25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6755 í B-deild Alþingistíðinda. (4683)

186. mál, fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um utanríkismál

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Virðulegi forseti. Þegar ekki varð af umræðu um Tangen-skýrsluna sl. mánudag eins og boðað hafði verið vonaðist maður satt að segja til að ætlunin væri að reyna að komast frá málinu með einhverri sæmd og hætta við að blása þetta mál upp að nýju, ekki síst ef höfð eru í huga orð hæstv. menntmrh. í upphafi skýrslu um svokallað Tangen-mál, en þar segir:

„Mál þetta er mikill álitshnekkir fyrir Ríkisútvarpið og brýnt að unninn verði bugur á þeim trúnaðarbresti sem óhjákvæmilega hefur orðið á milli stofnunarinnar og hlustenda.“

Því er þá verið að rífa þetta mál upp aftur af slíku offorsi? Til að auka á trúnaðarbrestinn? Og hvar sér svo þessa mikla trúnaðarbrests stað? Hafa hlustendur kvartað umvörpum? Þetta mál er e.t.v. ágætt dæmi um þegar stjórnmálamönnum þykir að sér eða sínum lífsskoðunum vegið og mikla það svo fyrir sér að ætla mætti að öll þjóðin stæði fyrir utan glugga hæstv. menntmrh. biðjandi hann að berja í brestina.

Staðreynd málsins er sú að ekki hefur heyrst um þetta mál nú í langan tíma, enda ekki í eðli sínu þannig vaxið að þetta sé stærsta áhyggjuefni varðandi Ríkisútvarpið í dag. En viðbrögðin tala sínu máli um þá viðkvæmni sem ríkir varðandi utanríkismál og utanríkisstefnu Íslendinga fyrr og síðar og þá bannhelgi sem hvílir yfir þeim málum.

Öll umræða um inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið, Keflavíkursamninginn og yfirleitt öll samskipti Íslands við Bandaríkin er illa þegin af ráðandi öflum íslenskra stjórnmála sem vilja hafa á henni einkarétt og sveipa þessi mál þögn. Þessi einkaréttur er auðvitað undirrót þeirrar heiftar sem grípur menn varðandi Tangen-málið. Heiftin byrgir þeim sýn og er til þess eins fallin að vekja tortryggni. Maður hlýtur að spyrja: Hvað hafa þeir að fela? Hví þessi sterku viðbrögð?

Frétt birtist 9. nóv. í norskum blöðum um gögn sem Dag Tangen hafði undir höndum varðandi samskipti norska Verkamannaflokksins og leyniþjónustu Bandaríkjanna. Í norska útvarpinu er síðan viðtal við Tangen um þessi mál þar sem hann minnist á Ísland. Er þetta ekki frétt? Auðvitað er þetta frétt? Það fannst a.m.k. norskum fjölmiðlum sem fjölluðu um málið í marga daga. Nú vill síðan svo óheppilega til að heimildir um íslenskan þátt málsins reynast ekki eins traustar og ætla mátti og er þá fréttin borin til baka, beðið afsökunar og málinu hefði þar með átt að vera lokið. Bæði Jón E. Guðjónsson, fréttaritari útvarpsins í Osló, og fréttastofa útvarps skila greinargerðum um gang mála og rekja atburðarásina þessa daga, harma að heimildir reyndust ekki traustar og verður það að teljast afsökunarbeiðni. Útvarpsráð ályktar svo um þetta mál, að vísu með nokkuð mismunandi hætti.

