10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5656 í B-deild Alþingistíðinda. (3794)

304. mál, verðtrygging

Flm. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að flytja till. til þál. á þskj. 610 um verðtryggingu o.fl. og geri það fyrir hönd þm. Borgarafl. og hljóðar tillagan þannig:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að afnema lánskjaravísitöluna eða endurskoða nú þegar grundvöll verðtryggingar lána og verðbóta á laun í þjóðfélaginu þannig að breytingar, sem kunna að verða, mælist eftir sömu aðferðum og fylgjast að.“

Í grg. segir: „Með efnahagsaðgerðum ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar síðsumars 1983 var hækkun, sem fylgdu í kjölfarið, var óheimilt að binda laun við vísitölu sem hafði þær afleiðingar að kaupmáttur launatekna rýrnaði verulega árið 1984. Á sama tíma var vísitala lánskjara látin halda sér þannig að misvægi launa, sem þá átti að koma til framkvæmda, skert verulega með bráðabirgðalögum. Í kjarasamningum myndaðist á milli hækkana á launum og þeim verðtryggðu fjárskuldbindingum sem launafólk hafði stofnað til. Þetta misgengi kom hart niður á íbúðakaupendum svo og öðrum sem höfðu tekið verðtryggð lán fyrir þessar efnahagsaðgerðir. Í mörgum tilvikum hefur fólk enn ekki náð að rétta við hag sinn vegna þessara harkalegu aðgerða og margir misst íbúðir sínar á nauðungaruppboðum. Þetta misgengi hefur enn ekki fengist leiðrétt. Kemur þetta glögglega fram í eftirfarandi töflu sem sýnir þróun verðlags, þ.e. byggingarvísitölu, kaupgjaldsvísitölu eða kauptaxtavísitölu og launavísitölu á Íslandi frá því að lánskjaravísitalan var lögleidd og tekin upp í júlí 1979“ og ég vitna til þeirra töflu sem er á þskj.

„Á þeim átta árum, sem eru liðin síðan lánskjaravísitalan var tekin í notkun, hefur hún rúmlega átjánfaldast. Byggingarvísitalan hefur rúmlega sextánfaldast. Á sama tíma hefur verðgildi bandaríkjadollars ellefufaldast og dönsku krónunnar nífaldast.“ Þetta er lagt fram áður en genginu var breytt nýlega. Ég held áfram lestrinum:

„Kaupgjaldsvísitalan sýnir mjög vel hvernig launafólki hefur reitt af í verðbólgubálinu þar sem lánskjörin eru stillt eftir verðbólgunni en launin ekki, enda urðu menn sammála um að taka hana úr sambandi í ágúst 1986. Þróun launavísitölunnar, en mjög er umdeilt hvort hún sýni rétta mynd af afkomu launafólks, er ekki miklu hagstæðari. Jafnvel meðan laun voru vísitölubundin tókst ekki að halda jafnvægi þannig að hækkun launa héldist í hendur við hækkun lánskjara. Launafólk getur því vart búist við að verða nokkru sinni ofan á í baráttunni við lánskjaravísitöluna. Það gekk ekki í mesta góðæri sem landsmenn hafa búið við. Varla gengur það betur þegar aftur harðnar í ári.

Nú eru ýmsar blikur á lofti þrátt fyrir mikla bjartsýni núverandi stjórnarflokka á því að hinar umfangsmiklu breytingar á tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs samfara svokallaðri einföldun á skattkerfinu eigi eftir að skila þeim árangri að lækka vexti og verðbólgu. Allt bendir raunar til þess að verðbólga sé að fara á fullt skrið aftur og misgengi lánskjara og launa muni enn versna.

Sú víxlhækkun launa og verðlags, sem stafar af vísitölubindingu, er af flestum talin óæskileg. Hins vegar er ekki hægt að ætlast til þess að almenningur beri áfram þær byrðar sem fylgja verðtryggðum fjárskuldbindingum en óverðtryggðum launum. Verðtrygging sumra þátta efnahagskerfisins, en annarra ekki, skapar ójafnvægi sem er óeðlilegt og hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir einstaklinga, fyrirtæki og atvinnulífið í heild.

Af framansögðu er ljóst að kominn er tími til fyrir stjórnvöld að taka afstöðu til þess hvort meginþættir efnahagskerfisins, svo sem laun og lánskjör, skuli bundnir við sömu vísitölu eða lánskjaravísitala verði afnumin. Er ekki heppilegra að nota vísitölur í þeim tilgangi einum að sýna hvert sé ástand hinna ýmsu þátta í efnahagskerfinu, en þær hafi ekki að öðru leyti nein bein áhrif til hækkunar eða lækkunar launa og lánskjara.

Verði lánskjaravísitala lögð niður, sem að mati flm. er æskilegri niðurstaða, er nauðsynlegt að fara aðrar leiðir til þess að tryggja bæði hagsmuni sparifjáreigenda, lánveitenda og lántakenda. Í greinargerð með frumvarpi til laga um húsnæðislánastofnanir og húsbanka, sem þingmenn Borgaraflokksins lögðu fram í efri deild Alþingis síðastliðið haust, eru settar fram nokkrar nýjar hugmyndir í þessu sambandi.“

Ég hef lokið lestri greinargerðarinnar.

