25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6696 í B-deild Alþingistíðinda. (4662)

186. mál, fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um utanríkismál

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér hefur hæstv. menntmrh. flutt skýrslu um fréttaflutning Ríkisútvarpsins 9. og 10. nóv. 1987 vegna upplýsinga frá Norðmanninum Dag Tangen um utanríkismál Íslands, eins og er heiti þess þinggagns sem hér er til umræðu. Hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir málinu og kveðið upp þunga áfellisdóma yfir Ríkisútvarpinu, sem undir hann heyrir, á grundvelli þessarar skýrslu og hv. 4. þm. Austurl., fyrsti skýrslubeiðandi, hefur hnykkt þar enn frekar á og dregið inn í umræður þá atburði sem gerðust hér í aðdraganda þess að Ísland hvarf frá hlutleysisstefnu sinni á fyrstu árum eftir stofnun lýðveldisins. Hv. 4. þm. Austurl., fyrrv. menntmrh., kvað raunar upp enn harðari dóma yfir Ríkisútvarpinu, sem undir hann heyrði sem ráðherra á sínum tíma, og kvað eðlilegt að gerðar væru meiri kröfur til Ríkisútvarpsins en annarra fjölmiðla.

Ásamt hv. þm. Sverri Hermannssyni eru beiðendur um þessa skýrslu nokkrir hv. þm. Sjálfstfl. og auk þess hv. 4. þm. Reykn. Kjartan Jóhannsson og hv. 10. þm. Reykv. Guðmundur G. Þórarinsson.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson og þeir sem með honum standa að skýrslubeiðninni báðu um ítarlega skýrslu að undangenginni rækilegri rannsókn um fréttaflutning Ríkisútvarpsins. Þessi beiðni er lögð fram eftir að útvarpsráð hefur ályktað um málið og eftir að fréttastofa hljóðvarpsins hefur birt greinargerð um það fyrir sitt leyti og lýst heimildir fyrir fréttum sínum 9. nóv. og dagana þar á eftir ótraustar og ekki til staðar og beðið velvirðingar á því og harmað þennan fréttaflutning. Þetta lá allt fyrir þegar hv. þm. lögðu fram beiðni sína, en það er alveg ljóst að þingflokkur Sjálfstfl. hefur talið nauðsynlegt að bæta um betur í þessu efni og fengið til þess aðstoð tveggja hv. þm. úr öðrum flokkum til að reiða upp refsivönd gegn Ríkisútvarpinu og það er yfirmaður útvarpsins, hæstv. menntmrh., sem hér lætur þennan vönd ríða á fréttastofu þessa fjölmiðils með þeim fordæmingum sem hann hafði hér uppi og lesa má í skýrslu hans. Þar segir í inngangi, sem ég leyfi mér að rifja upp, með leyfi forseta, á bls. 2 í þskj.:

„Mál þetta er mikill álitshnekkir fyrir Ríkisútvarpið og brýnt að unninn verði bugur á þeim trúnaðarbresti sem óhjákvæmilega hefur orðið á milli stofnunarinnar og hlustenda. Menntmrh. gerir ekki athugasemd við þá meðferð sem málið hefur hlotið af hálfu útvarpsráðs og útvarpsstjóra. Útvarpsráð hefur harðlega átalið vinnubrögð í þessu máli og í framhaldi af því hefur útvarpsstjóri átt sérstakar viðræður við fulltrúa fréttastofunnar um starfshætti hennar og verkstjórnarleg atriði. Álitsgerð dr. Þórs Whitehead mun verða send útvarpsstjóra“ — og ég vek athygli á því sem hér fylgir — „með þeim eindregnu tilmælum að efni hennar verði vandlega kynnt starfsmönnum fréttastofu Ríkisútvarps, hljóðvarps og sjónvarps, og starfsmönnum dægurmáladeildar Rásar 2 svo komast megi hjá því að mistök af þessu tagi endurtaki sig.“

Þetta er niðurlagið í inngangi hæstv. menntmrh. fyrir þessari skýrslu. Hann dregur þar fram að útvarpsráð og fréttastofan hafi þegar lýst skoðunum sínum á málinu. En þetta var ekki nóg. Það skyldi viðhafa hellaþvottaraðferðir á fréttamenn Ríkisútvarpsins til þess að þeir voguðu sér aldrei að víkja að málum sem þessum í náinni framtíð.

Það er alveg ljóst að inntakið á bak við þennan málflutning hér, þessa skýrslubeiðni og uppsetningu alla, er að hræða fréttamenn frá því að gegna eðlilegum skyldum sínum. Auðvitað hljóta allir að krefjast þess að vandlega sé að verki staðið og það séu gerðar kröfur um heimildir og það er því fyllilega réttmætt og sjálfsagt, eins og fréttastofan gerði, að harma þau mistök, greina frá þeim þegar þau lágu fyrir eins og þeir höfðu gert. En hefði það nú ekki stundum þótt nóg að verið í máli sem þessu sem í rauninni lá alveg ljóst fyrir eftir greinargerð fréttastofunnar og auk þess hafði hún fengið frá kjörnum fulltrúum í útvarpsráði gagnrýni, þó að það væri með misjöfnum hætti hvernig hún var fram sett af fulltrúum í útvarpsráði.

En til þess að renna stoðum undir þau högg sem hér eru látin ríða á Ríkisútvarpinu/hljóðvarpi grípur hæstv. menntmrh. til þess að leita álits aðeins eins aðila, Þórs Whitehead, prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands, og hann segir í innganginum til þess að rökstyðja þessa málsmeðferð: „Hann gjörþekkir skjöl er varða Ísland og íslenska menn frá þessum árum og varðveitt eru í skjalasöfnum í Evrópu og í Bandaríkjunum. Var það mat ráðuneytisins að enginn væri betur til þess fallinn að vinna skýrslu þá er Alþingi óskaði eftir en dr. Þór.“

Hér er mikið sagt og það eru miklar kröfur sem eru gerðar til þessa manns sem ætlað er einum að fjalla um þetta mál og kveða þar upp dóma. Nú ætla ég ekki að vefengja að dr. Þór Whitehead sé vel heima í sögu þessa tímabils og hafi kannað þar mörg gögn og það mörgum öðrum frekar. Það liggur fyrir og væri nú kannski hollt fyrir hv. þm. að draga fram gamlan Skírni. Hann er meira en sjö ára. Var hann ekki sjö ára sem Jónas Hallgrímsson fékk og gat um í gamansögu sinni? Hann er frá 1976 og hefur að geyma ritgerð eftir dr. Þór Whitehead sem heitir „Lýðveldi og herstöðvar“. Ég held að það hefði verið ágætt fyrir hv. 4. þm. Austurl. að fara yfir þessa ritgerð sagnfræðingsins sem hefur að geyma tilvitnanir í minnisblöð ýmissa frammámanna Sjálfstfl. og annarra innanbúðarmanna í ríkisstjórn Íslands á þessum árum, minnisblöð sem renna ekki stoðum undir þau orð sem hann lét hér falla og þá söguskýringu og sögutúlkun sem hann hafði hér uppi áðan í ræðustól.

Það hlýtur hins vegar að teljast gagnrýni vert að ráðuneytið skuli ekki leita til fleiri aðila til að fjalla um þetta mál, en þetta tengist greinilega því markmiði skýrslubeiðanda, þingmanna Sjálfstfl., að koma höggi á Ríkisútvarpið og nota þau mistök, sem orðið höfðu og fréttastofa hljóðvarpsins hafði upplýst og harmað, til að hræða fréttamenn frá því að fjalla um mál af þessu tagi framvegis. Eins og skýrslan er fram sett er reynt að koma því á framfæri að ekki aðeins hafi fréttastofan beðið álitshnekki og valdið trúnaðarbresti heldur sé ekki flugufótur fyrir því að íslenskir valdamenn á þessum tíma hafi farið yfir eðlileg mörk í samskiptum við erlenda sendimenn.

Vissulega má finna málflutningi af þessu tagi ýmsa stoð í prentuðum orðum dr. Þórs Whiteheads því að hann gengur sannarlega langt í fullyrðingum sínum um fréttastofuna og um það hvað fréttamönnum hafi gengið til. Hann segir m.a.: „Ofurkapp er lagt á að halda ásökunum Tangens að hlustendum og blinda trú á sannleiksgildi þeirra.“ Þetta eru orð hans í skýrslunni. „Í þættinum Dagskrá sannaðist að útvarpsmenn litu málið aðeins frá einu pólitísku sjónarhorni.“ Þarna setur sagnfræðiprófessorinn sig í spor dómarans, fer í föt dómarans og kveður upp dóm sem byggir m.a. á þeirri vinnu, sem hæstv. ráðherra gat um í sínu máli, að sagnfræðiprófessorinn hafði ekki fyrir því að tala við stjórnanda þáttarins, Stefán Jón Hafstein, sem séð hefur ástæðu til þess að senda öllum formönnum þingflokka á Alþingi greinargerð um hvernig þetta mál horfi við af hans hálfu. Það er mjög eðlilegt að hann bregðist þannig við til þess að verja heiður sinn sem opinbers starfsmanns og það ætti að vera verkefni hæstv. menntmrh. að biðja hér á Alþingi afsökunar fyrir hönd þess sem hann fær til verka á þeim vinnubrögðum sem þarna eru viðhöfð gagnvart fréttastofunni að því er sérstaklega snertir þennan fréttamann.

