26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6858 í B-deild Alþingistíðinda. (4775)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess eftir þessar umræður að koma í ræðustól og þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið um frv., jafnframt því sem ég þakka nefndinni fyrir afgreiðslu á þessu máli.

Ég held að jafnvel þó að frá nefndinni hafi komið þrjú nál. um þetta frv. megi almennt segja, bæði að því er varðar innihald nál. og eins þær umræður sem hér hafa orðið, að það séu almennt jákvæð viðhorf stjórnmálaflokkanna á þingi til kaupleigukerfisins. Þetta er í samræmi við þau viðbrögð sem við verðum mikið vör við í félmrn. vegna þess að þangað er mikið haft samband af sveitarfélögunum sem hafa verið að spyrjast fyrir um gang þessa máls og hvort vænta megi þess að frv. verði að lögum fyrir þinglausnir. Enda er það svo að nokkur fjöldi umsókna liggur hjá Húsnæðisstofnun um kaupleiguíbúðir og hafa þær legið þar allt frá því sl. haust.

Það er m.a. ein ástæða þess að ég tel nauðsynlegt að lögfesta þetta frv. þegar á þessu þingi sem þá kannski að hluta til svarar því sem fram kom hjá hv. þm. Kristínu Einarsdóttur sem taldi að það væri í lagi að bíða með lögfestingu frv. þar til síðar á árinu. Ég tel að húsnæðisvandinn sé svo mikill hjá okkur, sérstaklega úti á landsbyggðinni, að það muni um að geta nýtt þær 273 millj. sem nú eru á fjárlögum og ætlaðar eru í kaupleiguíbúðir. Verði þetta frv. að lögum fyrir þinglausnir er þegar hægt að hefjast handa um framkvæmdir á 120–150 kaupleiguíbúðum.

Ég vil líka í þessu sambandi vitna til þess að í bréfi sem ég hef fengið frá Byggðastofnun um vandann í húsnæðismálum á landsbyggðinni kemur einmitt fram orðrétt, með leyfi forseta: „Í viðtölum við fjölda sveitarstjórnarmanna á lífvænlegum stöðum á landsbyggðinni koma húsnæðismálin oft upp sem stærsta byggðavandamálið að þeirra mati.“

Einnig kemur fram í þessu bréfi að Byggðastofnun leggur áherslu á að ástand húsnæðismála á landsbyggðinni er þannig að brýnt sé að gripið verði til aðgerða þegar í stað.

Þó að 120 eða 150 kaupleiguíbúðir, sem hægt væri að hrinda af stað kannski upp úr miðju ári, leysi vissulega ekki þann mikla vanda sem við er að glíma á landsbyggðinni þegar í stað eru þær þó skref í áttina og vonandi yrðu þessar 120–150 kaupleiguíbúðir einungis fyrstu íbúðirnar af mörgum sem geta átt hlut að því að leysa þann húsnæðisvanda sem landsbyggðin býr við.

Ég er ekki að öllu leyti sammála því sem fram kemur í nál. meiri hl. að þar sem einungis 14 aðilar sendu umsagnir um frv. af sennilega rúmlega 200, sem var sent þetta mál til umsagnar, hafi einungis 14 séð ástæðu til að svara og því megi draga þá ályktun að það virðist lítill áhugi á frv. Það er a.m.k. annað en ég hef orðið vör við og annað en finna má í áliti aðila sem hafa tjáð sig um þetta mál.

Ég nefni, af því að hér hafa verið prentaðar með þessu nál. umsagnir þær sem bárust nefndinni, t.d. umsögn Verkamannasambands Íslands, sem mér barst 18. apríl, þar sem lýst er eindregnum stuðningi við frv. og framkvæmdastjórn Verkamannasambands Íslands skorar á Alþingi að sjá til þess að frv. verði að lögum þegar á þessu þingi. Ég sé einnig ástæðu til að geta um, af því að það hefur komið fram hjá ýmsum að þeir telji eðlilegra að kaupleigufrv. hefði fallið inn í heildarendurskoðun á húsnæðislöggjöfinni, umsögn Fjórðungssambands Norðlendinga sem í lokin ályktar á þá leið að það hefði átt að falla inn í heildarendurskoðun, en segir þó, með leyfi forseta: „Hins vegar fer það ekki milli mála að kaupleigukerfið er áhrifaríkasta aðferðin til að bæta ástandið í húsnæðismálum víða um landið og til að laða að fólk til tímabundinnar búsetu sem gæti ílengst í byggðarlögunum.“

