegið í skýrslu ráðherra og sjálfsagt ekki eftirsóknarvert að skipa sér í sveit með honum þó eflaust sé það tilviljun í þessu máli.

Ég held enn áfram, herra forseti. Hér er fimmta tillagan sem ég hyggst gera að umtalsefni. Hún er nr. 42.42.c, stöðvun kjarnavopnakapphlaupsins og kjarnorkuafvopnun. Flytjendur: Argentína, Bangladesh og fleiri ríki. Í þessari tillögu er það staðfest að fælnistefna með kjarnorkuvopnum hafi aukið hættu á kjarnorkustyrjöld og leitt til meira öryggisleysis í alþjóðamálum o.s.frv. Á móti tillögunni voru Ástralía, Noregur og flest NATO-ríki, en Íslendingar sátu hjá í þetta sinn þó svo við höfum verið á móti þessu áður.

En hvað skyldi ég nú hafa við þetta að athuga? Það vill svo vel til að ástæður mínar fyrir andstöðu við þessa tillögu er einmitt að finna í skýrslu utanrrh. sjálfs á bls. 17. Þar segir, með leyfi forseta: „Trúverðugur fælingarmáttur stangast ekki á við þá viðleitni bandalagsríkjanna að tryggja öryggi sitt með minni vopnabúnaði en nú er.“

Þar er einnig vitnað til Harmel-skýrslunnar frá 1967 þar sem segir m.a., með leyfi hæstv. forseta, að öryggi vestrænna ríkja hvíli á tveimur meginstoðum: fælingu og vörnum annars vegar og umræðum og samningum um afvopnunarmál hins vegar.

Enn segir neðar á sömu síðu, með leyfi forseta, að „herstyrkur Atantshafsbandalagsins ætti að nægja til að viðhalda öryggi aðildarríkjanna og tryggja stjórnmálalega samstöðu þeirra. Einnig með þessum styrk og með viðræðum og samvinnu yrðu skapaðar forsendur fyrir stöðugum og friðsamlegum samskiptum milli þjóða í austri og vestri.“

Þarna er sem sagt fullyrt, og það er reyndar líka gert á bls. 9 í þeirri tilvitnun sem ég hef þegar lesið upp, og staðfest réttilega hver fælingarstefna Atlantshafsbandalagsins er. Er það þá ekki mótsögn og í ósamræmi við markaða stefnu að treysta sér ekki til að greiða atkvæði gegn tillögu sem gengur þvert á þetta, tillögu sem felur í sér að fælnistefna með kjarnorkuvopn hafi aukið hættu á kjarnorkustyrjöld og leitt til meira öryggisleysis í alþjóðamálum? Ég er ansi hræddur um að það þurfi ekki mikla sérfræðinga í íslensku máli eða tungutaki til að sjá þessa mótsögn, herra forseti.

Í sjötta lagi vildi ég geta tillögu 42.42.e sem Íslendingar greiddu atkvæði á móti á síðasta allsherjarþingi en sátu hjá í þetta sinn. Flytjandinn er Tékkóslóvakía og ályktunin fjallar um alþjóðlega samvinnu um afvopnun. Þessi tillaga er sama eðlis og Úkraínutillagan sem ég nefndi fyrr og það eiga alveg við um hana sömu röksemdir. Þetta er gersamlega óþörf tillaga. Hún er heldur ekki í samræmi við það sem segir á bls. 14 í skýrslu utanrrh. þannig að mér er alveg hulin ráðgáta hvernig komist var að þeirri niðurstöðu að það bæri að skipta þarna um afstöðu.

