09.03.1988
Efri deild: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5618 í B-deild Alþingistíðinda. (3752)

Iðgjaldahækkanir bifreiðatrygginga

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. hefur svarað þeim spurningum sem til hans var beint í upphafi og skal ég ekki endurtaka það. En þar sem hæstv. trmrh. er fjarverandi og ég gegni störfum fyrir hann vildi ég aðeins undirstrika það sem hæstv. iðnrh. sagði, að trmrh. hefur áhuga á því að reyna að gera úttekt á þessum málum til þess að vita hvernig þar sé hægt við að bregðast og leiða til betri vegar. Annars hefur þegar komið skýrt fram í þessum umræðum að ástæðan fyrir háu iðgjaldi er að sjálfsögðu mikil slysatíðni og síðan, eins og hv. síðasti ræðumaður lagði áherslu á, þörf þeirra sem fyrir tjóni verða að fá þetta tjón sitt bætt. Þess vegna þarf að hækka iðgjöldin þegar tjónin verða mikil og það mun hafa komið fram í uppgjöri tryggingafélaga að á sl. ári vantaði töluvert á að tryggingariðgjöldin hrykkju fyrir þeim útgjöldum sem félögin urðu fyrir.

Að sjálfsögðu er gott að tryggingafélög séu það sterk að þau geti tekið slíkar sveiflur á sig, en það getur náttúrlega ekki gengið ár eftir ár því að þá verða þau ekki lengi sterk ef tjónin verða til lengdar meiri en tekjurnar og til lengdar er ekki heldur hægt að láta eina tryggingagrein taka á sig tjón annarra. Því að yfirleitt er það svo alls staðar, að það er þrýst á að iðgjöldin séu í samræmi við kostnað í hverri tryggingargrein.

Hér hafa verið nefndar tölur um tryggingarupphæðir og það vildi þannig til að ég var með minn tryggingarseðil í höndunum og þá sé ég það að ábyrgðartrygging sú sem ég þarf að greiða er rúmar 10 þús. kr., 10 300 kr., fyrir utan söluskatt. Það var ábyrgðartryggingin. Síðan bætist við framrúðutryggingin og hin nýja ökumannstrygging sem er nú upp tekin samkvæmt nýju umferðarlögunum. Að sjálfsögðu ákvað Alþingi að taka hana upp vegna þess að talin var þörf á því að ökumenn fengju þarna aukna tryggingarvernd. Þar er því um nýja þjónustu fyrir neytendur að ræða en ekki beinlínis ný útgjöld nema þeim tjónum sem þar er um að ræða er jafnað út á heildina með þessari tryggingu eins og öðrum tryggingum.

Ég legg sem sagt fyrst og fremst áherslu á það sem fyrri ræðumenn hafa gert að það er mjög mikilvægt að allir sameinist um að reyna að draga úr þessum tíðu og miklu tjónum og síðan, eins og hæstv. trmrh. hefur í huga, verði reynt að athuga hvaða aðrar leiðir eru færar til þess að draga úr þessum mikla útgjaldalið.