25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6758 í B-deild Alþingistíðinda. (4684)

186. mál, fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um utanríkismál

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég kem ekki í ræðustól hlaðinn skýrslum, bókum eða tilvitnunum og hafði ekki hugsað mér að taka til máls í þessari umræðu, en ummæli tveggja hv. þm. hafa orðið þess valdandi að ég taldi mér skylt að koma upp og ræða nokkuð tvö atriði sem komu fram í ræðum þeirra vegna þess að það gefur fullt tilefni til þess að vekja athygli hv. þm. á því, ef menn hafa gleymt því, að með spurningum sem hv. þm. lögðu fram opna þeir umræðurnar með allt öðrum hætti en ég átti von á.

Hér var til umræðu í dag skýrsla um fréttaflutning. Hafa þingmenn gert þessari skýrslu ítarleg skil sem og hæstv. menntmrh. Ég ætla ekki að fara út í að ræða skýrsluna efnislega, en vil hins vegar ræða nokkuð þann bakgrunn sem er á bak við þær spurningar sem settar voru fram með beinum og óbeinum hætti af hv. 6. þm. Reykv. Guðrúnu Agnarsdóttur og hv. 18. þm. Reykv. Þórhildi Þorleifsdóttur.

Hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir sagðist ekki skilja þau sterku viðbrögð sem hv. þm. hefur orðið var við hér í dag. Hann skilur ekki þessi sterku viðbrögð þeirra sem leyfa sér að halda til streitu þeim atriðum sem koma fram í skýrslunni hjá m.a. Þór Whitehead eða þeim atriðum sem menn hafa leyft sér að túlka í sambandi við þann fréttaflutning sem barst frá Noregi fyrir skömmu um virðulegan og góðan mann sem nú er látinn og getur þess vegna ekki varið stöðu sína hér með þeim hætti sem æskilegt hefði verið.

Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði, og er þá að vitna í það tímabil þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið, þegar við sem erum nokkuð eldri vorum á þeim aldri að við vorum farin að skynja þá tilveru sem að okkur sneri, hv. þm. sagði eitthvað á þá leið að þessir tímar væru okkur enn viðkvæmir. Einnig kom fram í ræðu þingmannsins að hann skildi ekki hvers vegna þetta væri svona mikið viðkvæmnismál fyrir þessa kynslóð. Hv. þm. virðist ekki skilja hvers vegna við erum yfirleitt að ræða um þessi mál með þeim hætti sem gert er hér í dag.

Það er alger misskilningur, eins og hv. þm. báðir sem ég hef títt nefnt með nafni halda, að við sem leyfum okkur að halda til streitu þeim grundvallarsjónarmiðum sem voru að baki því að Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið, sem snertir óneitanlega mikið þessa umræðu, óttumst að einhverju verði ljóstrað upp um afstöðu okkar og gerðir í þessum efnum. Ég vil segja: Nema síður sé. Hins vegar höfum við sama rétt og hv. þm. að halda til streitu okkar lífsskoðunum og við höfum einnig leyfi til að halda til streitu þeim rökum sem við teljum að þjóðinni beri að hafa í huga þegar verið er að ræða um öryggis- og varnarmál Íslands. Það er ekki hægt að þurrka út sögulegar staðreyndir og tala eins og hlutirnir hafi ekki gerst. Það er ekki unnt að neita því hvernig stórveldin innlima smáríki og þurrka út þjóðlönd. Það er ekki hægt að þurrka út af spjöldum sögunnar að fólk hefur verið líflátið milljónum saman og andstæðingar stjórnenda einræðisríkja fluttir frá heimahögum í útlegð. Þetta gerðist og þetta er enn að gerast. Ég ætla ekki að rifja það nánar upp vegna þess að ég veit að hv. þm. kunna þessa sögu flestallir.