Einnig má lesa í skýrslunni: „Þeir útvarpsmenn sem hér eiga hlut að máli reyni framvegis að líta á umdeild sagnfræðileg viðfangsefni frá fleiri en einni hlið og finni stjórnmálaskoðunum sínum vettvang utan fréttatíma.“

Ja, hvaða aðdróttanir eru á ferðinni í orðum þessum sem lesa má í niðurlagi þessarar skýrslu? Hvaða kröfur um ritskoðun eru raunverulega hér á ferðinni? Það kemur fram, og hefur nú verið dregið fram af Stefáni Jóni Hafstein, að Þór Whitehead virðist aðeins hafa rætt við fáa málsaðila sem þó fá harðan dóm í skýrslu hans. Hann gengur einnig langt í að gefa í skyn að engin skjöl séu tiltæk um starfsemi leyniþjónustunnar CIA á Íslandi þar eð hann hafi ekki fundið þau í skjalasöfnum vestra á árinu 1986. Hann segir:

„Markmiðið var að kanna öll helstu gögn sem opnuð höfðu verið fræðimönnum um þetta efni á síðustu árum. Við þessa rannsókn“, segir prófessorinn, „kom í ljós að engin skjöl bandarísku leyniþjónustunnar CIA um starfsemi hennar á Íslandi eru tiltæk í skjalasöfnum vestra. Skemmst er frá því að segja að í heimildum frá öðrum stjórnarstofnunum og Bandaríkjaher fundust engar vísbendingar um Íslendinga sem starfað hefðu í þjónustu CIA.“

Hér er þessi prófessor, sem fær gæðastimpil í upphafi skýrslunnar frá hæstv. menntmrh., að koma því inn hjá lesendum og hv. Alþingi að það sé bara ekkert af þessu að finna. Að vísu segir hann hér, ósköp falið í þessum texta: „gögn sem opnuð höfðu verið fræðimönnum.“ Hann lætur undir höfuð leggjast að greina frá því hvernig skjöl bandarískra stjórnvalda eru flokkuð, áður en ákvörðun er tekin um það, hvort þau skuli opnuð til skoðunar á söfnum eða til birtingar. Hann upplýsir ekki um það að fjöldi manns vinnur, að ég best veit, að slíkri flokkun og nákvæmt mat fer fram á því í bandarískum stjórnarstofnunum og ráðuneytum hvort tiltekin skjöl eru opnuð eða haldið áfram undir lás og slá sem „classified“ eins og það heitir á enskunni. Við þetta mat er m.a. litið á öryggishagsmuni Bandaríkjanna og pólitíska hagsmuni, svo og hvort birting komi sér illa fyrir persónur sem í hlut eiga, innlendar eða erlendar, og þá m.a. sem taldar eru hafa þýðingu fyrir samskipti Bandaríkjanna út á við. Heimildir um þessi efni hef ég m.a. fengið úr samtali við Bandaríkjamann sem vinnur að slíkri flokkun og stjórnar henni að ég best veit á vegum State Department, bandaríska utanríkisráðuneytisins, og var raunar staddur á áheyrendapöllum Alþingis þegar skýrsla utanrrh. Matthíasar Á. Mathiesens var rædd hér í marsmánuði 1987. Við spjölluðum saman að viðstöddum fulltrúum frá utanrrn. á eftir hér niðri í kaffistofunni. Hann greindi okkur frá þeirri miklu kembingu sem fram fer á opinberum skjölum þar vestra með löngum fyrirvara áður en endanlegt mat fer fram á því hvort þau skuli áfram vera lokuð eða opnuð til skoðunar. Þetta hefði verið eðlilegt að fram kæmi af hálfu fræðimanns eins og dr. Þórs Whiteheads, en það hefði auðvitað dregið úr áhrifamætti staðhæfingar ráðuneytisins í inngangi skýrslunnar þar sem segir: „Hann gjörþekkir skjöl er varða Ísland og íslenska menn frá þessum árum og varðveitt eru í skjalasöfnum í Evrópu og Bandaríkjunum.“ Það er nú ekkert minna.

Það væri fróðlegt ef hæstv. menntmrh. upplýsti hvort dr. Þór Whitehead hefði fengið sérstaka heimild Bandaríkjastjórnar og leyniþjónustu Bandaríkjanna og Bandaríkjahers til þess að fara yfir lokuð trúnaðarskjöl þeirra á umræddu tímabili. Ég bið hæstv. ráðherra um að upplýsa hvort þessi trúnaðarmaður hans, sagnfræðiprófessorinn, hafi fengið þessa heimild.

Þá vekur það auðvitað athygli að sagnfræðiprófessorinn hirðir ekki um að minnast á skýrslur sem höfðu verið til umfjöllunar og hafa verið til umfjöllunar í íslensku blaði hér á undanförnum mánuðum, sérstaklega í nóvember og desembermánuði sl., þar sem er Helgarpósturinn. Þar eru birt skjöl, sem voru leyniskjöl en voru opnuð til skoðunar á sínum tíma, úr bandaríska utanrrn. og frá sendiráði Bandaríkjanna hér í Reykjavík sem vissulega sýna fram á náið samstarf íslenskra valdamanna, þar á meðal umrædds forsrh. á þessum tíma, við bandaríska sendiráðið, bandaríska sendimenn. Það er ekki minnst á gagn af þessu tagi. Það er ekki minnst á þetta skeyti, sem sent er frá bandaríska sendiráðinu 23. mars 1948 af 1. sendiráðsritara, Trimble, til Dean Acheson utanrrh. Bandaríkjanna, og hvað skyldi nú vera innihald þess? Ætti það sé ekki rétt aðeins að rifja upp hvert er innihaldið í þessu skeyti sem er „classified“ á þessum tíma og það er sent afrit til ýmissa aðila, þar á meðal til CIA, bandarísku leyniþjónustunnar, sem er hér skjalfestur viðtakandi afrits af þessu skeyti. Helgarpósturinn birti þetta skeyti þannig að sagnfræðingurinn átti nú að vita um það. Við skulum styðjast við þýðingu Helgarpóstsins, með leyfi forseta:

„Í viðræðum sem forsrh. Íslands átti við mig nýlega sagðist hann vera áhyggjufullur vegna þess hve margir flokksmenn Kommúnistaflokksins störfuðu hjá hinu opinbera og að þeir hefðu komist í þessar stöður . . . " Nú er hv. skýrslubeiðandi genginn á dyr, hv. 4. þm. Austurl. Mér fyndist nú ekki óeðlilegt að hann væri viðstaddur umræðuna, hlýddi m.a. á upplýsingar af þessu tagi. ". . . margir flokksmenn Kommúnistaflokksins störfuðu hjá hinu opinbera og að þeir hefðu komist í þessar stöður í tíð síðustu samsteypu [þ.e. samsteypustjórnar] en í henni voru tveir ráðherrarnir kommúnistar. Hann sagðist þess vegna stefna að því að fjarlægja kommúnista úr öllum trúnaðarstöðum eða skáka þeim í störf, þar sem þeir „gætu lítinn eða engan skaða gert“.

Herra Stefán Jóhann Stefánsson gat þess að Hendrik Ottósson, óður kommi, hefði nýlega verið leystur frá störfum sem fréttamaður við Ríkisútvarpið og bætti því við að menntmrh. Eysteinn Jónsson, en undir hann falla málefni Ríkisútvarpsins, væri nú að leita fyrir sér að manni með „heilbrigðar hugmyndir“" — ideologically sound á enskunni — „í stað hr. Ottóssonar. Ég notfærði mér þetta tækifæri“, segir 1. sendiráðsritari bandaríska sendiráðsins hér, Trimble, „ég notfærði mér þetta tækifæri, sem hann gaf mér þarna, og lét í ljós þá skoðun að það væri afar heppilegt að fá nýtt fólk í stað hr. Erlings Ellingsen flugmálastjóra og frú Teresíu Guðmundsson, forstöðukonu Veðurstofu Íslands, þar sem þau væru bæði vel þekktir stuðningsmenn kommúnista.

Forsrh, sagði einnig að tiltölulega fáir fundir hefðu verið haldnir í utanrmn. Alþingis undanfarna marga mánuði þar sem hr. Einar Olgeirsson, einn af þingmönnum kommúnista, væri í nefndinni. Í staðinn hefði verið sett á fót óformleg þingnefnd sem samanstæði af fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna þriggja stjórninni til ráðuneytis um erlend málefni.“ Tilvitnun lýkur og texta þessa skeytis, undirritað Trimble.

