26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6824 í B-deild Alþingistíðinda. (4751)

454. mál, viðskiptabankar

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 86 frá 4. júlí 1985, um viðskiptabanka, á þskj. 804. Frv. felur í sér að gerðar verði nokkrar breytingar á gildandi lögum um viðskiptabanka á grundvelli starfsáætlunar ríkisstjórnarinnar og með hliðsjón af reynslunni sem fengist hefur frá gildistöku bankalaganna frá 1. janúar 1986. Breytingarnar miða að því að ákveða almenna heimild fyrir erlenda banka og viðurkenndar fjármálastofnanir til að eiga takmarkað hlutafé í íslenskum hlutafélagabönkum, auk þess sem það geymir nánari ákvæði varðandi reglur um fyrirgreiðslu viðskiptabanka við einstaka viðskiptavini sína, ákvæði um starfsábyrgð stjórnenda til að girða fyrir hagsmunaárekstra, ákvæði varðandi endurskoðun og ákvæði sem varða hlutfall fasteigna og búnaðar viðskiptabanka af eigin fé þeirra.

Að því er varðar eignaraðild erlendra banka og viðurkenndra erlendra fjármálastofnana að íslenskum hlutafélagabönkum, sem 1. gr. fjallar um, skal tekið fram að skv. 2. mgr. 5. gr. núgildandi laga um viðskiptabanka skal allt hlutafé í hlutafélagsbanka nú vera í íslenskri eigu. Undanþága frá þessu ákvæði var gerð í lögum nr. 7/1987, um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands. Skv. 15. gr. þeirra laga var bönkum með lögheimili og varnarþing erlendis heimilað að eiga á hverjum tíma samtals allt að 25% hlutafjár í Útvegsbanka Íslands hf. Það þykir rétt að hafa almennt ákvæði í lögunum um viðskiptabanka varðandi heimild erlendra banka til að eiga allt að fjórðungi hlutafjár í hlutafélagsbönkum hér á landi og er þetta framkvæmd á starfsáætlun ríkisstjórnarinnar þar sem segir að þátttaka erlendra banka í lánastarfsemi hér á landi verði heimil samkvæmt almennum reglum.

Með slíkri almennri heimild í lögunum um viðskiptabanka má greiða fyrir endurskipulagningu bankakerfisins sem nú er að stefnt. Erlent áhættufé getur með þessu móti komið að nokkru leyti í stað erlends lánsfjár, en mestu varðar þó að þessi breyting greiðir fyrir öflun þekkingar og viðskiptasambanda erlendis sem erlendir hluthafar gætu miðlað til íslenskra banka. Á tímum hraðstígrar tækniþróunar og samkeppni getur þetta eflt og bætt starfsemi íslenskra banka og bætt þjónustu þeirra.

Að tillögu nefndar sem fjallað hefur um lagasetningu varðandi fjármagnsmarkaðinn nær heimildin til eignaraðildar að íslenskum viðskiptabönkum og einnig til viðurkenndra erlendra fjármálastofnana, en á síðari árum tíðkast það víða í nágrannalöndum að bankar séu í eigu slíkra stofnana.

Í lögunum um viðskiptabanka er nú kveðið á um það í 4. mgr. 21. gr. að bankaráð viðskiptabanka setji að fenginni umsögn bankastjórnar almennar reglur um lánveitingar bankans sem sendar skuli Bankaeftirlitinu. Í grg. með lagafrv. var á sínum tíma m.a. vikið að því að unnt væri á grundvelli þessara reglna að leggja bann við lánum til einstakra viðskiptaaðila umfram tiltekið hlutfall af eigin fé bankans. Um skyldu til að kveða á um hámark slíkra lána var hins vegar ekki að ræða. Í samræmi við starfsáætlun ríkisstjórnarinnar er hins vegar nú talið rétt að leggja til, eins og gert er í 2. gr. frv., að það sé skylda banka að hafa í starfsreglum sínum ákvæði um hámark lána til einstakra lántakenda og um tryggingar fyrir lánum. Jafnframt er lagt til að tekin verði af öll tvímæli um það að ábyrgðir séu settar á sama bekk og lánveitingar. Þá er lagt til að reglurnar sæti endurskoðun eigi sjaldnar en árlega og skuli Bankaeftirlitið láta í té álit á þeim hverju sinni.

Með þessu er auðvitað stefnt að auknu aðhaldi varðandi lánveitingar, ábyrgðir og tryggingar. Á þennan hátt má draga úr líkum á stóráföllum í rekstri banka og tryggja betur hag þeirra og sparifjáreigendanna sem innstæðurnar eiga. Innlendir og erlendir sérfræðingar um málefni banka telja óæskilegt að innlánsstofnanir bindi fé sitt um of hjá einum eða fáum viðskiptavinum eða atvinnugreinum, enda hafa fjárhagsörðugleikar banka oft og einatt stafað af því að ekki hefur verið gætt nægilegrar varfærni í þessum efnum.

