05.11.1987
Efri deild: 8. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

68. mál, almenn hegningarlög

Flm. (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka undirtektir hv. þm. og dómsmrh. í máli þessu. Nú hef ég borið þessar tillögur mínar um breytingar á lagaákvæðum undir fræðimenn í refsirétti og jafnframt sakadómara og hefur komið í ljós að einmitt þessi ákvæði hafa valdið miklum erfiðleikum í málum af því tagi sem hér er um rætt, þ.e. kynferðisafbrotamálum.

Ég hef einnig rætt þetta við formann þessarar umtöluðu nauðgunarnefndar og virðist mér að þessi ákvæði muni ekki stangast á við þær tillögur sem nefndin muni gera. Ég get því ekki séð rök fyrir því að frv. fái ekki viðhlítandi afgreiðslu á Alþingi Íslendinga. Ég legg á það ríka áherslu að hér er um nauðsynlega réttarbót að ræða sem þolir enga bið.

Eins og ég sagði áðan er hlutverk nauðgunarnefndar fyrst og fremst að gera tillögur um breytingar á ákvæðum um brot gegn kynfrelsi kvenna en ekki á þeim ákvæðum sem frv. þetta fjallar um. Ef frv. hefur hins vegar þau áhrif að flýta fyrir endurskoðun á þeim lögum öllum er snerta kynferðisafbrot fagna ég því mjög. Þá er tilganginum náð.