09.03.1988
Efri deild: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5610 í B-deild Alþingistíðinda. (3747)

Iðgjaldahækkanir bifreiðatrygginga

Forseti (Karl Steinar Guðnason):

Ég vildi tilkynna að farið hefur verið fram á það að fá að taka fyrir mál utan dagskrár, hafa utandagskrárumræðu. Í nýjum þingsköpum segir ekkert til um það hvernig með það skuli fara í deildum, reyndar ekki gert ráð fyrir því að það sé tíðkað í einhverjum mæli. Hins vegar vil ég geta þess að lítið hefur verið um verkefni í þessari hv. deild og því hef ég fallist á það að þessi utandagskrárumræða megi fara fram og vænti ég þess að hún verði í góðu hófi. Það er hv. 4. þm. Vesturl. Skúli Alexandersson sem hefur farið fram á það að ræða um bifreiðatryggingar og hæstv. forsrh., Friðrik Sophusson sem gegnir þeim störfum nú, hefur fallist á að vera til svara.