14.03.1988
Sameinað þing: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5720 í B-deild Alþingistíðinda. (3853)

340. mál, varnargarðar sunnan Markarfljótsbrúarinnar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Samkvæmt lögum nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, ber Alþingi að setja nánari reglur um störf og starfshætti umboðsmanns. Svo er kveðið á í 15. gr. laganna að reglur þessar skuli settar með ályktun í sameinuðu Alþingi að loknum tveim umræðum.

Það heyrir til forsetum Alþingis að vinna að framkvæmd þessa lagaákvæðis. Forsetar fólu Gauki Jörundssyni, nýkjörnum umboðsmanni Alþingis, að semja drög að reglum þessum. Málið var til ítarlegrar meðferðar hjá forsetum og samráð haft við formenn þingflokkanna. Við þessa málsmeðferð voru gerðar nokkrar breytingar þar til drögin að reglugerðinni lágu endanlega fyrir í því formi sem hér er gerð till. um til þál.

Flm. þessarar till. til þál. eru, auk forseta Sþ., Karl Steinar Guðnason, forseti Ed., Jón Kristjánsson, forseti Nd., og þingflokksformennirnir Ólafur G. Einarsson, Páll Pétursson, Eiður Guðnason, Steingrímur J. Sigfússon og Þórhildur Þorleifsdóttir.

Skal ég nú gera grein fyrir þeim reglum um störf og starfshætti umboðsmanns sem hér er gerð tillaga um.

Reglum þessum er ætlað að marka nánar starfssvið umboðsmanns og setja nákvæmari reglur um starfshætti hans en beinlínis segir í lögum nr. 13/1987. Að sjálfsögðu verður það að vera innan þess ramma sem lögin hafa ákveðið. Vík ég nú að einstökum greinum reglugerðarinnar sem hér er gerð tillaga um.

Í 1. gr. reglugerðarinnar er áréttað hvert sé hlutverk umboðsmanns Alþingis og skýrt hvaða aðilar njóti verndar samkvæmt lögum og reglum um umboðsmann. Skal sú vernd ná til allra einstaklinga sem stjórnvöld hafa afskipti af, svo og til hvers konar samtaka þeirra.

Bæði 2. og 3. gr. reglugerðarinnar afmarka starfssvið umboðsmanns. Í samræmi við grundvallarreglur laganna um umboðsmann er starfssvið umboðsmanns bundið við stjórnsýslu. Af því leiðir að umboðsmaður fjallar ekki um störf Alþingis eða dómstóla. Eru nánari reglur um það settar í 3. gr.

Í 3. gr. er einnig tekið fram í samræmi við ákvæði laganna að starfssvið umboðsmanns taki ekki til stjórnsýslu sveitarfélaga nema um sé að ræða ákvarðanir sem skotið verði til ráðherra eða annars stjórnvalds ríkisins. Er þess vegna ljóst að afskiptum umboðsmanns af stjórnsýslu sveitarfélaga eru takmörk sett.

Í 4. gr. reglugerðarinnar er að finna meginreglur um það hver geti verið aðdragandi þess að umboðsmaður taki mál til meðferðar. Er það annars vegar á grundvelli kvörtunar frá aðila sem telur rétti sínum hallað eða hins vegar að eigin frumkvæði umboðsmanns. Í 5. gr. er síðan rakið hvaða skilyrðum þurfi að vera fullnægt til að umboðsmaður taki kvörtun til meðferðar.

Í 6. gr. reglugerðarinnar er gerð grein fyrir því hvaða heimildir umboðsmaður hafi til að krefja stjórnvöld um nauðsynlegar skýringar vegna mála sem hann fjallar um og frekara ákvæði um gagnaöflun umboðsmanns eru síðan ákvæði í 7. gr.

Í 8. gr. reglugerðarinnar er gert ráð fyrir að umboðsmaður athugi þegar í upphafi eftir að kvörtun hefur borist honum hvort fullnægt sé skilyrðum laga fyrir því að hann taki mál til athugunar. Leiði þessi frumathugun umboðsmanns í ljós að svo sé ekki tilkynnir hann þeim, sem kvörtun hefur lagt fram, þá niðurstöðu sína og er málsmeðferð þar með lokið af hálfu umboðsmanns.

Ef umboðsmaður telur hins vegar rétt að taka mál til meðferðar eru nánari ákvæði um málsmeðferð og málsúrslit í 9. og 10. gr. reglugerðarinnar. Fjallar 9. gr. um málsmeðferðina og er hún í megindráttum á þá leið að málsaðilum, þ.e. þeim sem kvörtun hefur borið fram og viðkomandi stjórnvaldi, skuli gefinn kostur á að skýra sjónarmið sín og leggja fram nauðsynleg gögn. Í 10. gr. er síðan gerð grein fyrir því með hvaða hætti umboðsmaður geti lokið máli sem hann hefur tekið til meðferðar.

