03.11.1987
Sameinað þing: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

48. mál, norræni umhverfisverndarsamningurinn

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Hinn 19. febr. 1974 undirrituðu fjórar Norðurlandaþjóðir, Danir, Norðmenn, Svíar og Finnar, samning um umhverfisvernd. Samningurinn tekur til gagnkvæmra aðgerða gegn umhverfisspjöllum, svo sem mengun frá landi, byggingum eða öðrum mannvirkjum, mengun vatns og sjávar, loftmengun eða mengun vegna geislavirkra efna og mengun sem verður frá mannvirkjum eða athöfnum á landgrunni samningsríkjanna. Er sérhverri þjóðanna skylt að koma í veg fyrir tjón eða spjöll á umhverfi í eigin landi, en einnig í hinum löndunum sem samningurinn tekur til. Séu einhverjar þær aðgerðir í gangi í einu landanna sem gætu haft í för með sér umhverfisspjöll í öðru er viðkomandi ríki heimilt að höfða mál til að stöðva þær framkvæmdir. En þar sem Íslendingar hafa ekki gerst aðilar að samningnum er Ísland þarna undanskilið.

Mikil umræða fer nú fram um allan heim um umhverfismál, en enginn tími gefst til að gera þau að umræðuefni hér. Töluverð umræða hefur farið fram á hinu háa Alþingi um þau mál og margir þm. hafa sýnt þeim áhuga. Þá hafa íslenskir þm. borið fram tillögur á sviði umhverfisverndar á þingum Norðurlandaráðs. Það má því undarlegt teljast að Íslendingar skuli ekki hafa leitað eftir aðild að norræna umhverfisverndarsamningnum enn þá og ekki síst eftir að till. til þál. um að það yrði gert var samþykkt á síðasta löggjafarþingi. Þá tillögu fluttu þeir hv. þm. Gunnar G. Schram, Friðrik Sophusson, Birgir Ísl. Gunnarsson og Valdimar Indriðason. Samþykkt hljóðaði þál. svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að leita eftir aðild Íslands að norræna umhverfisverndarsamningnum sem gerður var 19. febr. 1974 og hefur þegar tekið gildi milli Noregs, Svíþjóðar, Danmerkur og Finnlands.“

Þessi tillaga var samþykkt í þessum sal 18. mars 1987.

Ég hef því, herra forseti, borið fram fsp. til hæstv. félmrh., en fsp. liggur frammi á þskj. 48. Fsp. hljóðar svo:

„Hvað líður framkvæmd ályktunar sem samþykkt var á Alþingi 18. mars 1987 um að ríkisstjórnin staðfesti aðild Íslendinga að norræna umhverfisverndarsamningnum sem gerður var milli Noregs, Finnlands, Svíþjóðar og Danmerkur 19. febr. 1974?"