10.11.1987
Neðri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

65. mál, friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er svo sem ekki nýtt að alþýðubandalagsmenn séu betur að sér en allir aðrir að eigin dómi og hinir séu fullir af vanþekkingu og smáir að vitsmunum, eins og virtist liggja í orðum hv. þm. Steingríms Sigfússonar. Það liggur við að mönnum sé sagt að þeir nenni ekki að lesa eða séu jafnvel ekki læsir. En þannig er nú samt, ef þessi lög væru samþykkt, að það eru lögin sem gilda en ekki einhverjar greinargerðir. Þess vegna á mönnum að geta dugað að lesa lögin til þess að komast að því hvað í þeim felst. Ég skal fúslega viðurkenna að ég hef ekki lesið þessa löngu grg. nákvæmlega.

En víkjum þá að því að hv. þm. Steingrímur Sigfússon sagði: Það er reginmisskilningur að í þessu felist einhliða yfirlýsing um að Ísland sé kjarnorkuvopnalaust svæði. Það er tvennt sem hann er hér að gera að umtalsefni. Í fyrsta lagi er það orðið „einhliða“. Ég sé ekki betur en það standi í 1. gr. að Ísland taki þessa ákvörðun einhliða. Það stendur afdráttarlaust að Ísland tekur þessa ákvörðun eitt og sér og tekur þessa ákvörðun einhliða. Og það er ekkert í gildistökuákvæðunum um að þessi lög taki ekki gildi nema einhver skilyrði séu uppfyllt. Mér skildist að þegar hv. þm. var að tala um kjarnorkuvopnalaus svæði skyldu menn tala um það út frá skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna og ef þannig er getur Ísland orðið kjarnorkuvopnalaust svæði samkvæmt þeirri skilgreiningu ef uppfyllt er það sem sett er sem stefnumið í 14. gr. En ef það gerist ekki verður Ísland samkvæmt þessari skilgreiningu bara yfirlýst kjarnorkuvopnalaust en ekki kjarnorkuvopnalaust svæði. Svona hárfín sýnist mér að túlkunin þurfi að vera samkvæmt því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að bera á borð.

Ég held að það sé alveg óþarfi að vera með svona — ja, ég vil kalla útúrsnúninga. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir hver efnisleg meining þessa frv. er. Hin efnislega meining þess er nákvæmlega sú sama og ég rakti í fyrstu ræðu minni. Ég sagði það reyndar þá að ég efaðist ekkert um góða meiningu þeirra sem hefðu flutt frv. En ég tók það líka fram að Alþingi hefði markað viðhorf sitt til slíkra hluta og mín sannfæring væri sú að sú stefnumörkun stæði óbreytt.

Það er reyndar svo að það er ótiltekið varðandi það sem ég gerði að lokaorðum mínum fyrr í ræðu minni að hver sá sem brýtur gegn þessum lögum, hvort heldur hann er íslenskur ríkisborgari, hár eða lágur í útlöndum eða innlendis, er ekkert undanskilinn þessu tíu ára fangelsi. Það sem ég sagði um Gorbatsjoff og Reagan hlýtur því að halda fullu gildi sínu.