19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6579 í B-deild Alþingistíðinda. (4568)

382. mál, fóstureyðingar

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur nú tekið þó nokkurn tíma. Þó má segja að ástæðulaust sé að vera að setja á veruleg ræðuhöld um málið. Einhver mundi sjálfsagt taka þannig til orða. Ég hef í sjálfu sér enga ástæðu til að fara að halda langa ræðu um þetta mál en get þó ekki annað en tekið til máls úr því að það er komið hér upp með þeim hætti sem það liggur hér fyrir. Málið er allt þannig vaxið að ég treysti mér ekki til að láta það algerlega fram hjá mér fara. Ég hefði auðvitað helst kosið að málið hefði ekki sést hér eins og það er, svo slæmt er það. Ef málið hefði aldrei verið flutt hefði það heldur ekki tekið neinn tíma hér. Þetta frv. stríðir í veigamiklum atriðum gegn mínum réttlætis- og jafnréttishugmyndum, að ekki sé fastar að orði kveðið.

Afstaða Alþb. í þessu máli liggur fyrir og er mjög þekkt. Það var 1973 sem Magnús Kjartansson lagði hér fram á Alþingi frv. um þessi efni sem hafði verið samið af nefnd sem í áttu sæti ýmsir aðilar, m.a. fulltrúar heilbrigðisstétta. Það var frv. til l. um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir sem lagt var fyrir 94. löggjafarþingið 1973. Það var undirbúið af nefnd sem í áttu sæti Pétur Jakobsson prófessor, Tómas Helgason prófessor og Sigurður Samúelsson sem lét svo af störfum og við sæti hans tók Guðrún Erlendsdóttir hrl. Síðan bættust við í þessa nefnd Svava Stefánsdóttir félagsráðgjafi sem ráðin var sem ritari nefndarinnar og loks Vilborg Harðardóttir blaðamaður.

Niðurstaðan varð þetta frv. sem lagt var fyrir 94. löggjafarþingið. Það olli miklum deilum. Veigamikil ákvæði þar, sérstaklega í 9. gr. frv., ollu verulegum deilum. Niðurstaðan varð sú að frv. var tekið til endurskoðunar af þeirri ríkisstjórn sem tók við sumarið 1974. Undir forystu þáv. heilbrrh. var frv. endurskoðað. Í það var sett þriggja manna nefnd á vegum þáv. stjórnarflokka en í þeirri nefnd voru eingöngu karlmenn. Það var nokkuð sem gæti ekki gerst á Íslandi árið 1988, held ég. En það gerðist 1. nóv. 1974. Þá var skipuð nefnd sem í áttu sæti Ingimar Sigurðsson, Ellert B. Schram og Halldór Ásgrímsson. Þessi nefnd skilaði síðan frv. til hæstv. þáv. heilbrrh. - Ég sé að hv. þm. Vesturl. tekur eftir því hvað það er fátt hér í salnum, en vil benda honum á það að það eru örugglega hlutfallslega fleiri en í Nd.

Þessi nefnd skilaði sem sagt frv. til hæstv. heilbrrh. sem flutti það fyrir Alþingi. Það var samþykkt eftir mjög miklar umræður. Sú breyting sem gerð var á 9. gr. frv. í þá átt að þrengja möguleika til fóstureyðinga við tiltekin skilyrði mætti andstöðu í þinginu. M.a. munu einhverjir þm.

Alþb. sem þá voru hér á Alþingi hafa greitt atkvæði gegn þessari breytingu. En niðurstaðan varð sú að við fengum þessi lög sem síðan hafa verið í framkvæmd og unnið hefur verið eftir. Að vísu verður að játa að ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir hefur ekki verið sinnt sem skyldi.

