30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7113 í B-deild Alþingistíðinda. (5119)

133. mál, samræming áætlana á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar

Sverrir Hermannsson:

Virðulegi forseti. Það er alveg nýtt fyrir mér a.m.k. ef sú viðtekna ruslatunnuafgreiðsla sem það er að vísa máli til ríkisstjórnar sé einhver jákvæð afgreiðsla á till. á hinu háa Alþingi. Það er í því eina falli að ríkisstjórn hafi fallist á með þeirri aðferð að taka viðkomandi málefni eða till. til fyrirgreiðslu. Þessu þyrftu menn nú að æfa sig á áður en þeir sitja fleiri áratugi á þingi. Þetta er aðferð sem þykir mýkri en að fella till., en oftast eru þær þann veg fallnar, þessar till., að ella mundi hin aðferðin viðhöfð að fella þær.

Ég hef nú verið daufur við að skipta mér mikið af öllu því tillögurusli sem menn hrúga upp á hinu háa Alþingi, í besta falli þá til þess að auglýsa sig í héraði um augljós málefni að vísu, en vinnubrögðin eru að verða ískyggileg að þessu leyti því það er engin hell brú í meðferð málefnanna.

Hér er verið að tala um till. sem hv. atvmn. Sþ. hefur fjallað um. Nú vita allir og þarf ekki væntanlega langar tölur til þess að minna menn á hvar tillögur, áætlanir og afgreiðslur um vegamál eiga heima á hinu háa Alþingi. Það er auðvitað hvergi annars staðar en í fjvn.

Hér minntist hv. ræðumaður Ólafur Þ. Þórðarson á að stofnanir ættu ekki að vinna án þess að vita hver af annarri og skálma áfram samræmingarlaust. Fjvn. gerir engar frumáætlanir í einum eða neinum málum. Fjvn. tekur við frumáætlunum af þeim stofnunum sem til þess eru í þjóðfélaginu að leggja þær fyrir. En alveg er lífsnauðsynlegt að þessar áætlanir endi í einum stað þegar að því kemur að finna til framkvæmdanna fjármagn, þ.e. fyrst í fjvn. sem síðan leggur málið til endanlegs úrskurðar hins háa Alþingis.

En hér eru menn með tillögu um mannvirkjagerð og henni er vísað til atvmn. Og það er tillaga um að leggja veg á suðurströnd Reykjanesskaga. Kannski eigi að hefja lagninguna við Sjóefnavinnsluna, það merka fyrirtæki, og svo áfram inn eftir, inn að Íslandslaxi, til þess að menn geti nú fengið þægilegt útsýni í suðausturátt. Ýmsu liggur nú meira á í vegagerð í landinu en þeirri vegagerð.

En hér eru fleiri tillögur sem koma til umræðu á eftir. Það er 6. mál, virðulegi forseti, vegaframkvæmdir á Vesturlandi. Hvert verður þeirri þáltill. vísað? (Gripið fram í: Til fjvn.) Já, en hv. 4. þm. Vesturl. Skúli Alexandersson er meðflm. að tillögu um athugun á vegagerð um, yfir eða undir Hvalfjörð. Hvar ætli þeir flm. hafi fundið þeirri tillögu stað? Hún er í allshn. Sþ. Hún hefur komið á dagskrá þar sem ég á sæti í allshn., tillaga um að athuga hvort menn vilja fara yfir, undir eða fyrir Hvalfjörð, ráðagerð sem er að vísu alltaf í athugun og hefur lengi verið.

Hér er enn 8. dagskráratriði, vegarstæði milli Norður- og Austurlands. Ætli við fáum þetta ekki í allshn. eða skyldu Súgfirðingar fá þetta til meðferðar?

Þetta tekur auðvitað engu tali. Þess vegna er það, virðulegi forseti, að ég fer beinlínis fram á það að umræðum um þessi mál verði frestað þar til hægt verður að ræða það við yfirstjórn þingsins hvernig þessi mál verði samræmd og þeim komið yfir á þann eina rétta stað þar sem þau eiga heima. Við ræddum það aðeins í allshn. að tillaga sem þrýst er á um afgreiðslu á í allshn. vegna vegarlagningar um Hvalfjörð yrði vísað til fjvn. Það er hins vegar ekki þingleg aðferð sem nefndir geta beitt. En ég held að ráð væri að taka þessi mál öll upp og fara ekki að því og hafa ekki þau lausatök á málum sem höfð hafa verið, að menn taka við tillögum flm. sem oft hafa tilhneigingu til þess að gera tillögur um að vísa máli í nefnd þar sem þeir kannski eiga einhvern sérstakan kunningja sem gæti gengið undir því þegar fram í sækir.

Ég ætla ekki að nefna fleiri dæmi um þetta. En þannig vinnubrögð eru til þess fallin að veikja mjög alla málsmeðferð þeirra þýðingarmiklu atriða sem menn bera hér fyrir brjósti. Ég fer sem sagt, án þess að flytja um það formlega tillögu, fram á það við virðulegan forseta að þetta mál sem hér hefur verið rætt núna sérstaklega, málsmeðferðin, vinnubrögðin sjálf um meðferð ýmissa mikilvægra tillagna, verði tekin til endurskoðunar og reynt með einhverjum hætti að ná og fá fangs á málunum. Ég tek engan þátt í afgreiðslu á tillögum um samgöngumál frá hv. atvmn. jafnvel þótt hún sé afbragðs vel skipuð eins og menn hafa verið að rifja hér upp.