12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6251 í B-deild Alþingistíðinda. (4309)

443. mál, skógrækt

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um skógvernd og skógrækt á þskj. 793. Þessu frv. er ætlað að koma í stað gildandi laga um skógrækt nr. 311955, með síðari breytingum, en með lögum nr. 22/1966 var settur viðauki við þau lög sem kvað á um skjólbeltaræktun og styrki til hennar og með lögum nr. 76/1984 var lögunum frá 1955 síðan breytt þannig að bætt var við nýjum kafla með ákvæðum um ræktun nytjaskóga á bújörðum.

Markmið frv. er að fella saman framangreinda þrjá lagabálka um skógrækt og skógvernd í ein lög auk breytinga á gildandi löggjöf sem aðkallandi er því langt er um liðið síðan lög um skógrækt voru samþykkt og hafa aðstæður breyst á margan hátt síðan. Með hverju ári sem líður fjölgar þeim blettum sem eru eins og frímerki á landinu þar sem bjartsýni, þrautseigja og dugnaður frumherja og áhugamanna í skógrækt eru að bera árangur. Að sjálfsögðu hefur starf þeirra ekki gengið áfallalaust en af reynslunni hafa menn lært hvernig betur má að verki standa og reynslan hefur kennt að með því að velja þær trjátegundir sem henta best aðstæðum á hverjum stað hérlendis má ná ótrúlega góðum árangri í skógrækt sem ekki getur aðeins orðið til ánægju og prýði heldur einnig til ýmissa nytja því að hér er loftslag ekki svo ólikt því sem sums staðar er þar sem skógarvöxtur er allgóður. Af þessum sökum fer áhugi vaxandi fyrir aukinni skógrækt. Margir bændur hafa áhuga á að hefja ræktun nytjaskóga á jörðum sínum og nota starfsorku sína til þess þegar þeim fækkar sem geta stundað hinar hefðbundnu búgreinar þó að bíða þurfi einhverja áratugi eftir að arður fáist af þeim framkvæmdum. En ljóst er að einstaklingar geta ekki ráðist í slíkt án mikils stuðnings eins og gert er ráð fyrir með ákvæðum frv.

Þá er nauðsynlegt að auka rannsókna- og tilraunastarfsemi til þess að geta leiðbeint um það hvernig best er að standa að verki bæði um val á tegundum og plöntun þeirra. Á því sviði hefur Skógrækt ríkisins unnið markvisst á síðustu árum eftir því sem fjárhagur hefur leyft og að því verður að sjálfsögðu að halda áfram að vinna, bæði til þess að auka hagkvæmni í vinnubrögðum og tryggja sem mest öryggi um árangur. En slíkra rannsókna og leiðbeininga sem byggðar eru á niðurstöðum þeirra njóta að sjálfsögðu líka allir aðrir sem að skógrækt vinna og nauðsynlegt er að örva áhuga sem flestra og greiða fyrir því að sem flestir leggi þar hönd á plóginn.

Skógræktarfélagi Reykjavíkur hafa nú nýlega verið leigðar tvær jarðir austur í Mýrdal til skógræktar þar sem forráðamenn félagsins telja skilyrði mjög ákjósanleg, bæði vegna þess að skilyrði séu góð til skógræktar og einnig sé landslagið mjög heppilegt til útivistar þannig að þeir sem þangað vilja leggja leið sína geti sem fyrst notið árangurs af skógræktarstarfinu. Þá hefur Landgræðsla ríkisins að minni ósk bent á svæði sem gætu hentað vel fyrir einstaklinga sem vilja rækta sína skógarreiti. Þannig er að sjálfsögðu nauðsynlegt að við nýtum okkur það að eiga mikið landrými með mikilli fjölbreytni sem fullnægir þörfum okkar á öllum sviðum ef rétt er á málum haldið.

Eins og áður sagði eru í frv. allmörg nýmæli og breytingar frá fyrri lögum. Í 2. gr. er skýrð merking orðanna skóglendi, skógarjörð, nytjaskógur, skjólbelti, skógarlundur og löggirðing.

Í 4. gr. er kveðið á um samvinnu rannsókna á sviði skógræktarmála við aðrar rannsóknarstofnanir í þágu atvinnuveganna en slík samvinna er þegar í gangi.

Tímabundin skipun skógræktarstjóra, lengst til sex ára í senn, er nýmæli í 5. gr. frv. Þar er jafnframt gert ráð fyrir að við Skógrækt ríkisins starfi sérmenntaðir starfsmenn er hafi háskólapróf eða próf frá skógtækniskóla. Þeim er ætlað að hafa með höndum rannsóknaverkefni, áætlanagerð, eftirlit með meðferð skóga á ákveðnum afmörkuðum svæðum landsins og eignaumsýslu fyrir Skógrækt ríkisins. Horfið er frá notkun starfsheitisins skógarvörður.

Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir að skógræktarstjóri geti einn veitt undanþágu frá banni við því að búfé sé beitt á friðað skóglendi, í stað skógræktarstjóra og skógarvarða eins og 14. gr. núgildandi skógræktarlaga er orðuð.

