25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6770 í B-deild Alþingistíðinda. (4688)

186. mál, fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um utanríkismál

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér hefur staðið yfir fróðleg umræða, sem eðlilegt er, um þessa skýrslu hæstv. menntmrh. og ég tel að skýrslan, svo slæm sem hún er efnislega og illa úr garði gerð, hafi þó þjónað þeim tilgangi að hér hafa farið fram umræður sem eru mjög fróðlegar fyrir þá sem tekið hafa þátt í þeim og á þær hafa hlýtt, a.m.k. á það við um sjálfan mig. Ég hef haft af því gagn — ég vil ekki segja gaman vegna þess að það er ekki gamanmál sem hér er til umræðu, en þó hefur mér fundist að málflutningur stuðningsmanna hæstv. menntmrh. í þessu efni hafi verið mjög áhugaverður vegna þess að hann lýsir inn í ákveðinn hugarheim sem er fyllsta þörf á að reyna að skilja. Og hann er mér vissulega ekki ókunnugur, sá hugarheimur.

En kannski vík ég fyrst að skýrslunni sjálfri sem einhver hv. þm. taldi, hvort það var hv. þm. Geir H. Haarde, held ég, sem byrjaði að klifa á því, að mér hafi komið illa að hún var lögð hér fram. Ég hefði helst ekki viljað sjá neina skýrslu um þetta mál. Það er mikill misskilningur. En ég hefði kosið að hún væri öðruvísi unnin og ég vil benda á eitt atriði til viðbótar við mörg sem fram hafa komið um alveg dæmalaust léleg efnistök hjá þeim sagnfræðingi sem hæstv. menntmrh. fékk til að taka saman meginefni skýrslunnar og byggir sína hörðu dóma á. Það er að finna á bls. 13 í skýrslunni. Kann að vera að aðrir ræðumenn hafi vakið athygli á þessu, en það sakar ekki þá að það sé gert enn og aftur. Það segir hér, eftir að fjallað hefur verið um umræður í Ríkisútvarpinu, dagskrárþætti að mig minnir að hann sé kallaður:

„Þetta eru einu „viðræðurnar“, sem ráðgerðar voru af Bandaríkjamönnum um baráttu gegn „byltingu kommúnista“ á stjórnartímabili Stefáns Jóhanns Stefánssonar. Nafn hans er ekki að finna í áætlun þeirra fremur en í áðurgreindri skýrslu Þjóðaröryggisráðsins. Þó verður að telja mjög líklegt að „bréfið“, sem Tangen kveðst hafa fundið um þetta efni, sé í raun þessi áætlun [sem þarna er verið að lýsa, tengd Þjóðaröryggisráðinu]. Hann haldi enn fram þessum ósannindum að nafn Stefáns Jóhanns komi þar fyrir og fari auk þess rangt með efnisatriði. Ef þessi tilgáta er rétt hefur Tangen einnig misnotað hér prentaða heimild því að áætlunin hefur verið prentuð í skjalaútgáfu Bandaríkjastjórnar (1977) og árið eftir var hún birt í dagblaðinu Þjóðviljanum.“

Hér er sagnfræðingurinn að kasta fram staðhæfingu og fer síðan að leggja út af tilgátunni, því sem hann sjálfur kallar tilgátu. Þetta eru vinnubrögð sem eru ámælisverð af manni sem gengur fram undir lærdómstitli og hefur fengið gæðastimpil frá hæstv. menntmrh. Ég vil ekki þar með fullyrða að þessi sagnfræðingur hafi ekki margt gagnlegt fram lagt. Það tel ég að liggi fyrir í ýmsum af hans ritgerðum margt sem að gagni má verða í sambandi við sögulegt mat.

Það kom fram hjá hv. 14. þm. Reykv. í sambandi við þetta mál að það gæti verið þörf á að rannsaka sérstaklega hvernig títtnefndur Tangen stundar sína rannsóknarstarfsemi um öryggismál Íslands. Það er einmitt það. Það er ósköp eðlilegt að hv. þm., eftir að hafa rennt, sennilega í fljótheitum nokkrum, yfir þessa skýrslu, komist að því að umræddur Dag Tangen stundi einhverjar rannsóknir á öryggismálum Íslands. (GHG: Hann sendir öryggisskjöl fyrir Íslendinga. Það kemur fram í skýrslunni.) Aha. Við skulum aðeins líta á það atriði. Það tengist samsæriskenningu sem liggur í þessari skýrslu en er ekki fundinn nokkur efnislegur staður. Við skulum líta neðar á bls. 13. Þar stendur:

