25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6718 í B-deild Alþingistíðinda. (4664)

186. mál, fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um utanríkismál

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til lausnar kjaradeilunni sem nú stendur? Stærsta verkalýðsfélag landsins, Verslunarmannafélag Reykjavíkur, hefur nú verið knúið til verkfalls af félagsmönnum sínum sem una því ekki lengur að lægstu laun séu svo lág sem raun ber vitni.

Þessi kjaradeila virðist komin í hnút vegna ýmissa ástæðna. Þar skal til að mynda telja ákvæði í öðrum kjarasamningum um sjálfvirkar hækkanir ef önnur verkalýðsfélög semja um betri kjör til sinna félagsmanna. Ég spyr í þessu sambandi: Eru slík ákvæði réttlætanleg?

Þá greiða margir atvinnurekendur hærri laun en kauptaxtar sýna og hafa með því viðurkennt að núverandi taxtar eru rangir. Og ég spyr: Ætlar ríkisstjórnin að hafa áhrif á að gerðir séu kjarasamningar sem séu í samræmi við greidd laun?

En aðalástæða þessarar kjaradeilu er þó vafalaust aukin skattheimta ríkisstjórnarinnar. Hún hefur hækkað álögur gífurlega. Þar ber hæst matarskattinn. Ég spyr því: Ætlar ríkisstjórnin að leggja matarskattinn niður og stuðla að lausn kjaradellunnar með því?

Félagar Verslunarmannafélags Reykjavíkur eru í vanda. Þeir hafa farið í verkfall þrátt fyrir mjög lág laun margra sem sýnir best hve alvarlegt ástandið er. Efnahagsstefna núverandi ríkisstjórnar hefur knúið þetta fólk til verkfalls. Það á engra annarra kosta völ. Og nú spyr ég: Ætlar ríkisstjórnin að stuðla að skjótri lausn þessarar deilu með aðgerðum sem tryggja þeim lægst launuðu viðunandi laun fyrir átta stunda vinnudag?

Verslunarstörf eru erfið og vandasöm og því ekki vansalaust að greiða stórum hóp þeirra sem vinna við þessi störf lægstu laun sem þekkjast hér á landi. Þolinmæði þessa fólks er þrotin. Það hefur nú gripið til þess óyndisúrræðis sem verkfall er. Ríkisstjórnin hefur í raun viðurkennt að lægstu launataxtar séu lágir með skattleysismörkum sem eru nálægt 42 000 kr. Og ég vil ljúka þessari umræðu með því að spyrja: Ætlar ríkisstjórnin að stuðla að því að þessi mörk náist hjá öllu launafólki í landinu?

Það er brýnt að þessari kjaradeilu ljúki sem fyrst. Afleiðingar hennar gætu orðið alvarlegar fyrir alla þjóðina. Hver dagur er dýr, en það er aðeins á valdi ríkisstjórnarinnar að leysa deiluna strax. Hún ein hefur til þess bolmagn og ég skora á hæstv. forsrh. að beita sér fyrir lausn þessarar deilu.