Þetta er einmitt kosturinn við kaupleigukerfið, sem kemur fram í þessari umsögn, að það býður upp á þá möguleika að laða fólk út á landsbyggðina þar sem boðið er upp á bæði val um kaup og leigu og eins getur fólk greitt fyrir íbúðina með föstum mánaðarlegum greiðslum.

Ég nefni einnig í lokin, og ætla ég ekki að tíunda fleira úr þessum ályktunum þó ástæða væri til vegna þess að ýmislegt kemur fram í þeim sem mælir með samþykkt frv., ályktun frá félagsfundi sem haldinn var á Reyðarfirði 28. mars 1988, en fundurinn var um fjárfestingar í íbúðarhúsnæði á Austurlandi. Í þeirri ályktun kemur fram eftirfarandi, með leyfi forseta: „Við teljum stjórnvöld vera á réttri leið þar sem nú þegar er komið af stað frv. til laga um kaupleiguíbúðir sem kynnt hefur verið hér í kvöld.“

Herra forseti. Ég skal láta þetta nægja sem rök mín fyrir því að það sé nauðsynlegt að lögfesta þetta mál þegar á þessu þingi.

Í lokin, herra forseti, vil ég koma inn á það sem fram kom í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Hann hefur lagt fram tvær brtt. Í fyrsta lagi er um að ræða brtt. um að heimilt verði að veita 95% lán til kaupleiguíbúða. (SJS: Félagslegra íbúða í sérstökum tilfellum.) Til félagslegra kaupleiguíbúða í sérstökum tilfellum. Út af fyrir sig þá skil ég vel hvað býr að baki þessum tillöguflutningi hjá hv. þm., en ég vænti þess, og það kom fram í minni framsöguræðu við 1. umr. málsins, að lífeyrissjóðirnir muni í nokkrum mæli koma inn í fjármögnun á kaupleiguíbúðum, þ.e. að því er varðar hluta sveitarfélaganna. Ég tel að það þjóni bæði hagsmunum lífeyrissjóðanna og sveitarfélaganna ef sú verður raunin og getum við minnst þess að það er oft rætt um það hér í þingsölum að fjármagn lífeyrissjóðanna gangi fyrst og fremst hingað til Stór-Reykjavíkursvæðisins. En með því móti að lífeyrissjóðirnir seldu sveitarfélögunum skuldabréf væri fjármagnið eftir á stöðunum. Og þó að hv. félmn. eða meiri hl. hennar hafi lagt fram till. um að það falli úr frv. þar sem kveðið er á um slíkt er slíkt vissulega til staðar og þarf ekki að binda í lög.

Að lokum vil ég nefna það í brtt. hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar í lið 3, 4 og 5 að þær miði að því að opna fyrir hlutareign í félagslega kaupleigukerfinu. Því er til að svara að þessi kostur er nú þegar fyrir hendi skv. c-lið 33. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins og nánar er kveðið á um það í 58. gr. húsnæðislaganna, en þar segir, með leyfi forseta:

„Heimilt er aðilum að byggja leiguíbúðir skv. c-lið 33. gr., að selja leigutaka eignarhluta í íbúð með þeim kvöðum að eignarhluti kaupanda standi óhreyfður í íbúðinni á meðan hann hefur afnot af henni en greiði síðan með fullum verðbótum samkvæmt lánskjaravísitölu auk vaxta. Nánari reglur um eignarhluta leigutaka skulu settar í reglugerð.“

Þetta er helsta ástæðan fyrir því að ekki var tekin upp hlutareign í félagslega kerfinu vegna þess að við álitum að hún væri þegar til staðar.