Hvað segja alþm. um atburði af því tagi sem þarna fara fram, samtöl af því tagi sem þarna fara fram, trúnaðarsamtöl um það efni að fjarlægja íslenska opinbera starfsmenn úr stöðum sínum af því að þeir eru samkvæmt upplýsingum erlends aðila yfirlýstir stuðningsmenn þess sem sendiráðið kallar kommúnista? Og hvað segja félagar mínir í utanrmn. Alþingis, sem var að koma af fundi núna rétt fyrir þingfund, um vinnubrögð af því tagi, sem viðtekin voru, ef treysta má þessum texta, á þessu ári, 1948, að leggja til hliðar utanríkismálanefnd Alþingis og setja í hennar stað á fót trúnaðarnefnd stjórnarflokkanna þáverandi, klíku þingmanna sem til er kvödd til þess að vera ráðgjafi ríkisstjórnar Íslands í utanríkismálum í staðinn fyrir þingkjörna nefnd?

Já, það eru margir, virðulegur forseti, dregnir inn í þessi mál af bandaríska sendiráðinu á þessum tíma, af bandaríska utanríkisráðuneytinu á þessum tíma og af fleiri aðilum sem því tengjast og ég held, til glöggvunar fyrir hv. skýrslubeiðanda, hv. 4. þm. Austurl., og hæstv. menntmrh., meðan ég er ekki kominn lengra mínu máli, að rétt sé að ég biðji virðulegan forseta að koma til þeirra þessum gögnum hérna, sem gæti kannski verið til þess að fríska aðeins upp minni þeirra og athuga hvort viðkomandi hv. þm. Sjálfstfl. og hæstv. ráðherra gæti ekki þótt ástæða til að draga það plagg sem hér hefur verið lagt fram til baka. (GHG: Hvernig fá menn svona plögg?) - Já, nú fer að ókyrrast hér í röðunum. (GHG: Nei, ég bara spurði.) Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson spyr hér: Hvernig fá menn nú þessi gögn? Já, á þingmaðurinn ekki þessi gögn hérna? Á ég að trúa því að þeim hafi ekki verið komið til hans til upplýsingar? Nei, það hefur ekki gerst. Athyglisvert. (Gripið fram í. ) Ég skal víkja að innihaldi þessa pakka hérna á eftir. Ég skal gera það.

Ef hæstv. ráðherra telur ekki ástæðu til að endurskoða sinn texta og sína heimild, dr. Þór Whitehead prófessor, í þessu máli, þá er a.m.k. lágmarkið að hann komi upp í þennan stól og biðjist velvirðingar á þeim dómum sem hann er að kveða upp. Ég er svo sem ekki að gera kröfur til hv. 4. þm. Austurl. um að hann fari að endurskoða sína sagnfræði eða breyta sinni söguskoðun. Hann er í óða önn, hv. þm., við það að túlka sögu Sjálfstfl. á síðustu mánuðum og missirum og leggja þar með í púkk íslenskra sagnfræðiathugana. Það má lesa í Heimsmynd, tímariti sem er gefið út í Reykjavík, um söguskoðun hv, þm. á málefnum Sjálfstfl. og fleira sem varðar ekki síst þá tíð þegar hann var ráðherra. Þetta nefni ég aðeins.

Helgarpósturinn hafði fyrir því að birta fleiri gögn á þessum mánuðum, en það er ekki nema lítið af því sem er í þessum pakka. Helgarpósturinn birti t.d. skýrslu sem varðaði samtöl fyrrv. sendiherra Bandaríkjanna, Dreyfuss heitir hann eða hét, ég veit ekki hvort hann er lífs eða liðinn, Louis G. Dreyfuss jr., sendiherra á Íslandi um skeið eftir stríð og kemur mjög við sögu í H. bindi um Ólaf Thors eftir Matthías Johannessen á fyrstu síðum þeirrar bókar og fær nú ekki alltaf mjög góða einkunn þar. En það er fjallað í þessari grein um samskipti þáv. forseta Íslands, Sveins Björnssonar, við Dreyfuss þennan og samtöl sem sendiherra Bandaríkjanna í Stokkhólmi sendir til síns stjórnarráðs. Það eru athyglisverðir hlutir sem þar koma fram sem snerta þau mál sem hér eru til umræðu, m.a. þær tilraunir til stjórnarmyndunar sem þá voru uppi í sambandi við myndun stjórnar að nýsköpunarstjórninni fallinni.

Ég ætla ekki að fara að vitna sérstaklega í þessa grein hér, hana geta menn lesið, hún er á sínum stað í Helgarpóstinum, en það er fróðlegt að rýna í hana eins og margt fleira sem er verið að draga fram af miklu efni sem enn er falið undir yfirborði um sögu þessara ára, samskipti þeirra manna sem þá fóru með völdin á Íslandi.

Það er hér annað plagg sem er sjálfsagt að nefna af því að við erum að ræða Ríkisútvarpið. Það er hér annað plagg sem sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi kemur á framfæri við utanrrn. í Washington og er dags. 29. mars 1948. Það er rétt vegna þess að við erum að ræða málefni Ríkisútvarpsins að fara aðeins yfir innihaldið eins og Helgarpósturinn rekur það. Ég ætla ekki að fara sjálfur að spreyta mig í að þýða það hér frá orði til orðs eins og það liggur fyrir, en hæstv. ráðherra hefur fengið það. Helgarpósturinn segir þannig frá því, þetta er dags. 29. mars 1949:

„Í þessu skeyti til utanrrh. Bandaríkjanna greinir William C. Trimble frá því að Högni Torfason muni taka við starfi Hendriks Ottóssonar.“ Það er þá búið að ýta Hendrik til hliðar eins og sendimaðurinn hafði verið að óska eftir við forsrh. Íslands að gerð yrði gangskör að. „Trimble lætur þess sérstaklega getið að hann hafi gengið ár skugga um að menntmrn. hafi látið kanna Högna með hliðsjón af trúnaði. Þá hafi Eysteinn Jónsson menntmrh. skýrt Högna frá yfirsjón Hendriks sem hafi falist í því að Hendrik hafi greint frá valdaráninu í Tékkóslóvakíu og reitt sig á útvarpsfréttir frá Moskvu. Þá á Eysteinn að hafa sagt að fréttir útvarpsins ættu fyrst og fremst að byggjast á BBC, breska útvarpinu, og ríkisútvarpsstöðvum á Norðurlöndum og í öðru lagi á fréttum úr bandarískum útvarpsstöðvum, en ekki undir neinum kringumstæðum ætti Ríkisútvarpið að reiða sig á fréttir frá Sovétríkjunum.“ Þetta er útdráttur Helgarpóstsins á efni þessa skeytis frá Trimble.

Það er kannski ekki víst að allir muni eftir því hver hann var, þessi Högni Torfason, hvar hann hafði starfað áður en honum var veittur þessi trúnaður. Hafa menn það í minni? Hvar skyldi hann hafa öðlast sína reynslu? Ég hygg að hv. þm. Geir H. Haarde, sem þekkir sennilega sögu þessa tíma dálitið, viti það eins og fleiri hér. Hann var starfsmaður bandaríska sendiráðsins. (GHH: Hver?) Högni Torfason. Hann var starfsmaður, „employee of the Legation since 1944“ stendur í þessu skeyti, starfsmaður bandaríska sendiráðsins frá 1944, og það er honum sem er treyst fyrir því að fylla skarð Hendriks Ottóssonar sem er ýtt til hliðar af íslenskum valdsmönnum að kröfu starfsmanna bandaríska sendiráðsins á Íslandi. Hvað segja menn í dag um þessi vinnubrögð og hvað segja menn um þau vinnubrögð sagnfræðiprófessorsins Þórs Whitehead að stinga undan vitneskju sem hefur komið hér fyrir almenningssjónir, þeir sem lesa Helgarpóstinn þekkja þetta, á sama tíma og hann er að vinna að þessari skýrslu fyrir menntmrn.?

Það er eðlilegt að Helgarpósturinn skrifi í leiðara sínum það sem hér má aðeins grípa niður í, með leyfi virðulegs forseta. Það er fyrir tveimur vikum eða svo. Ætli það sé ekki bróðir hæstv. núv. fjmrh. sem heldur þar á penna þó hann sé ekki undirritaður, leiðarinn. „Rannsóknarskýrslan“, segir Helgarpósturinn í leiðara, „fjallar um Tangen-málið sem svo er nefnt til heiðurs norska sagnfræðingnum Dag Tangen sem í upphafi fréttar um vinsamleg samskipti Stefáns Jóhanns Stefánssonar og fulltrúa bandarískra stjórnvalda á Íslandi 1948 hélt því fram að hann hefði undir höndum skjöl sem sönnuðu þessi vinsamlegu samskipti þáv. forsrh. og bandaríska sendiráðsins í Reykjavík. Það hafði Tangen ekki. Hann neitaði a.m.k. að láta skjöl þessi af hendi.