Þegar reynslan er skoðuð og farið yfir þær tölur sem til eru um þessi efni frá síðustu árum kemur í ljós þrátt fyrir allt að hér hefur ekki orðið það flóð fóstureyðinga sem spáð var á sínum tíma. Þvert á móti eru framkvæmdar fóstureyðingar miklu færri hér á landi á árunum eftir að lögin voru sett en t.d. í grannlöndum okkar. Það er rangt sem hv. flm. sagði áðan að fóstureyðingum hafi farið fjölgandi á síðustu árum. Þeim hefur farið fækkandi hvernig sem sú tala er skoðuð, hvort sem hún er skoðuð sem absolút tala eða sem hlutfall af fæðingum. Sérstaklega vek ég athygli á þeirri staðreynd að á árinu 1987 mun hafa orðið nokkur fækkun á fóstureyðingum hér á landi en veruleg fjölgun á fæðingum. Þá fæddust hér á landi lifandi 4150 börn.

Það er því ekki hægt að segja að þessi lög, eins og þau voru sett á sínum tíma, hafi haft í för með sér eitthvert flóð fóstureyðinga og misnotkunar í þeim efnum. Með því að halda því fram er verið að saka fólk um býsna alvarlega hluti, að ekki sé fastar að orði kveðið af minni hálfu að sinni.

Ég vil hins vegar vara mjög við allri talnafræði í þessum málum vegna þess að opinberar tölur um þessi efni segja ákaflega lítið. Gott dæmi um það er taflan á bls. 17 sem fskj. II með því frv. sem hér er á dagskrá, þar sem greint er frá því hvernig ástæður fóstureyðinga eru flokkaðar í félagslegar ástæður, læknisfræðilegar ástæður o.fl. Þar kemur t.d. fram að læknisfræðilegum ástæðum fækkar mjög verulega. Af þessu hafa menn dregið þá ályktun að félagslegum ástæðum hafi fjölgað og hinn félagslegi vandi hafi þar af leiðandi vaxið stórkostlega. Ég leyfi mér að fullyrða: Þessar tölur segja ekki neitt. Þær segja ekki neitt vegna þess að það er tilhneiging til þess víða að flokka ástæður sem félagslegar jafnvel þótt þær hefðu verið flokkaðar sem læknisfræðilegar ástæður áður. Þessi samanburðarfræði sem hér er stunduð stenst því ekki og sýnir kannski ekki neitt annað en það hvað varhugavert er að hafa uppi miklar talningar á þáttum eins og þessum.

Í frv, hv. þm. Borgaraflokksins er gert ráð fyrir því sem meginreglu, eins og það er orðað, sem fram kemur í 1. gr., síðu 2, stafl. g. í III. kafla: „Líf sem kviknað hefur í móðurkviði er friðheilagt.“ Út á þessa hugmyndafræði gengur allt frv. Samt er sagt að frá þessu megi víkja. M.ö.o. í frv. er tvískinnungur. Friðheilagleikinn er ekki meiri en svo að opnað er fyrir mjög veigamiklar undantekningar í þessu efni vegna þess að hv. flm. gera sér grein fyrir því að útilokað er að banna fóstureyðingar við gersamlega allar kringumstæður. Þetta viðurkenna flm. og eru þannig í raun, með því að viðurkenna veruleikann í kringum sig, í mótsögn við það grundvallaratriði sem þeir segja að frv. byggist á.

Á þessu grundvallaratriði byggist síðan orðanotkun í grg. og frv. sem satt að segja er hrikaleg, kostuleg. Það er t.d. talað um „fóstureyðandann“ á bls. 5 sem ég hef ekki áður heyrt nefndan í íslensku máli. Þar er einnig birt tafla um fjölda fæddra og framkvæmdra fóstureyðinga á árunum 1971–1987. Og það er sagt: Þetta sýnir að fóstureyðingum fjölgaði við framkvæmd þessara laga.

