09.03.1988
Efri deild: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5627 í B-deild Alþingistíðinda. (3758)

Iðgjaldahækkanir bifreiðatrygginga

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherrum, iðnrh. og landbrh., sem hér er sem staðgengill heilbrrh., fyrir þátttöku þeirra hér í umræðunni og ég vil einnig þakka hæstv. forseta fyrir þolinmæði hans, fyrir það að hafa leyft þessa umræðu. Ég tel að þessi umræða hafi verið þörf. Hér hefur ýmislegt komið fram og á ýmsa hluti verið bent sem gott var að fá til umfjöllunar og koma hreyfingu á.

Hitt stendur þó eftir, það sem ég lagði fyrst og fremst höfuðáherslu á, að hér hefur átt sér stað sérstök verðlagsþróun á einu sérstöku sviði sem er ekki í neinu samræmi við stefnu ríkisstjórnar né aðra þá þætti í þjóðfélaginu sem verið er að tala um að þurfi að halda í við, síst af öllu nú þegar verið er að ræða um að það þurfi að halda kaupgjaldi innan ákveðinna marka, að þessi eini þáttur skuli hækka um u.þ.b. 100% eins og hér hefur verið viðurkennt. Ýmsir aðrir þættir í þessu máli hafa hér komið til umfjöllunar og ég ætla ekki fara að ræða það þó ég telji ýmislegt hafa komið fram sem kemur kannski ekki alveg heim og saman við mína skoðun.

Ég endurtek þakkir mínar til ráðherra og deildarþm. fyrir þátttöku í þessum umræðum og þakka forseta.