28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6907 í B-deild Alþingistíðinda. (4858)

414. mál, einstaklingar með glútenóþol

Fyrirspyrjandi (Hreggviður Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrmrh. fyrir svar hans. Þar kemur raunar fram að málefni þessa fólks hafa lítt verið skoðuð fram til þessa. Ég held að það sé áætlað samkvæmt sambærilegum tölum frá öðrum löndum að hér muni vera um 180 manns með þennan sjúkdóm. Það hefur hins vegar ekki verið rannsakað nægilega hér eins og hæstv. heilbrmrh. gat um. Þá hefur þetta valdið mjög miklum erfiðleikum á þeim heimilum þar sem börn eru haldin þessum sjúkdómi því þau verða oft mjög vangæf með þessum sjúkdómi.

Ég vil þó beina þeim tilmælum sérstaklega til heilbrmrh. að hann beiti sér fyrir því að málefni þessa fólks verði tekin fyrir og sjá hvort ekki eru til leiðir til úrbóta. Ég veit að hann getur beitt sér á þeim vettvangi þannig að þetta fólk fái betri fyrirgreiðslu og njóti jafnvel bóta frá Tryggingastofnun ríkisins í þessu tilfelli ef svo sýnist vera.