Í þessu blaði“, segir Helgarpósturinn, „birtust svo skjölin sem fréttastofu ríkisfjölmiðlanna vantaði“ og við skulum taka glefsur úr einni fjölmargra skýrslna sem birtar hafa verið á þessum vettvangi og þá er vitnað í þetta skeyti sem ég hef lesið hér, fyrra skeytið frá Trimble varðandi Erling Ellingsen og Teresíu Guðmundsson. Síðan fjallar Helgarpósturinn nánar um þessi vinnubrögð og bendir á að enginn fjölmiðla, ekki núverandi stjórnarflokka, ekki Morgunblaðið, ekki Tíminn, hafi tekið við sér eða greint frá þessum upplýsingum. Ekki stafkrók að finna um þessar upplýsingar þar. Og það segir einnig í Helgarpóstinum, leiðara:

„Menntamálaráðherra Birgir Ísl. Gunnarsson fékk í framhaldi af kröfu Sverris Hermannssonar og fleiri þingmanna ungan sagnfræðing austur í Þýskalandi til að taka saman skýrslu um fréttaflutning ríkisfjölmiðlanna. Sá er flokksbróðir ráðherra eins og flestir þeir sem þora ekki að eiga fortíð í utanríkismálum.“

Það er Helgarpósturinn, ritstjóri, sem lætur þessi orð falla. Ekki vissi ég að virðulegur sagnfræðiprófessor hefði flokksskírteini í Sjálfstfl., en það er hér fullyrt. Hann gæti verið góður fræðimaður þess vegna.

Fleiri hafa látið frá sér heyra um þessi efni og menn sem eiga að þekkja til, þar á meðal Þorleifur Friðriksson sagnfræðingur sem í viðtali við Þjóðviljann 15. apríl sl. gagnrýnir harðlega að Þór sest með sínu framlagi í þessari skýrslu í dómarasæti og virðist ekki einu sinni hafa lesið Helgarpóstinn, sem greindi frá þessum atriðum, sem ég hef hér vakið athygli á, og að „dómaraárátta og sérkennileg vinnubrögð eru helstu einkenni þessarar skýrslu“, sagði Þorleifur í Þjóðviljanum, „þannig að það er ekki laust við að maður velti því fyrir sér hvort hér sé um pantaða niðurstöðu að ræða.“ Þetta er orðrétt haft eftir þessum sagnfræðingi sem gaf í fyrra út bók sem hv. þm. hafa vafalaust kynnt sér, ekki síst þingmenn Alþfl. sem höfðu ástæðu til þess, og heitir Gullna flugan og er fyrra bindi athugana á sögu Alþfl. og þeirra stoða sem rennt var undir starfsemi hans hér fyrr á árum. Það er von á framhaldi af þeirri bók.

Já, það mætti í marga vitna í sambandi við efni þessarar skýrslu og umræður um þessi mál. Ég vek athygli manna t.d. á ummælum Helga Skúla Kjartanssonar, sem ég hygg að eigi flokksskírteini í Alþfl., og birt var í Alþýðublaðinu 30. des. sl. undir fyrirsögninni „Fréttaupphlaup útvarpsins og æra Stefáns Jóhanns“. Þar er ekki að finna þessa svarthvítu lýsingu sem hæstv. menntmrh. dregur hér fram og sagnfræðingur hans. Það er ekki að finna í þessari umfjöllun Helga Skúla Kjartanssonar í Alþýðublaðinu 30. des. sl. Menn ættu að kynna sér það sem þar segir um þessi efni.

Og þá kem ég að því sem ég tel að skipti miklu í þessu máli áður en ég fer nánar út í upplýsingarnar úr pakkanum sem ég afhenti hæstv. ráðherra áðan, en það er spurningin um heimildir, það er spurningin um aðgang að heimildum til þess að menn geti fjallað með eðlilegum hætti en ekki í æsifréttastíl um sögu þessa tímabils. Hvar eru gögnin, hvar eru íslensku gögnin um sögu þessa tímabils, frumheimildir íslenskra stjórnvalda? Grafin í kössum einhvers staðar í fórum kannski Þjóðskjalasafns, kannski utanrrn., kannski geymslum úti í bæ, því ekki hefur nú verið búið þannig að íslenskum söfnum og þá sérstaklega Þjóðskjalasafni að það hafi verið fært um að flokka og taka við lögum samkvæmt gögnum íslenskra stjórnvalda hvað þá að hafa þau aðgengileg.

Fyrir rúmu ári setti ég fram þá kröfu í umræðu um utanríkismál hér á Alþingi, þar sem ég ræddi sérstaklega birtingu á hluta skjala frá árunum milli inngöngunnar í NATO og fram að komu hersins hér vorið 1951, birtingu þeirra gagna á vegum bandarískra stjórnvalda, en búið er samkvæmt bandarískum lögum að létta trúnaði af hluta af þessum gögnum. Það var Helgarpósturinn sem kom inntaki þeirra plagga, það var ekki Þjóðviljinn, það var Helgarpósturinn sem kom inntakinu á framfæri með því að þýða úr þessum opinberu plöggum sem Bandaríkjastjórn birti á fyrri hluta árs 1987. Þarna er að finna mjög athyglisverða hluti sem ég ætla ekki að fara að rekja hér nánar, en þetta varð mér tilefni til þess í umræðum um utanríkismál í mars 1987 að reisa þá kröfu að íslensku gögnin frá þessum tíma yrðu reidd fram og það yrði komið reiðu á birtingu skjala íslenska stjórnarráðsins, þar á meðal og ekki síst íslenska utanrrn., varðandi samskipti Íslands við erlend ríki. Hæstv. þáverandi utanrrh. Matthías Á. Mathiesen lofaði að taka málið til athugunar og ég ítrekaði þetta í utanrmn. og enn var málið til athugunar og hæstv. ráðherra fór úr valdastóli og málið var enn til athugunar. — Já, þetta eru athyglisverð plögg, hv. 4. þm. Austurl. Er það ekki? (Gripið fram í.) En það var síðan í umræðu vegna þessa svokallaða Tangen-máls að ég tók á ný upp kröfuna um það að íslenskar heimildir yrðu gerðar aðgengilegar, og það var meginástæðan fyrir því að ég óska hér eftir 12. nóv. sl. umræðu utan dagskrár, að það væri ekki verið að túlka Íslandssöguna í gegnum erlenda penna eingöngu, að menn hefðu til samanburðar a.m.k. íslensku gögnin til að skoða, sagnfræðingar sem almenningur, áður en farið væri að kveða upp dóma og kannski þunga dóma og kannski að ósekju um íslenska menn á grundvelli gagna frá erlendum sendimönnum úr erlendum skjalasöfnum.

Hæstv. utanrrh. núverandi, Steingrímur Hermannsson, lofaði að taka á málinu og hæstv. forsrh. sagði: Jú, ég er búinn að fela hópi manna að móta reglur um birtingu á skjölum. — Ekkert hefur síðan af málinu spurst, ekki neitt, ráðherrarnir þöglir sem gröfin um þessi efni og hér er komið með skýrslu sem hefur það m.a. að markmiði auðsællega að biðja fréttamenn á Íslandi um að vera sem allra minnst að grafa í þennan haug.

Ja, það er kannski eðlilegt. Það er ekkert skemmtilegt að fara í gegnum þessi plögg mörg hver. Það er engin skemmtisaga sem lesin verður út úr þessum pakka hérna. (AG: Er hægt að fá pakkann?) Já, ég skal bæta úr því, virðulegur þingmaður Albert Guðmundsson, við fyrstu hentugleika.

Í þessum gögnum er m.a. að finna skýrslu sem dagsett er 4. ágúst 1948, send utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, Norður-Evrópu skrifstofunni, af 1. sendiráðsritara Trimble, og efnið: Áhrif kommúnista á Íslandi og tillögur um úrbætur — „remedial measures“ á enskunni. Í þessu plaggi upp á átta síður rekur Trimble áhrif þeirra sem hann kallar kommúnista hér á Íslandi sem séu sterkari á þessari eyju en annars staðar í Vestur-Evrópu að frátöldu Frakklandi og Ítalíu. Þeir séu ekki aðeins drottnandi í verkalýðshreyfingunni heldur séu menntamenn með fáum undantekningum með rauðlituð viðhorf eða „pink“. (SvH: Þetta er nú liðin saga.) Þetta er nú liðin saga, segir hv. þm. Sverrir Hermannsson sem var hér að kveða upp sína dóma um sögu þessa tíma úr ræðustól áðan. Hann hefur ekki mikinn áhuga á þessu eftir að kemur að því að líta á þessi plögg. — Þeir séu ekki aðeins drottnandi í verkalýðshreyfingunni heldur séu menntamenn með fáum undantekningum með rauðlituð viðhorf. Í lögreglunni í Reykjavík — ég bið menn að halda sér — séu kommúnistar með nálægt 30% styrkleika. Það er von að mönnum liði ekki vel upp við Laufásveg. Félagar í Kommúnistaflokknum og stuðningsmenn séu starfandi í öllum ráðuneytum nema utanríkisráðuneytinu. Venjulega sé um stöður undirmanna að ræða, en undantekning sé, og syrtir þá heldur betur í lofti, undantekning sé Veðurstofa Íslands þar sem styrkur kommúnista sé talinn 70%. Einnig hafi þeir tangarhald í öflugri verslun þar sem er KRON í Reykjavík.