Árni Björnsson gerir eftirfarandi bókun: „Þótt heimildakönnun hafi í þessu tilviki verið óvönduð tel ég það almennt séð af hinu góða að fréttamenn Ríkisútvarpsins opni umræðu um mál sem áratugum saman hafa verið sveipuð slíkum leyndarhjúp að það þykja nú fréttir sem allir ættu í rauninni að vita. Fráleitt er að ekki megi fjalla um látna stjórnmálamenn og verk þeirra. Með slíku viðhorfi væri verið að hræða fréttamenn frá því að hreyfa við sögulegum vandamálum.“

María Jóhanna Lárusdóttir greiðir atkvæði á móti og óskaði eftirfarandi bókað: „Fréttaflutningur fréttastofu Ríkisútvarpsins um Stefán Jóhann Stefánsson er byggður á heimildarmanni sem fréttastofan taldi ekki ástæðu til að vefengja. Heimild fréttastofunnar reyndist síðar ekki traust og hefur fréttastofan nú skýrt málið fyrir almenningi og tel ég að málinu sé þar með lokið.“

Meiri hluti útvarpsráðs samþykkir eftirfarandi bókun: „Útvarpsráð átelur harðlega þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við fréttaflutning um Stefán Jóhann Stefánsson, fyrrv. forsrh., dagana 9.–14. nóv. og beinir því til útvarpsstjóra að hann láti hlutlausan aðila kanna með hvaða hætti slíkt getur gerst.“

Og nú fara hjólin að snúast. Vinnubrögð öll bera því vitni að kné skuli fylgja kviði. Beðið er um rannsókn. Lágu ekki nægar upplýsingar fyrir í greinargerð fréttaritarans og fréttastofu? Siðanefnd Blaðamannafélagsins er skrifað, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Alþingi biður um skýrslu sem skal vera „ítarleg“ að undangenginni „rækilegri“ rannsókn. Í framhaldi af því er dr. Þór Whitehead beðinn um álitsgerð. Um hana væri hægt að hafa mörg orð og fer oft lítið fyrir fræðimannsheiðri doktorsins þegar hún er lesin og væri e.t.v. ástæða til að stofna enn eina hlutlausa nefndina til að fara í saumana á hans skýrslu.

Það þarf ekki að fjölyrða um þetta dæmalausa plagg vísinda- og fræðimannsins Þórs Whitehead. Ég læt nægja að vísa til greinargerðar Stefáns Jóns Hafstein um hversu vel er staðið að upplýsingum um hans þátt málsins og hins vegar um upplýsingaöflun Þórs sjálfs um Tangen. Þór segir í skýrslu sinni, í Il. kafla skýrslunnar þar sem hann er að lýsa því hvernig hann aflar upplýsinga:

„Að sögn Helge Pharos, prófessors og forstöðumanns Sagnfræðistofnunarinnar í Osló, hefur Tangen lokið kandídatsprófi í stjórnmálafræði. Þeir Pharo og Magne Skodvin sögðust hins vegar ekki vita til þess að hann hefði nokkru sinni birt fræðilega ritsmíð á sviði stjórnmálafræði og sagnfræði.

Fyrir nokkrum árum kvað Skodvin hann hafa birt grein í einu dagblaðanna í Osló þar sem hann hafði farið með staðlausa stafi um sagnfræðileg efni. Skodvin sagði að sér væri ekki kunnugt um störf Tangens uns hann hefði tekið upp þráðinn í Klassekampen. Í Osló starfi Tangen sem styrkþegi við einkastofnun er fáist við viðskiptafræði og efnahagsmál.“

Í lok skýrslunnar segir svo Þór Whitehead: „Líti menn svo á að víti eigi að vera til varnaðar virðist ýmislegt mega læra af þessu leiðindamáli: að gengið sé rækilega úr skugga um feril og málflutning manna sem segja vilja fréttir og skírskota til fræðimennsku og háskólatitla; að munnlegur vitnisburður slíkra manna um heimildir verði ekki talin sönnun á efni þeirra, hvað þá jafngildi frumheimildar.“

Og fellur nú Þór á sjálfs sín bragði. Hann leitar einungis munnlegra heimilda. Hann leitar ekki eftir skriflegum upplýsingum sem hann ráðleggur þó öðrum að gera.