Það er staðreynd að stórveldin takast enn á með svipuðum hætti og gerðist fyrir 40–50 árum. Ég nefni sem dæmi: Sovétríkin heyja enn styrjöld. Það eru átök í Afganistan. Þar er stórveldið Sovétríkin að aðstoða einn skipulagðan hóp manna. Ég ætta að leyfa mér að nefna þennan hóp manna kommúnista. Það fellur kannski ekki alls staðar í kramið og þykir ekki fínt og er yfirleitt reynt að eyða því með glotti eða brosi þegar það er nefnt réttum nöfnum hvernig starfað er á vegum róttækustu sósíalista heimsins, kommúnista. Þar eru Sovétríkin nú að heyja harða styrjöld í smáríki til að styrkja vel skipulagðan hóp róttækra sósíalista, kommúnista, með þeim afleiðingum að í þeim átökum hefur 1 milljón Afgana látið lífið.

Það þýðir ekkert að neita því að þegar við erum að ræða þessi mál og þá menn sem hafa verið nafngreindir úr fortíðinni, sem komu við sögu, erum við að tengjast fortíðinni og þeim átökum sem enn eiga sér stað í nútíð. En það er aðferð út af fyrir sig að reyna að telja börnunum okkar trú um að þetta komi okkur ekki lengur við. Nú sé allt í lagi að Íslendingar snúi við blaðinu og lifi einir sér norður í Atlantshafi með þeim hætti sem hentar kannski best því ríki sem heyr núna styrjöld og murkar út hella þjóð sem eru Afganir.

Það eru átök í heiminum á milli róttækra sósíalista, öðru nafni kommúnista, og hægfara lýðræðissinna. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. hér á Alþingi Íslendinga að reyna að svæfa sig eða aðra í því að þetta sé ekki að gerast. Í lýðræðisríkjum eru átök um völd og áhrif með friðsamlegum hætti. Það gerist í kosningum. Þar skiptir fólkið um valdhafa í krafti atkvæða og sérhver einstaklingur hefur sama rétt. En í kommúnistaríkjunum er einn flokkur, einn vilji, vilji flokksins, hinnar vernduðu forustu. Þar eru ekki greidd atkvæði í sama skilningi og við gerum hjá lýðræðisríkjunum.

Í kommúnistaríkjum er ekki lýðræðislegt stjórnarfar. Þar er stjórnarandstaða ekki leyfð. Þetta er nákvæmlega það sama sem var fyrir 40–50 árum þegar Íslendingar tóku afstöðu með lýðræðisríkjum andstætt þessu sósíalistíska einræðiskerfi. Fyrir 40 árum voru andstæðingar lýðræðislegra stjórnarhátta fjarlægðir í kommúnistaríkjunum á sama tíma sem við fengum að greiða atkvæði og skipta um valdamenn og skipta um ríkisstjórnir. Andstæðingar voru ekki viðurkenndir þar þá og þeir eru ekki enn viðurkenndir í þessum ríkjum. Þeir mega ekki skipuleggja stjórnarandstöðu gegn ríkjandi þjóðfélagskerfi.

Nei, hv. þm. Meginátök alþjóðastjórnmála í dag snúast um hvort fólkið á að búa við einræði eða lýðræði og inn í þá umræðu tengjast hin ólíkustu mál sem ég mun rekja nokkuð á eftir.

Það er staðreynd að kommúnistar hafa náð lengst og mjög langt í skipulögðu einræði víða um heim og stór hluti mannkynsins býr við þetta stjórnskipulag. Lífskjör í þessum ríkjum eru slök, fólkið er ófrjálst og það er óglatt og þar eru listir ekki frjálsar. — Ég sé að hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir vill ekki sitja undir þessari ræðu og segir það mér töluvert mikla sögu þar sem ég var að minnast á að í kommúnistaríkjum ríkja ekki frjálsar listir. Þar er ekki frjáls menning. Ég teldi æskilegt að hv. þm., sem hafa gagnrýnt jafnmikið þá skýrslu sem hér liggur fyrir, ættu að, sitja undir því þegar aðrir ræðumenn tala. En það er kannski háttur nýrra valdamanna að það þurfi ekki að hlýða á rök andstæðinga. Það er nokkuð í samræmi við viðhorf ákveðinna aðila. Þeir sem hafa sótt kommúnistaríkin heim, eins og m.a. hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og ég m.a. líka, sjá strax að í þessum ríkjum ríkir ekki lífsgleði, enda byggir stjórnarfar þar á her- og lögregluvaldi. Þar er fólki haldið niðri. Það er í viðjum hins skipulagða eftirlitskerfis flokks, hers og lögreglu.