„Svik, sem framin eru undir yfirskini fræðimennsku, getur verið erfitt að varast ef kænlega er um hnúta búið. Svo var þó alls ekki um pretti Dags Tangens, sem augsýnilega var ætlað að ófrægja látinn stjórnmálaandstæðing og koma höggi á flokk hans.“ (GHG: Það fer ekki milli mála.) Já, svo langt geta menn seilst og ruglið sem hér fram gengur á prenti væri hægt að ræða lengi nætur. Við skulum aðeins líta á þetta atriði nánar.

Hvernig kemst fréttamaður Ríkisútvarpsins á sporið sem verður til þess að hann fer að ræða við þennan mann og bera fram þessa frétt, Jón Einar Guðjónsson í Osló? Hann heyrir frásögn norska Ríkisútvarpsins eða sjónvarpsins af viðtali eða heyrir viðtal við þennan mann, sem hann hafði aldrei heyrt áður eða þekkti a.m.k. ekki, að ég hygg. Hann heyrir það líklega að kvöldi 8. eða þann 9. nóv. sl. og þar minnist þessi Dag Tangen í framhjáhlaupi, eins og sagt er á slæmu máli, á það að hann hafi rekist á einhver atriði varðandi öryggismál Íslands í sínu grúski, sem varðaði annars fyrst og fremst samskipti norskrar verkalýðshreyfingar og frammámanna hennar við bandaríska leyniþjónustu og bandaríska aðila fyrr á árum, Haakon Lie og fleiri slíkra. Þetta verður til þess að fréttamaðurinn í Osló fer að tala við manninn sem verður til þess að hann sendir þessa frétt. Haldið þið að Dag Tangen hafi verið að leita uppi fréttaritara Ríkisútvarpsins úti í Osló? Haldið þið að Tangen hafi haft í huga eitthvert samsæri gegn látnum íslenskum stjórnmálamanni þó að hann nefni þetta í viðtali við norskan ríkisfjölmiðil? Hvers konar rugl er hér á ferðinni? Þetta er eitt af mörgu sem er með þessum hætti í þessari skýrslu að hún verður ómerkt plagg sem einhver söguskýring eða sagnfræðilegt framlag. (GHG: Hvert sendi hann skjölin þegar hann sendi þau til Íslands? Vill hv. þm. lesa það í skýrslunni?) Ja, ég hef heyrt það í umræðunni að viðkomandi hafi sent einhver skjöl skólasystur sinni eða talið sig hafa sent skjöl til skólasystur sinnar. En að hann hafi stundað eða lagt fram einhverjar sagnfræðilegar rannsóknir varðandi Ísland, ég held að það sé enginn staður fyrir því. Ég hef ekki heyrt það nefnt a.m.k.

En svona er hægt að ganga fram og þetta gerir dr. Þór Whitehead. Það er hann sem setur á blað þetta rugl sem hér stendur. Síðan eru menn hér að ítreka og endurtaka að hann sé óbrigðull og standi nú í sínu stykki, standi fyrir sínu. Ég verð að segja að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með framlag þessa fræðimanns vegna þessarar skýrslu. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál þegar hæstv. menntmrh. síðan fer að kveða upp dóma reista á sleggjudómum þessa sagnfræðings í ýmsum tilvikum. Ég segi sleggjudómum því hann gengur fram sem dómari og talar um sannanir og annað af því tagi. Hann er ekki hér að leggja fram hlutlægt sagnfræðilegt innlegg inn í þetta mál eins og krefjast bæri af manni sem beðinn er um þetta verkefni af menntmrn. Því miður.

En síðan kemur það sem ég vildi taka næst upp við hv. þm., t.d. hv. þm. Geir Haarde og hv. þm. Guðmund H. Garðarsson og fleiri viðstadda sem tekið hafa þátt í umræðunum, og það er þessi uppsetning mála sem snertir baráttuna sem þeir segja milli lýðræðis og einræðis sem þeir hafa verið að draga upp, þetta heilaga stríð sem þeir eru þátttakendur í og hafa skipað sér öðrum megin í sveit vegna þess að þeir eru svo sannfærðir um að það verði að verja Ísland með aðstoð herveldis eins og Bandaríkjanna gegn „rauðu hættunni“. Auðvitað eru þetta sjónarmið. Viðkomandi hv. þm. hafa allan eðlilegan rétt til þess að draga þær ályktanir og taka þá afstöðu til mála. En ég segi hins vegar: Þetta er ekki lausnin.

