09.03.1988
Efri deild: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5625 í B-deild Alþingistíðinda. (3757)

Iðgjaldahækkanir bifreiðatrygginga

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. Ed.-þm. fyrir ágætar umræður um þessi mál sem auðvitað hljóta að koma hér til umræðu nú þegar það liggur fyrir að mikil hækkunarþörf reynist vera hjá tryggingafélögunum vegna hækkunar á iðgjöldum bifreiðatrygginga.

Ég vil fyrst segja frá því, vegna þess að það virtist ekki hafa komið nægilega vel til skila í mínu máli í upphafi, að sú hækkun sem verður vegna nýju umferðarlaganna eða þeirra breytinga sem gerðar voru á umferðarlögunum, sú hækkun mun koma fram í vísitöluhækkun sem 17% af þessari heildarhækkun iðgjalda samkvæmt því sem Hagstofan segir og eftir þeim upplýsingum sem hún hefur þegar aflað sér.

Í öðru lagi vil ég taka undir það að auðvitað er orðið tímabært að bæta samgöngur hér á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst vegna þess að fjölgun bifreiða hefur orðið mun meiri en gert var ráð fyrir fyrir fáeinum árum þegar áætlanir voru gerðar. Það er gert ráð fyrir því að Reykjavíkurborg dragi úr fjárframlagi til þessara mála, en þá ber þess að geta að ástæðan er sú fyrst og fremst að skuldir ríkisins hafa hlaðist upp vegna þess að ríkið hefur ekki endurgreitt Reykjavíkurborg þá fjárhæð sem borgin á kröfu á að fá. Hins vegar er eftir að skipta þeirri upphæð sem nú rennur til vegamála á yfirstandandi ári og ég veit að hæstv. samgrh. hefur í hyggju að beita sér fyrir því að nokkur hluti fari til almannasamgangna hér á höfuðborgarsvæðinu, en auðvitað er þar fyrst og fremst um skuldagreiðslur að ræða.

Varðandi óhagræði af fjölda bílatryggingafélaga vil ég aðeins minna á að ekki fyrir mörgum árum lagði eitt af félögunum niður starfsemi sína með því að sameinast öðru félagi og ég vil taka það fram að í útreikningum Tryggingaeftirlitsins er gert ráð fyrir því að enginn rekstrarafgangur verði hjá bifreiðatryggingafélögunum á árinu 1988. Það er lagt til grundvallar hækkuninni og kemur fram í bréfi, sem ég hef fengið frá Tryggingaeftirlitinu, dags. 8. mars, þ.e. í gær, að í útreikningum Tryggingaeftirlitsins er ekki gert ráð fyrir rekstrarafgangi hjá bifreiðatryggingafélögunum á árinu 1988.

Hér var minnst á svokallaðan uppsafnaðan söluskatt. Því miður hef ég ekki á takteinum upplýsingar um þetta atriði. Mér er þó kunnugt um að í mörgum tilvikum munu tryggingafélög hafa bætt bifreiðaeigendum tjón og bifreiðaeigendur síðan látið lagfæra bifreiðar sínar á verkstæðum og ugglaust í mörgum tilvikum þannig sloppið við að greiða söluskatt. Það er alkunna hér á landi að ýmsir gera við bifreiðar, og stunda reyndar margs konar starfsemi, án þess að greiða þau gjöld sem þeim ber.

Ef virðisaukaskattur verður tekinn upp, þá a.m.k. er það spurning, ef litið er á greiðslur til tryggingafélaganna sem innheimtan söluskatt og tryggingafélögin síðan sjá um að bifreiðar séu lagfærðar og gert við þær, hvort ekki kemur þá til frádráttar sú upphæð sem þær greiða þannig í söluskatt. Um það get ég ekki sagt, en mér þykir líklegt að svo verði því það er eðli virðisaukaskattsins að koma í veg fyrir uppsöfnunaráhrif. Þar er aðeins um nettóskattheimtu að ræða.

