12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6256 í B-deild Alþingistíðinda. (4311)

443. mál, skógrækt

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég held að ástæða sé til að fagna því að þetta frv. er komið fram. Það er langt síðan lög um skógrækt voru sett hér og margt hefur breyst síðan og þetta frv. virðist vera miklu fyllra og samræmdara en þau lög sem í gildi eru um skógrækt. Allt frá aldamótum eða frá stofnun ungmennafélaganna hefur áhugi á skógrækt hér á landi farið vaxandi. Framan af var almenningur að vísu ekki mjög trúaður á að slík ræktun ætti sér framtíð. En engum blandast hugur um það nú að bjartsýni aldamótakynslóðarinnar í þeim efnum var ekki tómir loftkastalar. Friðun skóga og skógarleifa hefur borið góðan árangur og ræktuninni fleygir fram, einkum nú á seinni áratugum. Við höfum átt þess betri kost í seinni tíð að kynnast því hvernig aðrar þjóðir haga sínum ræktunarmálum og við eignumst æ fleira dugmikið, menntað og sérhæft fólk í ræktun skóga, fólk sem nýtir sér nýjar rannsóknir og nýja og vaxandi þekkingu í þeim efnum.

Skógræktarmenn hafa unnið þetta lagafrv. að mestu og er því við að búast að í því birtist sú skipan sem þeir telja besta á málunum til að tilganginum sem lýst er í 1. gr. verði náð, en þar segir að tilgangur þessara laga sé að stuðla að því að skóglendi verði verndað, aukið og bætt og að nýir skógar verði ræktaðir þar sem það er talið hagkvæmt og að frætt verði og leiðbeint um meðferð og ræktun skóga, skjólbelta og annars trjágróðurs. Og þar vil ég leggja áherslu á að fræðsluþættinum sé fylgt eftir.

Í 4. gr. er skilgreint hlutverk Skógræktar ríkisins. Segir þar að Skógrækt ríkisins skuli annast rannsóknir á sviði skógræktar og hafa samvinnu um þær við aðrar rannsóknarstofnanir eftir því sem um er samið og lög ákveða. Varðandi þessa mgr. vil ég minna á hina stórfelldu lækkun á fjárframlögum til rannsóknastöðva landbúnaðarins á fjárlögum þessa árs frá því sem áður hefur verið. Á nokkrum þessara stöðva fara fram mikilvægar rannsóknir á trjátegundum og þoli þeirra og aðlögun að íslenskum aðstæðum. Eigi markmið þessara laga að ná fram að ganga á hagkvæman hátt verður seint lögð of mikil áhersla á vandaðar og markvissar rannsóknir sem undirstöðu framkvæmdanna. Og til þess að þessar rannsóknir fari fram og séu viðhlítandi, þá þarf að sjá fyrir fjármagni til tilraunastöðvanna en ekki afskrifa starfsemi þeirra sem marklaust fálm eins og gert var í frv. til fjárlaga á sl. hausti þó að vísu væri gerð tilraun seinna til að bæta úr því.

Í 14. gr. er kveðið á um samstarf Landgræðslu ríkisins og Skógræktarinnar. Þetta er nýmæli og mjög mikils vert að þessar stofnanir taki höndum saman til að græða þau sár sem landið ber en vinni ekki hvor í sínu horni og jafnvel gefi hvor annarri hornauga.

Þá er nýr kafli um ræktun nytjaskóga sem horfir mjög til þess betra fyrir þá bændur sem hyggjast snúa sér að skógrækt og þarf ekki að tíunda hver nauðsyn er á nýjum búgreinum fyrir bændur nú. Það er mikilvægt ákvæði þar um nytjaskóga og skógræktaráætlanir þannig að slíkar áætlanir verða að liggja fyrir ef fjárframlög eiga að fást. Þetta hindrar það að fé sé fleygt hingað og þangað e.t.v. án þess að það skili verulegu gagni. Þetta tel ég mjög mikilvægt.

Ég tel að flest í þessu frv. sé til bóta þó að mér hafi ekki gefist tími til að gaumgæfa það þar sem það kom fyrst fram í gær. Það er ekki mikill tími til að setja sig vel inn í mál á svo stuttum tíma og hefði verið ástæða til að þetta hefði komið fyrr fram þannig að það hefði getað fengið betri umfjöllun. En ég held að flest í þessu frv. sé til bóta frá fyrri lögum og sé til eflingar skógrækt í landinu þó að eflaust megi bæta um betur enn. En ég minni líka á að góð meining enga gerir stoð ef ekki er fylgt eftir með fjármagni sem nægir til framkvæmda. Við verðum að græða sár landsins. Skógar eru yndisgjafi, þeir veita skjól, þeir bæta loftslag og öll ræktunarstörf eru mannbætandi, ekki síst ræktun skóga.