Ég hef talað oft á Alþingi Íslendinga um reynsluna af tilraunum í Austur-Evrópu undir merkjum sósíalisma til að „bæta heiminn“ og ég hef gagnrýnt þau þjóðfélög hér og farið um þau hörðum orðum og íhlutunarstyrjaldir þeirra á jaðarsvæðum þar sem þau hafa sín áhrif, eins og í Afganistan. En að það leiði mig til þeirrar niðurstöðu að segja: Við eigum að beygja okkur undir vilja hins risaveldisins vegna þess að við eigum ekki annarra kosta völ því annars lendum við í gin eða klær rússneska bjarnarins er að mínu mati röng niðurstaða og hún er mjög háskaleg fyrir smáþjóð nú, eins og hún var fyrstu árin eftir að lýðveldi var stofnað á Íslandi þegar Bandaríkjunum tókst að ná markmiðum sínum um varanlegar herstöðvar á Íslandi sem þeir settu fram kröfuna um að yrði til 99 ára 1945 en þá var hafnað. Ég var að lesa það upp úr skýrslum, að að mati bandarískra sendimanna á þeim tíma var það vegna andstöðu þeirra sem þeir kalla kommúnista að dæmið gekk ekki upp 1945. En það liggur líka fyrir, m.a. í ritgerðum dr. Þórs Whitehead sem ég nefndi í dag, sem er hér að finna í Skírni 1976, hvernig bandarísk yfirvöld náðu markmiðum sínum á ótrúlega skömmum tíma, fyrst Keflavíkursamningnum 1946, síðan að keyra Ísland inn í Atlantshafsbandalagið með aðstoð annarra þeim vinveittra ríkja og út af fyrir sig okkar góðra granna, þar sem voru Norðmenn og Danir, en sérstaklega Norðmenn, og síðan að fá íslenska alþingismenn til að stíga það dæmalausa skref 1951 að ganga á bak orða og eiðstafa sem uppi voru hafðir á Alþingi Íslendinga í mars 1949 um að á Íslandi skyldi ekki verða her á friðartímum. Þessi skref voru stigin, þessar ákvarðanir voru teknar utan Alþingis, á skúmaskotafundum þingmanna sem ekki þorðu að standa Íslendingum og Alþingi Íslendinga reikningsskil sinna gerða, ekki á réttum vettvangi, heldur settu bráðabirgðalög og keyrðu málið síðan í gegnum þingið mörgum mánuðum síðar eftir að herinn var kominn og búinn að hreiðra um sig í Keflavík.

Það er mjög gagnlegt að fá inn í umræðu sem þessa hreinskiptin orð frá manni eins og hv. 14. þm. Reykv. Guðmundi H. Garðarssyni vegna þess að það segir okkur býsna margt um á hvaða forsendum menn hasla sér völl. Og við verðum að reyna að skilja þær forsendur og við sem erum andsnúin þessum sjónarmiðum, þessari niðurstöðu, þurfum að taka þessi sjónarmið til athugunar og við þurfum að benda á aðrar lausnir til að tryggja það, sem ég efa ekki að sé sameiginlegur vilji manna á hv. Alþingi, að viðhalda borgaralegu lýðræði í þessu landi og sumir vilja að það verði ekki aðeins lýðræði til orðs og hugsana og félagafrelsis heldur líka efnahagslegt lýðræði þar sem íslenskum auði sé skipt á sæmilega réttlátan hátt.