Að því er varðar það, sem fram hefur komið í þessari umræðu, að lítið hafi verið tekið tillit til búsetuhreyfingarinnar eða átta félagasamtaka sem vinna að húsnæðismálum tel ég að það sé ekki rétt vegna þess að á vinnslustigi þegar frv. var í undirbúningi voru þessum félagasamtökum einmitt kynntar tillögur sem lágu fyrir um kaupleiguíbúðir og það var einmitt tekið tillit til ábendinga sem fram komu hjá þeim um að færa hlutareign inn í almenna kerfið, almennar kaupleiguíbúðir. Ég trúi því að slíkt form, hlutareign í almenna kerfinu þar sem engin tekjumörk eru, muni líka geta gagnast til að mynda búsetahreyfingunni vegna þess að ég hef margoft heyrt þá tala um að tekjumörkin í félagslega kerfinu séu oft annmarki að því er þeirra félagsmenn varðar. Ég tel að það sé ekki sanngjarnt að halda því fram að ekki hafi verið tekið tillit til ábendinga þessara aðila.

Ég vil segja það, af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á þessa hlutareign, að hún hentaði vel öldruðum, að ég er sammála hv. þm. um að hlutareign getur mjög vel hentað öldruðum og það atriði er til staðar bæði í félagslega kerfinu og eins í almenna kerfinu verði þetta frv. að lögum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, vil þó í lokin nefna það sem fram kom hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að hann taldi, eða það var hans spá, að það mundi koma í ljós að sveitarfélögum mundu, ef frv. yrði lögfest og þau færu að íhuga þessa tvo kosti, verkamannabústaðakerfið annars vegar og kaupleigukerfið hins vegar, frekar velja verkamannabústaðakerfið. Ég get ekki verið sammála hv. þm. um það vegna þess að ég tel að kaupleiguformið bjóði ótvírætt upp á kosti sem ekki eru fyrir hendi í verkamannabústaðakerfinu. Ég hygg að það hljóti að vera akkur sveitarfélaganna að laða til sín fólk út á landsbyggðina til búsetu. Ég hygg að einmitt það form að geta boðið fólki fyrst upp á leigu og síðan upp á kaup á íbúðinni, ef það vill ílengjast þar, muni einmitt henta vel til að laða fólkið út á landsbyggðina. En þetta er ekki fyrir hendi í verkamannabústaðakerfinu.

Hv. þm. hafði áhyggjur af vanmegnugri sveitarfélögunum og get ég vissulega tekið undir það, en það ber líka á að líta að margt fólk hefur ekki getað nýtt sér þann hagstæðasta valkost sem við höfum í dag, sem er verkamannabústaðakerfið, af því að það hefur ekki getað staðið undir greiðslubyrði á þeim 15% sem það þarf að leggja fram í verkamannabústaðakerfinu sem getur verið kannski á bilinu 500–700 þús. kr. Þess vegna, ef horft er til fólksins sem fengi aðgang að slíkum íbúðum, er það að því leyti mun hentugra fyrir fólkið sem ekki á þá reiðufé til að leggja fram þessi 15% vegna þess að það þarf einungis að greiða fastar mánaðargreiðslur. Ég vitna til þess, með leyfi forseta, að það kom einmitt fram í milliþinganefnd, sem starfaði um húsnæðismál fyrir einu eða tveimur árum, hjá framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga að hann benti á að það fólk sem verst er statt í þjóðfélaginu getur ekki risið undir vöxtum og afborgunum af lánum til kaupa á íbúð í verkamannabústað. Hv. þm. nefndi að til væri heimild í verkamannabústaðakerfinu um að lána 100% til einstaklinga sem illa eru staddir. Það er vissulega rétt, en á það ber að líta að þessi 15% eru einungis lánuð til stutts tíma eða til þriggja ára og samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengu 10% þeirra sem fengu lán hjá Byggingarsjóði verkamanna á sl. ári þetta viðbótarlán.

Þetta vildi ég láta kom fram, herra forseti, við þessa umræðu um leið og ég ítreka þakkir mínar til nefndarinnar fyrir afgreiðslu á frv. og til þess jákvæða viðhorfs sem mér finnst hafa komið fram hjá þeim sem hafa tjáð sig um þetta mál við þessa umræðu.