Þá rekur Trimble í þessu plaggi helstu ástæður fyrir styrkleika kommúnista: vöntun á öflugu mótvægi á vinstri væng stjórnmálanna, — Og hann, eða kannski var það sendiherrann sem fær síðar orðið, kemur sérstaklega að því að þeir séu nefnilega svo helvíti hægrisinnaðir, foringjar krata. Það sé ein skýringin á styrkleika þeirra sem hann kallar kommúnista. — klókindi forustumanna, stöðuna sem þeir fengu með aðild að nýsköpunarstjórninni, ýkta þjóðernisvitund Íslendinga. Ýkta þjóðernisvitund Íslendinga! Forusta kommúnista í þjóðernisbaráttu hafi skilað þeim miklu. Hún hafi komið í veg fyrir — og hér kemur túlkun bandaríska sendimannsins — þessi forusta kommúnista hafi komið í veg fyrir samningaviðræður um langtímaherstöðvasamning við Bandaríkin 1945 og hafi verið ástæðan fyrir verulegum breytingum á upphaflegum hugmyndum Bandaríkjanna varðandi Keflavíkursamninginn.

Þá getur Trimble um aðgang kommúnista að gildum sjóðum, líklega frá sovéskum innistæðum í New York, sem m.a. séu notaðir til að styðja við hið öfluga málgagn Þjóðviljann.

Og svo koma tillögurnar um úrbætur, „remedial measures“. Hann víkur þar að því fyrst, áður en hann fer að gera nákvæmar tillögur, að nokkuð hafi hallað undan fyrir kommúnistum eftir að ný ríkisstjórn, það var Stefanía sem við köllum, var mynduð í febrúar 1947. Þrátt fyrir það séu þeir „far too strong in a country possessing so great a strategic importance for us“ — allt of sterkir í landi sem hefur svo mikla hernaðarlega þýðingu fyrir okkur.

Svo segir hann: „Því ættum við við þessar aðstæður að hafa frumkvæði um skref sem til þess væru fallin að hraða því sem ella yrði í besta falli hægfara þróun“, hraða undanhaldi kommúnistanna. Í þessu sambandi hvetur Trimble til varkárni. „Við ættum að nota eftir því sem hægt er óbeina nálgun [eða indirect approaeh] til að komast hjá því að vekja grunsemdir hjá almenningi sem fyrir fram hefur tilhneigingu til að vantreysta útlendingum og koma þannig í veg fyrir öll okkar markmið.“ — Bölvaðir Íslendingarnir.

Í mörgum tilvikum þarfnist líka áætlunin um úrbætur samvinnu ákveðinna erlendra ríkja, einkum Norðmanna, en Íslendingar telji sig sérstaklega tengda þeim.

Aðgerðarlisti Trimbles er í 13 tölusettum liðum og reyndar einn til viðbótar. Sendiherra upp við Laufásveg á þessum tíma, ætli sendiráðið hafi ekki verið þar einnig þá, hét Richard Butrick og hann var beðinn af utanrrn. Bandaríkjanna um álit sitt á tillögum Trimbles. Sá svaraði til bráðabirgða 8. okt. 1948 og síðan ítarlegar þann 10. nóv. 1948, og það er sú skýrsla sem hér er í ljósriti, eftir að hafa fengið skriflegar umsagnir frá þremur starfsmönnum sendiráðsins öðrum en þessum Trimble. Þessir starfsmenn, sem veittu umsögn, voru George H. Reese, menningarfulltrúi sendiráðsins, Kenneth A. Byrnes, 2. sendiráðsritari, og John A. McKerson, 3. sendiráðsritari. Ég mun geta hér nokkurra atriða af því að það tengist þessu máli og athugun sagnfræðiprófessorsins á tengslum íslenskra valdamanna á þessum tíma við erlenda sendimenn. Þá vil ég grípa aðeins niður í þessum punktum, þessum tölusettu tillögum Trimbles mönnum til glöggvunar, en ég verð að sleppa hér mörgu, virðulegur forseti, tímans vegna.

Þar er fyrst vikið að erlendri fjárhagsaðstoð. — Þetta er ekki orðrétt, en þetta er efnislega sett saman eftir bestu vitund, sumt orðrétt og þá get ég þess.

Erlend fjárhagsaðstoð, ráðgjöf og aðstoð til að blása lífi í Alþýðuflokkinn, m.a. til stuðnings Alþýðublaðinu svo og með heimsóknum krata frá Skandinavíu og Vestur-Evrópu. Fjárhagsaðstoðin ætti að berast um erlenda farvegi, séð frá Bandaríkjunum, ekki beint frá þeim, helst sem gjöf frá norska Verkamannaflokknum. — Kannast menn nokkuð við það? Hvað segir í Gullnu flugunni? Kannski líta menn í hana.

Butrick sendiherra hafnar hugmyndinni um fjárhagsstuðning m.a. af þeim ástæðum að með henni séu menn að taka Alþýðuflokkinn sérstaklega upp á arma sína og blanda sér, eða „meddle“ eins og hann notar á enskunni, með þessum hætti í íslensk innanríkismál. Sjálfstæðisflokkurinn sé traustasti vinur Bandaríkjanna, „our staunchest friend“, en í bæði Alþýðu- og Framsóknarflokki sé sterkur vinstri vængur, sbr. atkvæðagreiðsluna á Alþingi um Keflavíkursamninginn. Sem sagt: Það gæti verið tvíbent að styðja þennan flokk, Alþýðuflokkinn, vegna þess að það er sterkur vinstri vængur, hver veit nema hann kæmist yfir sjóðina. Muna menn nokkuð eftir hvað gerðist 1952 þegar Hannibal Valdimarsson var kosinn þar forseti? Þá hófst nú samkeppnin um aurana svo þetta var kannski svolítið klókt ályktað hjá Butrick.

Alþýðuflokkurinn undir forustu Stefáns Jóhanns Stefánssonar forsætisráðherra, segir sendiherrann, sé hvorki dauður né deyjandi. Stefán ferðist oft til Skandinavíu og Alþýðuflokkurinn viti því hvað sé að gerast í umheiminum. Hugmyndin um fyrirlestraferðir erlendra verkalýðsfulltrúa til Íslands sé hins vegar mjög góð. Sjálfur hafi hann rætt þá hugmynd nokkrum mánuðum áður. — Við hvern? Við hvern ætli sendiherrann hafi rætt þá hugmynd að fá fyrirlesara erlendra verkalýðsfulltrúa? Hann ræddi það við íslenska forsætisráðherrann. Og hann muni sjá um hana, forsætisráðherrann, innan tíðar. „I shall remind him of it on a propitious occasion“ — bætir hann við. Ætlar að minna hann á það við hentugt tækifæri. Sendiherrann segist hafa í huga háttsettan bandarískan verkalýðsforingja sem sé vel kunnugur brögðum kommúnista í verkalýðshreyfingunni.

Svo kemur hér kafli um erlenda fyrirlesara og þar er m.a. vitnað í hve árangursríkt var að fá Arnulf Överland hingað. Ég fjalla nú ekki meira um það.

Svo er það að bandaríski herinn ætti að kaupa fiskafurðir til nota í Þýskalandi, fiskafurðir af Íslendingum, og sendiherrann þóttist nú hafa lagt sitt af mörkum til þess. Og svo kemur að því að rætt er um að koma íslenskum mönnum úr störfum, íslenskum mönnum með óæskilegar skoðanir. Og hvað segir nú þar, með leyfi virðulegs forseta, og nú er það tilraun til orðréttrar þýðingar:

„Í samvinnu við Norðmenn og e.t.v. Breta“ — og það er gott að virðulegur núverandi formaður utanrmn. er kominn hér til að hlýða á umræður um þetta því þetta er alþjóðlegt eins og heyra má — „ættum við að undirstrika við ráðherra í ríkisstjórninni íslensku afgerandi nauðsyn þess, „absolute necessity“, út frá þeirra eigin hagsmunum að fjarlægja kommúnista úr öllum áhrifastöðum, þar á meðal úr skólum og Háskólanum. Viss skref hafa þegar verið stigin í þessa átt.“ — Þetta er skrifað 4. ágúst 1948. — „Yfirráð kommúnista á Ríkisútvarpinu brotin á bak aftur og kommúnisti í stöðu flugmálastjóra fluttur til í starfi.“ Ætli sé ekki ánægjulegt að geta fært í letur í bandaríska sendiráðinu þennan árangur? „En þrátt fyrir andkommúnískar skoðanir eru ráðherrar í ríkisstjórninni hræddir um að verða ásakaðir um pólitískar ofsóknir og hafa því tilhneigingu til að slá málinu á frest.“ — Þeir eru nú ekki burðugri en þetta, ráðherrarnir í íslensku ríkisstjórninni.