Mér er það alltaf mikil raun þegar hv. þm., sem mæla fyrir þessum sjónarmiðum og hafa talað í kvöld, gleyma framgangi þess herveldis sem þeir hafa tryggt aðstöðu í landinu, framgangi þess herveldis á ýmsum svæðum heimsins þar sem það fer sínu fram með mjög svipuðum hætti — ja, ekki betri en við vitum að gerst hefur af hálfu Sovétríkjanna og gert er á þeirra yfirráðasvæði. Hvernig er staða mála í Rómönsku Ameríku? Hverjir keyrðu niður lýðræðislega kjörna stjórn og lýðræðislega kjörinn forseta í Chile? Hverjir ganga fram með leyniþjónustu og herlið að vopni til að viðhalda efnahagslegri og stjórnmálalegri kúgun á svæðum þar sem þeir eiga í fullu tré við landslýðinn og telja sig ekki þurfa að líta á þær leikreglur sem sem betur fer hefur tekist að halda í sæmilegum heiðri í Vestur-Evrópu og sérstaklega á Norðurlöndum? Hafa menn engar áhyggjur af þessu? Hafa menn engar áhyggjur af því að skipa sér með þeim hætti í sveit með þessu risaveldi, styðja stefnu þess og gera rök þess að sínum rökum á þann hátt sem við heyrum hér úr munni manna?

Ég bið menn að hugleiða þessi mál. Það er nefnilega svo að þegar ég er að rekja hér efni úr skýrslum bandarískra sendimanna, sem menn eru að kvarta undan að hafa verið lesnar upp í dag, þó skil ég ósköp vel að það svíði undan ýmsu því sem þar kemur fram, þá sjá menn þar inn í hugarheim sem ekki varð virkur á Íslandi með vopnum til þess að beygja okkur undir ok herveldisins og tryggja þeirra hernaðarlegu hagsmuni. Þess þurfti ekki. Það þurfti ekki að beita vopnunum. En þeim er beint að þeim hinum sömu á svæðum, þar sem þeir telja sér það henta og telja sér kleift að hafa í fullu tré við landslýðinn og þar fara fram myrkraverk og pyntingar með þeim hætti sem allir þeir sem fylgjast með í alþjóðamálum vita, en þekkja sem betur fer ekki á eigin líkama.

Ég má til með að nefna eitt dæmi til viðbótar við það sem ég las upp fyrir hv. þm. í dag. Það er örstutt. Bandaríski sendiherrann fékk nefnilega frá samstarfsmönnum sínum greinargerðir um tillögur Trimbles til að ráða niðurlögum eða minnka áhrif skulum við segja kommúnistanna á Íslandi sem þeir kalla. Þeir skiluðu honum skýrslum. Einn þeirra segir, John McKesson, 3. sendiráðsritari 1948 í bandaríska sendiráðinu: „Í framhaldi af breytingum og aðgerðum sem stungið er upp á hér að ofan eru sett fram eftirfarandi meðmæli: Sem tæki til að koma í kring ofangreindri áætlun ætti að fara fram virk rannsókn á kommúnismanum á Íslandi á vegum sendiráðsins. Þetta ætti að fela í sér nána samvinnu við gagnnjósnastarfsemi íslensku ríkisstjórnarinnar“ sem þeir voru að gera tillögur um að komið yrði á fót og höfðu fengið ákveðnar viðtökur og viðbrögð við frá íslenskum valdamönnum. „b. Hnitmiðuð áætlun um söfnun upplýsinga af öllum starfsmönnum sendiráðsins gegnum persónuleg sambönd. c. Finnist réttir einstaklingar innan kommúnistahreyfingarinnar og unnt verði að nálgast þá, ætti að nota hæfilegar mútur [„adequate bribes“] til að fá verðmætar upplýsingar. Sumir þessara þátta, sem nefndir eru hér að ofan, eru með réttu verkefni fyrir leyniþjónustuhóp“ — eða The Central Intelligence Group eins og það heitir á enskunni.

Hvað segja menn um þetta? Hæfilegar mútur. Leita uppi einstaklinga, nógu auðvirðilega menn sem eru reiðubúnir til að gefa verðmætar upplýsingar fyrir hæfilegar mútur.

