17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5844 í B-deild Alþingistíðinda. (3943)

292. mál, stjórn Ísraelsmanna á herteknum svæðum

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Að undanförnu hafa okkur borist fréttir af framferði Ísraelsmanna í Palestínu og á herteknu svæðunum, hrikalegar fréttir, um mannréttindabrot, um ofbeldi gagnvart einstaklingum, morð á gömlu fólki og jafnvel börnum. Þessar fregnir hljóta að hafa ýtt við okkur eins og reyndar öllum öðrum á Vesturlöndum sem hafa fjallað um þessi mál núna að undanförnu, þar sem gerðar hafa verið samþykktir í hverju þjóðþinginu á fætur öðru þar sem framferði Ísraelsmanna er gagnrýnt mjög harðlega.

Ég tel að óhjákvæmilegt sé af þessu tilefni að þessi mál komi til meðferðar á Alþingi Íslendinga og það gerist hér eins og á mörgum öðrum þingum að það birtist skýlaus afstaða stjórnvalda. Það er mín skoðun að hún ætti að birtast í þrennu.

Í fyrsta lagi hlýtur hvaða ríkisstjórn sem er sem er aðili að Sameinuðu þjóðunum og tekur eitthvert mark á stofnsamþykktum þeirra að fordæma hernám Ísraelsmanna og mannréttindabrotin og ofbeldið að undanförnu.

Í öðru lagi er óhjákvæmilegt við þessar aðstæður að krefjast alþjóðlegrar ráðstefnu um málin undir forustu Sameinuðu þjóðanna og með aðild PLO.

Í þriðja lagi er eðlilegt og sjálfsagt að gera þá kröfu við þessar aðstæður að Ísraelsmenn verði brott af hernumdu svæðunum hið allra fyrsta.

Í tilefni af þessu hef ég leyft mér að spyrja hæstv. utanrrh. þessara spurninga:

„1. Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar til framferðis Ísraelsstjórnar á herteknu svæðunum?

2. Hefur ríkisstjórnin mótmælt eða lýst áhyggjum sínum af síðustu atburðum í Palestínu?"

Á undanförnum þingum Sameinuðu þjóðanna hefur aftur og aftur verið fjallað um þessi mál og m.a. hafa verið lagðar þar fram tillögur sem hafa fordæmt framferði Ísraelsmanna og hernám þeirra á þessum svæðum. Þar hafa verið gerðar kröfur um sjálfsögð almenn mannréttindi fyrir Palestínumenn sem þeir eiga auðvitað að hafa og eiga rétt á eins og aðrir. Við meðferð þessara mála og afgreiðslu á þingi Sameinuðu þjóðanna hefur íslenska ríkisstjórnin eins og reyndar flestar ríkisstjórnir Norðurlandanna setið hjá. Ég tel að Ísraelsmenn hafi þarna notið víðtækrar samúðar í heiminum öllum á grundvelli þeirra atburða sem áttu sér stað í síðustu heimsstyrjöldinni og aðdraganda hennar. Í skjóli þessarar samúðar hafa þeir í seinni tíð gengið fram með offorsi sem er óverjandi með öllu. Norðurlöndin þurfa nú að móta sér eindregna stefnu í þessu efni og það er ástæða til þess að fagna því hér að formaður danska jafnaðarmannaflokksins gaf um það hvassar yfirlýsingar á síðasta þingi Norðurlandaráðs að á þessum málum yrði að taka.

Ég vænti þess að hæstv. utanrrh. sjái sér fært að svara þessari fsp. þannig að afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar liggi fyrir og verði algerlega afdráttarlaus í þessum efnum.