Í 4. mgr. 7. gr. frv. er að finna nýmæli sem ætlað er að stemma stigu við því mikla tjóni sem hreindýr valda á ungskógi í skógræktargirðingum á Austurlandi. Nýleg dæmi frá því í vetur hafa sýnt að þörf er á slíku ákvæði. Það var ekki í því frv. sem lagt var fyrir Alþingi fyrir tveimur árum síðan um þetta sama efni en náði þá ekki fram að ganga og hefur síðan verið endurskoðað nokkuð.

2. mgr. 8. gr. hefur að geyma nýmæli er skyldar eiganda eða notanda gripahúss, sem stendur í skóglendi eða við jaðra þess, til að girða í hæfilegri fjárlægð frá húsum þannig að búpeningur komist ekki í skóglendi á tímabilinu 1. nóv. til 1. júní.

Í 9. gr. er að finna tvö nýmæli. Annars vegar er skylda eiganda eða notanda lands til að taka að hálfu á móti Skógrækt ríkisins þátt í kostnaði við uppsetningu girðinga líkt og kveðið er á um í girðingalögum þegar friðun skóglendis fyrir beit er nauðsynleg að mati skógræktarstjóra og hins vegar er ákvæði 2. mgr. þar sem gert er ráð fyrir að skógræktarstjóri leggi fyrir Alþingi fimm ára áætlun um friðunaraðgerðir.

Í 10. gr. frv. er nýmæli sem felur í sér fortakslausa skyldu eiganda eða notanda skóglendis til að takmarka notkun þannig að landið rýrni ekki að stærð né gæðum. Jafnframt felur greinin í sér bann við að leggja eld í skóglendi og að brenna sinu svo nærri skóglendi að hætta sé á að eldur geti borist í það.

Þá felur greinin í sér skyldu til að hlífa nýgræðingi trjágróðurs.

Í 11. gr. frv. er kveðið á um bann við skógarhöggi án samþykkis Skógræktar ríkisins og er bann þetta til muna fortakslausara en sambærilegt ákvæði gildandi laga. Jafnframt hefur greinin að geyma nýmæli um skyldu til að rækta skóg í stað þess sem höggvinn er.

Í 12. gr. frv. er nýmæli sem gerir ráð fyrir að gróðurverndarnefndir sem starfa samkvæmt lögum nr. 17/1965 um landgræðslu geti haft frumkvæði að sérfræðilegu mati á ástandi og meðferð skóglendis. Jafnframt er gert ráð fyrir að skógræktarstjóri geti leitað til nefndanna og óskað eftir skýrslu um ástand og meðferð skóglendis.

Í 14. gr. er nýmæli sem gerir ráð fyrir samvinnu Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins um friðunaraðgerðir þegar svo háttar að saman fer landeyðing og skógeyðing á stórum svæðum.

Í V. kafla frv. er fjallað um ræktun nytjaskóga. Svarar efni kaflans til 3. gr. laga nr. 76 30. maí 1984, um breyt. á lögum nr. 3/1955, um skógrækt, en með þeirri grein var nýjum kafla um ræktun nytjaskóga á bújörðum bætt við lög nr. 3/1955. Þá er það nýmæli í frv. þessu að framlag ríkissjóðs til ræktunar nytjaskóga er ekki einungis bundið við bújarðir heldur getur það, ef skilyrðum kaflans er fullnægt, einnig nýst öðrum jörðum, jafnframt því sem lagt er til að framlag hækki úr 80 í 90% stofnkostnaðar.

Þá er í 2. mgr. 16. gr. gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði allan stofnkostnað fyrir utan kostnað við girðingar þegar margir landeigendur koma sér saman um að rækta skóg eftir samþykktri áætlun og því fylgir friðun á landi í stórum stíl. Þá er gert ráð fyrir að þeir sem styrks njóta endurgreiði Skógrækt ríkisins hluta af verðmæti afurða þegar þær falla til og skal það fjármagn sem þannig fæst renna í sérstakan endurnýjunarsjóð viðkomandi skóglendis sem Skógrækt ríkisins varðveitir.

Þá er það enn fremur nýmæli í frv. að framlag ríkissjóðs til ræktunar nytjaskóga greiðist á hvern hektara lands hverju sinni, en í gildandi lögum er ekki gert ráð fyrir því fyrirkomulagi. Það atriði er til þess fallið að einfalda stórlega framkvæmd laganna.

Þau atriði sem hér hafa verið nefnd eru nýmæli frá því sem var í eldra frv.

Í 26. gr. frv. felst það nýmæli að lagt er bann við sölu skógarjarða án vitundar Skógræktar ríkisins. Er Skógrækt ríkisins áskilinn forkaupsréttur á skógarjörðum að frágengnum þeim aðilum sem forkaupsrétt eiga samkvæmt jarðalögum nr. 65/1976.

Í 27. gr. er nýmæli sem ætlað er að koma í veg fyrir skiptingu skóglendis eða að það sé tekið undir mannvirki án leyfis ráðherra.

Að lokum skal hér nefnt það nýmæli sem felst í 30. gr. frv. og ekki var í eldri lögum að þar er kveðið á um að nánari framkvæmd laganna skuli ákveðin með reglugerð sem við þau yrði gefin út.

Herra forseti. Ég hef farið stuttlega yfir helstu breytingar sem felast í frv. frá gildandi lögum og að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.