25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6716 í B-deild Alþingistíðinda. (4663)

186. mál, fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um utanríkismál

Páll Pétursson:

Herra forseti. Mér finnst það nokkuð undarleg málsmeðferð sem hér er viðhöfð. Sögumaður í Noregi, þ.e. maður sem segist kunna sögu, fer með slúður er varðar íslensk stjórnmál. Fréttaritari í Noregi veitir,þessu slúðri athygli og hleypur með það áfram. Íslenskir fréttamenn útvarpa þessari frétt. Síðan kemur í ljós við könnun að Tangen þessi hafði ekki gögn í höndum til að sanna mál sitt. Það sannaðist ekki að Stefán Jóhann Stefánsson fyrrv. forsrh. hefði haft tengsl við CIA. Það var auðvitað dómgreindarleysi að trúa Tangen þessum. Það sér maður eftir á.

Ég sá við hann sjónvarpsviðtal sem sjónvarpað var meðan á þessari hríð stóð og eftir það viðtal blandaðist mér ekki hugur um að þetta væri ekki ábyggilegur fræðimaður. Það má kannski liggja fréttastofunni á hálsi fyrir að hafa ekki áttað sig fyrr en hún gerði, en fréttastofan og hlutaðeigandi blaðamenn biðjast síðan afsökunar á mistökum sínum og þar með hefði þessu máli að mínum dómi átt að vera lokið.

Það féll enginn blettur á Stefán Jóhann Stefánsson af þessari umfjöllun og að því leyti til finnst mér þessi skýrslugerð óþarfi eftir að málið var upplýst og syndararnir búnir að iðrast. Ég verð að segja að mér finnst ritgerð Þórs Whitehead vera yfirdrifin og kenna í henni rokufréttastíls sem ljótt er að horfa upp á hjá slíkum fræðimanni og eftir að hafa lesið skýrslu Þórs Whitehead sýnist mér að hún sé skrifuð frá mjög ákveðnu pólitísku sjónarhorni og mér kemur það ekkert á óvart að þessi maður, sem hefur verið upplýst hér í umræðunum, sé félagi í Sjálfstfl.

Mér sýnist fullyrðing hæstv. menntmrh. á forsíðu vera óþarflega sterklega orðuð þar sem hann segir að dr. Þór Whitehead, sem nú dvelur við sögurannsóknir í Freiburg í Vestur-Þýskalandi, „er ótvírætt einhver fremsti sérfræðingur okkar í sögu íslenskra utanríkis- og öryggismála á 4. og 5. áratugnum og höfundur fræðilegra rita og ritgerða um þau efni“. Ég verð að segja að ég mun hér eftir lesa rit þessa fræðimanns með meiri varúð en ég hef gert, en ég hef lesið ýmislegt eftir hann og hef trúað því eins og nýju neti.

Síðan ber sig upp einn fréttamaður eða einn blaðamaður undan skýrslu þessari og sendir menntmrh. umkvörtun og formönnum þingflokka og ég ætla að leiða inn í þessa umræðu örlitla málsvörn sem sá fréttamaður, Stefán Jón Hafstein, telur sér til málsbóta og les ég hér, með leyfi forseta, þetta bréf frá 17. apríl 1988 og ég gríp ofan í bréfið:

„Vegna þess að í skýrslu dr. Þórs Whiteheads er þætti undirritaðs við umfjöllun málsins lýst á afar villandi hátt, þannig er vegið að starfsheiðri mínum og vegna þess að hvergi við undirbúning skýrslunnar var leitað upplýsinga frá mér eða sjónarmið mín könnuð leyfi ég mér að koma á framfæri við ráðherra meðfylgjandi greinargerð áður en ráðherra fylgir skýrslunni úr hlaði frammi fyrir þingheimi. Þess er fastlega vænst að ráðherra geri Alþingi grein fyrir því grundvallaratriði í skýrslunni sem varðar framgöngu undirritaðs er röng.“ Þetta er skrýtilega til orða tekið. Ég held áfram:

„Ásökun í skýrslunni um að undirritaður hafi látist hafa heimild sem hann hafði alls ekki og stofnað til umræðu með vísvitandi blekkingum er röng. Í símtali við undirritaðan staðfestir dr. Þór Whitehead að hann hefði ályktað út frá þessari röngu forsendu. Hann viðurkenndi einnig að atriði sem þetta varða hefðu þurft að hafa komið fram. Við rannsóknina var aldrei leitað eftir upplýsingum frá undirrituðum.“

Undir þetta ritar Stefán Jón Hafstein.