Og hvað segja menn um þetta, þar sem skrifar 2. sendiráðsritari Kenneth A. Byrnes 13. okt. 1948 þar sem hann er að fjalla um hugmyndina um að koma upp „Party militia“ hér uppi á Íslandi, sveitum sem voru raunar myndaðar og birtust almenningi hérna fyrir utan veggi þessa húss 30. mars 1949, „Party militia“, hvítliðasveitir. Hvað segir 2. sendiráðsritari um þær hugmyndir? „Tillagan um að við látum flokksliðssveitum á Íslandi í té vopn gæti verið erfiðleikum bundin þar eð við yrðum líka að láta fylgja einhvern til að þjálfa Íslendinga í notkun þeirra. Ef við látum Íslendinga hafa vopn skulum við líka gefa þeim handsprengjur og láta þá eyðileggja prentsmiðju Þjóðviljans. Ef við gerum það skulum við líka hvetja þá til að útrýma“ —Það segir hér „eliminate“. Ég þýði það „útrýma“. Það má kannski segja útiloka eða einangra. — „leiðandi félaga í Kommúnistaflokknum. Allt má það setja fram sem varnir gegn kommúnismanum. Umræða mín um þetta atriði er auðvitað ýkt, en ég hygg að við eigum ekki að blanda okkur í innanlandsmál annarrar þjóðar nema við séum reiðubúnir að framfylgja fullkominni OSS-aðgerð og ganga leiðina á enda.“ (GHG: Hvaða OSS?) Leyniþjónusta hersins sem sumar þjóðir hafa fengið að kenna á og kenna á enn í dag á eigin líkama þar sem risaveldinu hentar að ganga hreint til verks og ganga leiðina á enda. Við erum hér, því miður, ekki að tala um einhverja „science fiction“, um einhverja vísindaskáldsögu. Við erum að tala um hugmyndir sem eru sprelllifandi og aðgerðir á grundvelli þeirra sem beitt er víða um heim í nafni frelsis, lýðræðis og baráttunnar gegn kommúnismanum. Það er alvara málsins. Og ég er alveg undrandi á því að hér á Alþingi Íslendinga skuli menn ekki vilja taka á þessum málum, skuli menn ekki vilja t.d. ganga gegn þeim fasisma sem ræður ríkjum í Suður-Afríku með því að slíta á viðskiptasambönd við það ríki á sama hátt og aðrar Norðurlandaþjóðir hafa gert. En kannski rætist úr í þeim efnum. Við skulum vona það.

Virðulegur forseti. Ég taldi rétt að fjalla um nokkur grundvallaratriði að baki þessarar umræðu og mig hefði langað til þess vegna þess sem hér hefur komið fram að fara í gegnum nokkra þætti úr ritgerð Þórs Whitehead, Lýðveldi og herstöðvar, sem er að finna í Skírni 1976, því að þar er skjalfestur af títtnefndum sagnfræðingi aðdragandi þess að Bandaríkin náðu hér tangarhaldi, fyrsta áfanganum til að tryggja sér varanlegar herstöðvar í landinu með Keflavíkursamningnum 1946. Þar eru raktar með skýrum hætti og stuðst við upplýsingar og einkaminnisblöð forustumanna t.d. Sjálfstfl. á þessum tíma, sem nefndur sagnfræðingur hafði aðgang að, og rakið hvernig hlutirnir gerðust. Ég er ekki að halda því fram að þar sé sagður allur sannleikur, þar sé allt framreitt, en að svo miklu leyti sem það er gert hérna er það svo upplýsandi um þessi efni að eftir að hafa farið í gegnum þetta og þær upplýsingar sem ég var að lesa upp í dag fyrir þingheimi virkar þessi umræða um Dag Tangan og fréttina í Ríkisútvarpinu sem slíkt aukaatriði þessa máls að það er alveg furðulegt að það skuli vera tilefni skýrslugjafar, ofanígjafar og rassskellingar af hálfu hæstv. menntmrh. á Ríkisútvarpið eins og hann hefur hér tilburði til.

