25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6764 í B-deild Alþingistíðinda. (4685)

186. mál, fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um utanríkismál

Hreggviður Jónsson:

Hæstv, forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög svo, en sá mig tilneyddan að standa hér upp. Sú umræða sem hefur orðið um þá skýrslu um fréttaflutning Ríkisútvarps um utanríkismál Íslands er orðin bæði löng og hörð og ég sagði í vetur að menn ættu, þegar þetta mál kom hér upp, að fara sér hægt í þessu máli.

Ég kann raunar þessari umræðu illa. Hér hefur verið tekið óvægilega til orða og hafa verið árásir á látna menn sem fjölluðu á sinni tíð um viðkvæm mál. Sagan mun geymast og það verða aðrir en við sem munu meta þetta tímabil og ég er ekki í nokkrum vafa um hver sú niðurstaða verður. Við sem höfum talað fyrir munn vestræns lýðræðis viljum ekki taka í sama orðinu undir einræði kommúnista eins og sumir hafa reynt að hengja hér saman.

Þessi umræða er að sjálfsögðu til komin vegna ófrægingarherferðar sem var hafin í ríkisfjölmiðlunum og blekkingum sem þar voru hafðar í frammi. Það hefur verið lenska að reyna að ófrægja marga af okkar bestu mönnum sem hafa staðið hvað harðast með vestrænu lýðræði og þeir hafa oft legið undir hörðum árásum. Ég kannast vel við þetta sjálfur því ég hef sjálfur legið undir líku fyrr á árum sérstaklega. Það er auðvelt að höggva úr myrkrinu að mönnum og vega að þeim þannig að þeir megi ekki koma vörnum við.

Ég held að við sem trúum á vestrænt lýðræði vitum að það er undirstaða þess að við stöndum hér á Alþingi og tölum þau orð sem okkur þykja rétt og sönn. Sú staða verður best varin með því að tryggja okkur í þeim hópi. Við getum ekki tekið þá áhættu að við lendum undir hrammi einræðisríkja kommúnista. Það munum við aldrei gera. Ég held að fréttamenn ættu að vera svolítið varkárari í fréttaflutningi um fyrri ár og athuga þau betur. Það er auðvelt að setja af stað skriðu eins og hefur verið gert í þessu máli þannig að hér hefur verið mikið talað og með þeim hætti sem nú hefur verið gert. Ég ætla að vona að í framtíðinni leiti menn sér betri upplýsinga um þessi mál og ég kann því illa, eins og ég sagði fyrr í vetur, þegar er farið að vitna í erlenda menn og skrifa okkar sögu byggða á erlendum skýrslum. Ég sagði fyrr í vetur: Það hefði þá verið gaman að hafa til samanburðar skýrslu sovéska sendiráðsins frá sama tíma eða sovéskra sendimanna sem mótvægi við þessar skýrslur sem hér hafa verið tíundaðar og lesið úr fram og til baka. Það er þó okkar styrkleiki í vestrænum lýðræðisríkjum að flestar þessar skýrslur koma að lokum fram og eru ræddar. Við sjáum að nú eru þær birtar hver á fætur annarri og liggja á lausu. Þetta er ekki hægt að segja um hinn aðilann sem í rauninni tengist þessum málflutningi sérstaklega. Það er því dálítið erfitt að fjalla um þessi mál með slíku offorsi sem gert hefur verið og ég ætla að vona að menn spari við sig stóru orðin og haldi sér heldur innan þeirra marka sem eru skynsamleg í þessu máli.