09.03.1988
Efri deild: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5610 í B-deild Alþingistíðinda. (3748)

Iðgjaldahækkanir bifreiðatrygginga

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Hæstv. forseti hefur orðið við ósk minni um að ræða hér í hv. deild utan dagskrár um iðgjaldahækkanir bifreiðatrygginga. Staðgengill forsrh., hæstv. iðnrh., hefur jafnframt samþykkt að vera hér í deildinni og upplýsa vissa þætti þessa máls.

Á sama tíma og félagar í verkalýðsfélögunum voru að fjalla um og flest hver að fella nýgerða kjarasamninga Vinnuveitendasambandsins og Verkamannasambandsins voru bifreiðaeigendur og þá um leið flestir landsmenn að fá upplýsingar um stórhækkun bifreiðatrygginga. Tryggingaeftirlitið hefur fallist á að hækkanaþörf fyrir ábyrgðartryggingar ökutækja sé um 60%. Auk þess bætist nú við sérstök hækkun vegna ökumannstryggingar þannig að iðgjöldin munu hækka um nærri 100%.

Reyndar er það svo að margir fullyrða að um mun meiri hækkun sé að ræða. Hinar ótrúlegustu tölur heyrast um það manna á milli. Mér var t.d. sagt frá því í morgun að Trabant-eigandi hefði fengið tilkynningu um það að hann ætti að greiða 51 þús. kr. Sá bíll var fjögurra ára gamall. Í einum fjölmiðlinum var í gær sagt frá því að eigandi Chevrolet Nova af árgerð 1974 þyrfti að greiða 35 þús. kr. í iðgjöld af sínum bíl. Í þessum tilfellum er tryggingariðgjaldið orðið hærra en verð bílanna. Tryggingariðgjaldið verður með þessum hækkunum einnig óeðlilega stórt hlutfall af verði nýrra bíla.

Ég ætlaði ekki að fjalla um stöðu þessa máls út frá réttmæti þessara miklu hækkana gagnvart tryggingafélögunum þótt um það leiti margar spurningar á hugann. Um þann vettvang þyrfti að fjalla að hæstv. trmrh. viðstöddum. Það sem ég hef áhuga fyrir að fá að heyra frá hæstv. forsrh. eða hæstv. iðnrh. sem nú gegnir störfum forsrh. er hvernig þessar miklu hækkanir komi heim og saman við áhuga ríkisstjórnarinnar á að bæta stöðu hinna lægst launuðu í þjóðfélaginu, svo og hvernig þessar hækkanir samræmast margyfirlýstum áhuga ráðherrans og ríkisstjórnarinnar á að vinna gegn verðbólgu. Bíllinn er almenningseign og hann er ekki síður nauðsynlegur fyrir láglaunafólk en aðra þjóðfélagsþegna. 30–40 þús. kr. tryggingariðgjald af bíl auk 5 þús. kr. sérskatts eru heil mánaðarlaun miðað við nýgerða kjarasamninga sem ríkisstjórnin hefur talið sérstaklega réttláta og ábyrga.

Félag ísl. bifreiðaeigenda telur að rekstur venjulegs fjölskyldubíls muni í ár eftir þessar hækkanir kosta um 244 þús. kr. Miðað við lágmarkslaun í landinu sjáum við hve verðlagsþróunin er orðin skökk og óheilbrigð hjá okkur. Það getur ekki samræmst að biðja um að kaupgjald hækki ekki, lækki frekar, miðað við verðlagsþróun og horfa orðalaust á að þessi neysluþáttur hjá almenningi hækki að 4/5 hlutum umfram verðlag. Nú má vera að þessi hækkun bílatrygginga komi ekki út sem mikil hækkun í heildarverðlagsþróun. Sé svo sýnir það aðeins vafasaman útreikningsgrunn. Hitt er ljóst að almenningur mun mótmæla svona hækkunum, m.a. með því að fella kjarasamninga og krefjast launabóta á móti kostnaðarauka sem þessum.

Á þeim samningafundum sem nú eru fram undan um laun og kjör félaga í Verkamannasambandinu og fleiri mun án efa verða spurt hvers vegna þessi hækkun hafi átt sér stað og þá um leið hvort ríkisstjórnin muni ekki grípa inn í þótt seint sé og hlutast til um að þessi hækkun verði að stórum hluta dregin til baka. Ég legg því þessar spurningar fyrir hæstv. forsrh.:

1. Hver eru áhrif iðgjaldahækkunar bifreiðatrygginga á verðlag?

2. Hyggst ríkisstjórnin grípa til ráðstafana til að stuðla að ódýrari bifreiðatryggingum?