Butrick sendiherra segist í umsögn sinni sjálfur hafa minnt á þetta við hvert vænlegt tækifæri og ríkisstjórnin hafi ekki látið sitt eftir liggja. Þetta segir hann í mati sínu á þessum tillögum 10. nóv. 1948. Nefnir hann í því sambandi Erling Ellingsen flugmálastjóra, en þurft hafi lög á Alþingi til að ýta honum til hliðar. Sameiginlega flugvallarnefndin, eða „Joint Airport Committee“, hafi verið vakin til lífsins að hans frumkvæði, sendiherrans, með fullri samvinnu ríkisstjórnarinnar. Hins vegar sé erfitt að sanna á Íslandi — og takið nú eftir áhyggjunum: Hins vegar sé erfitt að sanna að maður sé kommúnisti á Íslandi ekki síður en í Bandaríkjunum og því: „Við ættum ekki að vera óþolinmóðir gagnvart íslensku ríkisstjórninni né heldur loka augum fyrir vandamálum hennar. Síðast af öllu viljum við ráðast í aðgerðir sem komi ríkisstjórninni í opna skjöldu eða geti gert stöðu hennar óvissa“, síst af öllu. „Svarið við þessari tillögu er því að halda áfram þeirri mótuðu stefnu að knýja á um það við hagstæð tækifæri að fólki með kommúnískar tilhneigingar verði vikið úr valda- og áhrifastöðum.“ Tilvitnun í þennan punkt í ummælum og mati sendiherra Bandaríkjanna lýkur.

Svo er hér fjallað um það að stinga greinum að ritstjórum andkommúnísku blaðanna eða forustumönnum flokkanna til að leggja út af og ég hleyp nú yfir það, og þetta með bandarískar bækur og tímarit sem þurfi að reyna að koma sem víðast að á Íslandi og leiddi m.a. til þess að safnað var saman notuðu skrani, tímaritum suður á velli, til að dreifa í skólum og menntastofnunum og sjúkrahúsum hér inni á meginlandinu, utan vallarins. Það er nú ekki stórt í þessu samhengi kannski. Og svo andkommúnískar bandarískar kvikmyndir og það verður auðvitað að gæta þess að þær hafi auðmeltanlegt skemmtigildi. Það þýðir ekkert að sýna þeim „Henry the 5th“. Hann gekk ekki á Íslandi, segir sendiherrann. Þetta verða að vera myndir með auðmeltanlegt skemmtigildi.

Það var nefnilega svo að þeir skildu hvað klukkan sló þarna upp við Laufásveginn á þessum tíma og sáu fyrir það sem Matthías Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, fjallar um svo vel í Reykjavíkurbréfi í gærdag og ástæða væri fyrir alþm. að lesa það sem hann tekur sér í munn, hernám hugarfarsins í sambandi við þann lágkúrulega skemmtiiðnað sem látinn er ganga hér yfir landslýðinn af svokallaðri frjálsri fjölmiðlun sem hæstv. menntmrh. ætlar nú að fara að efna á sama tíma og hann passar að koma kefli upp í þá hjá Ríkisútvarpinu.

Já, og svo kemur hérna varðandi einn forustumann sem stóð stundum í stóli hér á Alþingi fyrr á árum og einhverjir minnast og er enn á lífi: „Viðleitni íslenskra kommúnista til að sýnast sannir föðurlandsvinir mundi bíða alvarlegan hnekki ef ráðuneytið gæti látið forsrh. eða utanrrh. í té til birtingar á réttu augnabliki eins og í kosningabaráttu skjalfestar vísbendingar sem tengdu Einar Olgeirsson, aðalritara Kommúnistaflokksins, við sovéskan njósnahring.“ Trimble segir að talið sé líklegt að slíkar upplýsingar séu í höndum ClG í Þýskalandi, Central Intelligent — sennilega —Germany. „Þessu er ég hjartanlega samþykkur“, skrifar Butrick sendiherra. Hins vegar hafi ráðuneytið í símskeyti 15. jan. 1948 hafnað fyrstu beiðni um þetta. „Ég yrði hins vegar mjög hamingjusamur ef nú yrði á þetta fallist“, segir sendiherrann.

Undir sama tölulið nefnir Trimble: „Á svipaðan hátt væri það afar gagnlegt ef hægt væri að láta sendiráðinu í té kópíur af ljósmyndum af meintum sovéskum hernaðarmannvirkjum á Svalbarða til varfærinnar dreifingar meðal ráðherra í ríkisstjórninni.“ — Kópíur af meintum hernaðarmannvirkjum sovéskum á Svalbarða. Undir þessa beiðni tekur Butrick sendiherra að sjálfsögðu eindregið.

Og svo er það fleira hér. Trimble leggur til: „Við ættum að hvetja forustumenn andkommúnistísku flokkanna að stofna flokkssveitir, „Party Militia“, og sjá ætti til þess á laun að þær fengju í hendur létt vopn og skotfæri.“ — Hvað segja menn um þessar tillögur? Það væri nú fróðlegt að fara yfir þær nánar.

Hann rökstyður þessar tillögur sínar, Trimble, með því að íslenskir kommúnistar gætu framkvæmt valdarán með fimm hundruð manna liði og haldið velli nógu lengi til að geta eyðilagt mannvirki á Keflavíkurflugvelli: „Auk þess er talið að þeir séu þess albúnir að framkvæma þetta hvenær sem skipun kæmi um það frá Moskvu“, segir hann orðrétt í skýrslunni.

Butriek telur þetta vandkvæðum bundið. Hér væri um að ræða „meddling“ í íslensk innanríkismál.

Óæfðar sveitir væru í reynd gagnslausar og ekki væri unnt að koma þeim á fót án þess að Kommúnistaflokkurinn kæmist á snoðir um það. Ef ráðast ætti í þetta yrði ríkisstjórnin að hrinda því í framkvæmd. Og svo segir hann: „Í raun hefur verið stungið upp á þessu af engum öðrum en Hermanni Jónassyni, sem gerir hugmyndina tortryggilega í mínum augum.“ Og kemur seinna að því, ef við vildum fara að rekja hvað um Hermann þennan Jónasson er sagt á þessum blöðum, í þessum pakka. Það er svolítið skrautlegt. Og jafnvel minnst á son hans. (ÓÞÞ: Hann var nú vel þjálfaður.)

Já, en síðan, og við skulum taka eftir því: „Það gæti leitt til falskrar öryggiskenndar meðal Íslendinga að hafa svona vopnaða liðssveit. Það gæti unnið gegn öllum áætlunum um raunveruleg hernaðarleg mannvirki“, effective military garrison. Sem sagt: að hafa einhverja sveit innlendra manna undir léttum vopnum gæti bara komið í veg fyrir að fallist yrði á kröfu okkar um herstöð og herlið á Íslandi. Þetta er 1948.

Um nákvæmari upplýsingar varðandi það síðast talda, þ.e. effective military garrison, vísar sendiherrann í leyndarskjal nr. 314 frá 11. nóv. 1948.

Svo er vikið að því í einum punkti Trimbles að sendiráðið ætti að fylgja eftir beiðni dómsmrh. Bjarna Benediktssonar um að senda undirmenn sína til Bandaríkjanna til að kynnast aðferðum og tækni kommúnista hjá alríkislögreglunni FBI. Setja ætti á fót gagnnjósnaþjónustu sem mundi vinna með FBI og samsvarandi stofnunum í Skandinavíu.

Það má reyndar geta þess áður en við kveðjum alveg þessar vopnuðu liðssveitir að einn af undirmönnum sendiherrans vildi að það yrði helst gengið bara beint til verks og þeir yrðu látnir hafa handsprengjur og menn væru ekkert að tvínóna við þetta og færu þarna yfir á þennan Þjóðvilja og létu þær ríða þar inn í húsin, ef menn ætluðu að ganga hreint til verks.

Já, en þetta var hugmynd sem þeir bera dómsmrh. Íslands fyrir, að senda undirmenn til Bandaríkjanna til að kynnast aðferðum og tækni kommúnista hjá alríkislögreglunni þar. Butrick segir slíka þjálfun Íslendinga vera hluta af áætlun ráðuneytisins í upplýsinga- og menntunarsamskiptum. Beiðni ákveðins fulltrúa í íslenska stjórnarráðinu um FBl-þjálfun hafi verið send áfram 19. okt. 1948. Frekari beiðnir muni sendar í framtíðinni. „Litið er svo á“, segir sendiherrann, „að sú ákvörðun sem loks var tekin um að senda þennan tiltekna fulltrúa í dómsmrn. til Bandaríkjanna í sérþjálfun . . .“ (ÓÞÞ: Hver var það?) Æ, eigum við nokkuð að vera að rifja það upp í þessari sókn? — „hafi ráðuneytið haft í huga gagnnjósnastarfsemi. Hvernig hún verði þróuð þegar [fulltrúinn] kemur til baka er komið undir dómsmrh. sem verður að ganga fram með varúð þar sem starfsemi opinbers embættismanns gæti orðið tilefni til mikilla og jafnvel pólitískt hættulegrar gagnrýni. Pólitískar njósnir eru hins vegar engin nýjung á Íslandi. Allir pólitísku flokkarnir leyfa sér njósnir hver um annan. Líklegt er að komast mætti að mörgu um leiðtoga íslenskra kommúnista með réttri njósnatækni.“ Með réttri njósnatækni!

