29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5103 í B-deild Alþingistíðinda. (3459)

264. mál, húsnæði fyrir aðstandendur sjúklinga

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. sem hér hafa tekið til máls og tekið svo myndarlega undir efni þessarar tillögu. Fyrir það er ég þakklát þó að ég hefði gjarnan kosið að heyra í fleirum.

Ég vil af tilefni orða hv. síðasta ræðumanns upplýsa að hæstv. heilbr.- og trmrh. var viðstaddur umræðu um frv. okkar sem ég minntist á í máli mínu áðan og sýndi að mér fannst í ræðu sinni mikinn skilning á þeim vanda sem þarna er við að etja. Hann vísaði raunar þar til endurskoðunar tryggingalaganna og áttum við ofurlítil orðaskipti um það mál þar sem við flytjendur þess frv. erum ekki alveg sammála um að það sé hægt málsins vegna að bíða eftir þeirri heildarendurskoðun. Ég vona sannarlega að Alþingi beri gæfu til að taka afstöðu til þess máls án þess að bíða eftir heildarendurskoðun.

Hann tjáði sig einnig um efni tillögunnar sem hér er á dagskrá og eins og kom fram í máli mínu áðan lýsti hann sig mjög fylgjandi því og lýsti því yfir að hann hefði fullan skilning á þeim vanda sem þar er við að fást. Mér heyrðist hann hafa fullan hug á að taka þátt í lausn þess vanda. Ég vildi aðeins að það kæmi fram vegna þess að hann sagði einmitt um leið að hann yrði sennilega ekki viðstaddur þessa umræðu og vildi þess vegna láta það koma fram þá.

En ég endurtek þakkir mínar til þeirra sem hér hafa talað. Það vekur vissulega vonir um að þessi tillaga fái góða umfjöllun.