23.03.1988
Efri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6070 í B-deild Alþingistíðinda. (4116)

382. mál, fóstureyðingar

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Ég tek hér til máls sem meðflm. Guðmundar Ágústssonar að frv. á þskj. 722 til laga um breyt. á lögum nr. 25 22. maí 1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf, barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir.

Við búum í velferðarþjóðfélagi sem raun ber vitni. Hvers vegna fögnum við ekki hverju nýju lífi, bjóðum það velkomið og búum því stað með sæmd? Engin þjóð verður fátæk af því að leyfa börnum sínum að lifa. Ekkert barn sem fær að lifa þarf að vera óvelkomið. Hendurnar eru margar sem vilja umvefja það, hlúa að því og búa því verðugan stað. Þegar maðurinn hættir að virða helgi mannlegs lífs eykst spillingin í margvíslegri mynd með þeim afleiðingum sem því fylgja.

Nútímalífsgæðamat okkar lokar dyrunum á börn, það er ekki til rúm fyrir þau. Við konur eigum að standa vörð um okkar eigin líkama, að þungun eigi sér ekki stað ef þess er ekki óskað. Ef barn verður til er það siðferðisleg skylda okkar, skylda konunnar og samfélagsins alls að standa vörð um það líf. Menn eru svo uppteknir við lærdóm og lífstíðarsköpun að kjarninn gleymist. Börn gera engan fátækan, börn eru fjárfesting hins allra besta. Nú liggja fyrir í Heilbrigðisskýrslum 1985 frá landlæknisembættinu gögn sem segja að 9 af hverjum 10 fóstureyðingum á Íslandi séu af félagslegum ástæðum einum saman og vil ég leyfa mér að fullyrða að flestar ef ekki allar ástæður mætti laga ef nægileg samstaða væri fyrir hendi og meiri virðing borin fyrir helgi mannlegs lífs. Við megum ekki nota fóstureyðingar sem getnaðarvörn. Vitað er að 75% þeirra kvenna sem fara í fóstureyðingu nota alls engar getnaðarvarnir. Það þarf að fræða konur um hættuna er fylgir fóstureyðingum því að margar konur verða ófrjóar eftir slíka aðgerð. Það þarf að auka ráðgjöf og fræðslu um notkun getnaðarvarna, varðandi kynlíf og barneignir, einnig félagslega aðstoð við foreldra meðan á meðgöngu stendur og eftir barnsburð. Auðvitað geta komið upp tilvik þar sem þjóðfélagið getur réttlætt að brugðið sé frá þeim meginmarkmiðum sem frv. byggist á. Hins vegar er það spurning hve langt eigi að ganga í þeim efnum og hvaða sjónarmið eigi að viðurkenna. Skorið er úr um slíkt í frv. Lagt er til að fóstureyðingar verði heimilaðar í fjórum tilvikum.

1. Ef líf og heilsa móður er í hættu af áframhaldandi meðgöngu eða fæðingu. Ef velja á á milli barnsins og móðurinnar er barn á fósturstigi álitið réttlægra. Sama gildir í þeim tilvikum þar sem heilsu móður kann að vera hætta búin af meðgöngu og fæðingu.

2. Veitt er heimild til fóstureyðinga ef sterkar líkur eru á að barn fæðist vanskapað. Þessi heimild er umdeilanleg út frá sjónarmiðum um friðhelgi mannlegs lífs, þ.e. að setjast í dómarasæti og úrskurða eitt líf verðminna en annað. Þessi heimild er samt látin halda sér, en meiri kröfur eru gerðar en áður til sönnunar fyrir því sem heimildin er byggð á.

3. Heimiluð er fóstureyðing ef móðir er ung að árum. Þessa heimild má gagnrýna út frá sömu forsendu og aðrar heimildir laganna til fóstureyðinga, en það þykir rétt að hafa þessa heimild fyrir hendi að því tilskildu að foreldrar standi með stúlkunni að umsókn um fóstureyðingu, og að fóstureyðingin verði stúlkunni ekki að skaða.

4. Fóstureyðing er heimil sé hún afleiðing af refsiverðum verknaði. Það þykir rétt út frá hagsmunum konunnar og þjóðfélagsins að viðhalda þessari heimild. Skal þá fóstureyðing framkvæmd eins fljótt og auðið er, aldrei eftir 16. viku meðgöngutímans nema fyrir hendi séu ótvíræðar heilsufarsástæður.

Að síðustu vil ég segja það að börn eru það dýrmætasta sem við eigum. Án barna er ekkert líf, án morgundagsins engin framtíð.