04.05.1988
Neðri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7417 í B-deild Alþingistíðinda. (5451)

454. mál, viðskiptabankar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Frv. til l. um breytingar á viðskiptabönkunum, sem hér liggur fyrir, er á ýmsa vegu dálítið sérstætt. Það má segja að 2., 3. og 4. gr. hafi kannski ekki annan tilgang en að kveða skýrar á en gert er, sérstaklega á það við 2. og 3. gr., um sjálfsagða hluti.

4. gr. er ýmsum spurningum undirorpin að mínu viti. Ég er ekki viss hvort það eigi skilyrðislaust að vera Ríkisendurskoðun sem eigi að sjá um þetta eftirlit, hvort það sé ekki hægt að hafa endurskoðendur sem eru annars vegar skipaðir af ráðherra og hins vegar af bankaráðinu því það hlýtur náttúrlega að vera bankaráðið sem verður, ef það á að sinna sinni eftirlitsskyldu, að fylgjast mjög náið með störfum endurskoðenda. Ég fæ ekki séð hvernig þeir eiga raunverulega að geta fylgst með einu né neinu nema átta sig vel á því hvað þar sé gert og þess vegna hef ég miklar spurningar við 4. gr. Mér sýnist að bankastjórarnir geti haldið bankaráðinu í verulegu upplýsingasvelti ef þeir hlutir eru á þann veg að þeir fylgist lítið með baksviðinu, þ.e. endurskoðuninni sem hlýtur að eiga sér stað nokkuð jafnt og þétt yfir árið.

5. gr. er að því leyti sérstæð að þar eiga menn annars vegar að fara ákveðið eftir lögum, en út á náð og miskunn frá ráðherra eða bankaeftirliti má standa öðruvísi að hlutunum. Ég fæ ekki séð á hvaða forsendum ráðherra á að afhenda þeim slíkt vald. Á að eiga það undir duttlungum ráðherra, persónulegri vináttu við viðkomandi banka eða óvild, hvernig hann tekur á slíkum málum? Um bankaeftirlitið má segja nákvæmlega sama. Á Alþingi að samþykkja lög sem fela ráðherra á þennan hátt að ráða því hvort banki er settur af eða ekki? Það eru engin smáræðis völd.

Ég segi fyrir mig að ég felli mig ekki við innihald 5. gr. og ég geri verulegar athugasemdir við 4. gr. líka, sé ekki skynsemi í henni eins og hún er uppbyggð. Aftur á móti með 2. gr. og 3. gr. sýnist mér að það sé verið að kveða sterkar að orði um sjálfsagða hluti.

En þá erum við komnir að 1. gr. Það atriði á nánast ekkert heima í þessu frv. ef menn vilja vera heiðarlegir og sanngjarnir. Það á ekkert erindi inni í frv. að blanda efni 1. gr., sem er stefnumarkandi ákvæði varðandi samskipti okkar við útlendinga, inn í þetta frv. Það verður ekki skilið á annan veg en þann að menn hafi ætlað sér í skjóli góðra hluta hjá 2. og 3. gr. að koma fram breytingum á heildarstefnu í bankamálum og mér er spurn: Hvers vegna?

Það er nú svo með okkur Íslendinga að við tökumst á um marga hluti og eitt af því sem menn hafa tekist hvað harðast á um hér á landi eru bankarnir. Það þýðir ekkert að blekkja sjálfa sig með því. Seinasta dæmið í þeim efnum var hið fræga sölutilboð á Útvegsbankanum sem sjálfstæðismenn settu leikreglurnar um, alþýðuflokksmaður átti svo að sjá um að framkvæma, en þegar tilboð kom frá framsókn um að kaupa brotnaði allt niður. Þá ruglaðist bara kerfið. Þetta voru ekki leikreglur sem voru byggðar upp við það að framsóknarmenn ættu að kaupa.

Ég verð að segja eins og er að ég held að minningin um þetta mætti halda mönnum örlítið frá því að ætla að leika sér mikið í þessum málum. (GHelg: Þeir vilja frekar útlendinga en framsóknarmenn.) Menn vilja fá vald til þess hér og nú að geta gerst umboðsaðilar í reynd fyrir erlent vald í íslenskum bönkum. Taki menn vel eftir því. Haldið þið að ef þetta yrði gert að lögum mundu storma að bankar sem hefðu af eigin hvötum „interessu“ á því að kaupa hlutafé í banka uppi á Íslandi? Þannig mundu hlutirnir ekki gerast. Það væru Íslendingar sem færu til útlanda, annaðhvort í krafti, ja Alþjóðasambands jafnaðarmanna, í fjármálaheiminum eða til samvinnuhreyfingar úti í heimi og segðu: Okkur er það nauðsyn til áhrifa og aðstöðu á þessari eyju að þið gerið okkur greiða og kaupið 25% í þessum banka. Hvernig fór fyrir blessuðu Þróunarfélaginu? Það sem vantaði upp á að Sjálfstfl. hefði til að hafa hreinan lýðræðislegan meiri hluta á Íslandi var hægt að kaupa með hlutabréfum í Þróunarfélaginu. Og nú er það sett af stað að menn vilji hafa frelsi til að selja 25% af hlutafé í þessum bönkum. Bönkum sem hverjir eiga? Sem Íslendingar eiga í dag, Íslendingar með mismunandi stjórnmálaskoðanir en hafa samt sem áður haldið sig við þann leikramma að takast á um bankakerfið innan íslenskrar lögsögu.