Svo er þetta með fjárstuðninginn: „Rannsaka ætti hvort íslenskir kommúnistar hafi fengið fjárstuðning frá Bandaríkjunum og sérhver vísbending sem um það fyndist yrði afhent íslenska utanríkisráðherranum.“ Butrick sendiherra segist hafa þetta í huga. „Það er ekki líklegt“, segir hann, „að okkur takist að ná miklum upplýsingum um þetta, þar eð íslensku ríkisstjórninni með langtum betri aðstöðu hefur ekki tekist að grafa upp erlendar fjáruppsprettur Kommúnistaflokksins.“ Og situr víst við þá niðurstöðu enn í dag að því er ég best veit. (Gripið fram í: Hafa þeir ekki komist að þessu enn?) Ja, ekki er mér kunnugt um það. Kannski Þór Whitehead viti eitthvað betur, ég veit það ekki.

Og Trimble sem byrjaði á krötunum endar á kirkjunni. Það er kannski ekki rétt að fara mörgum orðum um það guðlast sem þar er uppi haft. En eitthvað er það á þessa leið: „Ýta ætti undir þann andkommúnisma sem fyrir er hjá íslensku þjóðkirkjunni og láta hana fá andkommúnískar bækur. Einnig ætti að koma á heimsóknum lútherskra guðsmanna af skandínavískum uppruna.“ Butrick sendiherra segist þegar vinna í þessa átt. Hins vegar megi ekki gera of mikið úr áhrifum þjóðkirkjunnar. Eitthvað var verið að fjalla um það sama í dagblaðinu Tímanum hér um daginn, að það stæði ekki vel með kristindóminn. Biskup hennar hafi hingað til ekki reynt að hafa áhrif á pólitískan hugsunarhátt prestanna, en hann, sendiherrann, hafi fyrir því öruggar upplýsingar að biskupinn hugsi sér það nú. Sendiráðið hafi beitt hann mildum áhrifum — biskupinn yfir Íslandi — í gegnum mjög náinn vin hans sem er fremur velviljaður Bandaríkjunum, „rather proamerican in belief“. Í þessu efni þurfi að starfa varlega til að vinna ekki gegn eigin markmiðum. Sendiráðið láti nú presta þjóðkirkjunnar fá upplýsingar af réttri gerð öðru hvoru. Gott gæti verið að fá heimsóknir guðsmanna erlendis frá öðru hvoru, en þær gætu ekki þjónað þeim tilgangi að snúa núverandi biskupi til andkommúnisma. „Hann er þegar staðfastur andkommúnisti“, segir sendiherrann. Svo það þarf ekki að kristna hann frekar í þeim efnum.

Svo er vikið hér að öðrum aðferðum ýmsum, ýmsar aðferðir sem hægt væri að aðlaga íslenskum aðstæðum, og sendiherrann telur í þessu sambandi upp margt sem sendiráðið hafi unnið að til að klekkja á íslenskum kommúnistum. „Mikið af upplýsingum var afhent sendiráðinu af hernum“, segir sendiherrann orðrétt, „þegar hann [þ.e. herinn] fór frá Íslandi. Við erum að koma reiðu á þær spjaldskrár [eða „files“] með sérstöku tilliti til einstaklinga með kommúnísk viðhorf (þ.e. „communist tendencies“]. Við erum að bæta við þessar skrár og gera þær „up to date“ eins og kostur er. Við höfum beðið um „watch-list“ [hvernig sem á nú að þýða það, vaktlista eða eitthvað þess háttar.] frá ráðuneytinu til aðstoðar í þessari viðleitni. Við erum nú að undirbúa sendingu með skrám yfir vel þekkta íslenska kommúnista sem búsettir eru erlendis svo að fylgjast megi með gjörðum þeirra. Við fylgjumst með og látum vita um gjörðir útlendinga. Við látum stöðugt vita um aðra þætti í aðgerðum kommúnista, svo sem verkalýðsfélög, verkföll o.s.frv. Við höfum í hyggju að koma á fót liðssveit nokkurra Íslendinga, sem hægt er að treysta fullkomlega, sem tækju að sér útgáfu bóka og bæklinga á íslensku um áhugaverð efni. Þessi áform eru á byrjunarstigi“, segir sendiherrann. „Við höfum ekki haldið að okkur höndum við að hafa áhrif á fjölmiðla [eða „the press“] svo að þeir beiti sér skeleggar gegn kommúnistunum. Í sendingu sendiráðsins nr. 142 frá 12. maí 1948 nefndi ég að ég hefði lagt að forsætisráðherranum að ráðlegra væri að sækja fram fremur en að setja sig í varnarstellingar.“ (AG: Hvaða forsætisráðherra er þetta?) Þetta er 1948.

Í þessu sambandi er vert að skoða skýrslu um fund Thors Thors sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Það er þessi hérna. Skýrsla um fund Thors Thors, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, og Francis Cunninghams frá Norður-Evrópudeild bandaríska utanríkisráðuneytisins. Skýrslan er skráð af utanríkisráðuneytinu bandaríska og dagsett 16. ágúst 1948 og fjallar um rekstur Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli samkvæmt samningnum frá 1946. Þar er mál Erlings Ellingsens flugmálastjóra fyrst og enn á dagskrá. En síðar kemur að óskum Bjarna heitins Benediktssonar utanrrh. um að fá vinnu fyrir fleiri Íslendinga á vellinum. Bandaríkjamenn tóku líklega undir það erindi, en í því sambandi segir í skýrslunni: „Í þessu sambandi sagðist hr. Thors skilja að bandarísk stjórnvöld hefðu ekki áhuga á að sjá kommúnista ráðna til starfa í Keflavík. Af þeim sökum væri nauðsynlegt að framkvæma einhvers konar greiningu á pólitískum skoðunum umsækjenda. Ég [þ.e. Cunningham] skildi það svo að hr. Butrick [sendiherrann] hefði farið fram á aðstoð tveggja stjórnmálaflokka við að fara yfir [eða „screening“] lista yfir væntanlega starfsmenn. Þetta sýndi sig að vera mjög tímakrefjandi eða tafsöm framkvæmd. Það væri því miður satt að engar skjótfengnar eða öruggar upplýsingar lægju fyrir um íslenska kommúnista. Hr. Thors gat þess að hann skildi fullkomlega hik okkar við að ráða kommúnista til starfa.“

Á sama fundi voru einnig rædd hin miklu áhyggjuefni út af Veðurstofu Íslands þar sem Bandaríkjamenn töldu eins og áður er getið 70% starfsliðsins vera kommúnista og veðurstofustjórann Teresíu Guðmundsson í þeim hópi. Í þessu sambandi minnti Cunningham Thor Thors sendiherra á að þegar á árinu 1947 hefði hr. Trimble, sá sem lagði á ráðin um sóknina gegn kommúnistunum á Íslandi, komið þeim boðum til íslenskra stjórnvalda að bandaríska veðurstofan væri reiðubúin að taka Íslendinga í nokkurra mánaða þjálfun á kostnað Bandaríkjanna, náttúrlega til að skipta síðan út og minnka þessi voðalegu 70% þarna uppi á Veðurstofu. „Hugmyndin var að þeir hinir sömu yrðu síðan starfsmenn íslensku Veðurstofunnar“, segir í skýrslunni, „en e.t.v. mundu Íslendingar óska endurgreiðslu á slíkum launum frá ICAO.“ Er það ekki alþjóðaveðurstofan eða einhver slík samtök? „Þetta boð stendur enn og hr. Butrick mun líklega minna Íslendinga á það“, segir í skýrslunni. „Við ættum erfitt með að skilja“, segir þessi Cunningham við Thor Thors, „hvers vegna engir umsækjendur hefðu gefið sig fram nema það væri að frú Guðmundsson [það er Teresía] hefði lokað á umsóknir vegna kommúnískra skoðana sinna. Hr. Thors spurði hvort við teldum hana kommúnista. Ég sagði svo vera. Hann benti á að leiðin til að komast fram hjá hindrunum af hennar völdum væri að nálgast hærra sett stjórnvöld. Ég sagði að við hefðum nálgast hærra sett stjórnvöld og mundum gera það aftur.“

En snúum okkur til baka til Íslands þar sem hr. Butrick skrifar skýrslu sína 10. nóv. 1948. Hann hefur haft nokkrar áhyggjur af sumum framsóknarmönnum og málgagni þeirra Tímanum, en sér nú fram á betri tíð: „Vegna persónulegra aðgerða minna“, segir sendiherrann, „birtist grein um Kósenkinamálið í Tímanum," — Það hljómar eitthvað slavneskt þetta Kósenkina, en ég kann ekki að skýra það nánar. — „málgagni Framsóknarflokksins, sem hefur verið mjög hikandi að beita sér gegn kommúnismanum. Fyrir dagblaðið Tímann var hér um róttæka kúvendingu að ræða frá viðtekinni stefnu.“ Og svigaskýring sendiherrans er þessi: „Tíminn er mjög undir áhrifum Hermanns Jónassonar, pólitísks tækifærissinna með vinstri tilhneigingar.“

Raunar kemur Hermann þessi Jónasson allvíða við sögu í þessum frásögnum, í þessum pakka sem ég afhenti hæstv. menntmrh. til þess að hann gæti stungið honum að sagnfræðiprófessornum Þór Whitehead þegar hann fer að rýna áfram í þessi fræði og kannski endursemja skýrsluna um Tangenmálið svokallaða. Framarlega í skýrslu Butrick sendiherra frá 10. nóv. 1948 er Hermann þessi nefndur, eftir að taldir hafa verið upp nokkrir hættulegir kommúnistar sem þarflaust er að nafngreina hér svo þekkt eru þeirra nöfn. Og þar segir: „Hugsanlega er þó e.t.v. hættulegasti maðurinn á öllu Íslandi Hermann Jónasson, einn af forustumönnum Framsóknarflokksins sem stöðugt daðrar við Kommúnistaflokkinn á sama tíma og hann heldur vinskap við háttsetta meðlimi annarra flokka og játar vantrú sína á kommúnistum. Hann er pólitískur tækifærissinni“, segir sendiherrann. Ég sé hann hrista sig.

