02.05.1988
Sameinað þing: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7171 í B-deild Alþingistíðinda. (5193)

Plútóníumflutningar í grennd við Ísland

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Á Bandaríkjaþingi hefur verið til umræðu og afgreiðslu samningur um friðsamlega notkun kjarnorku milli Bandaríkjanna og Japans. Samningurinn, sem gilda á í 30 ár, felur í sér heimild til handa Japönum að endurvinna þúsundir tonna af úrgangseldsneyti frá kjarnorkuverum í plútóníum til notkunar í kjarnorkuverum í Japan. Reagan, forseti Bandaríkjanna, féllst á samninginn í nóvember sl. þrátt fyrir talsverða andstöðu á Bandaríkjaþingi og meðal almennings, ekki síst í Alaska. Þingið hafði frest til 25. apríl til að hafna samningnum, en það var ekki gert. Gert er ráð fyrir að ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Japans skiptist á samningsskjölum í þessum mánuði og 30 dögum síðar eða í júní nk. gangi samningurinn formlega í gildi.

Endurvinnsla á úrgangseldsneyti mun fara fram í Frakklandi og Bretlandi og þaðan á að flytja afurðina, hágeislavirkt plútóníum, loftleiðis yfir norðurheimskautið til Japans. Það mun m.a. vera gert af öryggisástæðum gagnvart ránum í stað þess að nota sjóleiðina, en auðvelt er að framleiða kjarnorkusprengjur úr plútóníum.

Í Viðauka 5 með þessum samningi eru leiðbeinandi ákvæði varðandi þessa loftflutninga og þar kemur m.a. fram að vopnuð flugsveit mun fylgja flutningavélinni eftir og miklar varúðarráðstafanir eigi að viðhafa varðandi áhöfn og starfslið í stjórnstöðvum á jörðu niðri. Allt er þetta gert vegna hættu á gripdeildum.

Það sem við Íslendingar hljótum hins vegar að hafa áhyggjur af er mengunarhættan í tengslum við óhöpp og meiri háttar slys, svo sem brotlendingu flutningavélarinnar. Geislun, meint eða raunveruleg, út frá slíkum farmi gæti stofnað fiskveiðum okkar og markaði fyrir sjávarafurðir í stórkostlega hættu. Brotlending slíkrar flugvélar á landi væri auðvitað atburður af því tagi að vart er unnt að lýsa afleiðingunum.

Ráðgert var að millilenda með þessa farma í Anchorage í Alaska, en vegna mótmæla íbúa þar og þingmanna fylkisins gaf Bandaríkjastjórn í mars sl. út bindandi yfirlýsingu um að frá því væri horfið. Ráðgert er að hefja þessa flutninga á árunum 1990–1992, fyrst frá Frakklandi og síðar frá Bretlandi. Gæti verið um að ræða 1–3 flug í hverjum mánuði eftir því hversu mikið magn yrði flutt hverju sinni.

Ég tók mál þetta upp í utanrmn. strax og ég fékk fréttir af því mánudaginn 25. apríl. Utanrmn. Alþingis ályktaði samhljóða um að beina því til ríkisstjórnarinnar að taka strax á málinu til að koma í veg fyrir þessa flutninga yfir norðlæg hafsvæði.

Í framhaldi af fundi ríkisstjórnarinnar degi síðar sendi utanrrn. frá sér svohljóðandi fréttatilkynningu, með leyfi forseta:

„Vegna frétta um fyrirhugaða flutninga á geislavirku plútóníum um norðlæg svæði frá Evrópu til Japans skal tekið fram að utanrrh. hefur gefið fyrirmæli um að hvorki verði veitt lendingarleyfi á Íslandi fyrir flugvélar sem hafa slíkan farm innanborðs né verði þeim heimilað að fljúga um lofthelgi Íslands.“

Þessi skjótu viðbrögð stjórnvalda ber að þakka. Þrátt fyrir þau er hins vegar margt óljóst um möguleika okkar til að koma í veg fyrir þessa flutninga í grennd við landið og til að verja okkar hagsmuni.

Vert er að vekja athygli á að enn hafa ekki verið hannaðar umbúðir eða hylki vegna þessara flutninga sem fullnægt geti bandarískum öryggisstöðlum og viðurkennt er að staðlar Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar séu allsendis ófullnægjandi og ekki miðaðir við flutninga loftleiðis. Í samningnum er ekki tekið fram við hvaða staðla verði miðað.

Vegna óvissu um marga þætti þessa máls sneri ég mér í síðustu viku til hæstv. forseta Sþ. og forsrh. með ósk um að málið kæmi hér til umræðu utan dagskrár. Við því var góðfúslega orðið.

Mál þetta snertir verksvið ýmissa ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og þar með margra hæstv. ráðherra. Ég leyfi mér með hliðsjón af því að beina eftirfarandi spurningum sérstaklega til hæstv. forsrh. og annarra hæstv. ráðherra eftir atvikum:

1. Hafa íslensk stjórnvöld lagaleg tök á að banna flug með hættuleg efni yfir íslenskri efnahagslögsögu?

2. Mun ríkisstjórnin höfða til ákvæða alþjóðasamninga, svo sem hafréttarsamningsins og samninga um varnir gegn mengun sjávar, til að koma í veg fyrir umrætt flug norður yfir heimskautið?

3. Hvenær verður mál þetta tekið upp við stjórnvöld í Bandaríkjunum og Japan og aðrar hlutaðeigandi ríkisstjórnir?

Hér er stórt mál á ferðinni. Ég vænti þess að að því verði unnið samfellt og af einurð af stjórnvöldum, en miklu skiptir hvað ríkisstjórn Íslands gerir í framhaldi af því sem fram hefur komið.