Það liggur fyrir í þessari ritgerð Þórs Whiteheads í Skírni og það liggur fyrir í því sem birt hefur verið t.d. í nú opinberum skjölum vestur í Bandaríkjunum yfir þetta tímabil, að íslenskir valdamenn, bæði títtnefndur Stefán Jóhann Stefánsson, Bjarni Benediktsson og fjölmargir aðrir, sem koma við þessa sögu, töldu sér henta að vera í mjög nánu samstarfi við sendimenn erlends ríkis, sendimenn erlends stórveldis um þeirra áætlanir til að ná tangarhaldi uppi á Íslandi og ekki síður um að klekkja á pólitískum andstæðingum hér innan lands undir nafni baráttunnar gegn kommúnismanum, ofsækja menn, svipta menn störfum, færa menn til í störfum vegna kommúnískra tilhneiginga. Það þurfti ekki meiri rök til. Og ráðherrar Íslands á þessum tíma gerast verkfæri stórveldisins í þessum efnum. Svo eru menn að fjargviðrast út af einhverri frétt utan úr Noregi og segja: Það verður að hvítþvo minningu látinna manna og það er alveg skelfilegt þegar menn eru að ræða um hvað gerst hafi hér í fortíðinni ef menn eru svo dauðir sem hafa tekið þátt í því. Ég vildi gjarnan fá ráð til þess hvernig menn ætla yfirleitt að standa í sögugrúski eitthvað til baka ef það má ekki minnast á neitt sem snertir látna menn. Ja, hvað um Íslandssöguna? Hvað um 13. öldina sem er kannski viss hliðstæða þess sem hefur verið að gerast uppi á Íslandi á þessari öld, sturlungaöldin sú? Svo eru menn að reyna að víkja út af borðinu umræðu um Íslandssöguna einhverja áratugi aftur í tímann vegna þess að menn séu gengnir til feðra sinna sem hafa verið þar þátttakendur. Svo eru menn að glugga í einhver stúdentaskrif til þess að leiða fram ***hjá því sem skiptir sköpum í íslenskri pólitík. Og er ég þó ekki að biðjast undan neinu sem þar kom fram og mér er eignað, langt frá því, og hlýt ég að minnast á það aðeins. Það vill svo skemmtilega til að þeir eru í miklum erfiðleikum, Heimdellingarnir sem stálu einkabréfunum og skjölunum frá okkur svokölluðum SÍA-mönnum á sínum tíma, að framreiða það með þeim hætti að hentaði. Og hvers vegna? Vegna þess að þessi bréfaskipti okkar ungra námsmanna höfðu að verulegum hluta að geyma harða gagnrýni á það þjóðskipulag sem við kynntumst í Austur-Evrópu og Morgunblaðið lagði undir sig forsíðurnar með flenniletri vorið 1962 til þess að sýna fram á, einmitt með okkar orðum og þessum stolnu bréfum okkar, að þetta væri bara svo andskoti slæmt í Austur-Evrópu, rétt eins og Mogginn hefði verið að segja. Það er svolítið erfitt, sem síðan var reynt í sömu andránni að koma inn hjá þjóðinni, að þarna væru fimmtu herdeildarmenn á ferðinni, þarna væru í uppvexti og uppeldi piltungar sem ættu að tryggja valdatökuna og framtíðarríkið hér uppi á Íslandi. Þetta gekk illa saman. Þess vegna er það nú svo að það er ekki mjög margt fróðleikskornið að finna þarna, fyrir þá sem ætla að koma höggi á hreyfingu sósíalista á þessum tíma, né heldur seinna í þessu riti sem Heimdallur auðvitað þurfti að borga sín ritlaun fyrir og var dæmdur til eftir að hafa stolið bréfunum okkar og það var ekki nema réttmætt. Þeir fengu sinn dóm. En það er aukaatriði í þessu máli.

Alvaran tengist framtíðinni. Alvaran tengist fjölmiðlun á Íslandi sem er orðin í okkar samfélagi eins og víða annars staðar slíkt veldi að það skiptir gífurlega miklu máli hvernig hún þróast, hvernig hún fær að þróast. Og það er áhyggja okkar, sem höfum verið að mæla varnaðarorð í þessari umræðu, að okkur þykir sem núverandi valdamenn á Íslandi séu að nota mistök fréttastofunnar í nóvembermánuði sl. til að keyra menn þar niður, til að hræða menn frá því að gegna skyldum sínum sem upplýsingaaðili. Mér finnst að mörg orðin í þessari skýrslu hæstv. menntmrh. í inngangi hennar og í lokaorðum beri þessum hugmyndum allt of órækt vitni, þessum heilaþvottarhugmyndum sem lesa má út úr þessu plaggi.

Hæstv. menntmrh. sagði í sínu máli áðan að hann vildi veg Ríkisútvarpsins sem bestan. Ja, betur að satt væri, betur að fylgt væri eftir. Og hann var að reyna að segja okkur hér að það hafi bara verið gert vel við þessa stofnun fjárhagslega. Æ, það hafi að vísu verið klipinn af henni þarna lögbundinn tekjustofn, en hann færi ekki til dagskrárgerðar, o-nei. Það voru 300 millj. í fyrra sem þannig var klipið af og það verða 150 eða 200 í ár eftir því hvað menn hafa áætlað tolltekjurnar sem var klipið af og kom í veg fyrir að þessi stofnun geti byggt sig upp og náð til landsmanna á sómasamlegan hátt, að unnt sé að byggja hér upp langbylgjukerfið sem er að falli komið og algerlega úrelt. Þetta eru aðgerðir fyrrv. og núv. ríkisstjórnar, aðgerðirnar sem hv. 3. þm. Vesturl. Eiður Guðnason hafði uppi mörg og stór orð um hérna uppi í Ed. í fyrra þegar hann var í stjórnarandstöðu en sem fjmrh. sama flokks gerði síðan að sínum aðgerðum við fjárlagagerð yfirstandandi árs.