En einnig þessar áhyggjur fóru minnkandi með árunum, og þetta er nú frekar gamansaga sem ég er að rekja hér, því að í fróðlegri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins, það er þessi hérna, frá 3. apríl 1953, sem greinir frá samræðum Thors Thors sendiherra og Raynor, framkvæmdastjóra BMA, þar sem m.a. er lýst inn í innbyrðis baráttu þáverandi stjórnarflokka, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, um hylli kanans og gróðann af hermanginu og nýjar kröfur um hernaðaraðstöðu eru á lofti hér uppi á Íslandi. En Raynor segir m.a. í skýrslunni og það tengist þessum gamanþætti um Hermann Jónasson: „Sumar af athugasemdum hans“, segir Raynor, þ.e. Thors Thors, „staðfestu upplýsingar sem komið hafa frá sendiráðinu um að hr. Hermann Jónasson, sem er í forustu Framsóknarflokksins, er nú betur stemmdur, „more favorably disposed“, gagnvart Bandaríkjunum og varnaráætluninni.“ Þetta kom fram þegar sendiherrann var að tala um hagstæð áhrif þess að senda fleiri stúdenta til Bandarílcjanna. Hann vitnaði til sonar hr. Jónassonar sem hafði numið á einhverju rafmagnssviði og hafði komið til baka til Íslands [þetta er 1953] sem svo eindreginn stuðningsmaður Bandaríkjanna að utanríkisráðherrann [þ.e. Bjarni Benediktsson] teldi að hann hefði haft talsverð áhrif á hugsanir föður síns, „his father's thinking“.

Þeir eru allmargir sem koma við sögu á þessum blöðum fleiri en kommúnistarnir, þessir stórhættulegu. Þá eru til ýmsir sem eru að daðra við þá eða ráðast ekki nógu hart gegn þeim. En allt stendur þetta nú til bóta og þegar komið er fram á árið 1953 er farið að rofa til. Þá er líka komið herlið í Keflavík og athuganir í gangi að styrkja stöðuna þar á vellinum og mætti um það margt fleira segja, en ætli það sé ekki rétt, virðulegur forseti, að ég fari að ljúka þessari upprifjun hér.

Ég vildi koma þessum þáttum á framfæri í ljósi þess sem fram kemur í skýrslu hæstv. menntmrh. varðandi þetta svokallaða Dag Tangen mál þar sem dregið hefur verið inn á völlinn virt nafn, íslenskur sagnfræðiprófessor, Þór Whitehead, til þess að efna í vönd á íslenska fjölmiðla og til þess að kveða upp dóma um pólitíska íhlutun fréttamanna á Ríkisútvarpinu án þess að færa að því nokkur rök, án þess að tala við fréttamenn, án þess að reiða fram heimildir, sem honum áttu þó að vera aðgengilegar. Þetta Dag Tangen mál skiptir auðvitað engu í sambandi við sögumat á þeim tíma sem hér er til umræðu, ef menn hafa fyrir því að rýna í heimildir sem fram hafa komið eða liggja þá aðgengilegar fyrir og dr. Þór Whitehead hefur sjálfur sumpart dregið fram, m.a. úr vasabókum ráðherra eins og Bjarna Benediktssonar í áður nefndri grein í Skírni frá 1976. Þessi málafylgja, sem hér er uppi höfð af Sjálfstfl. og mönnum sem glæpast til að skrifa upp á beiðni um skýrslu úr öðrum flokkum, er með slíkum endemum og fádæmum að það hlýtur að vera lengi í minnum haft.

Menn skyldu átta sig á því að hér er verið að ráðast gegn grundvallarþáttum frjálsrar fjölmiðlunar á Íslandi og það á að vinna vel og það á að vinna hratt á vegum núv. hæstv. menntmrh. því að lesa mátti í Morgunblaðinu á laugardaginn var að hæstv. ráðherra hefur sett á fót nefnd til að fullkomna það verk sem hann hefur undirbúið með aðstoð sagnfræðingsins umrædda, Þórs Whiteheads, skipað nefnd og samkvæmt frásögn Morgunblaðsins á laugardaginn var er til þess stofnað með þessum hætti, með leyfi virðulegs forseta:

„Útvarpsstjóri hefur skipað þriggja manna nefnd til að gera úttekt á stjórnun og rekstri fréttastofu Ríkisútvarpsins, hljóðvarps og sjónvarps, og skila áliti þar um til útvarpsstjóra ásamt tillögum sem fram kunna að koma um breytta skipan mála. Þá er nefndinni falið að yfirfara fréttareglur Ríkisútvarpsins og gera tillögur um breytingar á þeim eftir því sem þurfa þykir. Nefndinni hefur enn fremur verið falið að móta aðrar starfs- og siðareglur sem nefndin telur nauðsynlegar til að tryggja að markmiðum útvarpslaga og reglugerðar um Ríkisútvarpið varðandi fréttaflutning og fréttatengt efni verði náð „þannig að fréttastofa Ríkisútvarpsins gegni áfram forustuhlutverki í íslenskri fjölmiðlun við nýjar aðstæður í útvarpsmálum og njóti sem slík ótvíræðs trausts og virðingar allra landsmanna“ eins og segir í tilkynningu frá útvarpsstjóra. Nefndina skipa Baldur Guðlaugsson hæstaréttarlögmaður, sem er formaður, Margrét Heinreksdóttir lögfræðingur og Ólafur Þ. Harðarson lektor. Nefndinni er heimilt að leita aðstoðar innlendra og erlendra sérfræðinga, fræðimanna og starfsmanna fjölmiðla ef þörf krefur. Áhersla er lögð á að nefndin hraði störfum og skili álitsgerð og tillögum sínum eins fljótt og unnt er.“

Þetta er tilvitnun í Morgunblaðið af frásögn um skipun þessarar nefndar frá laugardeginum síðasta. Menn kannast í þessum texta við orðalagið úr skýrslu hæstv. menntmrh. um traustið sem brugðist hafi verið, um breyttar siðareglur, um hertar kröfur, um það að brotin hafi verið útvarpslög og reglugerð um útvarpið. Það á að fylgja þessu máli eftir með þröngri vinnunefnd sem hæstv. menntmrh. hefur sett á laggirnar án þess auðvitað að hafa fyrir því að tala við starfsmenn á Ríkisútvarpinu um það hvað til stæði. Þeir fréttu af því eins og öðru fleira sem verið er að kokka uppi í menntmrn. á skrifstofu hæstv. ráðherra til þess að taka nú í lurginn á þessari stofnun með þeim hætti sem hæstv. ráðherra hefur haft tilburði til í þessari endemisskýrslu sem hann hefur lagt fyrir Alþingi.

Virðulegur forseti. Leyndin hjúpar enn fjölmargt varðandi íslensk utanríkismál frá fyrsta áratug lýðveldisins og síðar. Þess vegna eru upplýsingar frá þessum tíma fréttnæmar. Fréttamenn eiga auðvitað að vanda heimildir sínar. Fréttastofa Ríkisútvarpsins/hljóðvarps lenti á villigötum þar sem voru fullyrðingar Dags Tangens. Hann reyndist ótraust heimild. Slík mistök á ekki að nota til að setja rannsóknarrétt yfir fréttamönnum af hálfu stjórnvalda eða kveða upp dóma. Markmið þessarar skýrslubeiðni virðist einkum vera að hræða fréttamenn frá því að kafa ofan í sagnfræðilegar eyður þessa tímabils. Að því leyti er þessi umræða af annarlegum hvötum. Verði hún hins vegar til þess að flýtt verði fyrir birtingu íslenskra heimilda og flýtt fyrir sögurannsóknum á þessu afdrifaríka tímabili er umræðan á réttum stað.