Í 11. gr. reglugerðarinnar er fjallað um heimild umboðsmanns til þess að gera athugasemdir út af ágöllum sem hann verður var við að séu á lögum, almennum stjórnvaldsfyrirmælum eða starfsháttum í stjórnsýslu.

Þá er í 12. gr. reglugerðarinnar ítrekuð sú regla laganna um umboðsmann Alþingis að hann skuli gefa Alþingi árlega skýrslu um störf sín á liðnu almanaksári og að skýrsluna skuli prenta og gefa út opinberlega fyrir 1. sept. ár hvert. Tekið er hins vegar sérstaklega fram að skýrslunni skuli skilað til Alþingis fyrir 1. mars ár hvert. Gefst Alþingi þá kostur á að fjalla um skýrsluna áður en hún er gefin út.

Ákvæði um starfsmenn umboðsmanns er að finna í 13. gr. reglugerðarinnar. Engin ákvæði eru um það í lögunum um umboðsmann hvernig með skuli fara ef umboðsmaður víkur sæti í ákveðnu máli. Er nauðsynlegt að hafa ákvæði um það í reglum um störf og starfshætti umboðsmanns og er það að finna í 14. gr. reglugerðarinnar. Þar er lagt til að forsetar Alþingis skipi mann til að fara með mál þegar svo stendur á.

Regla laganna um þagnarskyldu umboðsmanns og starfsmanna hans er ítrekuð í 15. gr. reglugerðarinnar.

Gert er ráð fyrir að reglur þessarar þáltill. um störf og starfshætti umboðsmanns öðlist þegar gildi er Alþingi hefur samþykkt þær.

Hæstv. forseti. Umboðsmaður Alþingis hefur miklu hlutverki að gegna. Honum ber að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkisins og sveitarfélaga. Og Alþingi skapar einstaklingum tækifæri til að leita réttar síns með skjótum og áhrifaríkum hætti. Umboðsmaður Alþingis tekur við kvörtunum á hendur stjórnvöldum og stjórnsýslumönnum frá fólki sem þykir misgert við sig. Umboðsmaður rannsakar þessar kvartanir og ef þær teljast á rökum reistar gerir hann tillögur um á hvern hátt menn skuli fá leiðréttingu mála sinna. Þannig á umboðsmaður að geta orðið borgurunum til trausts og halds gegn mistökum eða vanrækslu frá hendi stjórnvalda. Með þessum hætti er stuðlað að auknu réttaröryggi borgaranna, mannréttindi þeirra betur tryggð en nú er og stjórnsýslan jafnframt gerð réttlátari og virkari.

Reglugerð sú, sem hér er gerð till. um til þál., er við það miðuð að umboðsmaður megi sem best gegna því mikilvæga hlutverki sem lögin nr. 13 frá 1987, um umboðsmann Alþingis, gera ráð fyrir.

Það var mikill og sögulegur viðburður þegar Alþingi ákvað að setja á stofn embætti umboðsmanns. Með því er komið á sérstöku eftirliti löggjafarvaldsins með framkvæmdarvaldinu sem er á sinn hátt hliðstætt því eftirliti sem Alþingi tók sér með því að taka Ríkisendurskoðunina til sín frá fjmrh. Á síðasta ári kom Ríkisendurskoðunin til Alþingis. Á þessu ári kemur umboðsmaður Alþingis til. Það er vissulega skammt stórra tíðinda á milli. Staða Alþingis hefur verið stórefld og hlutverk þess aukið til þess að það megi hafa eftirlit og fylgja eftir því að fyrirmælum þess og lögum sé fylgt.

Afar mikilvægt er að sem víðtækust samstaða sé um slík mál er varða svo mjög stöðu og hlutverk Alþingis. Sú hefur líka raunin verið. Við undirbúning þeirrar reglugerðar sem hér er gerð tillaga um hefur þetta mjög verið haft í huga. Forsetar Alþingis hafa leitað eftir sem víðtækastri samstöðu þingflokkanna um þetta mikilvæga mál. Það er afar áríðandi að um hið nýja embætti umboðsmanns megi ríkja friður og eining svo að skapa megi embættinu þegar í upphafi það traust almennings sem er svo mikilvægt til þess að gefa því það áhrifavald sem er forsenda þess að markmiðum þess verði náð til hjálpar þeim sem eru aðstoðar þurfi og ekki síst þeim sem eru minni máttar í samfélagi okkar.

Hæstv. forseti. Ég legg til að till. þessari verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. allshn.