Ég fór margsinnis til kommúnistaríkja Austur-Evrópu vegna starfa míns á sínum tíma og kynntist þar mörgum í Tékkóslóvakíu, í Austur-Þýskalandi, í Póllandi og einnig í Sovétríkjunum. Það var mikil lífsreynsla. Eftir slíka lífsreynslu þarf ekki að útskýra fyrir manni hvers virði það er að tilheyra vestrænu lýðræðisríki, vera þegn í lýðræðisríki og njóta tjáningarfrelsis, ferðafrelsis o.s.frv. Auðvitað getur margt verið betra í lýðræðisríkjunum. Okkur hefur ekki tekist að útrýma fáfræði. Okkur hefur ekki tekist að útrýma fordómum eða eyða mannlegri vonsku, því miður. Okkur hefur heldur ekki tekist að útrýma fátæktinni. En við eigum eitt umfram það fólk sem býr í því þjóðskipulagi sem ýmsir eru að upphefja. Við erum frjáls, en þegnar kommúnistaríkja, sósíalískra ríkja, eru ófrjálsir. Á þessu er grundvallarmunur sem óþarft er að skýra frekar fyrir hv. þm.

Ég er sannfærður um að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson skilur manna best hvað ég er að ræða um þegar ég tala með þessum hætti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur sem betur fer horfið frá þeim róttæku skoðunum sem hann aðhylltist á yngri árum. Nú er hann þægilegur, þokkalegur títóisti. Það þýðir á íslensku hægfara þjóðernissósíalisti. Ég fagna því. En hv. þm. veit einnig að Ísland er átakasvæði stórveldanna í Norður-Atlantshafi og það ættu aðrir þingmenn einnig að hafa í huga þegar þeir ræða um þessi mál. Í þeim átökum erum við Íslendingar á þjóðbraut. Ísland undir kommúnisma mundi þýða að landið færi inn á yfirráðasvæði Sovétríkjanna. Þetta er landfræðileg og herfræðileg staðreynd. Þá verða Íslendingar ekki lengur frjálsir. En hins vegar mundi staða Sovétríkjanna, annars þeirra stórvelda sem eru sterkust í átökunum um heimsyfirráðin, styrkjast. Um þetta snúast átökin og um þetta snýst í vissum skilningi sú umræða sem hér hefur farið fram í dag.

Undirrót þess sem við höfum verið að fjalla um er raunverulega ákveðið samspil á bak við tjöldin eða undir borðinu þar sem íslenskir aðilar hafa orðið bein eða óbein fórnarlömb. Ég er t.d. þeirrar skoðunar að fréttamenn íslenska útvarpsins hafi orðið fórnardýr óhlutvandra aðila í sambandi við þann fréttaflutning sem hér hefur verið til umræðu.

Það getur vel verið að ýmsir hv. þm. vilji ekki viðurkenna þetta. Það getur vel verið að sumum hv. þm. þyki það langsótt ef sagt er að það þekkist í vestrænum ríkjum að þau ríki sem eru á yfirráðasvæði Sovétríkjanna hafa skipulagt í vestrænum ríkjum að dreifa svokölluðum ófrægingaráróðri. Það þykir kannski ekki fínt orð. Það passar kannski ekki alveg í kramið hjá þeim sem vilja sjá þetta í dálítið öðru ljósi. En það er staðreynd að í Vestur-Evrópuríkjunum er heill hópur manna, bæði í Skandinavíu, Vestur-Þýskalandi, Englandi, Frakklandi og hugsanlega jafnvel á Íslandi, sem stundar þessa iðju án þess að við vitum hverjir þetta eru.