Síðan eru nokkrar tillögur til viðbótar, herra forseti, sem breytt hefur verið um afstöðu til. Ég skal ekki tína þær allar upp. Ég er ekkert að segja að það hafi í öllum tilfellum verið misgáningur að gera það. Það var t.d. tillaga frá Zimbabwe og fleiri ríkjum sem breytt var um afstöðu varðandi. Hún var studd í þetta sinn en það var setið hjá síðast. Þessi tillaga fjallar um tvíhliða viðræður um kjarnorkuafvopnun og er nr. 42.38.d. Þessi tillaga virðist ekki hafa mikinn tilgang í sjálfu sér þó að ég sjái ekki annað en það sé algerlega skaðlaust að styðja hana og það hefur augljóslega verið mat ráðherrans. Sömuleiðis ætla ég ekki að gera ágreining um afstöðu hans til málefna Vestur-Sahara eða þeirrar ályktunar sem fjallar um námsmenn í Palestínu, á hinum hernumdu svæðum Ísraelsmanna þar. Þar var breytt um afstöðu og Norðurlönd greiddu atkvæði með ályktun sem fordæmir Ísraelsmenn fyrir neikvæðar aðgerðir gegn námsmönnum á þessum svæðum, en Ísland, Danmörk, Noregur og Finnland sátu hjá á síðasta þingi.

Ég tel mig nú hafa, herra forseti, komið fram með nokkurn rökstuðning varðandi afstöðu mína og umkvartanir okkar ýmissa sjálfstæðismanna varðandi þessi mál. Það er gert að gefnu tilefni vegna þess að ráðherrann beinlínis bað um það í gær, spurði: Hvað hafa menn við þetta að athuga? og fór hér yfir nokkrar ályktanir. Og ég segi það: Við höfum það við þetta að athuga sem ég var að enda við að segja.

Ég vildi svo gjarnan í þessu framhaldi víkja að því sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði um allsherjarþingið og afstöðu Íslands á þeim vettvangi. Það er alger fjarstæða, þó svo honum hafi sýnst það svo meðan hann var fyrir vestan, að menn eigi að taka eða hafi tekið afstöðu í þessum málum út frá því hver sé flytjandinn. Ég held að ég hafi einmitt bent á þær efnislegu ástæður fyrir afstöðu þeirri sem taka hefði átt. Mig varðar ekkert um hvaðan gott kemur í sjálfu sér. En þær tillögur sem ég hef gert að umtalsefni t.d. eru þess eðlis efnislega að ég geri þær athugasemdir sem ég hef nefnt.

Ég vildi gjarnan segja í þessu sambandi, herra forseti, vegna þess að hæstv. utanrrh. er tamt að tala um nátttröll þegar að þessum málum er vikið, að ég vil vísa slíkum ummælum algerlega á bug og bendi á nauðsyn þess að menn sofni ekki á verðinum í þessum málum þó svo það blási jákvæðir vindar í heimsmálunum um þessar mundir. Eða svaf kannski ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar á verðinum á síðasta allsherjarþingi þegar verið var að greiða atkvæði um þessi mál? Nei, hún gerði það ekki. Ég biðst undan því að menn séu vændir um slíkt hér.

Það veltur á miklu, herra forseti, fyrir litla þjóð að halda reisn sinni og virðingu á alþjóðavettvangi. En ég held því miður að þau dæmi sem ég hef hér rakið séu ekki til þess fallin að auka reisn okkar og virðingu, því miður. Ég vil gjarnan vitna í og reyndar gera að mínum ummæli utanrrh. á bls. 13 í skýrslu hans þegar hann segir:

„Við Íslendingar eigum og munum beita okkur eins og við getum fyrir friði, fækkun og eyðingu vopna og bættu ástandi heimsmála almennt. Við munum halda áfram að gera slíkt með málflutningi og atkvæði okkar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og hvar sem við komum fram í samtökum þjóða og á opinberum vettvangi.“

Undir þetta vil ég taka heils hugar. Þetta eigum við auðvitað að gera. En ég tel að það sem ég hef hér nefnt sem dæmi flokkist því miður ekki undir þetta. Menn geti haft sína sjálfstæðu afstöðu í málum þó að menn túlki það ekki þannig að það þurfi endilega að breyta afstöðu breytinganna vegna. Ég tel að einmitt slíkar ákvarðanir geti haft þveröfug áhrif við það sem ég las hér upp og ég vil gera að mínum lokaorðum í þessari umræðu, herra forseti.