Loks vegna þess sem kom fram hjá hv. 7. þm. Reykv. um bensínverð, þá er auðvitað hægt að hugsa sér það að hækka bensínverðið og láta einhvern hluta þess koma fram í lækkun á iðgjöldum. Þó vil ég segja það að við verðum að hafa í huga að í bensínverðinu er þegar skattur sem gengur til vegagerðar, mannvirkjagerðar í vegamálum og auðvitað ber að líta á talsverðan þátt þess kostnaðar sem þar kemur fram sem umferðarmannvirki til þess að veita meira öryggi í umferðinni.

Það er jafnframt rétt sem hefur komið fram í umræðunum að tryggingafjárhæðin, þ.e. sú fjárhæð sem á að greiða tjón með, hefur stórkostlega hækkað á undanförnum árum. Ástæðan er m.a. hæstaréttardómur sem hér var vitnað til í umræðunum, en þess voru dæmi að menn misstu allar eignir sínar vegna þess að tryggingafjárhæðin var ekki nægilega há. Menn átta sig ekki á því að ef tryggingafjárhæðin nægir ekki, þá ber viðkomandi aðili ábyrgð með öllum eignum sínum. Og það voru til dæmi þess að menn, sem ollu tjóni og tryggingafjárhæðin dugði ekki, þeir misstu allar eigur sínar til þess að standa skil á tjónagreiðslum til viðkomandi aðila, en í slíkum tilvikum var auðvitað um líkamstjón að ræða.

Hér hefur nokkuð verið gagnrýnt að samráð sé haft meðal tryggingafélaganna og samkeppni sé lítil sem engin. Hv. þm. Guðmundur Ágústsson hefur skýrt út eðli trygginganna og sagt frá því skýrt og skorinort að það er auðvitað Alþingi og framkvæmdarvaldið sem gefur út lög og reglur um þetta atriði. Samt sem áður er um samkeppni að ræða, en sú samkeppni birtist m.a. í bónus og afsláttarfyrirkomulagi alls konar. Og af því að hæstv. landbrh. upplýsti þingheim um það hve mikið hann greiddi í tryggingar, þá held ég að það sé rétt að það komi fram að hann nýtur þess að hafa 55% bónus, (JE: Ég líka.) sem auðvitað þýðir ekkert annað en það að hæstv. landbrh. hlýtur að hafa keyrt mjög varlega og ekki valdið tjóni árum og jafnvel áratugum saman. Og það upplýsist hér, þannig að ég fari nú ekki í mannamun, að annar hv. þm. sem hefur þennan seðil í vasa sínum, hv. þm. Jóhann Einvarðsson, nýtur þess líka að hafa fengið afslátt vegna þess að hann hefur ekki valdið tjóni. (JE: En ráðherrann á lögheimili úti á landi, þess vegna borgar hann minna.) Ég veit ekki hvað hv. þm. kallar úti á landi, en sumir hér í Reykjavík kalla Keflavík úti á landi.

Ég vil enn fremur geta þess, sem hefur reyndar komið fram bæði hjá hæstv. landbrh. og eins kom fram í mínu máli í upphafi, að af hálfu heilbr.- og trmrh. stendur til að fram fari könnun á því hvernig hagræða megi í rekstri tryggingafélaganna og við bindum auðvitað vonir við það starf.

Ég hef hér, herra forseti, fyrst og fremst talað um þetta mál eftir upplýsingum sem ég hef fengið frá öðrum aðilum, enda heyra þessi mál undir tvö ráðuneyti fyrst og fremst, annars vegar heilbr.- og trmrn. og hins vegar dómsmrn. auk Hagstofunnar.

Að allra síðustu er það rétt sem kom fram hjá hv. þm. Salome Þorkelsdóttur að það var hún sem var fyrsti flm. að tillögu um þjóðarátak í umferðarmálum og það framtak ber að þakka. Við hljótum öll að vonast til þess að ef við í sameiningu tökum á með þeim aðilum sem þar fara með mál, þá hljótum við að geta lækkað verulega þá tjónaupphæð sem því miður virðist koma fram hér á landi vegna þess að um fjölda árekstra og eignatjóns er að ræða af völdum bifreiða.