Menn segja hér og nú trekk í trekk: Ríkisbankar eru illa reknir bankar. Hlutafélagsbankar, það eru vel reknir bankar. Gott og vel. Segjum að við notum íslenska reynslu og förum eftir henni. Þetta er saga Íslandsbanka hf. og Útvegsbanka Íslands frá 1904–1980. Hvernig fór? Þetta var erlendur hlutafélagsbanki. Við settum honum leikreglur sem voru honum óhagstæðar. Þeir spiluðu djarft. Þeir skulduðu víða í Evrópu. Þeir skulduðu líka mönnum sem áttu peninga, Íslendingum sem áttu peninga í bankanum, og þegar bankinn var gerður gjaldþrota, hvor hópurinn tapaði? Vitið þið það? Það voru Íslendingarnir sem áttu peningana í bankanum sem töpuðu hverri einustu krónu, m.a. á Ísafirði. En til þess að halda „goodwill“ út á við hjá þeim bönkum og hjá þeim þjóðum sem bankinn skuldaði erlendis voru greiddar stórar fjárhæðir af Íslands hálfu. Það var nú allt áhættuféð sem inn kom í þjóðfélagið. Við borguðum, alþýða þessa lands, fyrir leikaraskapinn.

Halda menn að það sé hægt að segja að sagan hafi byrjað þegar Útvegsbankinn lenti í sínum erfiðleikum? Nei og aftur nei. Sagan byrjaði ekki þá. Það þýðir ekkert að standa hér upp og tala á þann veg að þá hafi það allt í einu komið í ljós að ríkisbankar séu illa reknir bankar. Útvegsbanki Íslands var gerður að ríkisbanka vegna þess að menn þorðu ekki að standa frammi fyrir því á sínum tíma að láta þá sem áttu inneign erlendis hjá Íslandsbanka tapa hverri einustu krónu. Menn þorðu ekki að standa þannig að málum. Þetta eru hinar sögulegu staðreyndir.

Og ef við tökum nú upp taflið á ný og segjum: Hleypum útlendingunum inn í alla banka á Íslandi með 25% hlutafé, þá erum við að opna það upp á gátt að íslensk yfirráð yfir bankakerfinu verði undir og við erum að stuðla að því að íslenskir stjórnmálamenn fari í kapphlaup út í heim að leita að aðilum sem eru reiðubúnir að kaupa sig inn til þess að styrkja stöðu ákveðinna stjórnmálamanna.

Vitið þið á hvað slík orrusta mundi minna mest ef þetta yrði gert? Munið þið eftir því hvenær íslenskir stjórnmálamenn leituðu út fyrir landsteinana til að efla það vald sem þeir höfðu ekki hér heima? Munið þið eftir því hvenær það var? Það var á sturlungaöld. Þá var svo komið fyrir höfðingjum Íslands að aðeins einn af þeim var ekki jafnframt þjónn Noregskonungs. Kolbeinn ungi var það ekki. Mig undrar að þjóð sem jafnskamman tíma hefur haft sjálfstæði sitt skuli nú eftir svo stuttan tíma og gífurlega hagsæld þann tíma sem hún hefur fengið að ráða sjálf eigin málum allt í einu taka upp þessa trú á útlendingana að nánast treysta því að þeir reki allt betur og þeir betrumbæti það sem hér er illa gert í þessum málum. Þetta eru blekkingar!

Þegar slitnaði upp úr Kalmarsambandinu forðum sagði einn sænskur aðalsmaðurinn: Það er betra að kjósa sinn besta í sínu landi en flytja brauðið til útlanda. Núna ætla menn aftur að fara að leita út fyrir landsteinana til þess að ná í þá peninga sem geti tryggt þeim þau áhrif og völd í bankakerfinu sem þeir girnast en hafa ekki eins og leikreglurnar eru í dag.

Á bls. 35 stendur í þeirri góðu bók, Saga Íslandsbanka: Syrtir í álinn fyrir Íslandsbanka, gjaldþrot Milljónafélagsins. — Það vantaði ekki nafnið. Það er ekkert nafn sem búið hefur verið til á atvinnustarfsemi í þessu landi sem er jafntraustvekjandi út á við og Milljónafélagið. Voru það þá bara skúrkar sem voru þarna innanborðs? Það er nú öðru nær. Þarna voru innanborðs stærstu menn í atvinnulífi Íslendinga.

Ég veit ekki hvort þeim mönnum er sjálfrátt sem leggja á það mikið kapp að sú uppbygging íslenskra banka sem hefur verið í höndum Íslendinga og virðist í dag vera eitt af mestu gróðafyrirtækjum sem hægt er að komast í hér. . . (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi langt mál eftir af ræðu sinni.) Ég á þó nokkuð mál eftir, herra forseti, því að ég var aðeins á bls. 35 í þeirri góðu bók sem ég ætlaði að vitna í og kynna mönnum ögn í deildinni því ég efa að menn hafi almennt lesið hana. (Forseti: Ef svo er mun ég fresta þessu máli nú þar sem fleiri eru á mælendaskrá þar að auki.)