Það er ekki í fyrsta skipti sem ég hef rætt um nauðsyn þess að leggja niður lánskjaravísitölu. Skömmu eftir að launavísitalan var felld niður ræddi ég það í þingflokki Sjálfstfl., sem ég tilheyrði þá, og nokkrum sinnum í ríkisstjórn, sem ég sat í á þeim tíma sem fjmrh., og fékk góðar undirtektir sérstaklega tveggja ráðherra, sem þá voru samráðherrar mínir, hæstv. félmrh., sem þá var, Alexanders Stefánssonar, og hæstv. landbrh. Jóns Helgasonar. En því miður komst ekki hugmyndin í gegn.

En ég tel að það sé alveg útilokað, það er alveg sama hvort það á við um verðlag eða um lánskjaravísitölu eins og við höfum unnið hana upp, þ.e. við höfum tekið launavísitölu úr sambandi á sama tíma sem aðrar vísitölur eru í gangi, það er alveg útilokað og gildir sama lögmál um þá verðstöðvun eins og aðra verðstöðvun: hún springur ef hún stendur of lengi. Og þessi lánskjaravísitala er búin að sprengja greiðslugetu fólksins í landinu.

Ég er með í veskinu plagg, sem ég hef áður vitnað í nokkuð oft úr þessum ræðustól, sem sýnir 80 þús. kr. lán sem einstaklingur tók og hafði borgað af reglulega og alltaf staðið í skilum í fimm ár. 1985 var niðurstöðutalan: Skuld mannsins sem fékk 80 þús. kr. lánaðar 1980 var rúm 539 þús. kr. Og þetta gengur ekki.

Ég hef margoft endurtekið úr þessum ræðustól að það gengur ekki að orkan sem er í manninum, orkan sem hann á eftir að breyta í krónur, sé minna virði en krónan sem hann fær að láni frá þeim sem hafa áður breytt sinni orku í krónur og aura. Það verður að vera sama gengi á því sem í manninum býr og því sem maðurinn þarf að standa skil á. Öðruvísi gengur þjóðfélagsdæmið ekki upp. Og ég verð að segja alveg eins og er og endurtek, þetta er allt hið sama og kom frá mér áður úr þessum ræðustól, að meðan við ekki breytum þessu fyrirkomulagi, þessu misgengi verðmætanna, annars vegar í krónunni sem á eftir að skapa með orku mannsins og krónunni sem er til fyrir, þá erum við að tæla unga fólkið út í húsnæðislánakerfið, út í að taka lán til að byggja upp framtíðina. Við erum að tæla það á fölskum forsendum vegna þess að um leið og það verður við þeirri beiðni okkar að gerast sjálfstæðir íbúðarhúsaeigendur erum við að tæla það inn í svikanet hins opinbera sem viðkomandi kemst aldrei út úr vegna þess að hann vinnur ekki fyrir skuldunum. Þegar við erum nú að horfa upp á nýja kjarasamninga þar sem lágmarkslaun eru 31 400 kr., að vísu voru þeir felldir víðast hvar um landið, sjáið þið að sá sem er fyrirvinna heimilis og jafnframt að greiða af lánum, af íbúðarhúsalánum því að leigumarkaðurinn er svo til ekki til á Íslandi og ekki í þeim mæli og ekki á þann hátt sem erlendis er, við skulum ekkert vera að bera leigumarkað saman við það sem leigumarkaður er annars staðar, og flestir verða þess vegna að eignast eigin þak yfir höfuð og á Íslandi býr enginn í tjaldi, það er ekki hægt, þá erum við að svíkjast að unga fólkinu sem er að koma sér upp heimili. Þessi tillaga er eins konar lausn úr álögum fyrir það fólk sem stendur ekki undir þeim lánum sem það hefur tekið.

Hv. þm. Eggert Haukdal flutti mál sem er í líkum dúr, en frv. sem hann flytur er að því leytinu öðruvísi en þetta mál að hann talar um vaxtabreytingu, sem er óþarfi vegna þess að ríkisstjórnin og Seðlabanki hafa heimild til að breyta vöxtum fram og til baka, og í öðru lagi gerir hann ráð fyrir niðurfellingu á lánskjaravísitölu af nýjum lánum, en lætur hin gömlu eiga sig. Það er mikill munur þar á.

En sem sagt: Við fulltrúar hv. þm. Borgarafl. leggjum fram till. sem ég mæli fyrir og ég legg til að að lokinni fyrri umr. verði tillögunni vísað til síðari umr. Ég bið um ráð hæstv. forseta, bið hann um að leiðrétta mig ef það er rangt hjá mér að meta það svo að þessi till. eigi að fara til fjh.- og viðskn. (Forseti: Hún er ekki til í Sþ. En allshn.) Ég áttaði mig ekki á því. Ég þakka hæstv. forseta og geri tillögu um að þáltill. verði vísað til allshn. að lokinni þessari umræðu.