Víkjum þá aftur að spurningunni sem ég varpaði fram í upphafi: Til hvers er verið að ýfa þetta allt saman upp? Er þetta liður í þeirri aðför að Ríkisútvarpinu sem manni virðist mjög markviss og ber þar margt að sama brunni? Til hvers er eiginlega ætlast af fréttastofu útvarpsins nú? Á hún að leita skriflegra heimilda um allar fréttir? Ég er hræddur um að fréttastofan þætti þá stundum nokkuð svifasein ef svo ætti að vera og bið yrði á fréttaflutningi um ýmis merk mál. Eða er verið að kenna fréttamönnum þá lexíu að láta viðkvæm mál eiga sig og hrófla ekki við þessum tíma eða þeim málum sem þarna voru til umræðu?

Á sama tíma og þetta veldur mönnum svo miklum áhyggjum býr Ríkisútvarpið við mikið fjársvelti. Hið háa Alþingi hefur sjálft staðið að því að svipta það tekjustofnum sem því ber lögum samkvæmt og mun það nema um 122 millj. kr. sem Ríkisútvarpið var svipt. Auk þess var því neitað um hækkun afnotagjalda. Virðist svo að fyrst eigi að knésetja stofnunina fjárhagslega og síðan að ráðast að henni úr öllum áttum og með öllum hugsanlegum brögðum.

Það væri ánægjulegra ef menn hefðu meiri áhyggjur af ástandi Ríkisútvarpsins, einstökum deildum þar, rekstri og hvernig staðið er að dagskrárgerð. Þegar litið er í drög að sumardagskrá útvarps og sjónvarps sér þess glögglega stað að fjárhagur Ríkisútvarpsins er með þeim hætti að þar er miklu minna um innlenda dagskrárgerð en hingað til hefur verið. Það er mikið byggt á endurteknu efni og það þarf að leita með logandi ljósi t.d. í júnídagskrá sjónvarps til að finna þar íslenska þætti. Mér telst til að það muni vera þrír þættir sem eru íslensk dagskrárgerð. Áður hefur hér verið rætt um í vetur hvernig staðið er að barnaefni í bæði sjónvarpi og útvarpi, þó sérstaklega sjónvarpi. Þar er einungis nokkrum milljónum kr. varið til gerðar íslensks barnaefnis. Það er í raun sama hvar á er litið, að hvergi getur stofnunin staðið undir því hlutverki sem henni er þó ætlað sem menningar-, upplýsinga- og fræðslustofnun þessa þjóðfélags.

Í síauknum mæli er Ríkisútvarpinu ætlað að lifa af auglýsingatekjum og hefur Ríkisútvarpinu vissulega tekist að auka þær tekjur, en það má spyrja hvort það sé vænlegt fyrir Ríkisútvarpið að þurfa að keppa við einkastöðvar, sem engar skyldur hafa, um hylli auglýsenda og hvort þeir neyðist þá ekki til að hneigja sína dagskrárgerð meir í átt til einhvers konar ímyndaðra eða óraunhæfra hugmynda um vinsældir þátta.

Þetta held ég að ætti að vera hinu háa Alþingi miklu meira áhyggjuefni en hugsanleg mistök fréttastofu og fréttaritara sem þeir hafa síðan gert mjög glögglega grein fyrir af hverju stöfuðu. Það er furðulegt að við skulum vera hér að ræða þetta mál, sem í rauninni ætti að vera úr sögunni, í stað þess að hér sé í gangi öflug umræða um málefni Ríkisútvarpsins í heild, fjármál þess og rekstur einstakra deilda. Hvernig gerir hv. Alþingi því kleift að rækja hlutverk sitt sem stærstu og áhrifaríkustu menningarstofnun þjóðarinnar? Það skiptir öllu máli hvernig búið er að Ríkisútvarpinu fjárhagslega og held ég að hinu háa Alþingi væri sæmra að snúa þar við blaðinu og standa við landslög en eltast á smásmugulegan hátt í anda kaldastríðs og ofstækis við einstaka starfsmenn og fréttastofu útvarps.