Þá vil ég segja við hv. flm.: Tafla þeirra segir ekkert um þetta mál vegna þess að þeir hafa ekki neinar tölur um ólöglegar fóstureyðingar á Íslandi áður en lögin voru sett né heldur hafa þeir neinar upplýsingar um þann fjölda kvenna sem fór til útlanda til fóstureyðinga áður en þessi lög voru sett. Sú samanburðarfræði sem hér er stunduð segir því ekki nokkurn skapaðan hlut um þann alvarlega veruleika sem við erum hér að ræða um.

Ég tel að frv. sé í fyrsta lagi rangt siðferðilega. Það er kveðinn upp dómur yfir konum sem beita fóstureyðingu sem er alltaf neyðarúrræði.

Í öðru lagi tel ég að frv. sé rangt vegna þess að það eigi að svara þeim vanda sem frv. vísar á með fræðslustarfsemi og til þess að efla fræðslustarfsemi á að auka fjármagn í því skyni.

Í þriðja lagi tel ég að frv. sé rangt vegna þess að jafnvel þótt það yrði samþykkt mundi það ekki fækka fóstureyðingum. Það mundi fjölga ólöglegum fóstureyðingum og hrekja fjölda kvenna til útlanda til fóstureyðinga eins og var áður en lögin voru sett 1975.

Ég held að það sé líka beinlínis rangt að setja hlutina þannig upp að hér sé um að ræða val, hér sé um að ræða frelsi. Fóstureyðing er alltaf neyðarúrræði en konunum er sjálfum best treystandi til að fara með þann rétt að taka ákvörðun um fóstureyðingu eða ekki fóstureyðingu. Veruleikinn er einu sinni þannig að á konunum bitna hvort sem er afleiðingarnar á hvorn veginn sem þær kunna að velja. Hugarstríð og sektarkennd ef fóstureyðing er eina leiðin, burðurinn og ábyrgðin ef uppeldi og umönnun barns verður að veruleika. Þess vegna er meginskoðun okkar sú að það sé betri félagslegur aðbúnaður að börnum og barnafjölskyldum sem eigi að vera forgangsverkefni. Fyrir þinginu liggja mörg mál frá okkar þingflokki um þetta efni, m.a. frv. um dagvistarmál sem liggur hér fyrir þessari virðulegu deild. Við teljum að þrátt fyrir aukinn hagvöxt og batnandi efnahag þjóðarinnar í heild hafi aðbúnaður barnafjölskyldna og mæðra að mörgu leyti versnað, m.a. vegna þess að launamunur hefur vaxið, m.a. vegna þess að vinnuþrældómur hefur vaxið stórkostlega á undanförnum árum. Þessi vinnuþrældómur og þessi launamismunur kemur alveg sérstaklega niður á börnunum. Konur eiga nú ekki lengur val um það að vinna úti eða sinna heimili og börnum. Jafnvel mæður ungbarna neyðast til að fara út að afla heimilinu tekna löngu áður en gott má teljast og þá að láta börnin í óvissa dagvist og oft mjög dýra. Þessar aðstæður gera barnsburð og barnauppeldi ekki fýsilegan kost eins og sakir standa í þjóðfélaginu, því miður.

Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir rakti þessi mál mjög vel áðan og ég hygg að ég geti tekið undir flest af því sem hún sagði. M.a. rakti hún tölur um fóstureyðingar hér á Íslandi, í Danmörku, Finnlandi, Grænlandi, Noregi og Svíþjóð á undanförnum árum. Ég hygg ótvírætt að þessar tölur sýni að íslenskum konum er vel treystandi til að búa við óbreytta fóstureyðingarlöggjöf. Það er ósanngjarnt og rangt að segja að þær hafi misnotað hana, eins og oft er haldið fram.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan: Það er enginn færari en konan sjálf til að taka þá erfiðu ákvörðun sem hér er um að ræða. Ég hygg þess vegna að lausn á þessu vandamáli fáist fyrst og fremst með fyrirbyggjandi aðgerðum, með fræðslu og með því að skapa þjóðfélag sem er gott við börn, þjóðfélag sem býður börn velkomin í þennan heim.