10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5662 í B-deild Alþingistíðinda. (3798)

304. mál, verðtrygging

Flm. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið til máls og tekið undir þessa till. Ég held að flestum hafi skilist þörfin fyrir breytingar. En ég vil að lokum segja við síðasta ræðumann, hv. 2. þm. Norðurl. v., að í upphafi, eins og hann orðaði það, lánskjaravísitölu eða verðtryggingar og nafnvaxta var vísitala á launum. Hún var afnumin. Við erum að tala um misgengi á krónunni annars vegar hjá þeim sem eiga fé og hinum sem eru að vinna fyrir fé og þurfa að standa undir skuldbindingum vegna lána, jafnvel lána sem þeir hafa verið blekktir til að taka hjá opinbera kerfinu. Við getum ekki borið það saman. Í dag hefur launavísitala verið afnumin, en lánskjaravísitala ekki. Þar er munurinn á því sem var í upphafi og því sem er í dag. Við erum að reyna að jafna það aftur því verðstöðvun, hver sem hún er og hvar sem er, getur ekki verið endanleg ráðstöfun. Hún hlýtur alltaf að vera mjög tímabundin.

Mér fannst það vera hártoganir að gefa í skyn að það yrði einhver sérstök hátíð í Garðastrætinu ef jafnað yrði á milli verðgildi krónunnar í vasa þess sem á mikið af þeim og krónunnar í vasa launþegans. Ég verð að segja að síðan ég var tengdur Vinnuveitendasambandinu, óbeint þó, í gegnum verslunarráðið, en þar var ég í framkvæmdastjórn, hafa hlutirnir breyst mikið ef ekki er sú trú ríkjandi enn þá að okkar fjármagnsmarkaður geti einhvern tíma orðið sambærilegur við það sem er annars staðar. Satt að segja veit ég ekki, það getur verið að það sé til, það er alla vega ekki til í þeim löndum sem ég hef búið í, lánskjaravísitala sem slík. Það eru til vextir að sjálfsögðu. Það er til verð á peningum. En ekki vísitölutryggt eins og hér er. Ég hef reynt að útskýra fyrir mönnum sem hafa heimsótt mig hér í viðskiptaerindum hvað þetta er, hvernig verðmyndunin á framleiðsluvörum þeirra er hér á landi. Þeir geta ekki skilið það. Þeir geta ekki skilið að verðtrygging sé meiri í prósentum talið en verðgildið í vörunni sjálfri hingað kominni. Ég vona að Vinnuveitendasambandið hafi þá tilefni til að gleðjast yfir einhverju mjög fljótlega.