Eftirlit með einstökum stórum lánveitingum er nú í öllum aðildarlöndum OECD annaðhvort beint af eftirlitsstofnunum eða í gegnum endurskoðendur. Þar að auki eru í flestum aðildarlöndum OECD sett takmörk eða leiðbeiningar um stærð lána til einstakra eða fjárhagslega tengdra aðila. Venjulega er þá miðað við prósentu af eigin fé innlánsstofnunar. Í nokkrum löndum, t.d. í Frakklandi, Þýskalandi, Írlandi og Ítalíu, má samtala nokkurra tiltekinna lánþega ekki fara upp yfir visst mark.

Á síðustu árum hafa reglur um stærstu lánveitingar banka verið hertar verulega í nokkrum löndum, t.d. í Kanada árið 1981, í Lúxemborg 1985 og Bretlandi 1983. Í Þýskalandi og Frakklandi hafa takmörk stærstu lána verið lækkuð miðað við eigin fé innlánsstofnana. Þá hafa nokkur lönd einnig hert á mati sínu við útreikning á þessum stærstu lánum.

Þó að markmiðið með eftirliti á stórum lánveitingum sé mjög svipað í flestum löndum eru aðferðir þær sem notaðar eru og mat á einstökum útlánum mjög mismunandi. T.d. eru lán með ríkisábyrgð yfirleitt undanskilin í útreikningi á stærstu lánum, en mjög er mismunandi hvernig löndin meta lán með ábyrgð sveitarfélaga og slíkra aðila. Til þess að sannreyna þetta er nú í undirbúningi hjá Evrópubandalaginu reglugerð um þetta efni. Með því starfi þurfa Íslendingar að fylgjast.

Í 3. gr. frv. er stefnt að lögfestingu reglna til að girða fyrir hagsmunaárekstra. Þar segir að bankaráðsmenn skuli ekki taka þátt í meðferð máls hjá bankanum er varðar viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir eiga hlut í, sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti hagsmuna að gæta sem verulegir geta talist. Sama gildir um þátttöku bankaráðsmanna í meðferð máls er varðar aðila sem þeim eru tengdir persónulega eða fjárhagslega.

Mér þykir rétt að gera strangar kröfur í lögum um starfsábyrgð stjórnenda við svo mikilvægar stofnanir sem bankar eru. Þar geta hagsmunaárekstrar haft alvarlegar afleiðingar og alvarlegri en oft endranær og því er afar mikilvægt að tryggja þar óháðar ákvarðanir. Ákvæði frv. að þessu leyti eru a.m.k. ekki strangari en víðast hvar í bankalöggjöf nágrannalandanna þótt þau ákvæði séu reyndar með ýmsum hætti samkvæmt upplýsingum sem Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur látið í té.

Í 4. gr. frv. er svo lögð til sú breyting að endurskoðun ríkisviðskiptabanka skuli framkvæmd af Ríkisendurskoðun og skoðunarmanni sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn og skal hann vera löggiltur endurskoðandi. Þessi breyting er reyndar til komin vegna ákvæða í lögum nr. 12 frá 29. apríl 1986 þar sem kveðið er á um að Ríkisendurskoðun skuli endurskoða reikninga fyrirtækja og stofnana sem rekin eru á ábyrgð ríkissjóðs eða ríkissjóður á að hálfu eða meira leyti. Eðlilegt þykir að viðhafa þá reglu um viðskiptabanka í eigu ríkisins að ríkisendurskoðandi annars vegar og hins vegar löggiltur endurskoðandi sem ráðherra skipar skuli annast endurskoðun reikninganna. Með því að Ríkisendurskoðunin er nú orðin stofnun og starfstæki Alþingis skv. nýjum lögum kemur hún skv. tillögu frv. í stað þingkjörinna skoðunarmanna skv. gildandi lögum.

Í síðasta lagi er í 5. gr. frv. svo leitast við að eyða óvissu um það hvernig túlka beri 1. mgr. 54. gr. laga um viðskiptabanka. Á því hefur borið að viðskiptabankar, þar sem bókfært virði fasteigna og búnaðar er hærra en 65% af eigin fé, telji sér í sjálfsvald selt að hækka þetta hlutfall, m.a. með því að fjölga útibúum á því fimm ára aðlögunartímabili sem kveðið er á um í bankalögunum, en það er árabilið 1986–1990, og telji nægja að ná hlutfallinu 65% í lok tímabilsins. Í frv. eru tekin af tvímæli um það að lögin leyfi ekki svo frjálslega túlkun og er þar farið að ráðum bankaeftirlitsins. Þó er í lagagreininni möguleiki á undanþágu í undantekningartilfellum.

Hæstv. forseti. Ég legg áherslu á að frv. nái sem fyrst fram að ganga. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.og viðskn.