02.05.1988
Sameinað þing: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7172 í B-deild Alþingistíðinda. (5194)

Plútóníumflutningar í grennd við Ísland

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem kemur fram í máli hv. málshefjanda, að það eru fyrst og fremst umhverfisverndarhagsmunir sem við Íslendingar þurfum að gæta að því er varðar fyrirhugaða flutninga á þessu geislavirka plútóni sem hér er til umræðu. En varðandi fyrirspurnir hv. þm. er rétt að taka fram, eins og reyndar kom fram í hans máli, að íslensk stjórnvöld banna yfirflug og lendingar flugvéla með farm af þessu tagi, en réttur íslenskra stjórnvalda í þessu efni varðandi bann við yfirflugi einskorðast við landsvæði Íslands, þar með er talin landhelgi Íslands að 12 sjómílum frá grunnlínum. Það er alveg skýrt að réttur stjórnvalda takmarkast að þessu leyti til.

Varðandi 2. spurninguna um það hvort ríkisstjórnin muni höfða til ákvæða alþjóðasamninga, svo sem hafréttarsamnings og samninga um varnir gegn mengun sjávar, til að koma í veg fyrir umrætt flug norður yfir heimskautið, þá munu íslensk stjórnvöld, eftir því sem við verður komið og við á, höfða til þessara samninga og annarra samninga sem að gagni mega koma við að verja lögboðna hagsmuni og réttindi Íslands.

Í þriðja lagi spurði hv. þm. hvenær mál þetta yrði tekið upp við stjórnvöld í Bandaríkjunum og Japan og aðrar hlutaðeigandi ríkisstjórnir. Þá er þess fyrst að geta að þessir flutningar frá Evrópu til Japans munu ekki hefjast fyrr en við árslok 1990 eða á árinu 1991, en af Íslands hálfu verður hlutaðeigandi stjórnvöldum svo fljótt sem við verður komið gerð grein fyrir ákvörðunum Íslendinga í þessu efni að því er varðar bann við yfirflugi og lendingum innan íslensks yfirráðasvæðis, svo og sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda varðandi þessa flutninga. Það verður gert svo fljótt sem við verður komið og allri nauðsynlegri gagnaöflun þar að lútandi lokið.