Það er þekkt að kommúnistaríkin eru sérstaklega vel skipulögð á því sviði, þ.e. að stunda ófrægingarherferðir og skipuleggja þær sérstaklega gegn forustumönnum Atlantshafsbandalagsríkjanna.

Hér áðan sagði einn þingmaður að á sínum tíma hefði Þjóðviljinn skipulagt það að skrifa ófrægingargreinar og níðgreinar um ákveðna menn á Íslandi. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson man þessa tíð. Sem betur fer er þessi ósiður af lagður í Þjóðviljanum. En hv. þm. Hjörleifur Guttormsson man þegar Þjóðviljinn skipulagði ekki aðeins að skrifa illa um stuðningsmenn Atlantshafsbandalagsins heldur iðkaði hann það líka að reyna að lítilsvirða þá með afkáralegum myndum og myndavali. Það getur verið að sumum þyki þetta furðulegt, en það er ekkert furðulegt þegar maður skoðar það í ljósi þeirra átaka sem um er að ræða.

Eitt meginmarkmið ófrægingarherferða og eitt meginmarkmið einmitt með máli svipaðrar gerðar og hv. þm. hafa verið að fjalla um í dag, sem kallast slys hjá sumum en ég vil segja að íslenskir fréttamenn hafi verið blekktir, er einmitt að koma af stað umræðum á borð við þær sem hér hafa farið fram í dag, þ.e. að efna til illdeilna, sá efasemdum og ala á tortryggni milli þeirra þjóða sem um ræðir. Á sama tíma höfða þessir sömu aðilar til friðar og manngæsku í nafni sósíalisma. Hver vill ekki frið? Hver vill ekki vera góður? Hver vill ekki hjálpa meðbróður sínum? Sumir gera það í kyrrþey. Aðrir bera það á torg.

Við sem höfum gengið í gegnum þennan hreinsunareld að hafa leyft okkur að taka afstöðu með því að Íslendingar ættu að vera í varnarsamtökum vestrænna þjóða. Við sem höfum tekið þátt í því þorum að viðurkenna hvar við erum staddir á hnettinum. Við sem höfum þorað að taka afstöðu í varnar- og öryggismálum og við sem afneitum ekki þeim þjóðum sem næstar okkar eru höfum fengið okkar skammt af þeim ófrægingarherferðum sem handbendi kommúnistaríkjanna iðka m.a. hér á Íslandi. Sá þáttur í slíkum ófrægingarherferðum, sem kommúnistar hafa náð hvað lengst í, er að níða niður forustumenn jafnaðarmannaflokka vestrænna þjóða. Þetta hafa þeir iðkað alla tíð frá því að byltingin varð í Rússlandi árið 1917. Skal ég nú ekki rekja millistríðsárin, en ég leyfi mér að vísa til þess hvernig íslenskir jafnaðarmenn, forustumenn Alþýðuflokksins á Íslandi hafa verið níddir niður og ófrægðir í gegnum árin og áratugi og það er enn verið að því.

Ég minnist þess líka hvernig forustumenn í verkalýðshreyfingu á Íslandi, sem ekki voru kommúnistar, voru níddir niður og hvernig reynt var að sá efasemdum um ágæti þeirra til þátttöku í verkalýðshreyfingunni. Þar voru vopnabræður ýmissa hv. þm. sem hér eru núna inni að verki og vönduðu ekki alltaf meðulin. Hér væri hægt að flytja langa ræðu og mikið mál þeim þingmönnum til upplýsingar sem ekki hafa upplifað þessar raunir íslensku þjóðarinnar og hafa ekki upplifað hvað felst á bak við svona vinnubrögð. Það er ekki furða þótt þeim Íslendingum sem þekkja þessa forsögu bregði þegar fréttir berast frá Noregi með þeim hætti sem gerðist í sambandi við Stefán Jóhann Stefánsson. Það var vissulega óhuggulegur atburður. En ég tek það skýrt fram og ítreka það að ég tel að íslenskir fréttamenn hafi þar verið fórnardýr annarra og verri afla en þeir eiga skilið.