Og svo kom hæstv. menntmrh. og sagði: Já, en afnotagjöldin hafa bara hækkað meira en framfærsluvísitalan. En hvað gerðist, hæstv. menntmrh., í tíð forvera þíns í þessum efnum? Frá ársbyrjun 1986 til 1. júlí 1987 voru afnotagjöld Ríkisútvarpsins ekki hækkuð nokkurn skapaðan hlut heldur hríðlækkuðu með verðbólguverðrýrnun á öllu þessu tímabili. Engin hækkun afnotagjalda á þessum tíma, en þeim mun myndarlegri hækkun á seinni hluta 1987. (Menntmrh.: 1986 var hækkunin 15,1% þegar framfærsluvísitala hækkaði um 13,5.) Já, já, við skulum skoða það. Ég hef þessar tölur ekki fyrir framan mig. Ég hef bara upplýsingar um þetta efni sem voru framreiddar hér og ekki gerðar athugasemdir við við undirbúning fjárlaga og lánsfjáráætlunar í vetur.

Nei, það skal áreiðanlega ekki standa á Alþb. að hlúa að Ríkisútvarpinu og fyrir Sþ. liggur sérstök tillaga flutt af alþýðubandalagsþingmönnum um það efni, kosningu sérstakrar nefndar til að taka á málefnum Ríkisútvarpsins með uppbyggjandi hætti. Auðvitað þarf að búa að þessari stofnun, sem sett er í samkeppnisumhverfi hinnar svokölluðu frjálsu fjölmiðlunar, þannig að hún geti rækt menningarhlutverk sitt og staðist þá samkeppni, ekki með lágkúrulegu efni skemmtanaiðnaðarins heldur með því að tryggja framlag til íslenskrar menningar.

Ég vitnaði fyrr í dag í Reykjavíkurbréf skrifað af Matthíasi Johannessen, að ég hygg í gær. Það mun hafa komið í fyrradag. Þar voru mælt þarfleg og réttmæt orð um hætturnar á núverandi fjölmiðlun,

hinni svokölluðu frjálsu fjölmiðlun, hætturnar á lágkúru, hætturnar á hernámi hugarfarsins í því fjölmiðlaumhverfi sem núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn hafa verið að skapa og hlúa að á sama tíma og þrengt er að Ríkisútvarpinu með þeim hætti sem við höfum rætt hér oft áður.

Það þýðir hins vegar ekki að mæla fagurt um íslenska menningu ef það er ekki tryggt að jarðvegurinn sé þannig að við getum vænst úr honum góðrar sprettu. Og vegna sagnfræðilegra athugana, sem hér hafa verið til umræðu, vil ég að lokum, virðulegur forseti, ítreka það sem hefur verið inntak í mínum ræðum um þetta efni í fyrra og á þessu ári. Við eigum ekki að láta okkur nægja að rýna í erlend skjöl og skrif erlendra manna. Við eigum að vera menn til þess að halda til haga íslenskum gögnum, íslenskum heimildum með þeim hætti að þær séu aðgengilegar. Það hefur ekki verið gert þrátt fyrir áskoranir. Fyrir Sþ. liggur fsp. til núv. hæstv. utanrrh. um hvenær vænta megi þess að heimildir um íslensk utanríkismál og samskipti við erlend ríki verði aðgengilegar. Það er stórt mál og það gæti orðið kannski til þess að draga aðeins úr getsökunum sem fram hafa komið í þessari umræðu, eyðunum sem menn eru að reyna að spá í. Og hvers vegna sameinumst við ekki um það að hlúa að þeim menningarþætti hér á heimagrund með því að draga fram plöggin sem væntanlega hafa varðveist úr sögu lýðveldisins um þessi samskipti?