Ég taldi nauðsynlegt að þetta kæmi inn í þessa umræðu.

Ég tel að það sé alveg óþarfi að hamast á fréttastofu Ríkisútvarpsins með þeim hætti sem hér er gert. Vissulega urðu mönnum á mistök, en þeir hafa gert yfirbót og beðist afsökunar á því sem miður fór og þess vegna tel ég að málinu hefði þar átt að vera lokið.

Ég fæ það á tilfinninguna að nú eigi að kenna fréttastofunni lexíuna sem dugir. Mér finnst að hér eigi að fara að „terrorisera“ fréttastofuna og koma í veg fyrir að fréttamenn séu að grafa í málum sem menntmrh. eða flokki hans eru ógeðfelld, koma í veg fyrir að fréttamenn segi fréttir sem ráðherra þykja slæmar.

Ég tel að fréttamenn eigi að hafa leyfi til að hafa skoðanir á stjórnmálum. Þeir væru bara vesalingar og hefðu ekkert að gera í fréttamennsku ef þeir hefðu það ekki. En það hlýtur hins vegar að vera óhætt og reyndar nauðsynlegt að fréttamenn séu úr fleiri flokkum en Sjálfstfl. Ég tel að það sé mikilvægt að fréttamenn hafi starfsfrelsi. Ef þeim verður á og þeir eru trúgjarnir og hlaupa með staðlausa stafi á að taka gilda þeirra yfirbót. Í þessu tilfelli var skaðinn bættur. Orðstír Stefáns Jóhanns Stefánssonar fyrrv. forsrh. er ekki lakari. Hann er nákvæmlega samur og áður en þessi frétt var sögð. Þar af leiðir að þessi skýrslugerð er óþörf og þau stóryrði sem hér fylgja í kjölfarið skaðleg.

Það er mjög háskalegt að mínum dómi að ætla að „terrorisera“ fréttastofuna. Ríkisútvarpið hefur miklu hlutverki að gegna. Þar er mjög hæft starfslið. Það þarf auðvitað eðlilegt aðhald, en fúkyrði um fréttastofuna eiga ekki við og það er illt verk að reyna að grafa undan stofnuninni með þeim hætti sem mér sýnist vera hér gert.

Ég ætla ekki að eyða tíma í að rekja í einstökum atriðum ýmis atriði í skýrslu Þórs Whiteheads, sem mér þykir vera ófræðimannleg, en ég get ekki stillt mig um að lesa örlítinn kafla á síðu 13, með leyfi forseta:

„Sumarið 1986 dvaldist undirritaður við rannsóknir í Bandaríkjunum til að undirbúa fyrrnefnda ritgerð og aðrar væntanlegar ritsmíðar um utanríkis- og öryggismál Íslendinga 1945–1951. Markmiðið var að kanna öll helstu gögn sem opnuð höfðu verið fræðimönnum um þetta efni á síðustu árum. Við þessa rannsókn kom í ljós að engin skjöl bandarísku leyniþjónustunnar CIA um starfsemi hennar á Íslandi eru tiltæk í söfnum vestra. Skemmst er frá því að segja að í heimildum frá öðrum stjórnarstofnunum og Bandaríkjaher fundust engar vísbendingar um Íslendinga sem starfað hefðu í þjónustu CIA.“

Ég verð að segja að ég hefði gjarnan getað trúað því að Ísland hafi ekki verið á landakorti CIA á þessum árum, en hræddur er ég um að svo hafi þó verið. En ég harma að þessi skýrsla skyldi verða til með þeim hætti sem hún hefur orðið og mér þykir slæmt ef hér er verið að reyna að grafa undan fréttastofu Ríkisútvarpsins sem ábyggilegri fréttastofu.