Ég ætla ekki að ræða um hlut þess Norðmanns sem hér hefur oft verið nefndur, Dag Tangen, í þessu máli. En vissulega væri rannsóknar virði að kynna sér með hvaða hætti og hvernig þessi maður stundar sína rannsóknastarfsemi um öryggis- og varnarmál Íslands. Vissulega væri það kafli út af fyrir sig og nauðsynlegt að hv. Alþingi kannaði hvert hann sendir sín trúnaðarskjöl.

Ég vil segja að lokum, hæstv. forseti, að í máli sem þessu er hreyft við mörgu sem gefur tilefni til ítarlegrar umræðu. Það er ekki að ástæðulausu sem þess er krafist að gerð sé skýrsla um atburði sem þessa sem hægt er að tengja og rekja til erlendra manna sem senda sín gögn til fólks á Íslandi sem nýtur trúnaðar sovéska sendiráðsins. Meira ætla ég ekki að segja um það á þessu stigi. En til þess að menn geti séð í gegnum þann blekkingavef sem ófrægingaraðferðir óhlutvandra erlendra manna geta ofið er nauðsynlegt að fólk geri sér grein fyrir því að það verður að skoða söguna, það verður að skoða samhengi sögunnar til að reyna að gera sér grein fyrir þeim undirstraumum sem hugsanlega kunna að vera á ferðinni. Menn verða að viðurkenna sögulegar staðreyndir. Ég tel einnig mikils um vert að fólk heimsæki kommúnistaríkin og geri sér grein fyrir því hvers konar þjóðríki eru þar á ferðinni. Það er einnig nauðsynlegt. Ég teldi einnig æskilegt að meiri áhersla væri lögð á það, þegar svona viðkvæm mál eru rædd, að fólk geri sér far um að skilja samhengi á milli fortíðar, nútíðar og framtíðar og hvernig hugsanlega er verið að reyna að afvegaleiða þjóðina. Þá er það ekki síður nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir í hverju frelsið er fólgið. Hvers virði er það frelsi sem Íslendingar búa við? Þá er þörf á því að menn reyni að varast þá sem með óbeinum hætti reyna að grafa undan tiltrú manna á þingræði og lýðræði. Og síðast en ekki síst: Andvaraleysið er hættulegasti óvinur einstaklingsfrelsisins.

Það verður ekki aftur snúið ef Ísland lendir undir hrammi Sovétríkjanna með beinum eða óbeinum hætti. Við hv. þm. erum stöðugt að reyna að leitast við að vernda sjálfstæði og frelsi þessarar þjóðar. Okkur tekst það mismunandi vel, enda aðstæður mjög erfiðar. En hvað sem því líður held ég að við séum flestir sammála um að Ísland er frjálst land. Þess vegna segi ég: Það er rangt og að mínu mati svik við íslenska þjóð og sérstaklega við framtíð barna okkar að telja sjálfum sér eða öðrum trú um að Íslendingar þurfi ekki að taka ákveðna afstöðu í sambandi við stöðu sína í átökum stórveldanna. Frelsi okkar og sjálfstæði byggist á styrkleika vestrænna þjóða. Það byggist á samstöðu þeirra og vörnum. Sérhver tilraun til að veikja ímynd þeirra sem hafa unnið að öryggis- og varnarmálum íslensku þjóðarinnar er liður í þeirri viðleitni kommúnistaríkjanna að gera Íslendinga fráhverfa þátttöku í öryggis- og varnarbandalagi Vestur-Evrópuþjóðanna, Bandaríkjanna og Kanada.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, leyfa mér að vitna í kvennalistakonur. Þær tala oft um reynsluheim kvenna. Það er örugglega af hinu góða. Ég get að sjálfsögðu ekki talað út frá þeim forsendum, en ég leyfi mér að segja að í máli sem þessu og í öryggis- og varnarmálum Íslendinga skulum við tala um lífsreynslu manna og þjóða og tryggja vel öryggi íslensku þjóðarinnar.